Færsluflokkur: Bloggar
30.8.2007 | 17:05
Selma Lagerlöf - geníall rithöfundur!
Ég hef nýlega verið að lesa Nóbelsverðlaunarithöfundinn sænska Selmu Lagerlöf, á frummálinu - og hvílík snilld sem þar mætir augum manns og sálu!
Meðal annars geníalitets hef ég hjá Selmu loksins hlotið svarið við spurningunni um tilgang þjáningarinnar, sem svo lengi hefur brunnið á anda mínum; svar sem mig hefur að vísu rennt í grun um áður (intúitíft) en aldrei séð orðað á jafn brilljantan hátt og hjá Selmu.
Í lauslegri þýðingu minni og endursögn:
"Svo framarlega sem við lærum ekki að elska náungann eins og okkur sjálf, þá er enginn staður hvorki á himni né jörð þar sem sársaukinn og hugarvílið ná ekki til okkar."
Er hægt að orða þetta á exkvisítari hátt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 19:22
Ég er orðinn Gnostíker!
Gnostíkin var nk. hliðargrein innan Kristninnar, sem naut allmikillar hylli á fyrstu öldum Kristindómsins, en var að lokum útmáð og bannlýst sem villutrú.
En hví hef ég kosið að endurvekja þennan forna draug og gera hann að hornstein heimsýnar minnar?
Ástæðan er sú að Gnostíkin svarar á sérlega einfaldan og elegantan hátt þeirri spurningu sem ég hef verið að glíma við undanfarna mánuði : hví er svo mikil þjáning í heiminum? - eða, með öðrum orðum : hví er sköpunin svo vond, spillt og rotin sem raun ber vitni?
Og hvert er svo þetta snilldarsvar Gnostíkurinnar? - Það er að sköpunarverkið sé alls ekki smíð þess algóða, miskunnsama og kærleiksríka Guðs sem trúarbrögðin boða. Sá Guð er vissulega til, en sköpunin er ekki handaverk hans.
Nei, þess í stað boðar Gnostíkin að sköpunarguðinn, Jahve Gamla testamentisins, sé rangsúin og brengluð mynd hins sanna Guðs. Jahve er illur, veikgeðja, afbrýðissamur og nýtur þess að kvelja það sem hann hefur skapað.
Tilgangur hinna löngu píslargöngu okkar á Jörðinni er að mati Gnostíkurinnar einfaldlega sá að læra að snúa okkur frá öllu sem tilheyrir hinni spilltu og öfugsnúnu (mis)sköpun Jahves, og öðlast sáluhjálp fyrir tilstilli þekkingarinnar (þess ´Gnosis´ sem Gnostíkin heitir eftir) á hinum sanna, alkærleiksríka Guði, sem er að öllu leyti handanlægur og hefur ekkert að gera með þessa ömurlegu hryllingssmíð sem jarðtilveran er.
Gnostíkin snýr öllu í hefðbundnum Kristindómi á haus, en gerir það á mjög skynsamlegan og rökréttan máta. Þannig verður snákurinn, sem tældi Adam og Evu til ´falls´, að útsendara góða Guðsins, í viðleitni hans til að losa þau skötuhjúin undan járnhæl hins illa Jahves (enda er snákurinn ævafornt tákn fyrir visku, eins og birtist í fjölmörgum trúarbrögðum).
(Glöggir lesendur hafa eflaust veitt því athygli að Gnostíkin útskýrir líka á mjög lógískan og snjallan hátt misræmið hrópandi milli hins viðbjóðslega Jahves Gamla testamentisins og hins dýrlega Alföður sem Kristur kom í heiminn til að boða).
(Og enn gleggri lesendur hafa vafalítið tekið eftir því að Gnostíkin svarar í raun alls ekki spursmálinu um spillt og þjáningaþjakað eðli sköpunarinnar, því það er alfarið óleyst (og að því er virðist óleysanleg) gáta hvernig og hvers vegna hinn algóði, kærleiksríki Guð geti alið af sér aðra eins forynju og erkiskrýmsli og Jahve er.
Svo virðist sem við séum aftur komin á byrjunarreit. - EN - ekki tjóir að hengja haus yfir því. Ég er nefnilega þeirrar trúar að ef maður haldi áfram nógu lengi að leika sér með hugmyndir þá hljóti maður á endanum að hnjóta um eitthvað sem verðskuldar að kallast sannleikur).
Góðar stundir - þar til ég dett niður á eitthvert snjallræði næst!:)
Bloggar | Breytt 27.8.2007 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2007 | 19:10
Ég á í mikilli sálarkreppu
Ástæða sálarkrísu minnar er sú að ég er tekinn að efast alvarlega um það sem hefur verið hornsteinn tilveru minnar til margra ára : trúna á Guð.
Orsök efasemda minna um tilveru Guðs er ósköp einfaldlega sú sígilda mótbára að kærleiksríkur og góður Guð myndi aldrei umbera alla þjáninguna og ljótleikann í heiminum. - Ég hef auðvitað eins og flest annað fólk margsinnis heyrt þessa röksemd, en alltaf reynt að réttlæta þjáninguna með því að hún hljóti að stefna að einhverjum endanlega góðum tilgangi sem ég er einfaldlega of glámskyggn til að sjá. En upp á síðkastið er ég farinn að efast stórlega um þetta. Eru þjáningin og ljótleikinn ekki bara einmitt það sem þau virðast vera vorum jarðnesku augum : tilgangsvana, grimm, siðlaus og ósanngjörn, leiðandi af sér ekkert nema að brjóta fólk niður?
Og eftir á að hyggja : er trúin á Guð í nokkru frábrugðin trú barna á jólasveininn og tannálfinn?
Gaman væri að heyra svör trúaðra við ofangreindu. Mér hefur ekki tekist að finna þau.
Kveðjur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.8.2007 | 19:15
Framtíðarsýn björt og blossandi
(Lítilsháttar inngangur: Þegar ég var að fletta gegnum gömul gögn hjá mér rakst ég á þessa hálf-súrrealísku og erki-kommúnísku félagsfræðiritgerð (já, félagsfræðiritgerð!) úr framhaldsskóla. Slengi ég henni hér með fram, lesendum (vonandi) til nokkurrar kátínu).
Óveðursskýin hrannast upp yfir válegu landinu dökk og drungaleg. Heiðblár og stilltur særinn verður að skólpgráu hafróti sem ýfist sífellt meira uns það verður að öskrandi stórbrimi er sverfur öll björgin við strendurnar niður í öreindir. Ömurlegt gnauðið í storminum þegar hann sveigir til kræklóttar greinar fúinna trjánna í kirkjugörðunum blandast skerandi örvæntingarveini hinna fráföllnu í gröfum sínum er útsendarar andskotans læsa nístingsköldum klóm sínum í hálfrotið hold þeirra og draga þá organdi eins og nýfædda hvítvoðunga og spriklandi líkt og þorska á öngli niður í hryllingsmyrkur heljar. Hungurvofan líður yfir sölnaðar sveitirnar og heggur bændur í blóma lífsins niður eins og hvurn annan ómerkilegan arfa. Sultarvitstola draugar í mannsmynd, með innfallnar kinnar og sturlað augnaráð, skjögra yfir svartmóðuhuld stræti höfuðborgarinnar líkt og skrykkjóttar brúður í tékkneskri lágkostnaðarbarnamynd. Alls staðar blasir við tortíming, dauði og djöfulskapur.
Er þetta sú framtíðarsýn sem vér óskum niðjum vorum til handa? Er þetta það Frón sem vér viljum skila til barna okkar? Erum vér ekki hugumstórri né prúðhjartaðri en svo? Erum vér slík fúlmenni og ódrættir?
Ég veit svei mér ekki með hina landa mína, en fyrir mitt leyti er svarið NEI! Nei, nei og aftur NEI!!! Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og meira til svo afkomendur mínir þurfi ekki að þola aðra eins skelfingu og þá sem óhjákvæmilega mun ríða yfir fósturjörð vora ef ráðum mínum verður ekki hlítt!
Það er aðeins ein leið til að forðast yfirvofandi bræði Belzebúbs, kæru samlandar, og það er að einkavæða!
Einkavæða fyrirtækin!
Einkavæða landssvæðin!
Einkavæða hafið!
Einkavæða vindinn!
Einkavæða sólina!
Einkavæða Plútó!
Einkavæða einstaklingana!
Einkavæða allan andskotann!!!!
Það er löngu tímabært að við vörpum frá okkur eins og ógeðslegum eiturpöddum öllum skrípalegum hugarórum í þá veru að það sé til nokkuð í öllum hinum víða alheimi sem ekki beri að einkavæða.
- Þetta er framtíðarsýn mín björt og blossandi:
1) Tungumálið sjálft verði einkavætt. Þannig geti fyrirtæki og einstaklingar keypt réttinn til að láta orðið, sem notað er til að tákna einhvern ákveðinn hlut eða verknað, heita í höfuðið á sér allar götur eftirleiðis, eða þar til einhver annar býðst til að borga hærra verð fyrir þau forréttindi. Slíkan rétt verði hægt að kaupa annaðhvort á einstökum málsvæðum ellegar í heiminum í heild. Þegar einhver fjárfestir í þvílíkum rétti verður öllum ritum, fornum og nýjum, að sjálfsögðu breytt til samræmis.
Eftir þessa einkavæðingu mun fólk e.t.v. ekki lengur segja ég flaug til Englands og sigldi svo til Frakklands heldur ég Flugleiðaði til Englands og Eimskipaði svo til Frakklands. Og það mun kannski ekki segja fiskurinn var kaldur sem jökull heldur Icelandic Seafoodið var The Atlanta Cryogenics Corporationað sem Jarðfræðingafélag Hornstrendinga. Og upphafið að Íslandsklukkunni, sem nú hljóðar svo:
"Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka."
-mun máski hljóða svo:
"Sú var Framsóknarflokkurinn, Ómar Ragnarssonar í Eymundssonum, að Hið íslenzka þjóðvinafélaga Svenska Neo-nazister Förbundet Donald Trumpaði aðeins Alþjóðasamband Vedantista-a The International Socialist Association sem Alþjóðasamtök kvikmyndagagnrýnenda-in varð til The First National Bank of the United States of America. Það var Rolex."
Þetta má skýra á þessa vegu: Framsóknarflokkurinn hefur keypt réttinn á orðinu tíð, enda eru það helst sveitamenn sem taka sér það í munn; Ómar Ragnarsson hefur keypt réttinn á segja, enda er nefndur maður þekktur fyrir að hafa frá mörgu að segja; Eymundsson hefur tryggt sér réttinn á bækur, Hið íslenzka þjóðvinafélag á íslenskur; Svenska Neo-nazister Förbundet á þjóð; Donald Trump á eiga, enda á sá maður giska margt; Alþjóðasamband Vedantista á einn, enda aðhyllast Vedantistar þá kenningu að allt sé Eitt; The International Socialist Association á sameign; Alþjóðasamtök kvikmyndagagnrýnenda á meta; The First National Bank of the United States of America á fé og Rolex á klukka.
Orðið aðeins helst óbreytt, enda vill eðlilega enginn láta svo smáskítlegt orð heita í höfuðið á sér.
2) Engin gæði á jörðu verði látin áfram hírast í hryssingsviðri sameignar. Þannig verði sjálfu andrúmsloftinu komið í skjól einkaeignar og allir menn látnir greiða gjald til þeirra sem veifað geti plaggi uppá að þeir eigi súrefnið í loftinu. Þeir sem ekki geta staðið skil á gjaldi þessu fá heldur ekki að draga lífsandann.
3) Æviferill manna verði einkavæddur. Þannig verði haldið uppboð á ungabörnum örfáum dögum eftir að þau fæðast svo fyrirtæki geti keypt þau sér til eignar og stýrt lífshlaupi þeirra frá vöggu til grafar. Á þennan hátt getur t.d. Skólpræsafélagið s\f keypt sér kippu af krógum til að þræla í ræsunum fyrir ekkert kaup alla ævi, í stað þess að þurfa að standa í endalausum og útjaskandi samningaviðræðum við heimtufrekt starfsfólk (eða vinnueiningar öllu heldur, afsakið).
4) Lögin verði einkavætt. Þannig munu það ekki verða misvitrir pólitíkusar sem annast lagasetningu í framtíðinni, heldur munu einstaklingar og fyrirtæki einfaldlega borga fyrir að vissar greinar verði settar inn í löggjöfina. Nú óska tveir aðilar eða fleiri eftir að lögfestar verði greinar sem stangast á hver við aðra, og skal þá sá fá sína lögfesta sem viljugur er að greiða hæsta verðið fyrir.
Við skulum taka ímyndað dæmi um hvernig þessi tegund einkavæðingar gæti gengið fyrir sig: Jóel Engilbertsson, 45 ára feitlaginn framkvæmdastjóri með rauðbirkið hár og rykgrá augu, þráir að þurrka út visst skordýr er hann telur standa viðskiptahagsmunum sínum fyrir þrifum. Jóel vill hins vegar ekki eiga á hættu að verða stungið í steininn fyrir að má þennan blett á tilveru sinni út, og því notar hann hluta af hinum geypilegu fjármunum sínum til að láta smokra eftirfarandi klausu í sakarlöggjöfina:
"Grein 65.1.a, undirgrein 12.b: 45 ára feitlögnum framkvæmdastjórum með rauðbirkið hár og rykgrá augu skal heimilt að myrða hvern þann er þeim þóknast miðvikudaginn 13. október árið 2007 e.kr. klukkan 20:10."
Eftir þennan gjörning er það einfaldasta og öruggasta mál í heimi fyrir Jóel að fara heim til pöddunnar og stúta henni á tilsettum tíma.
- Sjá, lúnir landar mínir! Óveðursskýin verða hvínandi hvít á ný! Hafið verður aftur jafnt stillt og letidýr sem búið er að pumpa pakkfullt af slævandi lyfjum! Myrkrahöfðinginn sleppir krímugum krumlunum af náum vorum! Sultarvofan gufar upp jafn skjótt og sósublettur af skyrtu í bala fullum af einhverju undraþvottaefninu! Fálki Frónar grípur með knífskörpum klóm sínum um eitraða örina sem lagði hann vesæl að velli og rykkir ruslinu úr hágöfgu hjarta sínu og breiðir út brandhvassa vængina og skýst upp til skýja! Fálkinn flýgur á ný! Föðurland vort lifir! Landið er aftur orðið fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar blika eins og . . . einhver andskotinn! Sjá, hetjur vorar eru ekki dauðar! Þarna rísa þær úr gröfum sínum ein á fætur annarri, og það meira að segja í sömu röð og þær gylla bókstafina í sögubókum vorum niðja sinna: fyrstur birtist Ingólfur Arnarson, svo Egill Skallagrímsson, þá Snorri Sturluson, því næst Hallgrímur Pétursson og loks Jón Sigurðsson. Allir líta ljósberarnir óblendnum aðdáunaraugum á fósturjörð sína; öllum vöknar þeim um hvarma við að líta dýrðina; allir opna þeir mektarmunn sinn upp á gátt og æpa í einum kór súrrandi sigurópið; gleðiorgið sem glymja mun í hlustum heimsins þá er dómsdagur rennur loks upp bjartur og blossandi eftir dökka og dreyra hroðna vargöldina og jörðin baðast í glimrandi geislum almættisins og mannssonurinn stígur niður af himnum í annað sinn, kyrtli sveipaður og svífandi á gullroðnu guðdómsskýi; úr brunndjúpum börkum dáindissona Íslands drynur eitt einhljóma herlegheitakall herlegheitakall voldugt sem vængjasláttur undurhvítrar álftarinnar þar sem hún þýtur í mörgþúsund metra hæð áleiðis til suðrænna sólarstranda, hörfandi af hyggindum sínum undan fimbulvetri frónar með eljufulla einbeitinguna logandi og leiftrandi úr glyrnunum er glampa sem mánablik á mjallhuldri tjörn uppi á tígullegri háfjallaheiði; herlegheitakall espandi indælt sem lauflagður könglakrans á ilmandi viðarhurð værðarlegs timburkofa með taugaslakandi bál brennandi í arni í óróaskreyttri stofu og vetrarliljur vaggandi þýðlega við þekkan hörpuslátt af himnum á sólmáluðum svölum, meðan sælan umvefur allt á fannþöktum fjallstindinum um stjörnulýsta og stafkyrra jólanóttu og þetta svimandi sæluhróp fyllir hrímuð hjörtu alls er lifir af eldi gæskuríks guðs og bræðir brátt sem elding utan af þeim kremjandi klakaböndin svo urrandi alsælan og gutlandi gleðin sendast upp úr sinnisdjúpunum skjótt sem skotflaugar og flóa út fyrir öskju andans og lyfta á brims síns löðri sótugri sálinni heim í himinrann, þar sem lindir lambsins vökva skrælnaða skorpu hennar og drepa dúnmeyrt, safavellandi, sunnubjart og unaðslostætt aldinkjötið sem innan í leynist úr lamandi dróma sínum; þetta heróp himneskrar dýrðar endurómar um öll byggð ból víðrar veraldar, og það hljóðar svo:
Lifi einkavæðingin!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.7.2007 | 20:55
Hégómi, aumasti hégómi!
Enginn sem horfir allsgáðum og spekingslegum augum á tilveruna getur komist undan því að telja alla hluti undir sólinni helberan hégóma og fánýti.
Íhugið málið.. Hvað eru vorar sorgir og gleði, sigrar og ósigrar þegar vér erum sáluð og allir sem þekktu oss sömuleiðis komnir undir græna torfu?
Einstaklingar, kynslóðir og siðmenningar koma og fara og skilja ekkert eftir til minja um sig.
Og sólin sjálf, sem virðist ímynd eilífðarinnar vorum skammvinnu augum hún mun á endanum verða uppiskroppa með eldsneyti og þjappast saman í gráa dvergstjörnu, dauðan grjóthnullung á tilgangslausu sveimi í óravíddum himingeimsins.
Veröldin veltist til og frá og hingað og þangað og upp og niður, en á endanum skiptir veltingurinn ekki minnsta máli.
Allt er forgengilegt. Því skiptir ekkert nokkru einasta máli í hinu stærra samhengi hlutanna.
Ýmsar heimspekiþenkjandi mannverur vilja meina að þótt allt sé vissulega tilgangslaust í eðli sínu, þá geti maðurinn glætt tilveruna merkingu, t.d. með því að líta á heiminn sem saklausan leik þar sem enginn tapar og enginn vinnur þegar upp er staðið það eina sem skipti máli er að leika þann eilífa gleðiríka leik sem jarðlífið er.
Vissa samúð má hafa með ofangreindu sjónarmiði. En á endanum ristir það ekki nógu djúpt að telja veröldina saklaust leiksvið, því fyrr eða seinna fær maður leið á því að leika sér. Og þegar sæluvímu leiksins þrýtur, hvað bíður manns þá annað en gamli, grái, tilgangssnauði veraldarveltingurinn, hringekja hégómans?
Nei, við verðum að rýna dýpra og fastar í rúnir og rök heimsins!
Fáeinir karlar og konur hafa í sögunnar rás talið sig hafa komist í samband við yfirlægan veruleika sem einkennist af altækum kærleika og algjörri visku og öllu fremur þeirri bjargföstu sannfæringu að allt hið forgengilega þjóni ómetanlegum tilgangi sem tímabundin birtingarmynd hins handanlæga en þó ídveljandi raundóms, sem er hið eina verulega í veröldinni, þegar öll kurl eru komin til kumls.
Ofangreindur veruleiki hefur verið nefndur ýmsum nöfnum á mismunandi stöðum og tímum: Guð, Sjálfið, Eilífðin, Nirvana, Andinn o.s.frv. Eftirleiðis í þessum pistli mun ég nota orðið Andi um þessi hinstu reginrök heimsins.
Og hér erum vér komin að kjarna ´tilgangsleysiskenndarinnar´ sem greinarkorn þetta hófst á að útlista. Það er veraldleg hugsun, þenking sem einskorðast við tíma og rúm, sem æðrast yfir markmiðsleysi og forgengileika allra jarðneskra hluta, vegna þess að í tíma og rúmi per se er allt vissulega á hverfanda hveli, og enga stefnu að sjá neins staðar. Tilgangurinn með veröld stundleikans opinberast einungis þeim augum sem eygja hina himinfenglegu staðreynd, að heimur tíma og rúms sé í raun dýrðleg og kærleiksþrungin myndbirting æðri afla leyndra.
Og hvaða markmið öðlast mannlífið í þessari dásemdar eilífðarsýn? Jú, stefnumið vort verður einfaldlega að hjálpa sjálfum oss og sem flestum öðrum að smokra sér úr krumlum hins jarðlega og fánýta, og fleygja sér í feginsfaðm hins himneska og alnýta.
Vert er að taka fram að þessi viðleitni, að hjálpa sem flestum öðrum verum að upplifa Himininn, felur nauðsynlega í sér allar hinar minniháttar tilraunir til félagslegra umbóta ekki er hægt að ætlast til þess að sveltandi og útþrælkaður maður hafi mikið rúm í sínu sálartetri til að íhuga Andann.
Vér erum stödd hér á Jörðu til að læra hve fánýtir allir jarðneskir hlutir eru þegar þeir eru slitnir úr samhengi við Andann en fánýtiskennd þessi lærist oss ekki með því að hafna heimi efnisins, heldur þvert á móti með því að sökkva okkur á bólakaf ofan í hann. Það er ekki fyrr en eftir ótal jarðvistir, þegar vér höfum étið okkur fullsödd af mylsnum jarðneskra upplifana, sem vér finnum okkur knúin til að snúa baki við öllu jarðnesku kruðeríi og leita leiðarinnar til tertugerðarinnar á Himnum á ný. En þegar téð Himnabakarí er fundið, þá finnum vér oss knúin til að koma aftur til Jarðar og útdeila ódáinskökunni, sem vér höfum fengið í Guðaheimum, með sem flestum hungruðum meðsystkinum vorum á storðu.
Því má segja að vér höfnum Jörðinni aðeins til að snúa til hennar aftur þegar vér höfum yfirstigið hana fyrir fullt og allt, séð í gengum blekkingu fallvaltleikans og öðlast skýra sýn á Andann sem að baki Jörðinni dvelur.
Og nú eygjum vér loksins hið súblíma og algjöra andsvar við tilgangsleysiskenndinni sem tæpt var á í upphafi pistils: Andinn heldur áfram að vera til þótt öll form, þar með talið sólkerfið sjálft, líði undir lok; því þegar formið sem Andinn íklæðist hættir að falla að þörfum Hans og verður spennitreyja í stað þess að vera passleg flík, þá afklæðist Andinn forminu (sem eyðist þar með) og kýs sér annað sem betur hentar vexti Hans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.7.2007 | 16:49
Búddisminn - trú fyrir trúlausa!
Ekki getur allt fólk sætt sig við tilhugsunina um að til sé Almætti. Í sumra augum er trúin á Guð svipuð trú barna á jólasveininn. Og svo logar allt í erjum milli hinna trúuðu og hinna vantrúuðu.
En hinn mikli Búdda myndi hafa sagt : ´þetta er allt saman vitleysa og orkusóun. Allar rökræður um Guð eða sálina eða önnur álíka fenómen er tóm tímaeyðsla. Eða hverju er manneskjan bættari til eða frá þótt hún trúi á einhvern yfirskilvitlegan veruleika eður ei? Karp um tilvist og eðli frumspekilegs raundóms er áþekkt því að velta því fyrir sér hver kveikti í húsinu þegar það brennur - það eina sem gildir er að koma sér út úr brandvítinu!"
En ´að koma sér út úr hinu brennandi húsi´ er myndlíking Búdda fyrir það að losna úr greipum hinnar þráorsökuðu þjáningar og upplifa þann altæka kærleika og visku sem nefnist ´Nirvana´.
Er Nirvana til? gætu sumir spurt. Er það ekki bara enn eitt frumspekibullhugtakið, áþekkt Guðskonseptinu? - Og svarið er : vissar manneskjur hafa í aldanna rás talið sig hafa komist í snertingu við algjöran, skilyrðislausan kærleika og visku. Ef við trúum að fólk sé upp til hópa heiðarlegt og sannsögult, þá virðist tilhæfulaust að vísa vitnisburði ofantéðra mannvera á bug, einungis vegna þess að okkur hugnast ekki það sem þær hafa að segja.
Og munum að Búdda bað okkur ekki að trúa á Nirvana, líkt og Kristindómurinn fer fram á að við trúum á fórnardauða Jesú. Eins og meistari Búdda sagði lærisveinum sínum (ekki orðrétt, en í essensu): ´ekki bið ég ykkur að trúa því sem ég boða bara vegna þess að ég segi það, né sakir þess að þið hafið heyrt einhverja aðra segja það, né vegna þess að þið hafið lesið það í helgiritum eða öðrum bókum, né sakir þess að ykkur finnst það skynsamlegt og rökfræðilega sannfærandi, né vegna þess að það kitlar eyrun og virkar aðlaðandi - nei, það eina sem ég vísa til er prívatleg, bein, milliliðalaus reynsla hvers eins og einasta ykkar.´
Við getum ekki öll verið sammála um tilvist Guðs; eflaust mun fólk rífast um það efni um aldir og árþúsundir héreftir sem hingaðtil. En við getum öll fallist á að kærleikur og viska eru eftirsóknarverðustu hnoss í heimi, sama hve ólík lífsviðhorf við höfum tamið okkur að öðru leyti. Og inntak Búddismans er einmitt kærleikur og viska, sem bein og óræk reynsla hvers einstaklings, en ekki frumspekilegar þrætubækur í stíl við það sem önnur trúarbrögð eru stútfull af.
Því árétta ég titil þessa greinarkorns með nokkuð öðru orðalagi : Búddisminn er trúarbrögð fyrir þá sem vilja ekkert með trúarbrögð hafa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ofangreinda staðhæfingu mætti setja fram með nokkuð öðrum (en þó eðlisskyldum) hætti: "Öll þjáning er vakningarkall frá Guði um að sigrast á hinni einu sönnu rót þjáningarinnar, sem er helsið í búri "hins tillærða sjálfs"."
Hér gefst ekkert tóm til að skeggræða í löngu máli hvað felst í hugtakinu "hið tillærða sjálf," enda er það umfjöllunarefni seintæmt. Aðeins skal á það bent að nefnt hugtak byggist á þeirri áráttu (sem flestu fólki er eðlislæg allt frá bernsku) að samsama sig "hug- og líkama". Samsemd þessi felur í sér, en takmarkast ekki við, að maðurinn telur sig vera það samansafn þjóðfélagslegrar innrætingar annars vegar og áunninna (og nú ósjálfráðra) tilhneiginga úr æsku hinsvegar, sem byrgir sýn á hið sanna og ódauðlega Sjálf mannsins, líkt og skýin skyggja á geisla sólarinnar.
Sá/sú, sem hefur öðlast þann skilning sem tæpt var á í upphafi greinar, að öll þjáning þjóni því augnamiði að vekja oss til vitundar um vora sönnu og himnesku náttúru, getur aldrei örvænt eða æðrast, sama hvernig veröldin veltist. Hann/hún sér hið guðdómlega plan með þjáningunni og fylkir sér að baki áformi hinnar miklu Móður um endanlega útrýmingu eymdarinnar.
En er ekki ákveðin þversögn fólgin í þessu öllu saman? Úr því þjáningin er ætíð til góðs á endanum, hví þá að hafa nokkra samúð með þeim sem við kröm og eymd búa? Er ekki bara best að láta þjáninguna hafa sinn gang?
Þessu er til að svara að "sjáandinn" (en svo getum við kallað þá mannveru sem vaknað hefur upp til vitundar um gildi og takmark þjáningarinnar) missir ekki hætishót af löngun sinni til að lina eymd annarra. Munurinn á "sjáandanum" og "ósjáandanum" (ef við getum brúkað svo ljótt orð) felst einvörðungu í því að sá síðarnefndi leitar allskyns gervilausna til að lina þjáninguna, en sá fyrrrnefndi ræðst beint á rót vandans, sem er samsömunin við "hug- og líkama", þ.e. "hið tillærða sjálf".
En nú er freistandi að spyrja: úr því allar félagslegar umbætur stemma ekki ána að ósi, og teljast því á endanum til gervilausna, eru þær þá ekki einbert fánýti?
Fjarri fer því!
Að sjálfsögðu er það svo að ef einhvern hungrar, þá gefum við honum að borða; ef einhver er heimilislaus, þá skjótum við yfir hann skjólshúsi; ef ójöfnuður er talinn of mikill í samfélaginu, þá reynum við að jafna hann, o.s.frv. Allt er þetta órofa hluti okkar æðra eðlis, og ágætt svo langt sem það nær. En við megum aldrei falla í þá gryfju að ruglast á slíkum "bráðabirgðalausnum" og hinni einu raunhlítu lækningu þjáningarinnar, sem er að binda enda á samsömunina við "hið tillærða sjálf". Að öðrum kosti er hætt við að við skiptum aðeins út einni eymdinni fyrir aðra, þannig að í stað þess að hungra og þyrsta í bókstaflegum skilningi þá fer fólk að hungra og þyrsta í að sanka að sér sem mestum veraldargæðum, og annað álíka.
(Merkilegt er annars hve illa mannkyninu vegnar yfirleitt að feta hinn gullna meðalveg öfganna í efnislegu tilliti – ýmist ríkir ömurleg örbirgð eða hóflaust hóglífi. En hér erum við komin út fyrir meginefni pistilsins.)
En nú er von að glöggir lesendur spyrji: allt þetta tal um lausnina úr búri samsemdarinnar við "hug- og líkama" er gott og gilt. En hvernig á að fara að því, á konkretan og praktískan hátt, að öðlast þessa frelsun úr krumlum "hins tillærða sjálfs" sem höfundur fullyrðir að sé orsök allrar þjáningar á jarðríki?
Hér getur höfundur ekki gert betur en að vitna í spakmæli eftir ónefndan speking austrænan: "Vondu fréttirnar eru þær að engin leið er til að dyrum Frelsisins. Góðu fréttirnar eru þær að dyrnar hafa aldrei verið lokaðar..."
Kári Auðar Svansson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.7.2007 | 20:07
Hvað er karmalögmálið ofan á brauð?
Karmalögmálið er ekki beinlínis lögmál umbunar og refsingar, þótt það sé vissulega réttlátt og sanngjarnt - já, meira að segja sjálf uppfylling og konsúmmering allra hugmynda mannsins um réttlæti og sanngirni.
Réttasta skilgreining karmalögmálsins er sú að það sé tæki til að hjálpa okkur að öðlast jafnvægi í öllum þingum með því að láta okkur ávallt upplifa báðar hliðar hlutanna. Tökum þrjú dæmi:
a) Nú hefur sál fæðst sem kona í mun fleiri jarðvistum en hún hefur verið borin sem karl. Þessa skekkju verður að leiðrétta með því að láta nefnda sál holdgast sem karl í nokkrar jarðvistir í röð, þar til jafnvægi hefur verið náð í anda sem líkama milli kven- og karlþátta tilverunnar.
b) Nú temur einhver öfga-trúarskrumari sér þá leiðu iðju að hóta þeim, sem hyggjast yfirgefa söfnuð hans, með brennisteinsstækju og helvítislogum. Þessi sál verður fyrr eða síðar að upplifa það að óttast að hún sé sjálf á leiðinni í eilífa útskúfun í helvíti, til þess að henni megi lærast að hræðast hvorki sjálf né ógna öðrum með svo ógeðfelldri og falskri hugmynd sem ævarandi vist í víti er.
c) Nú hundsar einhver sál ítrekað neyð og fátækt annars fólks, þótt henni væri væri í lófa lagið að rétta hinum þurfandi hjálparhönd. Sú sál verður að upplifa hvernig er að vera fædd í örbirgð til að öðlast samúð með öðrum sem eiga við svipuð ókjör að búa.
(En nú er von að glöggir lesendur spyrji, að úr því fátækt stafi a.m.k. stundum af vanrækslusyndum á fyrri tilverustigum, hvort ekki sé þá eðlilegt að láta hina páperíseruðu bara velkjast í eigin fátækt án þess að nokkur rétti þeim hjálparhönd? Spurning þessi á fullan rétt á sér, því karmakenningin er víða útlögð með þessum og áþekkum hætti, bæði á Indlandi og innan hinnar sk. ´nýaldarhreyfingar´ á Vesturlöndum. - En svarið við ofantéðri spurningu er ´já´ aðeins við yfirborðslega hundavaðsathugun. Hér gildir hinn spaklegi orðskviður, að ´tvennt rangt gerir ekki eitt rétt.´ Munum að hin fátæktarvanræksluseka sála er fátæk einmitt vegna þess að hún er sek um að vanrækja fátækt. Þetta merkir að það óheillaathæfi okkar að bregðast við fátækt meðsystkinanna, sem stafar af fyrrilífa vanrækslu þeirra gagnvart fátækum, með því að vanrækja sjálf fátækt nefndra meðsystkina, bætir aðeins gráu ofan á svart; skapar einungis meira slæmt karma í stað þess að eyða því gamla. - Eða hvar endar hringavitleysan ef ég hundsa fátækt þess manns, sem er fátækur vegna þess að hann hefur leitt hjá sér þann mann, sem er fátækur sakir þess að hann hefur vanrækt þann mann, sem er fátækur . . . og þannig heldur vítahringurinn áfram ÞAR TIL einhver vitur sála rýfur hann með því að gera hið eina siðlega og rétta hinum fátæka hjálpahönd svo hann geti hafist upp úr örbirgðinni - vonandi reynslunni ríkari! - En alkunna er að fólk sem alist hefur upp í fátækt en komist síðar í álnir gleymir því aldrei hvaðan það er komið; í deiglu fátæktarinnar hefur það öðlast auðmýkt, visku og óbilandi samúð og meðlíðan með þeim sem eiga sjálfir við fátækt að etja. Án hinnar undangengnu örbirgðar hefði það aldrei komist upp á þennan kærleiksstall. - Og með öllu ofangreindu er loks fetaður hinn eftirsóknaverði meðalvegur milli þess að líða skort og að vera nirfill.)
Eitt að lokum! Guð er miskunnsamur og fyrirgefandi, og það er hugarsmíð hans, karmalögmálið, auðvitað líka. Þetta merkir að sá maður sem gerir eitthvað er kallar á karmíska mótsveiflu, en ´sér að sér´ og bætir fyrir ´brotið´ áður en karma-pendúllinn sveiflast yfir í öndverða átt, þarf ekki að upplifa karma-endurverkunina, þar sem hann hefur nú þegar náð því jafnvægi er allt karma stefnir á að koma í kring.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 14.7.2007 kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2007 | 16:54
Hví deyjum við?
Hví deyjum við?
Í sem skemmstu máli má segja að við deyjum til að:
1) Forðast að Jörðin yfirfyllist af fólki. Mannfjöldasprengingin er nú þegar eitt stærsta vandamál samtíðarinnar. Getið þið ímyndað ykkur hve óendanlega miklu meiri vandi væri á ferð ef enginn dæi til að rýma fyrir nýjum jarðbúum? Þarna kemur dauðinn og hin eftirfylgjandi líkrotnun til bjargar.
2) Sálin hljóti nýjan og betri búning þegar sá gamli er hættur að vera nothæfur. Óskemmtilegt væri það með meiru ef manneskjan þyrfti að sitja uppi með gamlan, feyskinn og úrsérgenginn líkama um alla eilífð. Ef segja má að ellin sé sjúkdómur, þá er dauðinn lækningin!
3) Við getum öðlast sem ríkasta og fjölbreytilegasta reynslu (gegnum hringrás dauða og fæðinga, þ.e. endurholdgun). Plan Guðdómsins með hvert og eitt okkar er að kenna okkur, gegnum hina fimbullöngu jarðvistagöngu, að ná jafnvægi í öllum hlutum. En til þess að ná slíku jafnvægi verðum við að reyna og upplifa andstæður tilverunnar. Það er til dæmis ekki hægt að ná hinu æskilega jafnvægi milli kven- og karlþátta í sálinni nema upplifa það margoft að vera ýmist karl og kona í líkamlegum skilningi. Og um aðrar sálareigindir er áþekkt upp á teningnum. Ef engin væri dauðinn myndum við aldrei endurfæðast, og ef engin væri endurfæðingin yrði reynsla okkar einhliða og í ójafnvægi. Ef manneskjan á sér aðeins eitt jarðlíf, eins og er landlægur ósiður í vestri að álíta, þá gefur augaleið að við getum aldrei öðlast títtnefndan sálarbalans. - Við verðum að prófa að vera kona, og karl, og barn, og foreldri, og heilsuveil, og hraust o.s.frv. oft og títt og margoft. Aðeins þannig næst hið eftirsóknarverða jafnvægi allra hluta í sálartetrinu.
4) Veita oss hvíld frá streði og ströggli jarðlífsins. Ekki að ósekju hefur dauðinn verið kallaður ´svefninn langi´. Svefninn er hvíld frá amstri og áhyggjum vökuheimsins, og á nákvæmlega sama hátt er dauðinn friðarhöfn milli sjóveltings jarðvistanna.
Þá höfum við svarað einni erfiðustu og mikilvægustu gátu sem maðurinn hefur spurt sig frá því í árdaga tegundarinnar. Og sjá! svarið er svo nauðaeinfalt að það þarf sérstakan aulahátt til að koma ekki auga á það. Og þannig er því einmitt farið með allan mikinn sannleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2007 | 18:41
Jarðtengist, í andsk . . . nafni!
Sá sem þessar línur ritar hefur átt við afar illskeyttan sinnissjúkdóm að stríða í meira en fimm ár.
Of langt mál væri að rekja hér nákvæmlega tilurð og eðli geðklofans (en svo nefnist sjúkdómurinn). Læt ég mér nægja að segja að þegar ég var sem veikastur taldi ég mig vera þriðju holdtekju Guðdómsins á Jörðu (hinir fyrri tveir voru meistari Búdda og meistari Kristur). Þessu fylgdi svæsin vænisýki, þar sem ég taldi - eðlilega! - að Myrkrahöfðinginn væri á höttunum eftir mér og ætlaði að beita öllum þeim illskubrögðum sem hann ætti upp í erminni til að hindra mig í að uppfylla Messíasarhlutskipti mitt.
Hvað tilurðina að sefakrankleikanum varðar þá tel ég ástæðuna vera umfram allt : of mögnuð andleg reynsla samfara of lítilli jarðtengingu. Ég hugleiddi eins og vitlaus maður og sökkti mér ofan í alls kyns ójarðnesk fræði. Og vissulega sá ég ljósið gegnum hugleiðsluna! - en því miður er ég hræddur um að birtan hafi verið of skær fyrir heila minn, og hafi hreinlega grillað hann. Líki ég þessu oft við ljósaperu : ef of sterkum straumi er hleypt á peruna, þá springur hún. Önnur líking sem ég gríp gjarnan til er sú að heilinn er eins og blaðra : ef blaðran er ekki kyrfilega tjóðruð við Jörðina þá svífur hún bara eitthvert út í buskann, fullkomlega á valdi duttlungum vindanna.
Því má segja að sá mikli bati sem ég hef vissulega öðlast síðastliðin fimm ár sé aðallega því að þakka að ég hafi smátt og smátt verið að koma niður til Jarðar á ný. Farinn er ég að lesa óandlegar bókmenntir (spennusögur og annað þess háttar), stunda göngur og sund, hafa samskipti við venjulegt og jarðbundið fólk (og, það sem er ennþá betra, fólk sem hefur engan áhuga á andlegum fræðum eða er jafnvel aktíft á móti þeim), virða fyrir mér undur náttúrunnar, faðma tré og klappa dýrum, horfa á veraldlegar bíómyndir, hlusta á rokk og aðra jarðræna og viskerala tónlist, og þannig mætti áfram telja.
Því get ég ekki brýnt nógsamlega fyrir öllum andlegum leitendum að tryggja það að þeir séu nógu rækilega jarðtengdir, áður en (eða a.m.k. samhliða því að) þeir taki að leggja stund á hugleiðslu eða andleg fræði. Að öðrum kosti, ef jarðbindinguna skortir, er hætt við því að afleiðingarnar verði herfilegar - eins og ég er sorglegt dæmi um!
Ég ætla að ljúka pistli mínum á eilitlu orðsifjaspjalli. Orðið ´heilagur´ þýðir í raun aðeins það sem merking þess gefur til kynna - þ.e. að vera ´heill´. Og hvað er að vera ´heill´? Jú, það er að leggja jafna rækt við allar hliðar verundar sinnar; sál jafnt sem líkama, Jörðu jafnt sem Himnanna, skynsemi jafnt sem innsæi, o.s.frv.
Því ítreka ég áeggjan mína til þeirra sem hafa hug á að leggja út á hina andlegu brautu : jarðtengist, jarðtengist, jarðtengist! Að öðrum kosti gæti leið ykkar legið beint inná klikkhúsið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)