Færsluflokkur: Bloggar
14.12.2007 | 17:09
Til rækalsins með rex og pex!
Sífellt dregst ég nær og nær Búddisma, sem er í senn raunsæjastur og praktískastur allra trúarbragða (´no-nonsense religion´ eins og ágætur maður orðaði það).
Þekkingarfræðilegur útgangspunktur Búddismans er sú einfalda og spaklega staðhæfing að tal um það sem sé ofar öllu tali sé augljós vitleysa og tímasóun. Hvað stoðar eiginlega allt þetta agg og erjur um hvort Guð sé persónulegur eða ópersónulegur, eða hvort Guð sé yfirhöfuð til, eða hvort alheimurinn sé skapaður eða sjálfskapaður, og bla, bla, bla. Kíf og karp af þessu tagi hefur aldrei linað þjáningar nokkurrar veru, aldrei tendrað kærleikseldinn í brjósti nokkurrar veru, aldrei hjálpað nokkurri veru að skynja eilífðina.
Ég ætla hér að slengja fram einum orðskviði Búdda sem ég hef að vísu áður vitnað í á bloggsíðum þessum, en ´aldrei er góð vísa of oft kveðin´ hermir vísdómslegur málsháttur íslenskur, og því tel ég ómaksins vert að endurtaka nefndar orðskvið. Lýsir hann betur en margt annað andanum í kennisetningum þessa annars tveggja mestu andans risa mannkynssögunnar (hinn er vitanlega Jesús Kristur). En orðskviðurinn hljóðar svo:
´Hugmyndir okkar um eilífðina eru álíka nytsamlegar og hugmyndir fuglsunga um veröldina fyrir utan eggið áður enn hann brýst gegnum skurnina´.
Að lokum hyggst ég varpa fram annarri tilvitnun í meistara Búdda sem er sérlega relevönt hvað varðar þrætubækur þær sem minnst var á í annarri efnisgrein pistils þessa. Ívitnun þessi er sérsniðin handa öllu því fólki sem af einhverjum ástæðum finnur sig knúið til að andæfa því sem það telur rangt hvað viðvíkur téðum þrætubókarefnum:
"Að hallmæla sannleikanum er líkt og að hrækja upp í himininn. Það skaðar himininn auðvitað ekki neitt, en slumman lendir aftur í fési þess sem skyrpir."
Semsagt: þvættingurinn dæmir sig sjálfur og því skulum við forðast allt þras og þref!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 16:38
Hví dó Kristur á krossinum?
Vegna þess hve síðasta færsla var hundlöng, þá ætla ég að vera mjög stuttorður í dag.
Löngum hef ég velt því fyrir mér hví Kristur dó á krossinum. Hin hefðbundna skýring er auðvitað sú að dauðarefsingin, sem við höfðum unnið okkur til með syndum okkar, hafi komið niður á Honum sem var sjálfur án sektar.
Þessi skýring stenst naumast rökræna gagnrýni. Er þetta ekki svolítið eins og ef ég færi á Litla-Hraun og byði mig saklaus fram til að afplána refsingu fanganna, sem þar dúsa, í þeirra stað? Hvers konar réttarkerfi væri það sem leyfði slíkt?
Djúpt innra með mér skynja ég að til er eitthvert miklu vitrænna og meira fullnægjandi svar við spurningunni um hvers vegna Kristur lést á krossinum - ég get bara ekki fundið það!
Því hvet ég allt það kristna fólk sem þessar línur les til að leggja orð í belg og reifa hugrenningar sínar um ástæðu krossdauða Frelsarans.
Bloggar | Breytt 20.5.2008 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2007 | 17:42
Sunna og þeir sem á Hana kunna
´Reynslan er mælikvarði allra hluta´. Kennisetning sú er upphaf og útgangspunktur allrar heimspeki sem verðskuldar að kallast því heiti.
Húmanísk rökhyggja nútímans vill gjarnan eigna sér einni fylgispekt við þessa frumsetningu. Það er fimbulfáránleiki. Sannleikurinn er sá að andlegheitaheimspeki á borð við Búddisma og Jóga halda (a.m.k. í sínum hreinræktaðri afbrigðum) jafn mikilli tryggð við téð axíóm og nokkurn tíma hin fyrrnefnda húmaníska rökhyggja. Munurinn er einvörðungu sá að Búddismi, Jóga og aðrar andlegar heimspekistefnur telja hið mögulega svið mannlegrar reynslu óendanlega miklu víðfeðmara en húmaníska rökhyggjan álítur yfirleitt; mannleg upplifum geti hafið sig upp í óendanlegar hæðir og breiddir - já, umfaðmað það sem trúarbrögðin kalla ´Guðdóminn´ sjálfan; orðið ´allt en þó ekkert´- þ.e. eitt með öllum alheiminum en þó utan alls alheimsins.
Staðhæfingar andlegheitaheimspekinnar um guðdómlegt pótentíal mannlegrar reynslu eru yfirleitt flokkaðar og afgreiddar sem ´dulræna´ eða ´mystík´ af áhangendum hinnar húmanísku skynsemishyggju. Þó er ekkert ´dulrænt´ við nefnda guðdómsreynslu annað en það, að hún er dulin yfirborðsheimsku fjöldans!
(Smávegis útúrdúr): Ef þið, lesendur góðir, efist um að til sé nokkuð utan eða ofan við það svið sem vísindin hafa (af helberri vilkvæmni) afmarkað sem veruleika, þá skuluð þið íhuga fyrirbæri það er ´list´ nefnist. - Hvað í ósköpunum er listin? Er hægt að mæla hana, vega hana, skipa henni undir kerfi eðlis- eða efnafræði, smætta hana í hugtök raunvísindanna? Svo virðist alls ekki vera. Ef skilgreina á ´listina´ þá getum við ekki gert betur en að aula út úr okkur einhverri klifun (tátólógíu) á borð við: ´List er það sem skynjað er sem list´. - En þrátt fyrir öll þessi skilgreiningarvandkvæði þá fer ekkert á milli mála þegar vér erum í námunda mikillar listar! Þannig virðist listin óræk sönnun þess að til sé veruleikasvið utan og ofan við umfang efnisvísindanna. - En þótt listin geti verið yndisleg og undursamleg þá eru (segir andlegheitaheimspekin) til upplifanir sem eru svo háleitar og dásamlegar að jafnvel súblímasta list er eins og sorp í samanburðinum! (Útúrdúr lokið).
En þá er ekki nema von að lesendur spyrji: hvaða forsendur hefur höfundur hugleiðinga þessara til að aðhyllast þá skoðun að ofangreindar ´guðdómsupplifanir´ séu veruleiki? Er eitthvað í reynslu höfundar sem skýtur stoðum undir það?
Og ef ég á að vera fyllilega sannsögull þá verð ég að viðurkenna að ég hef ekki persónulega upplifað þennan hátind hinnar mannlegu reynslu sem andlegheitaheimspekin álítur hápunkt og konsúmmeringu þroskaferils manneskunnar. En nógu ríka og djúpa andlega reynslu hef ég þó öðlast, nógu stór glufa hefur þó opnast mér á hurð hins myrka hellis efnisins til að veita mér óburtrækt hugboð um hina andlegu sól sem skín og leiftrar í allri sinni dýrð þar fyrir utan. - Og þar fyrir utan hef ég vitnisburð ´dulspekinga´ allra landa á öllum tímum, sem er hvarvetna og hvenærvetna sláandi líkur, jafnvel í tilfellum þar sem útilokað er að um áhrif frá einum spekingi á annan sé að ræða. Ef við trúum því að fólk sé upp til hópa heiðarlegt og sannorða þá virðist ósanngjarnt og heimskulegt að afneita staðhæfingum andlegheitaheimspekinnar einungis vegna þess að vér höfum ekki upplifað sjálf þá guðdómsupplifun sem nefnd spíritúel fílósófía boðar.
Og þar eru fleiri fletir á þessu máli. Allar manneskjur trúa á eitthvað sem liggur utan við svið þeirrar persónulegu reynslu. Hversu margt fólk hefur t.d. séð atóm eða rafeind? Hversu margar mannverur hafa pírt í smásjá til að sjá gerla? Hversu margar manneskjur hafa persónulega reynslu af því að Jörðin snúist kringum Sólina en ekki öfugt?- Er ekki sú staðreynd, að fólk hélt í árþúsundir að þessum gangi himintunglanna væri á öndverðan veg farið, nægileg sönnun þess að hin vísindalega þekking brýtur hvað þetta varðar í bága við það sem almennri reynslu og skynjun mannkynsins virðist vera sannleikur?
Og úr því að við teljum óhætt að treysta orðum vísindanna fyrir ótal hlutum sem vér höfum enga persónulega erfaringu af, og eru jafnvel á skjön við þá erfaringu, þá leyfi ég mér að staðhæfa að andlegheitaheimspekinni (andlegheitavísindunum freistast ég til að segja) er fyllilega trúandi þegar hún segir að sú samábyrgð skammsýninnar og fáviskunnar sem ´almenn, rökræn, veraldleg heimsskoðun´ nefnist, sé ekki annað en blinda moldvörpunnar samanborið við sýnina af hinni eilífu andlegu Sól sem ein er sannleikurinn, vegurinn og lífið.
P.s. Þó skyldum við ekki afskrifa hina ´almennu, rökrænu, veraldlegu heimsskoðun´, öðru nafni hina margtéðu húmanísku rökhyggju, fyrir þær sakir einar að hún fari gersamlega á mis við hinn sanna, guðdómlega kjarna veraldarinnar. Fyrstu fálmandi skref smábarnsins eru aumkunarverð og grátbrosleg miðað við hinn áreynslulausa og örugga gang fullorðins fólks - en þó er nefnt byrjunarskjögur barnsins óhjákvæmilegur og óámisviðfaranlegur grunnur að gagnvissu hinnar fullorðnu mannveru. Og þannig ber okkur að líta á hina húmanísku, veraldarsinnuðu skynsemishyggju - hún er nauðsynlegt og óviðveigrandi byrjunarskref í átt til þekkingar á hinum sanna veruleika hlutanna. Andi hennar er, líkt og segir í upphafi pistils þessa, í fullu samræmi við þau frumrænu þekkingarfræðilegu sannindi að ´reynslan sé mælikvarði allra hluta´. Aðferðafræði andlegheitaheimspekinnar (Búddisma, Jóga o.s.frv.) annars vegar og húmanísku rökhyggjunnar hins vegar er þannig miklu líkari en meþódólógía hvors þessa um sig annars vegar og trúarbragðanna hins vegar. Þetta sést af því að ósvikinn röksinni trúir, líkt og sannur andlegheitaheimspekingur, því einu sem sannanlegt er í mannlegri reynslu. - Hinn mannsinnaði rasjónalismi vorra tíma hefur gert heiminum það ómetanlega gagn að ´hreinsa borðið´ ef svo má til orða taka - þ.e. færa mannkynið aftur á hinn sanna byrjunarreit réttrar þekkingar, sem útþrykktur er með orðunum ´reynslan er eini mælikvarðinn´, og rutt burt allskyns þvaðri og loftköstulunum sem ekki eiga neina stoð í reynslu nokkurs manns eða nokkurrar veru (og ná jafnvel ekki máli innan vébanda kenningakerfis trúarbragðanna sjálfra; hér má t.d. nefna hinar fráleitu grillur ýmissa trúhópa um yfirvofandi ´heimsendi´ - það sem ágætur hugsuður enskumælandi, sem ég man því miður ekki heitið á, kallaði ´crude apocalypticism´ - en annars er ástæða þess að ég tel heimsslitatrúnna þeólógíska bábilju sú einfalda röksemd að alvitur Guð hefði enga lógíska mótiveringu til að tortíma skyndilega því sem hann hefði í alvisku sinni skapað í upphafi). Því skyldu spíritúelir fílósófar taka heilshugar höndum saman við mannsinnaða skynsemissinna, þar sem andinn jafnt sem útgangspunkturinn í hvorutveggja lífsviðhorfinu er, þegar öllu er á botninn hvolft, einn og hinn sami. Í slíkri einingu og samstöðu opnast dyrnar að undrinu mikla þegar vísindi, trúarbrögð og heimspeki fallast í faðma í eindrægni og harmóníu - því frumuppspretta allra þessara þriggja fyrirbæra er (hversu mjög sem birtingarmyndir þeirra að fornu og nýju kunna að skyggja á þá staðreynd) ein og söm: reynslan og aftur reynslan.
P.p.s Af gefnu tilefni skal tekið skýrt fram að ég efast ekki um að vísindafólk reisi kenningar sínar á persónulegri reynslu. Ég er einungis að segja að úr því almenningur trúi vísindunum - réttilega - fyrir alls kyns hlutum sem hann hefur enga persónulega upplifun af, þá er enginn fótur fyrir því að véfengja orð sk. ´mystíkera´ þegar þeir segja frá hlutum sem almúginn hefur heldur enga persónulega erfaringu af: þ.e. því sem nefnt er ´dulræn´ reynsla. Allt byggist þetta, vísindi jafnt sem andleg reynsla, á skynjun og hinni margumtöluðu persónulegu upplifun - og hví skyldi skynjun og persónuleg upplifun sumra vega þyngra á metaskálum sannleikans en annarra?
Og þá er þessu óvenjulega langa röfli dagsins lokið! Góðar, heilnæmar og yndislegar stundir.
Bloggar | Breytt 13.12.2007 kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2007 | 19:32
Gamalt en gott!
Í dag hef ég verið að lesa bók nokkra sænska með stuttum útdráttum úr verkum ýmsra kínverskra spekinga fyrr á öldum. Einn þeirra bar heitið Mo-Tzu og var uppi nokkru fyrir Krist. Þessi mikli hugsuður setti fram beitta og harða gagnrýni á stríðsrekstur ríkja á millum, og eru orð hans enn í dag, rúmum tvöþúsund árum síðar, fyllilega í gildi.
Í lauslegri þýðingu minni:
"Ef nú fyrirfinndist maður sem við það að sjá smávegis svertu myndi segja hana svarta, en við að sjá svertu í meira magni myndi segja hana hvíta, þá gætum við með réttu dregið þá ályktun að hann kynni ekki að greina milli svarts og hvíts. Og ef sami maður við að smakka smávegis beiskju myndi segja hana beiska, en við að smakka beiskju í stærri stíl segði hana sæta, þá myndum við slá því föstu að hann kynni ekki skil beisks og sæts. En nú þegar lítið óréttlætisverk er framið þá hefur fólk skynsemi til að fordæma það, en þegar svo stórt óréttlætisverk sem að ráðast á annað land er framið þá sér sama fólk ekki að það beri að fordæma. Þvertámóti vekur slíkur gerningur fagnaðarlæti og er kallaður réttlætisverk. Er hægt að kalla þetta að kunna greinarmun rétts og rangs? Með þessu móti sjáum við að herrar þessa heims hafa ruglingslegan skilning á greinarmuni rétts og rangs."
Ég læt lesendum eftir að heimfæra þessi fornu vísdómsorð uppá atburði nútímans . . .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2007 | 19:21
Snilld, snilld, snilld!
Nýverið festi ég kaup á eðalgrip miklum: geisladisknum ´The Byrds Play the Songs of Bob Dylan.´ Þarna er (eins og sjá má af titlinum) að finna tuttugu túlkanir hinar þjóðsagnakenndu fólkrokksveitar The Byrds á lögum snillingsins Bob Dylans.
Eitt lag greip mig sérstaklega sterkum tökum, en það er hin lítt þekkta lagasmíð ´Paths of Victory´, samin árið 1963. Útgáfa The Byrds af lagi þessu er hreinlega stórkostleg, og myndi ég mæla með því að lesendur festi kaup á plötunni bara til að heyra þetta eina lag!
Ekki er ég fjarri því að The Byrds hafi með téðri upptöku stofnað nýjan stíl sem kalla mætti ´gospelrokk´. Því laglínan er mjög í anda bandarískra blökkusálma, og textinn er (eins og svo ótal margir textar Dylans að gömlu og nýju) trúarkvæði út í gegn.
Þá er ekkert að vanbúnaði að birta textann lesendum þessa bloggs. Takið sérstaklega eftir hinni meistaralegu notkun Dylans á ýmsum minnum úr bandarískri alþýðutónlist (og þá einkum og sérílagi blúss og gospels), svo sem ánni (tákn fyrir Guð eða hið andlega) og lestinni (symból fyrir Hjálpræðið) - að ógleymdum blæstri vindsins, sem er notaður hér, eins og í einhverju þekktasta kvæði Dylans, ´Blowin´ in the Wind´, sem tákn fyrir náð Guðs (giska ég á - og er það nokkuð ýkja fráleitt gisk?). En textinn hljóðar annars svo:
Trails of troubles, roads of battles.
Paths of victory we shall walk.
The trail is dusty and my road it might be rough
but the better road´s a-waitin´ and boys it ain´t far off.
I walked down by the river, I turned my head up high
and I saw that silver lining that was hanging in the sky.
Trails of troubles, roads of battles.
Paths of victory we shall walk.
The evening dust was rolling, I was walking down the track
there was a one-way wind a-blowin´, it was blowin´ at my back.
The evening train was rolling, the humming of its wheels
told me of a better day as a looked across the fields.
Trails of troubles, roads of battles.
Paths of victory we shall walk.
The trail is dusty, the road it might be rough
but the good Lord is a-waitin´ and boys He ain´t far off.
Trails of troubles, roads of battles.
Paths of victory we shall walk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2007 | 15:23
Kjarnyrt spakmæli dagsins
Ef líkja má þeirri andlegu reynslu, sem er upphaf og grunnur skipulagðra trúarbragða, við sannindi einhverrar vísindagreinar, t.d. eðlisfræði, þá samsvara trúarbrögðin sjálf því að fólk hætti að fara í skóla til að læra eðlisfræðina, heldur taki þess í stað að ´trúa´ á hana og í þokkabót að tilbiðja forvígismenn hennar (eins og Newton og fleiri) sem guði, eða í öllu falli sem menn gædda visku og mætti sem vér óþvegnir meðaljónar getum aldrei vonast til að öðlast!
Bloggar | Breytt 6.12.2007 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2007 | 16:20
Hin geysispöku geislafræði
Segja má að allir hlutir í alheiminum, hvort sem þeir kallast ´efnislegir´ eða ´andlegir,´ hvort sem þeir tilheyri launsannreyndum sálarlífsins eða óravíddum stjarnanna, samanstandi af tiltekinni blöndu sjö grunnorkustrauma, sem nefndir eru ´geislar´ í esóterískri speki.
Merkileg er sú staðreynd að geislar þessir samsvara nákvæmlega hinum sjö litum regnbogans. En þetta þarf ekki að koma ýkja mikið á óvart þegar haft er í huga að öll jarðnesk þing eru aðeins dauf endurspeglan æðri og dýpri kosmískra sanninda.
Hefst þá upptalning geislanna:
1. geisli: Vilji og kraftur. Litur: rauður.
2. geisli: Kærleikur og viska. Litur: appelsíngulur.
3. geisli: Virk greind og aðlögunarhæfni. Litur: gulur.
4. geisli: Harmónía, fegurð og list. Litur: grænn.
5. geisli: Konkret þekking og vísindi. Litur: blár.
6. geisli: Trúarhollusta (devósjón) og abstrakt hugsjónamennska. Litur: dökkblár (indigó).
7. geisli: Seremónískur galdur og skipulag. Litur: fjólublár.
Mjög forvitnilega lærdóma má draga af geislafræðunum hvað varðar takmarkanir hinnar sk. ´vísindalegu heimsmyndar´ vorra daga. Við sjáum auðvitað að hin ´vísindalega heimsmynd´ er útþrykk fyrir aðeins einn geislanna sjö, hinn fimmta (geisla konkretrar þekkingar og vísinda), og representerar þannig bókstaflega einvörðungu 1/7 tilverunnar!
Aukinheldur má læra þá lexíu af geislafræðum að andleg fyrirbrigði eins og kærleikur, fegurð, list og hugsjónamennska eru ekki lengur óútskýranlegir aðskotahlutir í andsneyddum hræringum efnisins, eins og þeir hljóta óhjákvæmilega að vera í augum ´hinnar vísindalegu heimsmyndar´, heldur eru þeir þvert á móti fullkomlega rökrétt og eðlileg afleiðing grunnlögmála tilverunnar. Sjálfur kærleikurinn, þessi epítóma hins ´reikula, huglæga lífs´, er þannig í raun réttri jafn hlutlæg staðreynd, jafn náttúru- og lögmálsbundið fyrirbæri, jafn normöl og integröl og sjálfsögð afurð Móður náttúru, líkt og sveiflur sameinda og aðrar slíkar sannreyndir efnisvísindanna (*þó má ekki skilja þessi orð um hlutlægni kærleikans, auk listarinnar og annarra andlegra gæða, á þann veg að þessi fyrirbrigði eigi rót sína undir efninu; í hinstu greiningu hlutanna er ekki til neitt ´efni´ - allt sem til er, jafnt ´efni´ sem ´andi,´ stafar einungis og alfarið af tiltekinni samblöndu geislanna sjö, líkt og staðhæft var í inngangi pistilkorns þessa).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2007 | 13:07
Barneignir eru glæpur!
Snemma ævinnar tók ég þá ákvörðun að ég myndi aldrei eignast börn.
Ástæðan er sú að ég álít það hámark allrar mannvonsku að stuðla að því að börn fæðist inní þennan andstyggilega heim kvala, sorga og þjáninga.
En nú kynni sumt fólk að andæfa ofangreindu með þeirri röksemd að ef allir færu að mínu fordæmi myndi mannkynið deyja út.
Og ég svara: fyrir alla muni, látum mannkynið allt ganga fyrir ætternisstapa! Þá verður a.m.k. endi bundinn á þjáningarnar í eitt skipti fyrir öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 18:12
Geðklofi er andhverf spegilmynd jóga
Eins og fram hefur komið í fyrri bloggfærslu þá álít ég sinnissjúkdóm þann sem ég er greindur með, geðklofann, stafa einungis af of stórum skammti andlegrar reynslu.
Í eðli sínu er reynsla þessi sú nákvæmlega sama og jógafræðin leitast við að veita fólki. Munurinn er aðeins sá að jóginn stefnir markvisst að því að öðlast nefnda reynslu varkárnislega, skipulega og agabundið, en geðklofinn öðlast hana fyrir hálfgerða slysni, og þá mjög ofsafengið, óskipulega og agalaust.
Einhver vís maður setti fram þá ágætu líkingu að jóginn er sem maður er leggur út á sæ sálarinnar í traustu og haldgóðu fleyi, en geðklofinn er sem maður er leggur út á sama haf í hriplekum fúadalli - sem sekkur auðvitað von bráðar undan honum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2007 | 16:33
Syndin er leiðin til sáluhjálpar
Andstætt því sem þermiheldnir (anal-retentívir) siðapostular vilja iðulega meina, þá er leiðin til að vinna bug á ´syndinni´ ekki sú að hafna henni, heldur þvert á móti að velta sér uppúr henni þar til maður fær ógeð á henni.
Heimfærum þetta lögmál uppá einn útbreiddasta og jafnframt siðlausasta ósið vorra tíma: kjötát. Bersýnilega tjóir ekkert að messa yfir hausamótunum á fólki til að fá það til að leggja af þennan illa vana. Barnið verður sjálft að brenna sig á hellunni til að því skiljist að heitrarhellusnerting er óheillavænleg.
Því segi ég við alla sem enn eru ánetjaðir kjötgúffunarósvinnunni: Étið og étið ket! Étið heilu bílfarmana af keti! Étið heilu skipslestirnar af keti! Étið ket þar til það lekur út úr eyrum ykkar! Étið ket þar til ykkur liggur við að æla! Étið og étið nógu djöf . . . mikið af keti!
Og síðan, einn morguninn, mun djarfa fyrir þeim dýrðardegi að þið getið ekki hugsað ykkur að troða ketandstyggðinni upp í gúlann lengur. En um þetta er þarflaust og gagnslaust að ræða. Fyrst er að syndga nógu andsk . . . duglega og ærlega; syndga af öllum kropps og sálar kröftum - svo er að verða dýrlingur og heilagmenni. Það er lögmál allrar siðferðisþróunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)