25.11.2011 | 19:16
Sönn málvernd
´Málvernd´er hugtak sem þorra Íslendinga er mjög hugleikið, enda teljum við flest öll (réttilega) að það yrði óbætanlegur skaði jafnt fyrir íslenska menningu og menningarfjölbreytni mannkyns ef þetta um margt merkilega tungumál okkar dæi út.
En ég hef nokkuð aðra skoðun á því hvað felst í sannri málvernd en meirihluti samlanda minna.
Í huga flestra annarra Frónverja felst sönn málverndarstefna í því að halda tungumálinu eins ´hreinu´ og unnt er.
Í mínum huga felst sönn málverndarstefna í því að gera hvað sem gera þarf til að tungumálið lifi af.
Og það er morgunljóst að íslenskan mun ekki tóra til lengdar nema við tökum inn miklu, miklu fleiri orð úr erlendum málum - og þá einkum og sérílagi ensku, þeirri lygilega orðauðugu tungu.
Eða hvernig á annars að ´þýða´ á íslensku ensk orð á borð við ´hypothetical´ eða ´evocative´ eða ´quintessential´ svo aðeins þrjú dæmi séu tekin af óramörgum?
Ég auglýsi eftir boðlegum ´íslenskunum´ á orðum þessum - því ég hef ekki rekist á slíkar!
Nú eru oss einungis tveir kostir gjörir: 1) að innlima ofangreind orð (og fjöldamörg önnur) úr ensku inn í íslensku, með þeim aðlögunum að málkerfi íslenskunnar sem unnt er að gera, eða 2) að láta íslenskuna vera án téðra orða, og þar með miklu fátækari en ef fyrri kosturinn er kjörinn.
(Og hvað er annars svona voðalegt við það að taka inn gommu af nýjum tökuorðum í frónskuna? Vor ástkæra tunga er nú þegar smekkfull af tökuorðum sem eru fyrir löngu orðin saumlaus og órofa hluti málsins (t.d. eru þvottekta íslensk orð eins og ´kista´ og ´skrift´ bæði ættuð úr latínu) - og svipaða sögu má segja um allar aðrar tungur heimsins, enda er það bæði eðlilegt og óhjákvæmilegt að tungumál hafi áhrif hvert á annað, rétt eins og fólk inflúenserar annað fólk. - Svo má benda á að enskan sjálf er mesta tökuorðamál heims: á að giska 80 prósent orðaforða hennar eru sótt í aðrar tungur. Og er þá nokkuð að því að íslenskan auki sitt tökuorðahlutfall?).
Og ef seinni kosturinn sem rakinn er hér að ofan verður fyrir valinu þá er alvarlega vegið að tilvistargrundvelli frónskunnar. Skynsamar manneskjur sem vel eru að sér í ensku mun hverfa frá móðurmálinu sakir orðfæðar þess, og tjá sig þess í stað meira og meira á engilsaxneskri tungu í ræðu og riti.
Og það er EKKI sönn málvernd að stefna að slíku!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2011 | 12:57
Erindi á Sauðárkróki
(Eftirfarandi er erindi sem ég hélt á málþingi um hvernig auka megi virkni og samfélagsþátttöku fólks sem hefur af einhverjum ástæðum dottið út úr bæði skólakerfi og vinnumarkaði, en málþing þetta var haldið á Sauðárkróki þriðjudaginn 22. nóvember 2011. Erindið er hér nokkuð breytt frá því formi sem það var flutt á):
Ég heiti Kári Auðar Svansson, og ég hef átt við geðræn veikindi að stríða í næstum heilan áratug.
Nánar tiltekið er mitt tíu ára sjúkdómsafmæli í aprílmánuði á næsta ári.
Mín formlega og opinbera greining er ´geðklofi,´ eða ´skitsófrenía´ uppá útlensku.
Það eru reyndar deildar meiningar um það hve gagnlegar og viturlegar slíkar greiningar og flokkanir eru. Er ekki sérhvert geðveilutilfelli einstakt og ólíkt öllum öðrum? spyrja sumir.
En hér er hvorki staður né stund til að fjalla um þann snúna og langvinna debatt hvers eðlis sinnissjúkdómar eru eða hvað valdi þeim.
Við skulum því bara segja til einföldunar og hægðarauka að ég sé með geðklofa.
Geðlæknisfræðin skiptir einkennum geðklofa gróflega í tvo hópa: virk einkenni og óvirk.
Virku einkennin eru hlutir eins og ranghugmyndir, raddir, ofskynjanir og fleira í þeim dúr.
Óvirku einkennin eru aftur á móti hlutir eins og slen, doði, almennt áhugaleysi gagnvart lífinu, tilhneiging til að einangra sig frá öðru fólki, hirðuleysi um persónulegt hreinlæti, og ýmislegt annað í þá veru.
Mín virku einkenni fólust, þegar ég var sem veikastur, í miklum Messíasarkomplexum (ég hélt að ég væri þriðji mannkynsfrelsarinn, á eftir Búdda og Kristi!) og ólýsanlega skelfilegum vænisýkishugmyndum um að djöfullinn væri að reyna að læsa í mig klónum.
En ég get glatt ykkur öll með því að í dag er ég að langmestu leyti laus við virku einkennin (hverju sem það er að þakka), og er aðallega að fást við þau óvirku: slenið og dáðleysið og allt hitt.
Í dag er ég meira að segja orðinn svo góður af mínum veikindum að ég er farinn að geta unnið, og var ég svo lánsamur að vera ráðinn í 30 prósenta stöðu við verkefnið ´Notandi spyr notanda´ (eða NsN eins og það er skammstafað). En NsN snýst í mjög stuttu máli um að fólk sem hefur átt við geðsjúkdóma að etja, og er svo lánsamt að vera komið vel áleiðis í sínu bataferli, hjálpar öðru geðveiku fólki sem ekki er jafn auðnuríkt hvað batann snertir. Er þetta gert með heimsóknum á sambýli og íbúðakjarna þar sem NsN starfsmenn veita fræðslu um ýmislegt, svo sem réttindi og skyldur, meðvirkni og andlegt ofbeldi, valdeflingu o.fl. Einnig felst starfsemi NsN í að gera svokallaðar ´úttektir´ þar sem fólk á áður nefndum sambýlum og íbúðakjörnum (hinir svokölluðu ´notendur´) eru spurðir út í þjónustuna sem þeir hljóta; hvort þeir séu ánægðir með hana og hvort eitthvað, og þá hvað, mætti betur fara í þeim efnum.
En þetta var útúrdúr. Víkjum okkur aftur að meginefninu.
Þetta er aðeins annað starfið sem ég hef gegnt frá því ég fór yfirum fyrir tæpum áratug síðan, en fyrra starfið var tímabundin staða sem tengiliður notenda í sambandi við yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Þar var ég í hálfu starfi.
En megiefni pistils þessa er að ræða hvernig best sé að auka virkni og samfélagsþátttöku þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ´lent utangarðs´ (ef svo má að orði komast), og eru hvorki í vinnu né í skóla.
Þar get ég í raun aðeins talað út frá minni reynslu af því að hafa truflast á geði. Og jafnvel þar get ég ekki mælt fyrir munn allra geðsjúkra, heldur aðeins fyrir munn þeirra sem eru með sömu greiningu og ég: þ.e. skitsófreníu
Og þar get ég sagt að langmikilvægustu þættirnir eru annarsvegar hvatning og hins vegar trú á getu fólks til að lifa uppbyggilegu og innihaldsríku lífi í samfélaginu: verða ´nýtir samfélagsborgarar´ eins og það er gjarnan orðað.
Fyrir utan stopular og að mestu leyti mislukkaðar tilraunir til að halda áfram því háskólanámi sem ég byrjaði á fyrir veikindin fyrir utan það var ég án atvinnu og skólagöngu í heil átta ár samfellt.
Og stafaði það iðjuleysi af því að enginn og þá allra síst ég sjálfur hafði nokkra trú á að ég ætti erindi á vinnumarkaðinn. Og þar sem skortir trúna þá skortir eðlilega líka hvatninguna.
Og þegar ég svo loks tók að vinna, í desembermánuði 2010, sem tengiliður fatlaðra eins og fyrr segir, þá bjóst ég við því fyrstu vikurnar að ég myndi þá og þegar gefast upp og pakka saman og hverfa aftur í iðjuleysið.
EN kraftaverkið gerðist: ég ekki aðeins hélt þetta út, heldur stóð mig með afbrigðum vel, eins og yfirboðarar mínir á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis geta vitnað um.
Og þegar ég lít til baka sé ég glöggt að ég hefði getað byrjað að vinna mun fyrr en ég gerði: jafnvel svo snemma sem árið 2006 eða 2007.
En þar skorti bara þetta tvennt sem ég nefndi hér áðan að væru lykilatriðin: trú og hvatningu bæði af minni hálfu og annars fólks.
(Og tek ég skýrt fram að ég er ekki að álasa neinu af starfsfólkinu á hinum ýmsu stofnunum og meðferðarheimilum sem ég hef gist frá því ég veiktist. Það ágæta fólk gerði alltsaman sitt besta miðað við aðstæður, því ekki var annað að sjá en að ég væri ekki í neinu formi til að fara út í samfélagið).
Að þurfa að takast á við allskyns andstreymi og erfiðleika er órjúfanlegur partur af hinu mannlega hlutskipti. Það kemst engin manneskja hremmingalaust gegnum lífið.
Ef maður heldur að ekkert ami að hjá einhverri mannveru þá er það bara vegna þess að maður veit ekki nógu mikið um hana!
Já, það eru ekki aðeins við öryrkjarnir sem þurfum á trú og hvatningu að halda, heldur allt fólk á öllum tímum. Trú og hvatningu til að fást við það erfiða verkefni að vera manneskja.
Vitur maður sagði eitt sinn: "Hvert sem ég lít sé ég venjulegt fólk reyna að lifa sómasamlegu og uppbyggilegu lífi, og ég sé nokkurs konar hversdagslegan hetjuskap í því."
Ég hef þá einlægu trú, sem sannast hefur á mér og mörgum öðrum, að flest okkar geti miklu meira en við höldum. Við þurfum aðeins á þessu tvennu að halda: trú á getu okkar og annarra til að yfirstíga okkar sjálfskipuðu takmarkanir, og hvatningu til að hrinda þeirri trú í framkvæmd.
Kjörorð okkar og skilaboð til allra þeirra, sem einhverra hluta vegna hafa dottið út úr virkri samfélagsþátttöku, skulu vera þrjú: 1) þú getur miklu meira en þú heldur, 2) þú ert aðeins að nýta hluta af þínum hæfileikum og 3) hið gamla vígorð femínistanna: þú þorir, þú getur og þú vilt.
Ég þakka ykkur öllum fyrir lesturinn.
Bloggar | Breytt 26.1.2012 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2011 | 23:06
Mín sýn á dauðann
Sönnustu og vitrustu orð sem mælt hafa verið hljóða svo: "Líf mannlegt endar skjótt".
Og er það nokkuð svo skelfileg staðreynd, ef maður gerir ráð fyrir að til sé framhaldslíf (eða, sem er kannski öllu nákvæmara: ódauðlegt líf)?
Ég held að dauðinn sé ekkert annað en kærkomin hvíld frá öllu amstrinu og streðinu og mótstreyminu og þjáningunum sem við þurfum öll - eitt og sérhvert - að takast á við í hverri jarðvist.
Rétt eins og svefninn er kærkomin (og raunar nauðsynleg) hvíld frá erli dagsins.
Já, það er ekki að ósekju að dauðinn er stundum kallaður ´svefninn langi´ á íslensku - því svefn er hann svo sannarlega, en enginn endir á tilveru manneskjunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2011 | 18:15
Að vinsa úr vitið er eina vitið
Kristið fólk er margt hvert sífellt að hamra á því að ekki megi velja og hafna úr Biblíunni, heldur verði að taka hvern stafkrók sem þar stendur bókstaflega.
En þó eru þessar sömu manneskjur stöðugt að gera nákvæmlega það sem þær fordæma svo mjög: að velja og hafna úr ´ritningunni´.
Og það er ekki nema eðlilegt og heilbrigt, því margt sem í Biblíunni er að finna er þess eðlis að ekki er hægt annað en að hafna því - ef maður er ekki barbari eða vitfirringur.
Svo aðeins eitt dæmi af ótalmörgum sé tekið þá kemur engri kristinni manneskju í dag til hugar að fara eftir hinum ógnarflóknu og járnströngu matartilskipunum sem gefnar eru í Mósebókum -og hvað þá heldur að hlýðnast ýmsu öðru í Biblíunni sem er miklu óviðfelldnara en téðar fæðisfyrirskipanir.
En þótt þetta sé allt saman ósköp skiljanlegt og raunar óhjákvæmilegt þá er hér engu að síður á ferð hvimleið hræsni sem ekki er hugsandi fólki samboðin: að tönnlast í aðra röndina á því að allt sem í Biblíunni standi sé heilagur óhnikandi sannleikur, en vera svo í hina röndina þráfaldlega að gera það sem allt skynsamt fólk með snefil af siðgæðiskennd hlýtur að gera: að velja það sem gott er og hafna því sem vont er úr ´hinni helgu bók.´
Ég yrði fyrstur manna til að viðurkenna að margt í Biblíunni er fagurt og háleitt og eftirbreytnivert. En það gerir andstæðuna bara skarpari við allt það sem er ófagurt, lágkúrulegt og óeftirhermiverðugt í þeirri sömu bók.
Já, að velja og hafna er eina vitið - með ritningu kristinna manna, með ritningar allra trúarbragða, með allar bækur sem nokkurn tíma hafa verið skrifaðar ellegar munu verða skrifaðar.
Því Guð hefur gefið okkur heila til að hugsa með, en ekki til að láta þá rotna í gagnrýnislausri fylgispekt við eitthvað sem við höfum bitið í okkur að sé óskeikul himnasending, alveg óháð allri heiðarlegri og vitsmunalegri rannsókn á innihaldinu.
Ps. Og munið svo að kommenta ef þið hafið eitthvað - hvað sem er - að athuga við pistil þennan.
Bloggar | Breytt 18.11.2011 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2011 | 12:03
Lífið er harmleikur
Hvað er jarðlífið?
Örfáar sælustundir á stangli, og restin ömurleg þjáning.
Hver kann að telja allar þær raunir sem þjaka okkur mannfólkið?
Og jafnvel þótt svo fáránlega ólíklega vildi til að einhver manneskjan þyrfti ekki að þjást af neinum persónulegum hremmingum í lífinu, þá myndi hún samt (ef hún er ekki blind og heyrnarlaus) þurfa að þjást vegna vitundarinnar um þjáningar mannkynsins: fátæktina, hungrið, ofbeldið, styrjaldirnar, sjúkdómana osfrv. osfrv.
Næst þegar þið eruð glöð skuluð þið leiða hugann til dæmis að öllu því fólki í heiminum sem er bundið við hjólastól alla sína tíð, og er jafnvel mikið andlega þroskahamlað að auki.
Sjáið til hversu glöð þið verðið þá!
Þýska skáldið Göthe sagði í elli sinni að á öllum sínum æviárum hefði hann varla upplifað fjórar vikur samanlagt af hamingju og gleði.
Þótt ég sé ekki nema þrjátíuogtveggja ára gamall þá get ég sagt hið sama um mína hérvistardaga.
Ó, auma og fyrirlitlega líf!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 22:38
Dagar trúarbragða eru taldir
Vitur maður mælti eitt sinn þessi spaklegu orð: "Trúarbrögð og stjórnmál eru nú orðin úrelt. Nú er kominn tími fyrir vísindi og andlegheit (spirituality)".
Ummæli þessi eru eins og töluð úr mínu hjarta.
Trúarbrögð eru gagnleg (og jafnvel nauðsynleg) sem spiritúalt og vitsmunalegt leiðarljós í samfélagi þar sem flestir þegnanna eru fáfróðir, illa menntaðir og almennt andlega vanþroskaðir. Viska og lærdómur prestastéttarinnar (í hið minnsta þeirra meðlima hennar sem búa yfir téðum kostum) vega að einhverju leyti upp á móti vanvisku og lærdómsleysi pöbulsins.
En í samfélagi eins og okkar, þar sem nánast hver einasta hræða kann að lesa og skrifa, og ennfremur að hugsa (amk. að nokkru marki) sjálfstætt og gagnrýnið, þá hafa trúarbrögðin gengið sér til húðar, ásamt með öllu sínu prestafargani og annarri ólýðræðislegri hírarkís-vitleysu.
Þetta er eins og með skólakerfið: að feta námsveginn er nauðsynlegt fyrir manneskju til að læra þá hæfileika sem þarflegt er bæði fyrir þjóðfélagið og hana sjálfa að hún búi yfir. En þegar þeir hæfileikar eru eitt sinn lærðir þá er ekkert vit né gagn í því fyrir mannveruna að halda áfram að híma á skólabekk.
Nú hefur mannkynið (eða að minnsta kosti meirihluti þess) útskrifast úr þeim skóla sem trúarbrögðin eru. Nú er kominn tími fyrir mannkynið til að leggja niður allar ytri kirkjur, og tilbiðja þá einu kirkju sem nokkru máli skiptir: kirkju guðdómsneistans í hjarta hverrar mannveru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2011 | 16:37
Andlegt lýðræði
Mjög er ég á móti því að flokka mínar lífs- og trúarskoðanir í eitthvert geirneglt kerfi eða stefnu eða isma, en ef einhver héldi byssu upp að höfði mér og heimtaði að ég skilgreindi og stimplaði mína heimssýn þá myndi ég svara því til að ég væri ´spiritúall demókrat´.
Ekki er nóg með að ég trúi því að við manneskjurnar séum allar fyllilega jafnar innbyrðis, heldur er ég einnig þeirrar trúar að við mannskepnurnar séum algjörlega jafnar Guði - og meira en það: við séum allar fullkomlega eitt með Honum / Henni.
Allt sem er Guðs er líka okkar - við þurfum bara að átta okkur á því og leiða það í ljós!
(Lítilsháttar útúrdúr: Beindi Jesús Kristur ekki þessari spurningu til okkar mannanna: "Vitið þér ekki að þér eruð guðir?" - ummæli sem kirkjukristindómurinn virðist nánast frá fyrstu tíð hafa einsett sér að þaga í hel og þrástagast þess í stað á hinni lítt geðfelldu kenningu um ´syndugt eðli mannsins´og óbrúanlega fjarlægð manneskjunnar frá skapara sínum (´allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð´ osfrv. osfrv.) - og er ástæða þessarar slagsíðu efalaust upphaflega sú að kirkjunni er miklu hægara um vik að ríkja yfir skrílnum ef hægt er að berja þá dogmu inní höfuð pöbulsins að honum verði vegna ´synda´ sinna steypt beinustu leið niður til eilífrar vistar í víti nema hann þiggi hjálpræði (les: beygi sig undir drottinvald) það er einungis kirkjan og hennar þjónar ráða yfir. Útúrdúr lokið).
Hugmynd sú um Guð, er mörg trúarbrögð hamra sleitulítið á, að Hann (því Guð er ætíð karlkenndur í slíkum religjónum) sé alvalda konungur sem sitji á gullnum veldisstóli og ríki yfir alheiminum, kann að vera rétt frá vissum sjónarhóli séð.
En það er ekki sú Guðshugmynd sem mér hugnast best.
Heilshugar og heilshjarta tek ég undir með Bókinni um Veginn, þar sem segir um hina miklu Móður alls sem er (Taóið): "Ástúðlega elur hún önn fyrir öllu, en hirðir ekkert um að drottna yfir því."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2011 | 18:39
Lykillinn að kreativiteti og heimsnytjum
Aðeins með því að uppgötva og manifestera okkar eigin persónulega einstæða innri sannleik getum við vonast til að verða heiminum að gagni og yndisauka.
Allir sannir og stórbrotnir listamenn (svo aðeins eitt dæmi sé tekið) bera lögmáli þessu órækan og ótvíræðan vitnisburð.
Þangað til við höfum fundið og birt téðan innri sannleik þá erum við dæmd til að vera eintómar eftirhermur annarra - og eftirhermur geta aldrei skapað neitt né haft nokkuð sem einhvers er virði að gefa veröldinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2011 | 17:22
Vont er vit ef of sterkt er
Við lifum í samfélagi þar sem allt gengur út á að þroska og efla vitsmuni fólks.
En hvers virði er það í raun að vera með háþróaða vitsmuni, þegar grannt er skoðað?
Oft virðist mér það vera staðreynd að þeim mun greindara sem fólk er, þeim mun meiri þjáningar þurfi það að þola í lífinu.
Það mætti jafnvel skilgreina þjáningu sem hugrænan sársauka; þ.e. sársauka sem ýmist einskorðast við hugann eða sem hugurinn bætir ofan á hverja þá líkamlegu ellegar tilfinningalegu kvöl er til staðar kann að vera.
Og ef sú skilgreining er rétt þá gefur augaleið að þeim mun ráðríkari sem hugurinn er í lífi manna, þeim mun meira er svigrúmið fyrir þjáningar.
Lítið t.d. á fólk með Downs-heilkenni og aðrar áþekkar ´þroskaskerðingar´: þetta yndislega fólk er yfirleitt alsælt með tilveruna og hlutskipti sitt í henni.
Skyldi það ekki stafa af því að téðar manneskjur eru ekki með sterkan huga til að fokka öllu upp líkt og hjá okkur sem hlotið höfum þá bölvun að burðast með öfluga vitsmuni?
Ef endurholdgun er staðreynd þá bið ég heitt til almættisins um að fá að fæðast ´þroskaheftur´ í næstu jarðvist!
(Og endilega kommentið þið nú ef þið hafið eitthvað við efni pistils þessa að athuga, hvort sem það er hrós eða skammir! Það er einmanalegt að dæla út þessum bloggfærslum og fá aldrei neina endurgjöf (´feed-back´) frá lesendum . . .).
Bloggar | Breytt 15.10.2011 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2011 | 18:43
Virðing fyrir allra vegi
Allar mannverur eru ævinlega að gera sitt besta.
Jafnvel fólk sem í þínum augum lifir heimskulegu og/eða siðspilltu lífi er á sinn hátt að reyna að lifa jafn gáfulegu og göfugu lífi eins og það getur.
Já, það er svo sannarlega ekki okkar að dæma þann veg sem nokkur önnur manneskja er að feta aftur til Guðs.
Eins og segir í hinu undurfagra indverska helgiriti Bhagavad Gita: "Ég (þ.e. Guð) býð mennina velkomna hvernig sem þeir koma til mín, því sérhver vegur, sem þeir velja, er minn vegur, hvaðan sem hann liggur."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)