Hið sanna eðli Kóransins!

Ég hef gert kólossala uppgötvun: Kóraninn er ein gríðarlöng mantra.

Grunnprinsippið í öllum möntrum er að litlu sem engu máli skiptir hvað orðin þýða bókstaflega - það er hljómur orðanna en ekki merking þeirra sem gildir.

Lítil furða þótt múslimar hafi alla tíð haldið því fram að ekki sé hægt að þýða Kóraninn yfir á önnur tungumál. Og það er heldur ekki skrýtið að Kóraninn sé sú bók í heiminum sem flest fólk hefur lagt á minnið spjaldanna á milli - á frummálinu, arabísku, að sjálfsögðu.

Berið saman annars vegar það að lesa Kóraninn í þýðingu á einhverju tungumáli sem þið kunnið, og hins vegar að hlýða á Kóraninn kyrjaðan á arabísku af manneskju með þýða og hljómfagra rödd. Hið fyrra er fremur þreytandi og lítt göfgandi lesning, með ýmsum köflum sem orka tvímælis í nútímasamfélagi; hið síðara er þegar best lætur unaðsleg andleg upplifun.

En þarf fólk þá að kunna arabísku til að hafa gagn og gaman af Kóraninum?

Alls ekki - ekkert frekar en fólk þarf að skilja bofs í Sanskrít til að taka undir í möntrusöng í jógatíma. Ég hef t.d. aðeins óljósan og gloppóttan skilning á því hvað uppáhalds-Sanskrítarmantran mín þýðir (sú sem kennd er við Gayatri: ´Om bhur bhuvasvaha / tat savitur varenyam / bhargo devasya dhimahi / dio yo nah prachodayat´)  - en það kemur ekki á nokkurn hátt í veg fyrir að ég finni fyrir mikilli andlegri upphafningu við að smjatta á téðri möntru.

Með möntrur mætti meira að segja halda því fram að það sé hjálp en ekki hindrun að skilja ekki baun í því hvað þær ´þýða´, því þá er bókstafleg merking orðanna ekkert að þvælast og flækjast fyrir manni.

(Hér er gaman að skjóta því inní að sjálft orðið ´Qur´an´ (sem orðið ´Kóran´ er dregið af) er arabíska og merkir bókstaflega ´recital´ á ensku - sterk vísbending þess að það hafi allt frá upphafi verið meiningin að fólk kyrji Kóraninn upphátt og leyfi víbrasjónum arabískunnar að vinna sína ósýnilegu mantrísku töfra, í stað þess að fólk lesi hann í hljóði með vitsmunina að vopni).

Að hefja einhverja bók til skýjanna sem óskeikult og óvéfengjanlegt orð Guðs, að hætti bókstafstrúarmanna, er bæði háskalegt og heimskulegt, og skiptir engu hvort sú skrudda heitir Kóraninn eða Biblían eða eitthvað allt annað. Hér er skemmtilegt og viðeigandi að segja frá því að Páll Postuli (sem er auðvitað talinn óskeikull af kristnum fúndamentalistum) hefur sitthvað beitt og ómyrkt að segja um ´andann sem lífgar en bókstafinn sem deyðir.´

Og þannig ættum við að líta á Kóraninn. Andi hans lífgar (þ.e. víbrasjónirnar sem það að kyrja texta hans á ómþýðan og melódískan hátt á frummálinu kemur af stað í sál okkar og sinni) en bókstafur hans deyðir (þ.e. litteröl merking orðanna, sem eins og að ofan segir inniheldur ýmislegt sem rímar illa við nútímasiðmenningu - og áður en Islams-hatarar hrópa ´húrra!´ og ´halelúja!´ yfir þessum ummælum mínum þá er ég skjótur að bæta því við að hið sama á við um hérumbil öll sk. ´helgirit´ sem ég hef um ævina lesið - nema Bókina um veginn (Tao Te Ching).  Sú bók er púra gull út í gegn.)

As-salam aleikum! :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband