Færsluflokkur: Bloggar
7.10.2007 | 19:09
Goðsögnin um alþjóðastöðu enskunnar
Ýmsar manneskjur sem lesa yfirskrift þessa pistils munu væntanlega hvá og spyrja í hjartans einfeldni hvort allir tali ekki ensku núorðið?
Þessi trú, að allir tali ensku nútildags, er ekkert annað en argasta hjátrú sakleysingja sem hafa aldrei haft nein veruleg kynni af útlendingum utan hins engilsaxneska málsvæðis. Þessa fullyrðingu mína, sem mörgum mun þykja af djarfara taginu, styð ég meðal annars þeim rökum að skoðanakannanir hafa ítrekað leitt í ljós að innan við einn tíundi hluti íbúa Evrópusambandsins (enskumælandi þjóðir undanskildar, að sjálfsögðu) skilur þótt ekki sé nema einföldustu barna-babbls ensku.
Þetta þarf í raun ekki að koma svo mjög á óvart við nánari tilhugsun. Ástæða þess að við Íslendingar kunnum ensku svona vel (reyndar eru áhöld um hvort við höfum svo gott vald á ensku eftir allt saman - en látum það vera hér) er ósköp einfaldlega landfræðileg og menningarleg nálægð fósturjarðar vorrar við helsta stórveldi heims, Bandaríkin. Í flestum öðrum löndum Evrópu, sem ekki búa við nefnda nálægð, er allt annað upp á teningnum. Þar hlustar fólk að mestu á innlenda popptónlist á sínu móðurmáli og allt sjónvarpsefni er talsett; og námsefni í skólum, jafnvel háskólum, er að mestu leyti á móðurmáli téðra þjóða. Útkoman er sú að ólíkt Íslandi, þar sem enskan glymur stöðugt í öllum ljósvakamiðlum, þá eru kynni ó-enskumælandi Evrópuþjóða af engilsaxneskunni einfaldlega af of skornum skammti til að fólk læri þessa máttugu ´alþjóðatungu´ að nokkru ráði.
Og fyrst málum er svona fyrirkomið í Evrópu, þá er borin von að ástandið sé nokkru skárra í öðrum heimshlutum, sem enn fjær eru í sveit settar hinu enskusprokandi málsvæði.
Og ástandið á bara eftir að versna. Orsakir þess að enskan á að heita alþjóðatunga hafa ekkert að gera með kosti eða lesti enskunnar sem tungumáls; meginorsökin er einfaldlega hernaðarlegir og efnahagslegir yfirburðir hinna enskumælandi landa. Eftir því sem þjóðum, sem aðrar tungur tala, vex fiskur um hrygg í efnahags- og hernaðarmálum þá rýrnar að sama skapi staða enskunnar sem milliþjóðamáls. Þjóðverjar, Japanir og ýmis önnur upprennandi stórveldi hafa núorðið fullt efni á því að krefjast af viðskiptaþjóðum sínum að hin hagrænu samskipti fari fram einvörðungu á tungum nefndra risavelda.
Og ýmsir þykjast sjá þess teikn á lofti að kínverskan muni á næstu áratugum þoka enskunni til hliðar sem alþjóðatungu. Líkt og með enskuna hefur þróun þessi ekkert með ágæti kínverskunnar að gera sem tungumáls; ástæðan er eingöngu hinn ævintýralegi hernaðar-og hagfræðiuppgangur kínversku þjóðarinnar.
En það eru mjög góð rök fyrir því að hvorki enskan né kínverskan né nokkur önnur lifandi þjóðtunga eigi skilið að þjóna hlutverki milliþjóðamáls. Og þau rök eru á þann veginn að þeirri þjóð eða þeim þjóðum, sem eiga slíkt sprok að móðurmáli, er í lófa lagið að gína yfir öllu andlegu og menningarlegu lífi jarðarbúa. Að eiga alþjóðamálið að móðurtungu veitir því fólki, sem svo heppilega er í sveit sett, algerlega óviðunandi forskot á aðrar þjóðir, sem verða að kosta til miklu erfiði til að nema hina útvöldu tungu, er hluti jarðarbúa hlýtur í allsendis óverðskuldaða forréttinda-vöggugjöf.
Til þess að setja sér þessa staðreynd rækilega fyrir sjónir skal lesendum bent á að íhuga hvernig málum yrði skipað hér í heimi ef vort ástkæra móðurmál hlyti sess alþjóðatungu. Rennið í huganum yfir samskipti ykkar við erlent fólk sem sest hefur hér að, jafnvel manneskjur sem hafa búið hér svo áratugum skiptir. Reynið að rifja upp yfirburðakenndina sem þið hafið haft í þessháttar samskiptum; hvernig þið hafið hneigst til að tala niður til íslensku-stautaranna erlendu líkt og um hálf-ómálga börn væri að ræða. Og þegar þið hafið sett ykkur þetta nógu rækilega fyrir hugskotssjónir, þá skuluð þið koma til mín og reyna að réttlæta það að enskan eða nokkur önnur lifandi þjóðtunga eigi skilið að skipa sess milliþjóðasproks.
En hvað er þá til ráða? Ég mun leitast við að svara þessari spurningu eftir bestu getu í komandi pistli / pistlum.
Bloggar | Breytt 8.10.2007 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 19:00
Lesið helgirit heimsins
Lestur helstu helgirita veraldar er ómetanlegur andlegur fjársjóður öllum skynibornum mannverum. Slíkur lestur eykur víðsýni og spiritúela dýpt, og er óbrigðult meðal við hvers kyns öfgum og eintrjáningshætti - sérstaklega því andans eitri að telja eigin trúarbrögð hin einu sem Guði þóknanleg eru. Því hver sú manneskja sem kynnir sér af kostgæfni allar helstu trúarbókmenntir Jarðar kemst ekki hjá því að vera slegin þeirri kennd að þetta sé meira eða minna allt sama vatnið, einungis í mismunandi ílátum.
Til að leiðbeina nýgræðingum í þessum fræðum eilítið skulu nú talin upp megin helgirit hinna aðskiljanlegu trúarhreyfinga heims:
Kristni og Gyðingdómur- Nýja testamentið allt (fyrir utan hina geðklofakenndu Opinberunarbók Jóhannesar, sem vel má hlaupa yfir) og nokkrar bækur úr Gamla testamentinu, s.s. Jobsbók og Prédikarann (annars má að mestu sleppa Gamla testamentinu, nema fólk hafi morbískan áhuga á hlutum sem vekja viðurstyggð öllum siðmenntuðum manneskjum). Einnig ráðlegg ég fólki að kynna sér rit um Kabbala, launspekiarm Gyðingdómsins. Og devósjónel dulspekirit Kristindómsins eru mörg hver afar athyglisverð (Tómas a Kempis, Meister Eckhart o.fl.), þótt viðurkenna verði ég að hafa ekki lesið þau sem skildi - það er nokkuð sem ég þarf að bæta úr!
Platónismi - Þar gnæfa auðvitað hæst rit andans jöfursins Platóns, en einnig má benda á nokkra aðra sporgöngumenn Platóns, sem jafnan eru kallaðir ný-platónistar; þar ber fremstan að nefna Plótínos nokkurn.
Hindúismi - Hindúasiður hefur að geyma sennilega ríkustu og fjölskrúðustu bókmenntir allra trúarbragða þessarar plánetu. Þar ber auðvitað höfuð og herðar yfir aðrar hin ægifagra Bhagavad Gita, en einnig má benda á hin oft stórbrotnu Vedarit (þar helstar hinar mystísku perlur sem nefnast Upanishödur). Aukinheldur er vert að minnast á tvær andlegar fjársjóðskistur, sem teljast að vísu ekki til eiginlegra helgirita, en hafa engu að síður mótað mjög trúarlega lyndiseinkunn Indverja að fornu og nýju : sagnabálkarnir tveir Ramayana og Mahabharata, (en fyrrgreind Bhagavad Gita er einungis einn tiltölulega stuttur kafli í síðarnefndu epíkinni). Þá eru Jóga-sútrur Patanjalis mikil gullnáma. Og hvað ný-hindúisma snertir má mæla með ræðusöfnum og ritum hins virta andans fílósófs Satya Sai Baba. Og ýmsir telja ´Ævisögu Jóga´ eftir Paramahamsa Yogananda eitt merkasta rit sem samið hefur verið um andleg málefni. Og ekki má gleyma Vedanta-spekinni, sem ófáir álíta sjálfan gulltind hins mikla fjalls hindúískrar heimspeki. Vedanta-spekin hefur verið kölluð samnefnari og sýnþesa allrar trúarhugsunar mannkyns, hvorki meira né minna; en of langt mál væri að útskýra það hér. - Helstu boðberar Vedanta voru þeir Ramakrishna Paramahamsa, sem hélt fram fölskvalausri einingu allra trúarbragða (sem er ein helsta kenninsetning Vedanta), og lærisveinn hans Swami Vivekananda, sem fyrstur manna kynnti hina forkunnarfögru indversku heimspeki á Vesturlöndum. - Einn hliðarangi Vedanta-spekinnar, sem hlotið hefur allmikla hylli á Vesturlöndum á vorum dögum, nefnist Advaita-vedanta, og boðar róttæka og algera einhyggju (enda þýðir ´Advaita´ bókstaflega ´ótvíleiki´). Merkasti postuli Advaita-vedanta hefðarinnar í síðari tíð er tvímælalaust hinn gríðar-djúpi en jafnframt feyki-skýri heimspekingur Ramana Maharshi. (Annars má segja um Advaita-vedanta spekina að hún hneigist til að boða ópersónulegt Alvald (gjarnan kallað því yfirlætislausa nafni ´Vitundin´) í stað persónulegs Guðs, en indversk fílósófía almennt, og Vedanta-spekin sérstaklega, hefur sterka tilbeygingu til að sameina trú á hinn persónulega Guð og hið ópersónulega Absólúta; allt veltur þetta á sjónarmiði, þroska og persónulegu kjöri hverrar og einnar manneskju). Bækur þeirra Ramakrishna, Vivekananda, Maharshi, og fleiri indverskra spekinga sem ekki hafa verið nefndir hér, er auðsótt að nálgast á Vesturlöndum nútímans - á bókasöfnum, netbókabúðum svo sem Amazon, o.s.frv.
Íslam - Kóraninn (óvænt, óvænt!). Einnig má ráðleggja fólki að kynna sér rit Súfismans, hins esóteríska arms Íslams. Ljóð persneska þrettándualdar skáldrisans Rumi eru fyrirtaks inngangur að námi í Súfa-speki.
Búddismi - Dhammapada (orðskviðir Búdda). Aukinheldur mæli ég með skemmtilegri og djúpri bók sem ég las á Esperantó með heitinu ´La instruoj de Budho´(í enskri þýðingu ´The Instructions of the Buddha´), en það rit veitir ógleymanlega innsýn inn í kínversk-kryddaðan japanskan alþýðubúddisma, sem er um margt merkilega líkur hinum þeísku trúarbrögðum, þótt Búddisminn almennt hneigist til guðleysis; þessi líkindi við guðsmiðaðar religjónir má ráða af því að í ofangreindri bók er Búdda tekinn í guðatölu, og lýsingarnar á valdi hans og visku og alnálægð og öðru þess háttar svipar afar mikið til útmálana guðshverfra trúarbragða á Almættinu.
Taóismi - Bókin um veginn, það magnaða, magnaða rit. Ekki þarf fleiri orð um það.
- Þá er þessari stuttu (og óhjákvæmilega rúdimenteru) upptalningu á mikilvægustu helgiritum veraldar lokið. En auðvitað væri hægt að nefna mörg fleiri, svo ekki sé minnst á þann aragrúa andlegra bókmennta sem ekki falla innan vébanda neinna ákveðinna trúarbragða: eitt dæmi sem kemur sérlega skýrt upp í hugann er ritsafn andans tröllsins danska Martínusar, sem uppi var á fyrri helmingi 20.-aldar. Höfuðverk hans, ´Livets Bog´ (þrjú hnausþykk bindi, hvert um sig yfir 1000 bls. að lengd), er hreinasta eðalelfa öllum manneskjum sem þyrstir í andans svölun; þar er fjallað í löngu, ítarlegu og framúrskarandi skýru og kjarnyrtu máli um hérumbil allt sem snýr að gerð alheims og mannveru, jafnt jarðnesku sem andlegu.
Og þá er bara að hefja lesturinn!
Bloggar | Breytt 6.10.2007 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 12:34
Við erum í helvíti!
Eftir því sem ég vex að þroska og visku þá verður sú staðreynd sífellt skýrari í höfði mínu að lífið hér á Jörðu sé helvíti.
Eða hvað skal annað halda um stað þar sem svo ótal margt fólk er ýmist bæklað eða fatlað eða lamað eða hreyfihamlað eða blint eða heyrnarlaust eða ljótt eða þroskaheft eða örkumlað eða vannært eða stríðshrjátt eða ofbeldi beitt eða útlimsvana eða geðsjúkt eða þrælkað eða örbirgð-við- búandi eða náttúruhamfaraþjakað o.s.frv., o.s.frv.?
Og þótt svo agndoflega vilji til að einhverri sálu auðnist að skakklappast ævistíginn án þess að hrapa ofan í fúafen einhverra ofangreindra hörmunga, þá fær sú manneskja ekkert að launum annað en að falla ofan í daunillt dýki ellinnar, með tilheyrandi stirðleika, heilsubresti og sídvínandi lífsþrótti.
Er það nokkur furða að haft sé eftir meistara Búdda að allt undir sólinni sé þjáning?
En hið allra-allra grábölvaðasta er hve stór hluti hroðans, sem við blasir hvert sem litið er á þessu jarðskrifli, væri tálmanlegur mannlegum mætti, ef aðeins viljinn væri fyrir hendi. Ef við gætum aðeins hunskast til að vera örlítið betri hvert við annað, þá þyrfti lífið á þessum hnetti kannski ekki að vera alveg svona botnlaust svartnætti.
Bloggar | Breytt 2.10.2007 kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2007 | 16:12
Um sálnanna aðskiljanlegan aldur
Einhver mest heillandi og fasínerandi andans fræði sem heiminum hafa opinberast hingað til eru kennd við astral-veruna Michael. Í nefndum fræðum kemur fram stórmerkilegt atriði sem ég hef ekki séð tæpt á í nokkurri annarri andans kennslu á jafn ítarlegan og skemmtilegan hátt. Atriði þetta snýr að hinum mismunandi aldri sálnanna sem eru í endurholdgunarferli sínu hér á Jörðu; það er semsagt svo að sálirnar, sem eru að strita hér í dufti Jarðar, eiga mismargar jarðvistir að baki og endurspeglast það í mismunandi þroska sálnanna. En Michael-fræðin skipta þróunarstigum sálnanna gróflega í fimm flokka, sem hér verða taldir upp í stuttu máli:
1) Hvítvoðungssálir (infant souls) eru nýkomnar niður í efnið, og líf þeirra snýst þar með um að læra að lifa af og sjá um sig sjálfar í efnisheiminum og venjast því að vera fangnar í grófgerðan jarðlíkama. Hvítvoðungssálir eru dulhneigðar að eðlisfari, en á mjög frumstæðan og lítt vitrænan hátt; talshátturinn ´að trúa á stokka og steina´ lýsir mjög vel trúarlyndiseinkunn hvítvoðungssálnanna. - Sálirnar á hvítvoðungsaldri eru svo uppteknar við að læra að sjá um sig sjálfar og höndla tilveruna í hinum framandi og oft ógnvekjandi efnisheimi að eiginlegt fjölskyldulíf fyrirfinnst sjaldnast hjá þeim.
Dæmi um þjóðfélög þar sem hvítvoðungssálir eru í meirihluta eru frumbyggjaþjóðfélög í Afríku og Ástralíu.
2) Barnssálir (baby souls) hafa lært lexíurnar um að lifa af í efninu, og snúa þær sér að næsta skrefi í hinni mannlegu þróun : að byggja upp og viðhalda stofnunum siðmenningarinnar - trúarbrögðum, stjórnkerfi, dómskerfi og öðru þess háttar. Barnssálir eru afar kreddufastar og lítt umburðarlyndar gagnvart sjónarmiðum sem víkja frá þeirra eigin; heimurinn skiptist í svart og hvítt, rétt og rangt, ´okkar veg´ og ´þeirra veg´ - og vitanlega er ´okkar vegur´ sá eini sanni! - Það er á barnssálaraldrinum sem stofnunin fjölskylda verður til, og það með fullum þunga; barnssálirnar mynda afar sterk og samheldin fjölskyldubönd, og svokölluð ´fjölskyldugildi´ eru í hávegum höfð hjá þeim.
Dæmi um þjóðfélög þar sem meirihluti íbúanna er barnssálir eru velflest íslömsk ríki nútímans.
3) Ungar sálir (young souls) hafa lagt að baki uppbyggingu grunn-siðmenningarstofnanna og vinda sér í persónulega framabaráttu. Ungu sálirnar líta á heiminn sem einn allsherjarkeppnisvöll um metorð, frægð, auðæfi og annað þess háttar - og auðvitað ætla þær sér að sigra! Ungar sálir eru yfirleitt afar mótiveraðar, fókuseraðar, iðjusamar og duglegar - en oft á kostnað fyrirhyggju sem og samúðar með öðrum mönnum. Sakir þess hve mjög þær einblína á jarðlífið líta ungu sálirnar oft með forakt á andleg málefni og álíta hugmyndina um framhaldslíf helbera fjarstæðu : það er aðeins til eitt líf og við skulum svo sannarlega ekki láta það fara til spillis, heldur gefa allt okkar í að komast áfram! - Ungsálaraldurinn er mikið uppbyggingarskeið praktískra vitsmuna; tækni og hagnýt vísindi eru oft ungum sálum mjög hugleikin.
Dæmi um þjóðfélög þar sem ungar sálir eru obbi íbúanna eru Bandaríkin og Japan.
4) Þroskaðar sálir (mature souls) hafa fengið útrás fyrir metorðafýsnina og snúa sér að ræktun tilfinningalífsins sem og og samskipta við annað fólk : fjölskyldu, vini o.s.frv.. Þroskaða skeiðið er um margt hið erfiðasta og flóknasta í allri sálarþróuninni, og geðklofi, þunglyndi og aðrir sinnissjúkdómar eru miklu útbreiddari hjá þroskuðum sálum en á nokkrum öðrum sálarstigum. Allt er það sakir hins tilfinningalega intensítets sem fylgir þroskaða skeiðinu. Samúðin með öðru fólki, sem ungu sálirnar forsmá að miklu leyti, fer fyrst að blómstra hjá þroskuðum sálum. Og trúhneigðin, sem er annað atriði sem að mestu leyti liggur niðri hjá ungum sálum, lætur aftur á sér kræla á þroskaða tímabilinu, einkum á seinni stigum þess - en ekki með sama þunga og hjá gömlum sálum. En þroskaða skeiðið snýst ekki eingöngu um tilfinninga- og samskiptarækt; vitsmunaþróunin, sem hófst fyrir alvöru hjá ungu sálunum, heldur áfram á þroskaðasálaraldrinum, en á abstraktara og akademískara plani. Háskólar heimsins eru því að mjög miklu (ef ekki mestu) leyti skipaðir þroskuðum sálum. - Þroskaðar sálir eru gjarnan miklir menningarvitar, og tíðir gestir leikhúsa, listasafna og annars þess háttar.
Dæmi um þjóðfélög þar sem meginþorri íbúanna er þroskaðar sálir eru Ítalía og Spánn.
5) Gamlar sálir (old souls) hafa þroskað með sér ríkulegt tilfinningalíf og samúð með öðru fólki, og þróað gjöful og uppbyggileg samskipti við vini og ættingja o.s.frv.. Og þá er einungis eftir að vinda sér í lokastig hinnar mannlegu þróunar, sem er að upplifa það sem trúarbrögðin nefna ´uppljómun´ eða ´sáluhjálp´. Gömlu sálirnar eru semsagt afar andlega sinnaðar, líkt og hvítvoðungssálirnar, en á allt annan og miklu þroskaðari og vitrænni hátt, eins og gefur að skilja. Sálirnar gömlu forðast yfirleitt að láta bendla sig við nokkur ákveðin trúarbrögð eða andlegar hreyfingar, heldur kynna sér gaumgæfilega allar andans stefnur sem völ er á, og smíða upp úr því sín eigin trúarbrögð, sína eigin heimspeki og lífssýn. - Ólíkt yngri sálunum (sérstaklega barnssálunum), sem lifa yfir ytri aga og organíseringu, þá er gömlu sálunum lítt gefið fyrir ytri skikkan og skipulag; þær vilja hafa óskorað frelsi til að fylgja sínum oft eigindómslegu duttlungum- eða, með sympatískara og ljóðrænna orðalagi, til að hlíta kröfum hjartans, en ekki utanaðkomandi þvingunum. - Gamlar sálir eru oftast gróflega misskildar af yngri sálunum, sérílagi þeim ungu, og álitnar skrýtnar, sérvitrar, latar og ómótiveraðar, sakir hins afar takmarkaða áhuga þeirra á að ´komast áfram í þjóðfélaginu´. En téð leti og mótiveringarskortur eru aðeins á yfirborðinu, því það sem gömlu sálirnar skortir á í ytri hamagangi bæta þær upp og ríflega það með mun meiri virkni og intensítets hið innra, í huga, sál og anda. - Á seinni stigum verða gamlar sálir mjög afhuga því að láta mata sig á skipulagðri háskólamenntun; þær vilja læra upp á eigin spýtur nákvæmlega það sem þeim dettur í hug hverju sinni, og ekkert annað. - En þótt þær gömlu séu iðulega afhuga veraldlegri sýslan, þá hafa þær oft furðu glöggt og skarpt auga fyrir því ´hvernig kaupin æxlast á eyrinni´ - þá sjaldan sem þær nenna að hugsa um þanniglagað.
Dæmi um þjóðfélög þar sem gamlar sálir eru í meirihluta eru Holland og okkar ástkæra fósturjörð (þó er á báðum þessum stöðum í höfuðdráttum um að ræða sálir á snemm-stigum gamalaldursins - eina þjóðfélag sögunnar sem mér er kunnugt um að hafi samanstaðið að mestu af sein-stiga gömlum sálum er Indland til forna; þar af orðspor Indverja, er enn eimir sterklega af, sem mikilla andans spekinga en lítilla veraldlegra framkvæmdamanna).
-Útvíklun sálarinnar gengur yfirleitt afar hægt fyrir sig. Það tekur marga tugi ef ekki hundruði jarðvista að klára eitt einasta af ofangreindum þroskastigum. Hvert æviskeið er þannig ekki nema örskotsbrot af heildar-þróunarferli sálarinnar. Berið þetta saman við þá absúrdu þeoríu að oss sé ekki léð nema eitt skitið jarðlíf! - hvílíkt langlundargeð og fjarsýni sem endurholdgunarkenningin vekur!
- En nú kunna sumir að spyrja : hvað tekur við þegar gömlu sálirnar hafa náð takmarki sínu og öðlast ´uppljómun´ eða ´sáluhjálp´ og þannig náð hápunkti hinnar mannlegu þróunar? Og eina svarið sem hægt er að gefa er að þar með er þroskaferli sálarinnar hvergi nærri lokið; þvert á móti er hún frá kosmískum sjónarhóli rétt að byrja! En um þetta er þýðingarlaust að fást; við sem enn erum að sveitast í barningi og streði jarðlífsins getum ekki einu sinni gert okkur í hug hvernig ´uppljómunin´ er - og hvað þá heldur hvað við tekur handan hennar.
Í blálokin vil ég hvetja lesendur til að kynna sér Michael-fræðin og skoða síðan veröldina og hinar aðskiljanlegu siðmenningar hennar útfrá sjónarhóli fyrrnefndra fræða. Með því móti geta lesendur verið vissir um að öðlast innsýn í atburðina í mannheimum sem er utan seilingar færustu félagsfræðinga eða mannfræðinga (þótt ekki sé ætlun mín að gera lítið úr því eðla fólki).
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 17.10.2007 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2007 | 19:30
Sér er nú hver kærleikurinn!
Margt kristið fólk lætur í það skína að engin trúarbrögð önnur en Kristnin geri jafn skýrar og afdráttarlausar kærleikskröfur til fylgjenda sinna.
Reyndin er öll önnur. Mörg trúarbrögð eru miklu ákveðnari og víðtækari í kærleikskröfum sínum en Kristindómurinn. Hér má benda á svo til allar stærstu trúarhreyfingar fjar-austursins : Búddisma, Taóisma, Jainisma og stóran hluta Hindúismans. Allar þessar religjónir herma að við eigum ekki aðeins að elska og forðast að skaða aðra menn; við eigum einnig að elska og forðast að skaða allar aðrar lífverur sem þessa Jörðu byggja. Margir Búddistar, svo ein trúin sé tekin, hafa ekki augun af veginum þegar þeir ganga, til að forðast að stíga á eina einustu pöddu.
Þetta er nokkuð sem skortir svo til algerlega í Kristninni. Aldrei hef ég heyrt eina aukatekna kristna manneskju prédika að það sé synd að drepa dýr. Og kvað ekki hinn þræl-kristni heimspekingur Rene Descartes að dýrin væru ekkert annað en sálarlausar maskínur, og því væru kvalaóp þeirra þegar þau væru særð eða drepin ekki til marks um nokkurn raunhlítan sársauka? - ekki fremur en steinninn fyndi nokkuð til þegar hann væri barinn svo hljóð af því framkallaðist!
Ef ég fer hér með fleipur og geri Kristninni rangt til; með öðrum orðum ef til eru einhverjir Kristnir hugsuðir sem prédikað hafa helgi dýranna en ekki eingöngu hina síáklifuðu helgi mannsins, þá biðst ég afsökunar á ofangreindum ummælum. En hingað til hef ég, líkt og að ofan segir, eigi rekist á þótt ekki væri nema einn Kristinn þenkjara sem boðað hefur guðlega helgi dýranna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.9.2007 | 22:25
Fagnaðarerindið um The Grateful Dead!
Jamm, ég er þessa dagana (og hef reyndar verið meira eða minna síðastliðið ár) að hlusta á erki-sýru-hipparokkarana í The Grateful Dead. Og verð að segja að þetta er langsamlega sófistikeraðasta, elegantasta, epískasta og fjölbreyttasta rokkmúsík sem nokkurn tíma hefur verið gerð. Ég á eitthvað á bilinu 50-60 diska með skrýmslinu og ekki einn einasti þeirra er hljóðversdiskur - alltsaman læf!
Úthald The Grateful Dead á tónleikum varð snemma þjóðsagnakennt. Lengstu hljómleikarnir með köppunum sem ég á diska af eru hvorki meira né minna en rúmar fimm klukkustundir (fjórir pakkfullir geisladiskar). Það krefst óhemjuorku einungis að standa á sviðinu svo lengi - hvað þá heldur að spila svo lengi, og hvað þá heldur aftur að spila jafn guðdómlega og kempurnar gera alla fyrrgreinda tónleika í gegn! (Illar tungur vilja eflaust meina að téð úthaldsafrek hafi stuðst við kemískar stoðir - en látum það vera).
The Grateful Dead gátu spilað nánast hvaða tegund tónlistar sem er - uppistaðan var auðvitað sýkadelískt rokk, en inn á milli gefur að heyra áhrifavalda svo fjölskrúðuga sem fólkmúsík, blágresi, blús, djass, sál, kántrý og gullaldarrokk frá 6. áratugnum (Sjökk Berrí, m.a.). Og í hinum epísku spunaköflum sem voru aðalsmerki sveitarinnar má heyra greinilegt inflúens af seiðandi indverskum rögum (eins og meðlimir bandsins hafa reyndar oft viðurkennt).
Ólíkt flestum öðrum rokkhljómsveitum, sem böðla saman ömurlegu leirhnoði bara til þess að hafa eitthvað til að gaula með óhljóðunum, þá lögðu The Grateful Dead mikið upp úr textagerð, og voru meira að segja með hirðskáld (Robert Hunter hét sá kappi) til að semja ljóð við tónlistina - já maður getur virkilega talað um ljóð í stað texta! Eftirlætistilvitnun mín í póesíu téðs Hunters eru upphafslínur lagsins "Loser" sem Jerrry Garcia samdi melódíuna við : "If I had a gun for every ace I´ve drawn, I could arm a town the size of Abilene." Tær brilljans!
Fyrir þá sem eru hvítvoðungar í þessum fræðum og langar til að hefja kynni sín af The Dead, þá get ég ekki gert betur en að mæla með tvöfalda disknum "Europe 72" sem, eins og nafnið gefur til kynna, var tekinn upp á hljómleikaferðalagi bandsins um Evrópu árið 1972. Að vísu er nefnd plata ekki það besta sem Deddararnir hafa gert, en fyrir byrjendur er hún tvímælalaust sú aðgengilegasta og heppilegasta; allar hinar feykifjölbreyttu hliðar sveitarinnar njóta sín í snilldarlögum og afburðaspilamennsku.
Og svo var Jerry Garcia auðvitað stórkostlegasta gítargoð rokksögunnar! Mystískur, sálríkur, ástríðufullur og oft á tíðum andardráttstakandi fallegur!
Góðar Dead-stundir!
Bloggar | Breytt 24.9.2007 kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 12:12
Þrældómsok tískunnar
Á vorum dögum er ekki í tísku að trúa á drauga og huldufólk.
Og þar sem þorra fólks í þessum heimi skortir að mestu getuna til að hugsa sjálfstætt, þá þarf ekki að koma á óvart að flestir fljóti með flaumi tískunnar og álíti trúnna á huldufólk og drauga helbera hjátrú.
Nú ætla ég ekki að lýsa því yfir sem bjargfastri staðreynd að draugar og huldufólk séu til - mig skortir nægilega skýrar forsendur til að skera úr um þetta mál á hvorn veginn sem er. En er það ekki tröllsleg þröngsýni og fimbulrænn eintrjáningsháttur að vísa á bug án nokkurrar rannsóknar því sem ótalmargt fólk um allan heim telur sig hafa séð og heyrt? Ef við treystum því að velflestar manneskjur í þessum heimi séu heiðarlegar og sannsögular, þá virðist það tilefnislaust að hafna vitnisburði annarra mannvera einvörðungu vegna þess að okkur líkar ekki það sem þær hafa að segja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 19:06
Fimm bestu rokkgítaristar sögunnar
1) Jerry Garcia
2) Eric Clapton
3) Robbie Robertson
4) Mark Knopfler
5) Jimmy Hendrix
- Lesendur fýsir ef til vill að vita hví ég álít Jerry Garcia besta gítarleikara rokksögunnar. Garcia er langt frá því að vera mesta tæknitröll sem uppi hefur verið (sá heiður tilheyrir líklega Jimmy Hendrix) - en drottinn minn dýri! - hvílík sál og sjarmi sem maðurinn hefur! Svo sannarlega mesta gítargoð í sögu rokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 16:48
Helför dýranna
Þegar máls er vakið á helför Gyðinga fyrir sextíu árum rúmum, þá spyrja flestir í harmi- og viðurstyggðarblandinni forundran: "Hvernig gat annað eins gerst? Hvernig gat fólk verið svona óheyrilega grimmt og vægðarlaust?"
Og svarið er: af nákvæmlega sömu ástæðu og við, sem þykjumst vera siðgæddar verur, slátrum dýrum í tunglháum fjöllum um allan heim árlega.
Nasistar álitu Gyðinga óæðri manntegund og því réttdræpa hvar sem í þá næðist. Og að sama skapi teljum við að dýrin séu óæðri líftegund, og því sé allt í himnalagi með að sálga þeim okkur til nytja.
En það allra tragikómískasta í þessum siðlausa skrípaleik er án efa það, að dýraát er algerlega ónauðsynlegt og jafnvel skaðlegt: öll rök, hagfræðileg, vistfræðileg og heilsufræðileg, hníga að því að grænmetisát sé miklu betri kostur.
Íhugið þetta!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2007 | 19:25
Lesið Kóraninn
Kóraninn er ósköp einfaldlega eitthvert fegursta og háleitasta helgirit heimsins.
Þeir ofsatrúarvitleysingar íslamskir sem leita fólaskoðunum sínum stoð verða að vísa í annað en Kóraninn. Hvergi í Kóraninum er minnst á að konur skuli undirokaðar eða heilagt stríð háð gegn óvinum trúarinnar. Afturámóti er mjög víða í Biblíunni hvatt til kvennakúgunar sem og stríðsreksturs gegn fjandmönnum Guðs útvöldu þjóðar.
Kóraninn er yfirleitt talinn ritaður á einhverju stórbrotnasta tungutaki sem nokkurt rit hefur verið bókfest á í skráðri sögu mannkyns. Af þeim sökum er hann iðulega álitinn óþýðanlegur af þeim sem til þekkja. Ekki get ég dæmt um þetta, þar sem ég kann því miður ekki arabísku, en hitt veit ég að snillingurinn Helgi Hálfdánarson hefur snarað Kóraninum yfir á gullfallega íslensku. Sú þýðing er fáanleg víða á almenningsbókasöfnum hérlendis.
Ég lýk þessum pistli með því að brýna áeggjan þá sem felst í titli hans : Lesið, lesið, lesið Kóraninn - og undrist fegurð hans og víðsýni!
Bloggar | Breytt 9.9.2007 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)