Norðurlöndin og múslimar - góð saman!

Norðurlöndin eru undur veraldar. Þetta eru lang-mannúðlegustu og réttlátustu þjóðfélög sem hafa nokkurn tíma verið til í mannkynssögunni.

Það er enginn ´vestrænn imperíalismi´ né hvað þá heldur einhver ´vinstri-áróður´ að allar þjóðir heimsins eigi að taka sér Norðurlöndin til fyrirmyndar hvað samfélagsuppbyggingu varðar. Það er bara holl skynsemi og heilbrigð hjartagæska - dyggðir sem öll trúarbrögð veraldar og öll önnur siðakerfi sem standa undir nafni hafa hampað frá ómunatíð, en sem hefur aldrei fyrr í sögu mannkyns verið framfylgt jafn vel og skipulega eins og á Norðurlöndum nútímans.

En hvað þá með ´hina islömsku ógn´? spyrja þá sumir. Stríðir hún ekki gegn því lýðræði og frjálslyndi og fjölmenningarhyggju sem svo mjög eru í heiðri höfð á Norðurlöndum?

Því er til að svara að eins og ég skil Islam (og hef ég kynnt mér þau trúarbrögð nokkuð ítarlega) þá er það mjög í anda þeirrar trúarhefðar að múslimar eigi að semja sig að stjórnskipan og samfélagsskikkan þess lands sem þeir búa í - nema þetta tvennt stríði augljóslega gegn mannlegri samvisku, eða reynt sé að hindra þá í að iðka trú sína.

Eins og venjulega er hér gagnlegt að hætta að einblína á hreinar teóríur og líta á staðreyndirnar eins og þær arta sig. Er eitthvað í hinum konkreta veruleika sem bendir til þess að múslimar á Vesturlöndum séu upp til hópa - eða jafnvel bara eitthvað yfirhöfuð - að reyna að kollvarpa ríkjandi þjóðskipulagi og koma á islömsku einræði?

Ég held ekki - nema menn vilji trúa á galnar samsæriskenningar um að vestrænir múslimar séu bara að sigla undir fölsku flaggi og þykist lymskulega samsinna hugsjóninni um lýðræðislegt og frjálslynt samfélag, en séu í raun að plotta bakvið tjöldin um að tortíma þeirri hugsjón og drepa þjóðfélagið í dróma islamskrar harðstjórnar.

(Innan sviga mætti nefna þá velkunnu staðreynd að versta hryðjuverk sem framið hefur verið í sögu Norðurlanda var ekki drýgt af múslima, heldur af ´sann-norskum´ brjálæðingi sem hatar múslima og hugsjónina um opið og frjálslynt og fjölmenningarlegt samfélag - einmitt þá hugsjón sem menn af hans sauðhúsi væna gjarnan múslima um að vilja feiga. Heldur kaldhæðnisleg og ruglingsleg þversögn, ekki satt?)

Vissulega eru til sturlaðir öfgamenn innan Islams sem vilja kremja allan heiminn undir járnhæl Sharia-laganna, en þeir eru blessunarlega í miklum minnihluta.

Og við skulum ekki heldur gleyma því að áþekka vitleysinga er einnig að finna innan kristninnar, t.d. í ´Biblíubeltinu´ bandaríska, hvar ýmsa dreymir um að koma á teókratískum fasisma í því landi, þar sem hinar oft barbarísku fyrirskipanir Biblíunnar eiga að ryðja burt almennri og vitrænni veraldlegri löggjöf.

En að slíkum forneskjuhugmyndum er almennt hlegið í hinum kristna heimi. Langflest kristið fólk er skynsamar og friðsamar hófsemdarmanneskjur.

Og það eru múslimar langflestir líka. Sá sem ekki kemur auga á þá staðreynd þekkir lítið til mannlegrar náttúru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband