Hin skekkta mynd af Indlandi

Fáfræði fólks um ýmislegt getur stundum verið hvimleið.

Tökum Indland sem dæmi. Það eina sem meðal-Vesturlandabúinn veit um þetta stórmerkilega land er að það er mikil og útbreidd fátækt þar - sem er vissulega rétt, en ég vil þó benda á þrennt til mótvægis:

1) Öll lönd sem sögur fara af hafa átt við fátækt og önnur félagsleg vandkvæði að etja í einhverjum mæli. Það afsakar auðvitað ekki fátæktina og allt hitt, en það setur samfélagsveruleikann á Indlandi í réttara og ballanseraðra samhengi.

2) Fátæktin er á hröðu undanhaldi á Indlandi. Einhvers staðar sá ég þær tölur að árið 1990 hafi u.þ.b. helmingur Indverja verið undir fátæktarmörkum, en að áætlað sé að það hlutfall verði komið vel niður fyrir fjórðung árið 2015. Og ekki er útlit fyrir annað en að sú gleðilega þróun muni halda áfram.

3) Til eru margvíslegir mælikvarðar á ríkidæmi, og hinn efnahagslegi er aðeins einn þeirra. Menningarlega er Indland eitt auðugasta land heims, ef ekki það auðugasta. Afrek Indverja í heimspeki, spiritúaliteti og öllum greinum lista (sérstaklega tónlist) eru vægast sagt undraverð.

Með ofantöldu er alls ekki ætlunin að draga dul á hin margvíslegu og erfiðu félagslegu vandamál sem Indverjar eiga við að glíma, og fer þar fátæktin fremst í flokki. Ég vil aðeins benda á að það eru ótalmargir fletir á Indlandi aðrir en þessi félagslegu vandkvæði (sem ég vil reyndar kalla úrlausnarefni fremur en vandkvæði), og að það sé full ástæða til bjartsýni varðandi framtíð þessa merka lands, sem á sér lengri óslitna menningarsögu en öll önnur ríki jarðar, að Kína einu undanskildu.

Góðar stundir. :) 


Hið sanna eðli Kóransins!

Ég hef gert kólossala uppgötvun: Kóraninn er ein gríðarlöng mantra.

Grunnprinsippið í öllum möntrum er að litlu sem engu máli skiptir hvað orðin þýða bókstaflega - það er hljómur orðanna en ekki merking þeirra sem gildir.

Lítil furða þótt múslimar hafi alla tíð haldið því fram að ekki sé hægt að þýða Kóraninn yfir á önnur tungumál. Og það er heldur ekki skrýtið að Kóraninn sé sú bók í heiminum sem flest fólk hefur lagt á minnið spjaldanna á milli - á frummálinu, arabísku, að sjálfsögðu.

Berið saman annars vegar það að lesa Kóraninn í þýðingu á einhverju tungumáli sem þið kunnið, og hins vegar að hlýða á Kóraninn kyrjaðan á arabísku af manneskju með þýða og hljómfagra rödd. Hið fyrra er fremur þreytandi og lítt göfgandi lesning, með ýmsum köflum sem orka tvímælis í nútímasamfélagi; hið síðara er þegar best lætur unaðsleg andleg upplifun.

En þarf fólk þá að kunna arabísku til að hafa gagn og gaman af Kóraninum?

Alls ekki - ekkert frekar en fólk þarf að skilja bofs í Sanskrít til að taka undir í möntrusöng í jógatíma. Ég hef t.d. aðeins óljósan og gloppóttan skilning á því hvað uppáhalds-Sanskrítarmantran mín þýðir (sú sem kennd er við Gayatri: ´Om bhur bhuvasvaha / tat savitur varenyam / bhargo devasya dhimahi / dio yo nah prachodayat´)  - en það kemur ekki á nokkurn hátt í veg fyrir að ég finni fyrir mikilli andlegri upphafningu við að smjatta á téðri möntru.

Með möntrur mætti meira að segja halda því fram að það sé hjálp en ekki hindrun að skilja ekki baun í því hvað þær ´þýða´, því þá er bókstafleg merking orðanna ekkert að þvælast og flækjast fyrir manni.

(Hér er gaman að skjóta því inní að sjálft orðið ´Qur´an´ (sem orðið ´Kóran´ er dregið af) er arabíska og merkir bókstaflega ´recital´ á ensku - sterk vísbending þess að það hafi allt frá upphafi verið meiningin að fólk kyrji Kóraninn upphátt og leyfi víbrasjónum arabískunnar að vinna sína ósýnilegu mantrísku töfra, í stað þess að fólk lesi hann í hljóði með vitsmunina að vopni).

Að hefja einhverja bók til skýjanna sem óskeikult og óvéfengjanlegt orð Guðs, að hætti bókstafstrúarmanna, er bæði háskalegt og heimskulegt, og skiptir engu hvort sú skrudda heitir Kóraninn eða Biblían eða eitthvað allt annað. Hér er skemmtilegt og viðeigandi að segja frá því að Páll Postuli (sem er auðvitað talinn óskeikull af kristnum fúndamentalistum) hefur sitthvað beitt og ómyrkt að segja um ´andann sem lífgar en bókstafinn sem deyðir.´

Og þannig ættum við að líta á Kóraninn. Andi hans lífgar (þ.e. víbrasjónirnar sem það að kyrja texta hans á ómþýðan og melódískan hátt á frummálinu kemur af stað í sál okkar og sinni) en bókstafur hans deyðir (þ.e. litteröl merking orðanna, sem eins og að ofan segir inniheldur ýmislegt sem rímar illa við nútímasiðmenningu - og áður en Islams-hatarar hrópa ´húrra!´ og ´halelúja!´ yfir þessum ummælum mínum þá er ég skjótur að bæta því við að hið sama á við um hérumbil öll sk. ´helgirit´ sem ég hef um ævina lesið - nema Bókina um veginn (Tao Te Ching).  Sú bók er púra gull út í gegn.)

As-salam aleikum! :)


Norðurlöndin og múslimar - góð saman!

Norðurlöndin eru undur veraldar. Þetta eru lang-mannúðlegustu og réttlátustu þjóðfélög sem hafa nokkurn tíma verið til í mannkynssögunni.

Það er enginn ´vestrænn imperíalismi´ né hvað þá heldur einhver ´vinstri-áróður´ að allar þjóðir heimsins eigi að taka sér Norðurlöndin til fyrirmyndar hvað samfélagsuppbyggingu varðar. Það er bara holl skynsemi og heilbrigð hjartagæska - dyggðir sem öll trúarbrögð veraldar og öll önnur siðakerfi sem standa undir nafni hafa hampað frá ómunatíð, en sem hefur aldrei fyrr í sögu mannkyns verið framfylgt jafn vel og skipulega eins og á Norðurlöndum nútímans.

En hvað þá með ´hina islömsku ógn´? spyrja þá sumir. Stríðir hún ekki gegn því lýðræði og frjálslyndi og fjölmenningarhyggju sem svo mjög eru í heiðri höfð á Norðurlöndum?

Því er til að svara að eins og ég skil Islam (og hef ég kynnt mér þau trúarbrögð nokkuð ítarlega) þá er það mjög í anda þeirrar trúarhefðar að múslimar eigi að semja sig að stjórnskipan og samfélagsskikkan þess lands sem þeir búa í - nema þetta tvennt stríði augljóslega gegn mannlegri samvisku, eða reynt sé að hindra þá í að iðka trú sína.

Eins og venjulega er hér gagnlegt að hætta að einblína á hreinar teóríur og líta á staðreyndirnar eins og þær arta sig. Er eitthvað í hinum konkreta veruleika sem bendir til þess að múslimar á Vesturlöndum séu upp til hópa - eða jafnvel bara eitthvað yfirhöfuð - að reyna að kollvarpa ríkjandi þjóðskipulagi og koma á islömsku einræði?

Ég held ekki - nema menn vilji trúa á galnar samsæriskenningar um að vestrænir múslimar séu bara að sigla undir fölsku flaggi og þykist lymskulega samsinna hugsjóninni um lýðræðislegt og frjálslynt samfélag, en séu í raun að plotta bakvið tjöldin um að tortíma þeirri hugsjón og drepa þjóðfélagið í dróma islamskrar harðstjórnar.

(Innan sviga mætti nefna þá velkunnu staðreynd að versta hryðjuverk sem framið hefur verið í sögu Norðurlanda var ekki drýgt af múslima, heldur af ´sann-norskum´ brjálæðingi sem hatar múslima og hugsjónina um opið og frjálslynt og fjölmenningarlegt samfélag - einmitt þá hugsjón sem menn af hans sauðhúsi væna gjarnan múslima um að vilja feiga. Heldur kaldhæðnisleg og ruglingsleg þversögn, ekki satt?)

Vissulega eru til sturlaðir öfgamenn innan Islams sem vilja kremja allan heiminn undir járnhæl Sharia-laganna, en þeir eru blessunarlega í miklum minnihluta.

Og við skulum ekki heldur gleyma því að áþekka vitleysinga er einnig að finna innan kristninnar, t.d. í ´Biblíubeltinu´ bandaríska, hvar ýmsa dreymir um að koma á teókratískum fasisma í því landi, þar sem hinar oft barbarísku fyrirskipanir Biblíunnar eiga að ryðja burt almennri og vitrænni veraldlegri löggjöf.

En að slíkum forneskjuhugmyndum er almennt hlegið í hinum kristna heimi. Langflest kristið fólk er skynsamar og friðsamar hófsemdarmanneskjur.

Og það eru múslimar langflestir líka. Sá sem ekki kemur auga á þá staðreynd þekkir lítið til mannlegrar náttúru.


Jesús og Islam

Ég sel þá sögu ekki dýrara en ég keypti hana, en sumir esóteríkerar halda því fram að sá sem dikteraði Kóraninn fyrir Múhammeð spámanni á 7. öld okkar tímatals hafi verið enginn annar en Jesús Kristur sjálfur!

Kristur hafi semsagt verið orðinn hundóánægður með allt bullið sem trúarbrögðin er nafn hans bera hafi verið komin út í á tímum Múhammeðs, og því hafi hann ákveðið að nota Múhammeð sem málpípu sína til að stofna ný og hreinni og betri trúarbrögð til mótvægis.

Enda mætti með nokkrum rétti líta á Islam sem kristindóm hreinsaðan af (mest)allri vitleysunni sem því miður hefur íþyngt síðarnefndu trúarbrögðunum stærstan hluta sögu þeirra.

Eitt af því sem benda mætti á þessu til sönnunar er hvað Islam er dásamlega einföld og straumlínulöguð og hnitmiðuð trú miðað við kristnina. Islam boðar (amk. í sínum tærustu myndum) í raun einungis tvær dogmur, og báðar eru þær eins óbrotnar og auðskildar eins og hægt er að hafa það: ´það er aðeins til einn Guð og Múhammeð er (síðasti) spámaður hans´. Berið þetta saman við þann mýgrút af yfirmáta flóknum og ruglingslegum og óskýrum kreddum sem kristindómurinn heimtar að fólk trúi í blindni! - enda er ekki hægt að trúa þeim öðruvísi.

Og ekki er nóg með að islömsk trú sé laus við flesta galla kristindómsins heldur felur hún í sér alla helstu kosti hans. Í fyrrgreindu trúnni er að finna sama undursamlega boðskapinn eins og í hinni síðarnefndu um mildi og miskunnsemi Guðs, um samfélagslegt réttlæti og jöfnuð allra manna óháð litarhætti og kynþætti og þjóðfélagsstöðu og öðru slíku, um góðvild og kærleika og hjálpsemi í garð allra mannvera og sérstaklega hinna fátæku og kúguðu og lítilsmegandi o.s.frv. o.s.frv.

En þótt ég dáist að einfaldleika og beinskeytni og siðgæðisdýpt Islams þá dettur mér ekki í hug að gerast Múslimi. Andi minn er of sjálfstæður og frelsiselskandi til að láta drepa sig í dróma nokkurra skipulagðra trúarbragða.


Einfaldleikinn er ætíð bestur

´Keep it simple´ er besta regla sem maður getur tileinkað sér í lífinu.

Í samræmi við reglu þessa hafna ég í andlegum efnum prívat og persónulega öllum trúarbrögðum og öllum guðfræðiflækjum.

Mín eina spiritúala fílósófía er á þessa leið:

´Til er alkærleiksríkt æðra afl, og við erum öll börnin þess / hans / hennar (téð afl felur í sér bæði kynin, og er í innsta eðli sínu kynlaust).´

´Af þessu leiðir að ekki er til neitt sem heitir ´eilíf glötun´; sáluhjálp allra er gulltryggð i det lange löb.´

´Ennfremur held ég því fram að allt líf sé heilagt, og að mannskepnan ætti því að haga tilvist sinni á þá leið að hún skaði enga lífveru, ekki einu sinni minnstu pöddu, nema í þeim fáu tilfellum þar sem ekki verður komist hjá öðru (eins og til dæmis þegar hemja þarf offjölgun skaðræðisdýra sem ógnar lífsafkomu annarra tegunda).´

And there you have it! Simple as that. ;)


Hví ég er ekki kristinn

Ástæða þess að ég er ekki kristinn er einfaldlega sú að skynsemi mín og réttlætiskennd geta ekki með nokkru móti fallist á grunnkenningu kristindómsins. En sú kenning er eitthvað á þessa leið:

Guð hefur sett það lögmál að laun ´syndarinnar´ séu dauði að eilífu (hvers vegna hann setti það lögmál veit enginn, enda verður ekki séð hvaða réttlætisrök hafi knúið hann til þess), og þar sem við erum öll sömul ´syndug´ upp fyrir haus (aftur getur enginn útskýrt í hverju þessi hræðilega og fordæmingarverða´synd´ okkar á að vera fólgin) þá höfum við öll dæmt sjálf okkur til eilífs dauða, og eina útgönguleið okkar er að taka á móti friðþægingarfórn Jesú Krists, sem dó saklaus og syndlaus á krossinum til að taka alls óverðskuldað á sig dauðadóminn sem við höfum áunnið okkur með ´syndum´ okkar.

Það eina sem ég hef að segja að svo stöddu um ofangreinda trúarkreddu er það að maður fær hausverk af því að reyna að fá einhvern lógískan botn í hana. Ef ég ætti að rekja ruglandina í henni þá veit ég ekki einu sinni hvar ég ætti að byrja . . .


Burt með flokkana!

Ég legg til að stjórnmálaflokkar verði einfaldlega lagðir niður og að í staðinn verði fólk kjörið á þing með handahófsvali úr þjóðskrá. Það ætti að fara langleiðina með að uppræta spillingu úr pólitík.

Og með því ákvæði líka að enginn megi sitja á þingi meira en eitt kjörtímabil (rökin fyrir því eru þau sömu og fyrir því að engum er heimilt að gegna embætti Bandaríkjaforseta lengur en átta ár í senn: til að tryggja heilbrigða endurnýjun og koma í veg fyrir spillingu).

En sennilega væri óþarfi að setja slíkt aukaákvæði, þar sem fjarska litla líkur eru á því að sama manneskjan myndi nokkurn tíma veljast á þing oftar en einu sinni, ef notast yrði við hreint slembiúrtak úr þjóðskrá þegar þingmenn væru kosnir . . .

Hver er þessi konungur dýrðarinnar?

Nýverið las ég feykimerkilega bók: "Who is this King of Glory? - A Critical Study of the Christos -Messiah Tradition" eftir bandaríska fræðimanninn Alvin Boyd Kuhn, en bók sú var fyrst gefin út árið 1948.

Meginuppistaða bókarinnar er ítarlegur og býsna frambærilegur rökstuðningur höfundar fyrir þeirri kenningu sinni að Jesús Kristur hafi aldrei verið til sem söguleg persóna, og að hin svokallaða ´ævisaga´ hans í guðspjöllunum sé samansafn af hreinræktuðum allegóríum og mýtólógíu, mest af því sótt í forn-egypsk trúarbrögð.

Jafnvel hörðustu stuðningsmenn þeirrar kenningar að Jesús Kristur hafi verið manneskja af holdi og blóði (en drjúgur hluti bókar Kuhns fer í að rekja og hrekja röksemdir slíkra manna) verða að viðurkenna að fjölmargt í frásögnum guðspjallanna sé augljóslega ekki sagnfræði heldur póesía og líkingamál og mýtólógía. Og, spyr Kuhn, fyrst svo er: hví þá ekki að ganga alla leið og stíga það stutta og eðlilega skref að lýsa þetta alltsaman póesíu og líkingamál og mýtólógíu en ekki sagnfræði?

Að dómi Kuhns er Kristur ekki sagnfræðileg persóna og hefur aldrei verið, heldur er ´hann´ það sem Kuhn kallar ´a spiritual principle (The Christos),´ er birtist einkum í þeim anda góðvildar og kærleika og samhjálpar sem sé hægt en örugglega að breiðast út meðal mannkyns.

Höfundur fer hörðum orðum um þá fráleitu brenglun og rangtúlkun, sem kirkjan gerði sig fyrst seka um á þriðju öld og hefur haldið á lofti æ síðan, að kenna að háleitt og abstrakt spiritúelt prinsipp hafi birst á jörðu í mynd holdlegrar manneskju sem á að hafa gengið um, etið, sofið og kennt í miðausturlöndum fyrir hartnær tvöþúsund árum. Það mætti eins halda því fram að maður geti rekist á Dygðina í kvenmannslíki út á götu, eða spjallað við Réttlætið yfir tebolla á kaffihúsi!

Kuhn hamrar á þeirri skoðun sinni að fjarri því að Kristur hafi fæðst í Palestínu fyrir tuttugu öldum þá sé hann enn ekki fæddur (a.m.k. ekki að fullu) meðal manna - og verði það ekki fyrr en Kristur (í sínum rétta skilningi sem innra immanent sammannlegt andlegt ástand) hefur náð að uppljóma sálir allra manna með bjarma visku sinnar og kærleika - þ.e. náð að ´fæðast í sálum manna,´ sem er hin sanna esóteríska merking sögunnar hugljúfu og dásamlegu um Jesúbarnið í vöggunni.

Fæðing Jesúbarnsins er semsagt ekki stakur sögulegur viðburður heldur evókatív og tímalaus  táknsaga um þá guðlegu gerjun sem á sér stað í innsta hjartahelgidómi allra manna sem eru að ´fæðast í Kristi´. Og svipað er um aðra þætti í ´ævisögu´ Jesú Krists: þeir eru allegórísk sannindi en ekki historísk.

Það er við hæfi að gefa hér Alvin Boyd Kuhn sjálfum orðið, í tilvitnun sem tekur saman þann meginboðskap er hann ætlar bók sinni að miðla lesendum : "The Christos in the heart of the [human] race is adequate to carry with comeliness and consistency the magnificent meaning of the ancient scriptures. But no man-Christ in Judea or elsewhere is able to encompass in his tiny personality that range and sweep of significance."

Og í innganginum að títtnefndri bók, sem Paul nokkur Tice ritar, segir m.a.: "For Christianity to be expressed in the way it was first intended, as experienced during the first two centuries of its existence, one must first acknowledge its pagan roots."

En ef sú kenning yrði sönnuð með óvéfengjanlegum hætti að Jesús Kristur hafi aldrei verið til sem maður af holdi og blóði, heldur sé hann hrein goðsögn, sprottin úr trúarbrögðum sem eru ómælanlega eldri kristninni - væri þá öllum stoðum kippt undan kristindómnum, eins og sumir myndu eflaust halda fram?

Þvert á móti! Það yrði dásamlegasta lyftistöng sem kristindómurinn gæti hugsanlega hlotið, því hinn goðsagnalegi Jesús Kristur er miklu máttugri og merkilegri fígúra heldur en hinn sagnfræðilegi Jesús Kristur gæti nokkurn tíma verið; og stafar það af því að hinn fyrrnefndi tjáir eilíf og sígild og regindjúp sannindi um mannssálina og þróun hennar, sem engin sagnfræði gæti mögulega komið á framfæri.

Mýtólógía er margfalt sannari en sagnfræði, vegna þess að sagnfræðin greinir aðeins frá skuggamyndum sannleikans á hverfulu sviði tímans, en goðafræðin greinir frá hinu sanna lífi: þ.e. hinum eilífu og óumbreytanlegu prinsippum og lögmálum er stýra bakvið tjöldin sögunni og öllum mannlegum veruleika.

´Enginn getur þjónað tveimur herrum´ er haft eftir Jesú sjálfum í Nýja Testamentinu. Að einblína á og tilbiðja hinn meinta sögulega og manngerða ytri Krist og stóla á hann um sáluhjálp getur ekki annað en haft þau óheillavænlegu áhrif í för með sér að draga athyglina frá hinni einu sönnu sáluhjálp og hinum eina sanna Kristi, sem eru í því fólgin að rækta hinn tímalausa ósagnfræðikennda sammannlega innri veruleika þeirrar alskíru góðvildar og náungaelsku sem mishulin í hjörtum okkar allra býr.

Það er aðeins með því að dusta af rykið og kóngulóarvefina sem gullskjöldur sannleikans getur skinið í allri sinni dýrð og ljóma. Og kenningin um hinn sögulega manngervingslega ytri Jesú Krist virðist vera slíkt ryk og kóngulóarvefir.


Trúarbragðanna innsti andi

Mörg og misjöfn eru trúarbrögð mannkyns, en hinn innsta og dýpsta kjarna þeirra allra mætti orða á þennan veg:

Innst í hjarta okkar allra brennur logi sem er guðlegrar ættar og felur í sér fullkomna visku og fullkominn kærleika, og megintilgangur mannlegrar tilvistar er að fjarlægja allt sem hindrar þennan innri helga hjartabrand frá því að skína í allri sinni dýrð og uppljóma okkur sjálf og allan heiminn.

Allt sem trúarbrögðin boða ofan á þennan einfalda kjarna eru aukaatriði og bagatellur.


Er synd úr allri mynd?

Er eitthvað til í öllu þessu eilífa tali kristindómsins um það hve við mannverurnar séum allar saman ´syndugar´?

Svarið er bæði já og nei.

Ef við skoðum rót orðsins ´synd´ þá sjáum við að það er þýðing á gríska orðinu ´hamartia´ sem merkir einfaldlega að ´geiga,´ ´missa marks,´ ná ekki takmarki sínu´ og annað í þá áttina.

Og því má segja að svo lengi sem við erum ófullvaxta í andlegri merkingu og lifum í fáviskuvitundinni (Sanskrít: avidya) og þekkjum ekki okkar eigið innsta guðdómlega eðli, og gerum þar af leiðandi og hugsum ýmislegt sem öndvert er algæsku guðs, þá er hægt að halda því fram frá vissu sjónarhorni að tilvera okkar geigi og missi marks og nái ekki takmarki sínu - og að við séum í þeim skilningi ´syndug´.

En þetta er auðvitað miklu afmarkaðri og hófstilltari og viturlegri skilningur á ´synd´ heldur en sá sem kristindómurinn hefur tradisjónelt haldið á lofti. ´Christianity has blown the concept of ´sin´ out of all proportions´ sagði vitur maður eitt sinn, og það er laukrétt.

Reyndin er sú að gagnstætt því sem kristnin hefur hamrað á í aldanna rás þá er það enginn glæpur eða svívirða að ´lifa í synd´ ef sá frasi er rétt skilinn sem ´að lifa í fávisku um okkar eigið eðli´ - engu fremur en það er einhver glæpur eða svívirða fyrir lítil börn að vita ekki neitt um stærðfræði eða pólitík (svo aðeins tvö handahófsdæmi séu nefnd). 

Og svo er það sá djúpi sannleikur að lögmál andlegrar þróunar er að gegnum fáfræðina liggur leiðin til þekkingar. Með öðrum orðum (í samhengi pistilkorns þessa): bernskan er nauðsynlegt forskeið þess að verða fullorðinn. ´Man is not travelling from falsehood to truth, but from lesser truth to greater truth,´ eins og spekingur einn mikill reit. 

Við erum að læra. Sífellt að læra. Og einn daginn verðum við fullnuma.

Við þetta má svo bæta að allir eru að gera sitt besta. Sú manneskja er ekki til sem ekki er sleitulaust og einarðlega að reyna að lifa lífi sínu á þann fegursta og göfugasta máta sem henni er kunnugt um. Því ættum við ekki að dæma neinn og ekki að kalla neinn ´syndara,´ heldur einbeita okkur að vorri eigin þroskaleið.

Vér sjáum það í heiminum sem er innra með oss sjálfum. Því má treysta því að manneskja sem er með ´syndir´ annarra á heilanum er sjálf sárþjökuð af tilfinningu um eigin syndabyrði (hvort sem henni er það leynt eða ljóst).

Okkar sanna innsta eðli er guðdómlegt eins og hér að ofan segir, en flest lifum við aðeins í hinni ytri yfirborðsnáttúru og erum okkur ekki meðvituð um guðdóminn í hjartanu - hina fullkomnu endurspeglun gæsku, kærleika og visku guðs, bjartari en þúsund sunnur.

En hér kemur lykilatriðið: þessi guðdómsnáttúra okkar er eins og sólin og ytri yfirborðsnáttúran er eins og skýjin sem hylja sólina. Það er vitanlega alveg sama hve þykk og dökk ský fela sólina - hún skín jafn skært fyrir því ofan skýjanna.

Og á endanum er guðdómsröðullinn í hjarta okkar of máttugur til að nokkuð geti haldið aftur af því að hann skíni í gegnum ský fáviskunnar og baði alla okkar verund - og heiminn allan - í bjarma sínum.

Og þegar sá undursamlegi atburður gerist er ekki lengur um að ræða neina ´synd´ - ekki einu sinni í þeim mjög svo hófsama og skynsamlega skilningi sem hér að ofan er frá greint.

Og það hafa verið og eru enn í dag til manneskjur sem hefur tekist að blása öllum skýjunum burt frá sinni innri guðdómssunnu og náð fullkomnu og milliliðalausu sambandi við almættið og þar með gert alla ´synd´ að engu.  Þær mannverur ganga yfirleitt undir heitinu ´dýrlingar´ eða ´mystíkerar´ og þótt fáar séu er þær að finna í öllum löndum á öllum tímum.

Mjög margt fólk (sérstaklega kristið fólk) telur að sá tími að mannverur geti náð slíku beinu og krókaleiðalausu sambandi við guð tilheyri gráustu forneskju og að slíkt sé ekki hugsanlegt í dag. Svoleiðis nokkuð sé aðeins forréttindi spámanna þeirra og guðmenna er Biblían greinir frá.

Þessu til hrakningar vil ég benda á að ef það er eitthvert lögmál sem vísindin hafa sannað þá er það að atvik sem hefur gerst einu sinni getur alltaf gerst aftur. Og það veitir dásamlega fullvissu þess að það sem dýrlingarnir og mystíkerarnir sem og spámenn og guðmenni Biblíunnar hafa gert getum við - hvert og sérhvert okkar - einnig gert.

Já, að verða guðir (eða öllu heldur: að átta okkur á því að við höfum alltaf verið guðir!) er svo sannarlega undursamlegur erfðaréttur okkar allra, sem enginn og ekkert getur svipt nokkurt einasta okkar.

Það er okkur ósæmandi sem elskuðum börnum guðs að berja lóminn yfir því hvað við séum armir og vesælir ´syndarar´. Þess í stað ættum við að fylla hugi okkar og hjörtu af hinni dýrðlegu vitneskju um vora innri reisn, vora innri tign, vorn innri guðdóm.

Ég lýk þessari stuttu hugvekju á orðum mikils andlegs meistara, sem beindi eftirfarandi uppörvunarorðum til okkar allra: ´You are great. That is the truth, whether you know it or not. [. . .] Saintliness is not a gift that God confers on merely a chosen few. Rather, it is a treasure that God has placed within every child of His´. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband