Að vinsa úr vitið er eina vitið

Kristið fólk er margt hvert sífellt að hamra á því að ekki megi velja og hafna úr Biblíunni, heldur verði að taka hvern stafkrók sem þar stendur bókstaflega.

En þó eru þessar sömu manneskjur stöðugt að gera nákvæmlega það sem þær fordæma svo mjög: að velja og hafna úr ´ritningunni´.

Og það er ekki nema eðlilegt og heilbrigt, því margt sem í Biblíunni er að finna er þess eðlis að ekki er hægt annað en að hafna því - ef maður er ekki barbari eða vitfirringur.

Svo aðeins eitt dæmi af ótalmörgum sé tekið þá kemur engri kristinni manneskju í dag til hugar að fara eftir hinum ógnarflóknu og járnströngu matartilskipunum sem gefnar eru í Mósebókum -og hvað þá heldur að hlýðnast ýmsu öðru í Biblíunni sem er miklu óviðfelldnara en téðar fæðisfyrirskipanir.

En þótt þetta sé allt saman ósköp skiljanlegt og raunar óhjákvæmilegt þá er hér engu að síður á ferð hvimleið hræsni sem ekki er hugsandi fólki samboðin: að tönnlast í aðra röndina á því að allt sem í Biblíunni standi sé heilagur óhnikandi sannleikur, en vera svo í hina röndina þráfaldlega að gera það sem allt skynsamt fólk með snefil af siðgæðiskennd hlýtur að gera: að velja það sem gott er og hafna því sem vont er úr ´hinni helgu bók.´

Ég yrði fyrstur manna til að viðurkenna að margt í Biblíunni er fagurt og háleitt og eftirbreytnivert. En það gerir andstæðuna bara skarpari við allt það sem er ófagurt, lágkúrulegt og óeftirhermiverðugt í þeirri sömu bók.

Já, að velja og hafna er eina vitið - með ritningu kristinna manna, með ritningar allra trúarbragða, með allar bækur sem nokkurn tíma hafa verið skrifaðar ellegar munu verða skrifaðar.

Því Guð hefur gefið okkur heila til að hugsa með, en ekki til að láta þá rotna í gagnrýnislausri fylgispekt við eitthvað sem við höfum bitið í okkur að sé óskeikul himnasending, alveg óháð allri heiðarlegri og vitsmunalegri rannsókn á innihaldinu.

Ps. Og munið svo að kommenta ef þið hafið eitthvað - hvað sem er - að athuga við pistil þennan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband