Þráin er þjáninganna móðir

´Þrá´ má skilgreina sem löngun í eitthvað sem maður hefur ekki nú þegar, en vonast til að öðlast einhvern tíma í ókominni tíð.

Af ofangreindri skilgreiningu má ráða að þráin er ekkert nema kvöl og pína. Hví er það svo? Jú, þráin felur í sér vöntunar- og tómleikatilfinningu, og enginn maður getur notið hamingjunnar ef honum finnst hann vanta eitthvað. Hamingjan er að vera fylltur þeirri unaðslegu tilfinningu að ekkert skorti, engu sé ábótavant og ekki sé eftir neinu að keppa. Lítilsháttar umþenking ætti að sannfæra lesendur um þetta, því hvað getur hamingjan verið annað?

Þráin beinist alfarið að framtíðinni - ég þrái eitthvað sem ég hef ekki og vonast til að falli mér í skaut í framtíðinni. En framtíðin er í raun ekki til, því tíminn sjálfur er blekking - hann er aðeins til sem hugtak í sefanum, og hugtök eru ekki veruleikinn. Það eina sem til er í raun og veru er hið tímalausa nú. Og þráin er örugg trygging fyrir því að við náum aldrei að hrærast í núinu, en séum dæmd til að velkjast alla okkar ævi í hinni ímynduðu, óraunhlítu framtíð.

Framtíð beinist ævinlega að því sem er utan seilingar. Það sem er innan seilingar þarf ekki að þrá; við grípum það bara. Af þessu sprettur sú meinlega kaldhæðni að við getum aðeins þráð svo lengi sem við fáum ekki það sem við þráum!

Fánýti þrárinnar sést berlega ef lífinu er líkt við að bíða eftir strætó. Morgunljóst er að vagninn kemur ekki hótinu fyrr en hann gerir, sama hve mikið við þráum það! - Leyfum hlutunum bara að hafa sinn náttúrlega gang, og flækjum ekki málið með því þarflausa hugarvíli sem þráin er ávallt.

Þegar þránni hefur verið svalað, þá erum við ánægð, heil og hamingjusöm - þar til næsta þrá vaknar og við upplifum kvölina og vöntunina aftur - þar til þeirri þrá er fróað og við verðum á ný heil og hamingjusöm - þar til næsta þrá vaknar . . . Og þannig gengur hringavitleysan áfram alla ævina á enda hjá flestu fólki þessarar jarðar.

Af þeirri staðreynd, að uppfylling þrárinnar felist í eyðingu hennar, getum við eftir leiðum óbrenglaðrar rökhugsunar staðhæft að lykillinn að varanlegri hamingju sé algjör útrýming allrar þrár. Þá upplifir maður sem viðvarandi ástand þá skammvinnu velsæld sem fullnæging þránna veldur.

Einhver mesta speki sem manneskjan getur öðlas er fólgin í þessari áeggjan: ´þráum ekkert - njótum alls - störfum út frá kærleika en ekki eigingjarnri þrá´.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband