Færsluflokkur: Bloggar
26.11.2007 | 18:01
Heimsins mesti músíkant?
Hvimleið er sú hneigð nútímans að einblína á fátækt þá sem hrjáir stóran hluta indversku þjóðarinnar, en sjá ekki hið forna indverska menningarundur.
Fjarri er það mér að reyna að klóra yfir þau geigvænlegu efnahags- og félagslegu vandkvæði sem indverska þjóðin á við að etja á vorum dögum. Fyrir mér vakir einungis að andæfa því að menn láti sér hina indversku eymd svo í augum vaxa að þeim yfirsjáist hin stórkostlegu afrek Indverja í aldanna rás í heimspeki, bókmenntum og listum. Þetta væri líkt og að kinnoka sér við að hlusta á Bach sakir þess að nazistar réðu eitt sinn ríkjum í ættjörð hans, Þýskalandi!
Annars er það ekki ætlan mín með þessari stuttu bloggfærslu að fara útí menningarsögu. Einvörðungu hyggst ég vekja athygli á einum stórfenglegasta holdgervingi hins forna indverska menningaranda á vorum tímum. Heitir sá hinu ábúðarmikla nafni Hariprasad Chaurasia.
Hljóðfærið sem þessi mikli höfuðsnillingur leikur á nefnst á indversku máli bansuri, sem þýðir bókstaflega ´bambusflauta´. Hljómfæri þetta er að öllum líkindum eitt óbrotnasta og ósófistikeraðasta instrúment í víðri veröld: aðeins aflangur sívalningur mjór með einu einasta gati.
En slíkt er geníalítet Chaurasias að jafnvel með þetta sára-einfalda hljóðfæri sem bambusflautan er þá tekst honum að galdra fram músík sem á varla sinn líka á jörðu þessari: flókin, margbrotin, djúp, andleg, unaðslega melódísk, undra-háfleyg og ljómandi af nánast algerlega óbeisluðu hugmyndaflugi. Hið síðarnefnda (þ.e. hið óbeislaða hugmyndaflug) kemur hvað best í ljós í birtu þeirrar staðreyndar að ég á samanlagt hátt í fimmtíu klukkutíma af tónlist með Chaurasia, en aldrei hef ég rekist á hann hjakka í sama farinu þótt ekki sé nema í nokkrar mínútur.
Að mér vitandi er tónlist Chaurasias hvergi fáanleg í plötuverslunum hérlendis (sem þarf ekki að koma á óvart, þar sem söluvinsældakapphlaupið tröllríður öllu í plötusölu frónskri), en hægt er að fá mestallt sem séníið hefur tekið upp á hinni frábæru Amazon - netverslun.
Að lokum þetta: ef ég ætti að beina fólki á einhverjar sérstakar upptökur með Chaurasia til að hefja stúderingu á hinni óviðjafnanlegu tónlist hans, þá myndi ég benda á dúetta sem hann tók upp með öðrum indverskum snillingi, santúr-leikaranum Shiv Kumar Sharma (en hljóðfærið er hann leikur á og átti reyndar öðrum fremur þátt í að hefja upp til virðingar sem instrúment í indverskri klassík, hinn áðurnefndi santúr, er nokkurs konar klukknaspil, upphaflega ættað úr Kasmír). Aðeins tvö orð hæfa upptökum þessum: himneskir töfrar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 20:33
Gullkorn frá meistara Búddha
"Hugmyndir vorar um eilífðina eru ámóta gagnlegar og hugmyndir fuglsunga um veröldina fyrir utan áður en hann brýst út úr skurninni."
Dogmatíkerar allra trúarbragða samhlýðist . . .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 16:49
Aurinn fólki framar
Í þessu blessaða samfélagi voru er það gegnumgangandi ósvinna að meta fé umfram fólk.
Berið bara saman kjör fólks sem starfar í fjármálageiranum annars vegar og umönnnargeiranum hins vegar. Fyrrnefndi hópurinn rakar saman fé meðan þeim síðarnefnda er skammtaður lortur úr lófa.
Og berið aukinheldur saman dómsúrskurði í ofbeldismálum (nauðgunum, líkamsárásum, sifjaspellum, o.frv.) annars vegar og auðgunarbrotum hins vegar. Síðarnefndi brotaflokkurinn hlýtur iðulega mun þyngri refsingar en hinn fyrrnefndi - sem sagt: mammon ofar manneskjum.
Ekki verður horft framhjá þeirri staðreynd að starfsfólk fjármálageirans er í yfirgnæfandi mæli karlkyns, en ummönnunargeirinn er að langmestu leyti skipaður kvenfólki. Er hinn hróplegi og með öllu óréttlætanlegi munur á launakjörum þessara tveggja stétta ekki bara enn eitt dæmið um þá rótgrónu kvenfyrirlitningu sem enn gagnsýrir samfélag vort, jafnvel á þessum tímum meints kynjajafnréttis?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2007 | 17:29
Mín ´geðveiki´
Eins og suma lesendur rekur kannski minni til, þá hef ég einhvern tíma á bloggi mínu sagt frá því að ég hef hlotið stimpil þann er kallast ´schizofrenia´ upp á grísku, sem þýtt hefur verið beint sem ´geðklofi´. Semsagt: ég er opinber sálarsjúklingur.
Ég vil reyndar meina að ég sé alls ekkert sinnisveikur. Ég varð bara fyrir óvenju sterkri og magnaðri andlegri reynslu, sem ég er enn að bisast við að reyna að melta, rúmu fimm og hálfu ári eftir að hún átti sér stað. - En geðlæknisfræðin vill meina að þetta sé ´afbrigðilegt´, og því fór sem fór.
En úr því ég er í raun ekki að mínu eigin mati hugarveill, hví dvel ég þá óvinnufær öryrki á endurhæfingarheimili fyrir fólk með geðraskanir? - Vegna þess að geðlæknisfræðin hefur að vissu leyti rétt fyrir sér varðandi það að hin andlega reynsla mín hafi verið afbrigðileg eða paþólógísk (grískan aftur!). EN NB! - það var ekki reynslan sjálf sem var afbrigðileg, heldur einungis móttaka mín á henni.
Þessu má líkja við rafstraum og ljósaperu. Ef rafstraumurinn er of sterkur, þá springur peran. En með rafstrauminn í sjálfu sér er allt í himnalagi; feillinn er alfarið perunnar.
Og eins er það með hina títtnefndu andlegu reynslu mína: hinn´andlegi rafstraumur´ var of magnaður til að ´ljósapera´heila og taugakerfis gætu veitt honum viðtöku sem skyldi, og því ´sprakk´ sú pera. Afleiðingin er það ástand sem ég á nú við að etja: tíð köst þar sem ég upplifi oft nánast óbærilegan kvíða og sálarlíkamlega vanlíðan. Semsagt: eftirhreytur þess þegar ljós- og viskustreymið að ofan grillaði í mér heilakrílið og vesalings taugakerfið.
En ég er kátur og bjartsýnn að eðlisfari (þótt ég hafi reyndar tekið góðar svartagallsraussrassíur hér á þessum bloggsíðum!) og ég hef aldrei efast um að með Guðs hjálp og góðra manna muni mér auðnast að vinna bug á vágesti vanlíðunarinnar og standa á fætur aftur og taka minn réttmæta og þarfa sess í þjóðlífinu á ný.
En eftir að hafa gengið í gegnum jafn mergjaða spiritúela ´vígslu´ (mér dettur ekkert betra orð í hug til að kalla fyrirbærið!) verður lífið ljóslega aldrei samt á ný. Ekki er ofsagt að ég hafi hlotið dagskýra og ógleymanlega innsýn inn í þann andlega, guðdómlega kjarna sem öll tilveran snýst um, þótt misvitrir menn vilji gjarnan þræta fyrir að svo sé. Og þann kjarna má taka saman með einu orði: Kærleikur! Þegar öllu masi og argaþrasi dægurþvaðursins sleppir, þá er kærleikur vor, samúð, umhyggja og meðlíðan með öðrum verum það eina sem nokkru máli skiptir, það eina sem nokkurt gildi hefur út yfir gröf og dauða.
(P.s. Annars fól ´vígslan´ í sér mun meira en bara boðskapinn um kærleikann, þótt sá hafi verið þungamiðjan. En látum það liggja á milli hluta - ég ætla ekki að hætta mér útá þann hála ís að útskýra fyrir öðrum það sem er svo djúpt og háfleygt (en þó, þversagnarlega, svo óumræðilega einfalt) að ég botna varla í því sjálfur!)
Bloggar | Breytt 16.11.2007 kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2007 | 13:51
Risinn Ravi Shankar
Indverska sítargoðið Ravi Shankar hefur átt hug minn allan undanfarið. Nýverið áskotnaðist mér mikill merkisgripur með tröllinu: tíu geisladiska pakki sem ber heitið ´A Journey Through His Music´. Og þarna er að finna hvern performansinn öðrum snilldarlegri.
Varla er til sú kennd eða stemmning er bærst getur í mannlegu brjósti eða anda sem þessi mikli meistari getur eigi galdrað fram. Hann getur verið dökkur og drungalegur, blíður og angurvær, bjartur og sólríkur, tregafullur og harmþrunginn, léttur og leikandi o.fl. Og yfir vötnum svífur dásamleg melódík og taktræn sófistikering (þökk sé frábærum töbluleik (en tabla er tromman sem iðulega er leikið á í norður-indverskri klassík) fylgimanns Shankars til margra áratuga: Alla Rakha).
En þótt ótrúlegt megi virðast þá er Ravi Shankar, þrátt fyrir allt sitt yfirmáta geníalítet, ekki besti sítarleikari sögunnar. Þann titil hlýtur að mínu mati Bengali nokkur, sem lést sorglega langt fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum. Maður þessi bar nafnið Nikhil Banerji, og var hreint út sagt guðdómlegur músíkant. Upptaka sem ég á með honum sem tekin var upp á tónleikum í Bombay árið 1965 er líkast til besta tónlist sem ég hef á ævi minni heyrt (og þá er ekki svo lítið sagt, því ég hef í áranna rás hlustað á ógrynni músíkur frá öllum heimshornum af öllum hugsanlegum stærðum og gerðum). Nefnd konsertupptaka er rúmlega tveir og hálfur tími af alsælu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2007 | 15:43
Martinus - merkasti heimspekingur sögunnar
Lesendur kærir! Ef ykkur fýsir að vita hvernig veruleikinn artar sig í stóru sem smáu, fleygið þá öllum trúar-, heimspeki, vísinda- og skáldritum, og hakkið í ykkur verk snillingsins danska Martinusar.
Í hverju er galdur þessa mikla andans jöfurs fólginn? Einkum í tvennu: í fyrsta lagi leikandi léttum og auðskildum, en þó oft á tíðum ljóðrænum stíl, og í öðru lagi nánast ofurmannlegri dýpt og dirfsku í hugsun.
Höfuðverk Martinusar, ´Livets Bog,´ rituð meðan vitfirring seinni heimsstyrjaldar óð yfir veröldina, er rúmlega 1200 blaðsíður af ótrúlegustu speki sem rituð hefur verið hér á Jörðu hér. Hver einasta blaðsíða er opinberun!
Meira get ég ekki sagt um dýrðir þessa stórbrotna hugsuðar. Lestur rita hans einn mun sannfæra lesendur um það, að hér er á ferðinni einn þroskaðasti og prófúndískasti andi sem mannkynið hefur getið af sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 14:20
Sjö líkama lýsing
Ein afkáralegasta hjátrú vorra tíma er sú að mannskepnan hafi einungis einn líkama, þ.e. hinn grófgerða efnisskrokk.
Hve miklu raunsærri og réttari er ekki sú kenning kristninnar að maðurinn sé þríþætt heild, er samanstandi af (efnis)líkama, sálu og anda!
En þótt ofangreind skoðun kristninnar sé snöggtum viturlegri en einslíkamaþvættingurinn, þá er hún á endanum of gróf og ónákvæm til að fanga sannleikann allan.
Sannleikurinn allur er sá að mannveran hefur ekki einn, ekki þrjá heldur heila sjö líkama. Og skulu þeir nú taldir upp, í niðurfarandi röð eftir mikilvægi (austrænu heitin innan sviga):
1) Efnislíkaminn (Sthula Sharira): Skiljanlega er ekki þörf fyrir að hafa mörg orð um þennan líkama - hann er jú sá sem langflest fólk Jarðar er pólaríserað í dags daglega. Frá sjónarmiði hinna esóterísku fræða er efnislíkaminn sá lang takmarkaðasti og veigaminnsti líkamanna sjö. Þó skal hann ekki vanræktur eða illa með hann farið, enda er hann þrátt fyrir allar sínar takmarkanir ´musteri Heilags anda,´ á tungutaki kristninnar. Mjög mikilvægt er að halda efnislíkama við góða heilsu með hæfilegri hreyfingu, hollu og góðu mataræði, o.s.frv.
2) Orkulíkaminn (Prana Sharira): Líkami þessi er svotil nákvæm eftirmynd efnislíkama (eða, það sem ef til vill réttara væri, efnislíkami er svotil nákvæm eftirmynd orkulíkama). Orkulíkami ´anímerar´ efnislíkama; án hins fyrrnefnda væri hinn síðarnefndi líflaust hrúgald (og verður það á endanum við líkamsdauðann, þegar orkulíkaminn dregur sig úr efnislíkama). Nútímavísindi hafa fengið nokkurn pata af orkulíkama og nefna virkni hans ´taugaorku´ eða eitthvað álíka.
2) Geðlíkaminn (Kama Rupa): Þessi líkami er oft nefndur hinu óljósa og villandi heiti ´astral-líkami´. Geðlíkami er miðstöð tilfinningalífsins hjá meðalmenninu. Hann þrífst á tilfinningahita og emósjónelum sveiflum, og skiptir það hann engu máli hvort nefndar geðsviptingar eru góðar eða slæmar, þægilegar eða óþægilegar. Eitt helsta takmark andlegs þroska er að ná stjórn á geðlíkama og stöðva hneigð hans til ýfinga og gera hann líkt og slétt stöðuvatn svo sól innsæisins geti skinið á yfirborð hans í allri sinni óbrengluðu dýrð. - Í svefni færist vitund flests fólks þessarar Jarðar úr efnislíkama yfir í geðlíkama, og slíkt hið sama gerist við dauða efnislíkamans; vitundarástandið á nóttunni og milli jarðvista er þannig samsvarandi í aðalatriðum - lítil furða þótt dauðinn sé jafnan kallaður ´svefninn langi´! (þó er sá munur á að draumaástandið er iðulega nk. samstuð milli hughrifa úr geðheimum annars vegar og bjagaðra minningabrota úr dagvitund hins vegar, en tilveran í geðheimum milli jarðvista er ´hrein upplifun,´ ómenguð þeim slitrum úr minningaforða dagvitundar sem valda því ankannalega og ómarktæka rugli sem draumar eru yfirleitt).
4) Huglíkaminn: Ekki þarf mörgum orðum að eyða í þennan líkama; hann er miðstöð hugsanalífsins í meðaljóninum. Venjan er í launfræðum að skipta huglíkama í tvennt: lægri eða konkretan rökhuga annars vegar, og efri eða abstraktan rökhuga hins vegar. Lægri eða konkreti rökhugurinn vinnur með áþreifanlegar og tölfræðilegar staðreyndir og er andleg heimkynni vísindamannsins. Efri eða abstrakti rökhugurinn starfar með almenn hugtök og sértekningar og er andleg hýbíli heimspekingsins. - Á sínum efstu stigum litast huglíkami mjög af innsæislíkama, og þegar best lætur eru heimspekingar og vísindamenn mjög intúitíft þenkjandi.
5) Innsæislíkaminn (Buddhi): Líkami þessi einkennist af tveimur kosmískum eðlisþáttum, sem eru að vissu leyti andstæðir pólar, en mynda þó þegar best lætur eina samhæfða heild. Eðlisþættir þessir nefnast ´kærleikur´ og ´viska´. Uppvakin og samstillt mynda þessi element það sem á erlendum tungum nefnist ´intúisjón´ en á voru máli ´innsæi´. - Þegar tekur að bjarma fyrir innsæinu í skotum sálarinnar og það tekur að yfirskíma rökhugsunina, þá er það líkt og þegar hið dýrðlega geislaflóð sólarinnar brýst fram og byrgir algerlega sýn á hin daufskina mána - en þó, NB, hverfur máninn alls ekki þótt sunna hafi sig á loft; hann missir eingöngu ljóma sinn. Og þannig er það með innsæið og rökhugsunina; þótt opinberanir innsæisins fari óralangt fram úr því sem rökhugsunin nær, þá hverfur rökhugsunin ekki þar með. Sannkallað innsæi er aldrei í mótsögn við lógískan þankagang; hún fer aðeins óendanlega langt handan hans. - Innsæið er að baki öllum meiriháttar afrekum í listum og vísindum og trúarbrögðum og öðru þess háttar. - Innsæið er hinn sameiginlegi brunnur sem allar innblástnustu trúarhreyfingar mannkynssögunnar hafa ausið af. Jesús Kristur, Búdda, Múhammeð og aðrir stórspámenn sögunnar - allir bergðu þeir á dýrðarvatni innsæisins. - Innsæið virkar með leifturhraða. Mózart ´heyrði´ tónverk sín í einni svipan og það eina sem hann þurfti að gera var að punkta þau niður; slík er reynsla allra andans snillinga fyrr og síðar, vísindasénía, listavirtúósa og trúaropinberenda. Og líkt og fyrr var ýjað að er tengingin við innsæið grundvöllur þess að mannskepnan geti öðlast hinn tvíþætta gimstein, kærleika og visku. Engin furða þótt innsæið sé oft nefnt ´Kristsvitund´ í nútíðarbókmenntum andlegrar náttúru.
6) Andinn (Atma): Eðlisþáttur þessi hefur tvo höfuðeiginleika: andlegan vilja og einstaklingsaðgreiningararprinsíp. Andinn er semsagt grundvöllur þess að vér getum öðlast reynslu sem sérgreindir vitundarpunktar, aðskildir frá Heildinni sem trúarbrögðin nefna Guð. Án andans (þ.e. sérgreiningarprinsípsins og einstaklingsbundins vilja) myndum vér þurfa að dvelja um alla eilífð í hinni hálfvitalegu einingaralsælu himinsins, og fara gersamlega á mis við þá ómetanlegu reynslu og vitundarútvíkkun sem hinar síendurteknu vistir á Jörðu hér veita oss.
7) Guðdómsneistinn (Mónad): Element þetta er sýnþesa huga, innsæis og anda, á æðsta og guðdómlegasta stigi. Virk greind, kærleikur / viska og andlegur vilji eru höfuðeinkenni guðdómsneistans. Annars er ekki ráðlegt að hætta sér út í nánari kjaftagang um náttúru þessa háleitasta og æðsta eðlisþáttar mannsins; vér eigum fullt í fangi með að skilja innsæið, hvað þá heldur stigin þar fyrir ofan. Tengingin við innsæið er meginmarkmið vitundarþróunarinnar á vorri tíð; andinn og guðdómsneistinn bíða síns tíma langt, langt í órafjarlægð fimbulframtíðar. - Guðdómsneistinn er eini eðlisþáttur mannsins er varir ætíð frá sjónarmiði óendanleikans. Efnislíkami, orkulíkami, geðlíkami og huglíkami endurnýjast með hverri jarðvist, og jafnvel innsæislíkami og andi eru í fyllingu tímans leystir upp, þegar guðdómsneistinn logar og bálar í allri sinni ólýsanlegu dýrð og dásemd, laus við hulur allra lægri líkamanna. Þegar þessu yfirmáta herlega stigi er náð er guðdómsnestinn orðinn alharri náttúrunnar, og getur efnað og afefnað líkamsbirtingarmynd sína algerlega að vild. En um þetta er best að segja sem minnst, þar sem svo firinfjarlægur þessi unaðsleiki er.
Þá er þessari stuttu yfirferð um líkamana sjö lokið. Vona ég að lesendur hafi haft gagn og gaman af. Sú vitneskja, að líf vort og tilvera takmarkist ekki við hinn örskamma tíma yfirstandandi jarðvistar, hlýtur að veita yfirgnæfanlega gleði öllum þeim sem dýrðarboðskap þennan nema. Vér erum ekki stundarfyrirbrigði, lauf í vindi; né, vér erum ekkert minna en pílagrímar eilífðarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2007 | 18:24
Samruni Austurs og Vesturs
Tímarnir sem við lifum á nú eru einhverjir þeir mest spennandi í sögu mannkynsins.
Allir siðmenningarrisarnir sem hafa þróað með sér sín aðskildu menningarverðmæti í árþúsundanna rás hver í sínu aðgreinda lagi eru nú að renna saman í eitt, og þar með skapa nk. ofurmenningu - þ.e. kúltúr sem sameinar og upphefur allt hið besta úr áðurnefndum menningarstraumum. Heild sem er miklu æðri summu partanna.
Andleg verðmæti Austursins (trúarbrögð og spiritúel heimspeki og listir) og veraldleg verðmæti Vestursins (tækni og vísindi) munu þannig sameinast í stórkostlega heild sem tekur hinum gömlu sérgreindu menningarheimum Austurs og Vesturs hvorumtveggja langt um fram.
Lengst hefur þessi þróun hingaðtil vitaskuld náð hjá Japönum, sem hafa náð að tileinka sér tækni- og vísindaþróun Vestursins svo vel að þeir hafa í raun farið langt, langt framúr langflestum vestrænum ríkjum; nánast allar meiriháttar uppgötvanir og uppfinningar á sviði tækninnar koma nútildags frá Japan.
En allt þetta hafa Japanir afrekað án þess að missa nokkurntíma sjónar á hinum árþúsundagömlu menningarverðmætum sínum; í Japan blómstrar hið gamla og hið nýja hlið við hlið í eindrægni og harmóníu.
Í fótspor Japana eru nú að feta tvö fjölmennustu ríki heims (samanlagt með meira en þriðjung íbúa Jarðar), þ.e. Indland og Kína. Hvortveggja eru þessi lönd óðum að tileinka sér allt hið besta úr iðn- og tölvuvæðingu nútímans. Ég er sérlega spenntur yfir þróuninni á Indlandi; þegar hin stórbrotna og ævaforna en þó síunga menningararfleifð Indverja sameinast því æðsta úr nútímatækni og -vísindum, þá eigum við von á einhverjum magnaðasta menningarsamruna í sögu mannkynsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 16:38
Reginrugli andæft
Ýmsist trúarlega þenkjandi fólk hefur nú og fyrr haldið þeirri kennningu á lofti, að allt sé öllum leyfilegt.
Rökfærslan að baki afstöðu þessarar er vanalegast eitthvað í þá veru, að þar sem enginn kraftur sé til nema Guð, þá hljóti allt að vera guðlegrar rótar; ergó : allt er jafn guðdómlegt og ekkert er heilagra en annað í öllum alheiminum. Því skipti engu máli hvaða breytni eða hugarfar fólk tileinki sér; allt er jafnt á Jörðu hér.
Svo rammt kveður að þessu að ég hef meira að segja heyrt annars greindan og upplýstan mann staðhæfa að enginn munur sé á Guði og Djöflinum!
Ofangreint lífsviðhorf er firinfirra. Raunin er sú að það er aðeins uppljómuðum dýrlingum fært að líta á skaparann og sköpunina sem eitt og hið sama; allt annað fólk verður að skilja skarplega milli Almættisins og alheimsins.
Hví er það svo? Jú, því það er oss einvörðungu kleift að sjá einingu Guðs og náttúrunnar með því að hafna fyrst náttúrunni og leitast aðeins og eingöngu við að öðlast sambandið við hinn alhandanlæga Guðdóm. Það er að segja: vér vísum sköpuninni á bug til þess að ná sameiningu við skaparann - og þá fyrst þegar þeirri tengingu hefur verið komið á, þá erum vér andlega í stakk búin til að sjá samsemd Alvaldsins og algeimsins; taka sköpunina í sátt, ef svo má segja. Og þá - en alls ekki áður! - getum vér valið okkur hvaða athæfi sem oss þóknast, því þá fyrst eru allir hlutir orðnir oss samir og jafnir; þá fyrst eru ljósið og myrkrið orðin eitt.
Þessi hugsun virkar ef til vill tyrfin og illskiljanleg, en við getum gert hana grípanlegri með einfaldri líkingu. Ef við lítum aðeins á hlutina eins og þeir birtast skynfærum vorum, þá sjáum við ekkert nema margbreytni og aðgreiningu. Það er einungis með því að kafa dýpra ofan í eðli hlutanna sem við sjáum að öll fyrirbæri undir sólinni eru samansett úr sömu grunnorkunni. Og þegar því stigi er náð, þá fyrst getum við áttað okkur á því að allt hið margbreytilega, sem skynfærunum birtist, er eitt með hinni óskynhæfu grunnorku. Það er að segja : við lítum framhjá fjölbreytileikanum til að sjá eininguna, og þegar við höfum séð eininguna, þá - og ekki fyrr! - getum við staðhæft að eining og fjölbreytileiki sé eitt og hið sama.
Með öðrum orðum: til að öðlast einingarsýn allra hluta verðum vér fyrst að aðgreina hlutina í hið eina og hið marga - og kjósa svo einvörðungu hið eina. Aðeins með þeim hætti getum vér séð að hið marga og hið eina er í raun ekki aðskilið, og hefur aldrei verið. Þversagnarkennt? Vissulega! - en þannig held ég nú samt að hlutunum sé niðurraðað í heimi hér.
Staðreyndin er sú að það eru aðeins uppljómaðar mannverur sem geta gert það sem þeim sýnist, því þær einar hafa yfirstigið aðgreiningu rétts og rangs, góðs og ills, guðlegs og óguðlegs. Vér hin, sem enn erum að streða að því að öðlast uppljómun, verðum að greina mjög vandlega milli góðs og ills, rétts og rangs, guðlegs og óguðlegs - og velja eingöngu hið góða, rétta og guðlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 21:38
Njótum skynnnautnanna í botn!
Ýmsar trúarhreyfingar í heimi hér að fornu og nýju hafa prédikað að nautnir skynfæranna séu helsti óvinur sálarinnar.
Þetta meinlætaviðhorf fæ ég seint skilið. Hví væri Almættið að veita okkur skilningarvitin til að byrja með, ef ekki væri ætlunin að við beittum þeim á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt og nytum þeirrar margháttuðu fegurðar sem að þeim berast úr öllum áttum?
Einna lengst nær þessi skynánægju-höfnunar-della í Mótmælendatrú, þar sem forboðið er m.a. að skreyta kirkjur, sakir þess að slíkt ´prjál og glingur´ dragi hugann frá Guði. Þetta er í senn andlýðræðislegur og óhagsýnn þankagangur. Það er ókleift öðrum en fáeinum andlegum ofurmennum að öðlast samruna við hinn hreina, eiginleikalausa og alhandanlæga Guðdóm, í einu reginstökki. Við hin, meðalmennin, sem myndum nítíuogníu-hundraðshluta mannkyns, verðum að fikra okkur smám-saman upp á fimbulbjarg Almættisins, í mörgum áföngum. Og fyrsti áfanginn er ævinlega sá að dýrka skaparann í líki hins skapaða; þ.e. að velja sér einhver tákn úr heimi skynfæranna sem best eru til þess fallin að lyfta sálargripi voru upp á örlítið hærri klettasnös á Guðdómsfjallinu. Og með þeim hætti höldum vér áfram að grípa oss háleitari og háleitari táknsyllur, og þannig heldur klifrið áfram allt þar til Tindinum er náð; og þá fyrst falla allar skilvitatáknstoðir burt. Þetta kalla Indverjar að öðlast sameiningu við hinn eiginleikalausa handanguðdóm (nirguna Brahman) fyrir tilstilli dýrkunar á hinum eiginleikaræna hérlægsguðdómi (saguna Brahman); með öðrum og ef til vill skiljanlegri orðum : að transenda skynfærin, ekki með því að hafna þeim, heldur með því að nota þau til að sigrast á sjálfum sér; njóta fegurðar sköpunarverksins sem millistig að því að njóta fegurðar Guðs. Og öðruvísi getur málunum ekki verið háttað, að minnsta kosti ekki fyrir yfirgnæfandi meirihluta mannkyns.
En yfir í aðra en þó tengda sálma. Þar sem ég hef mikið ritað og röflað um trúarleg málefni í bloggfærslum mínum, þá fýsir suma lesendur ef til vill að vita hverrar trúar ég er. Sjálfur er ég á móti því að vera hólfaður í einhvern tiltekinn bás; slík básahólfun veitir huganum vissulega fró, en er því miður alltof oft hula á veruleikann, sem er iðulega fljótandi og síbreytilegur og umflýr hverja tilraun sefans til að slengja á hann einhverjum ákveðnum merkimiðum. - En ef mér væri stillt upp við vegg með frethólk í fésið myndi ég sennilega skilgreina mig sem ´fegurðartrúar´.
Fagurt landslag, fögur andlit, fagurt líkamssköpulag, fögur breytni, fögur skapgerð, fagurt lífsviðhorf, fögur byggingarlist, fögur myndlist, fögur tónlist, fagrar bókmenntir, fögur tungumál, fögur heimspeki, fögur trúarbrögð . . . í stuttu máli allt sem fagurt er, jafnt skilvitlegt sem yfirskilvitlegt - þetta er það sem veitir mér trúarlega fyllingu.
Og að lokum mun ég eftir ofangreindum fegurðarkrókaleiðum, í þessu lífi eða (sem trúlegra er) í einhverri komandi ævi, ná sambandi við Guðdóminn, sjálfa´frummynd fegurðarinnar´ eins og Platóns kallaði Andann eina.
Bloggar | Breytt 17.10.2007 kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)