Færsluflokkur: Bloggar

Taóismi: trúabrögð fyrir femínista

Fyrir fólk sem finnur til trúhneigðar, en er orðið langþreytt á hinum sífelldlega karl- og hershöfðingjakennda guðdómi kristninnar (sbr. nafngiftir eins og ´Drottinn allsherjar´ sem úir og grúir af í Biblíunni), þá er Taóisminn kínverski mjög spennandi kostur.

Í höfuðriti Taótrúar, hinni ægifögru Bók um veginn, er hvergi talað um Almættið sem karlveru og þaðan af síður sem generál:´Herra´ eða ´Drottinn´ eða önnur slík heiti fyrirfinnast ekki þar. Þess í stað er Almættinu líkt við ljúfa og blíða kvenveru sem fæðir alla hluti og elur önn fyrir þeim líkt og móðir fyrir börnum sínum. ´Hið milda móðurskaut´, ´hin mikla móðir allra hluta´ - slík eru heiti þau er Bókin um veginn sæmir Alvaldið.

Alvaldið, Móðirin mikla, þjónar og annast um en drottnar ekki, og vér mannverurnar erum hvattar til að feta í þau fótspor. Í þessu atriði (þ.e. áeggjaninni til að þjóna en ekki að láta þjóna sér) svipar boðskap Taóismans mjög til ýmissa orðskviða Krists, en sá er munurinn að Kristur nefnir guð sinn alltaf og ævinlega ´Föður´, sem er hvimleitt og fráhrindandi fyrir fólk sem þyrstir fremur (eða a.m.k. jafnhliða) í kvenhlið og móðurpól guðdómsins.

Trúhuga femínistar beggja kynja: sperrið eyrun við boðskap Taóismans!


Kvennabarátta á nokkrum villigötum?

Sjálfsagt kalla ég yfir mig vanþóknun margra femínista með því sem hér fer á eftir, en það verður bara að hafa það.

Væri það ekki miklu gáfulegra af kvenréttindasinnum að hætta að leggja þyngstu áhersluna á að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum, og berjast með oddi og eggju fyrir því að hinar svokölluðu ´kvennastéttir´ (þ.e. aðallega umönnunarstéttirnar) fái sómasamlegt kaup? Að allt fólk af báðum kynjum fái almennileg laun sama hvaða starf það kýs að verja vinnuævi sinni í - er það ekki það sem skiptir langmestu máli fyrir kvenfrelsi jafnt sem karlfrelsi?

Oft hefur mér reyndar flogið í hug að heillavænlegast væri að allt fólk fengi nákvæmlega sömu laun fyrir sama vinnustundafjölda. Með þeim hætti væri tryggt að allar manneskjur veldu sér starf eingöngu út frá áhuga og hæfileikum, en ekki (eins og nú er allt of víða tilfellið) af annarlegum ástæðum svo sem fjárfýsn, nú eða þá móthverfu fjárfýsninnar: lúsarlaunafælni.

Ýmsir hafa eflaust þær mótbærur fram að færa við ofangreindu að ef ´ábyrgðarmeiri´ störf væru ekki hærra launuð en þau ´ábyrgðarminni´ þá myndi enginn eða í öllu falli fáir og alls ekki þeir hæfustu sækjast eftir hinum fyrrnefndu.

Gallinn við þetta sjónarhorn er að það er afar örðugt er að skilgreina hvaða störf teljast ´ábyrgðarmeiri´ en önnur, og oft er mat samfélagsins í þessum efnum fullkomlega fráleitt. Gott dæmi um þetta er himinhátt kaup bankastjórnenda, sem einmitt er réttlætt með því hvað það starf sé ´ábyrgðarmikið´. Heyr á endemi! Er það ´ábyrgðarmeira´ að stjórna banka en t.d. að hlynna að sjúkum og slösuðum á spítala? Er tilfellið ekki einmitt öfugt, þegar skynsamlega er um málið hugsað? Þó er bankastjórnarstarfið margfalt hærra launað en hjúkrunarstarfið. Er það ekki hreinlega himinhrópandi galið?

Sú rökfærsla sem oft heyrist, að hærri laun dragi hæfara fólk til sín, er fullkomin hundalógík í mínum eyrum; reyndin virðist mér vera algerlega andstæð. Ef allt fólk fengi sömu laun fyrir sama vinnustundafjölda, eins og lagt var til hér að ofan, þá fyrst yrði tryggt að hæfasta og áhugasamasta fólkið fengist í öll störf, en ekki bara mestu auraelskendurnir eins og alltof víða er tilfellið í samfélagi þar sem sum störf eru hærra metin í krónum en önnur (en slíkt launamisrétti er fullkomlega vilkvæmt og óréttlætanlegt, að mínu mati).

Ég hef þá trú, sem fólk má kalla naíva, að manneskjan sé dugleg og atorkusöm í eðli sínu. Hún þarf ekki á að halda þeirri gulrót, að njóta hærri launa og betri lífskjara og meiri virðingar en meðmannverurnar, til að leggja sig alla fram í hverri þeirri atvinnugrein sem hjartað stendur til - hvort sem aulalógík heimsins kallar þá atvinnugrein ´ábyrgðarmeiri´ eða ´ábyrgðarminni´. Og affarasælast er að láta hjarta alls fólks ætíð ráða ferðinni við val á starfi, en ekki þær annarlegu ástæður sem að ofan er tæpt á: fjárfýsn og lúsarlaunafælni. Og slík ´allsherjar hjartavæðing atvinnuvalsins´ fæst eingöngu fram með fullu jafnræði allra stétta í virðingu, launum og öðrum kjörum.


´Hinn kosmíski andardráttur´

Meginhugmynd andans risans danska Martinusar er jafn einföld og auðskilin eins og hún er djúp og dúndursnjöll: Allar verur alheimsins sveiflast í sífellu milli tveggja andstæðra skauta. Þessi skaut eru annars vegar andi, ljós og eining, og hins vegar efni, myrkur og aðskilnaður. Sveiflan milli skautanna tveggja á sér merkilega analógíu í andardrætti manneskjunnar og margra annarra lífvera: lungun þenjast út, og þegar þenjanin hefur náð hámarki sínu dragast lungun aftur saman, og þegar aftursamdrátturinn hefur náð hápunkti sínum taka lungun að þenjast út aftur - og þannig áfram og áfram, meðan lífveran dregur yfirhöfuð lífsandann. Það er sakir þessarar líkingar við andardráttinn sem Martinus nefnir sveifluna miklu (sem allar lífverur eru staddar einhvers staðar í), milli mótstæðra skauta anda / ljóss / einingar og efnis / myrkurs / aðskilnaðar hinn kosmíska andardrátt.

Á vegferð þessari milli skautanna tveggja ríkja tvö lögmál: svengd og saðning. Lífveruna svengir eftir andstæðri reynslu við þá sem hún hefur fengið sig sadda af, og þegar hún hefur fengið sig sadda af þeirri reynslu fer hana aftur að svengja í mótstæða pólinn, og þannig áfram endalaust. Með öðrum orðum: lífveran sökkvir sér ofan í myrkrið / efnið þegar hún hefur fengið nóg af ljósinu / andanum, og þegar hún hefur sökkt sér ofan í ljósið /andann og fengið fyllingu sína af þeim pólnum þá fer hún að þrá myrkrið / efnið á nýjan leik - og þannig áfram óendanlega.

Eins og vitur maður hefur sagt þá væri ævarandi vist í himnaríki jafn andstyggileg tilhugsun og eilíf dvöl í helvíti. En sem betur fer er lögmálum tilverunnar þannig háttað að ekkert eilíft himnaríki er til fremur en ævarandi helvíti. Lífið er eilíf víxlan anda og efnis, með öðrum orðum hvíldar og starfsemi.

Eilíf starfsemi án hvíldar er hryllileg tilhugsun, en eilíf hvíld án starfsemi er ekki síður hroðaleg tilhugsun. En lífinu er svo dásamlega háttað að hvíld og starfsemi skiptast sífellt á - en það sem ræður þeirri áskiptan er nákvæmlega ekkert annað en löngun lífverunnar sjálfrar. Engri lífveru, sem er í hvíld (þ.e. sem dvelur í ljósi / anda), verður nokkurn tíma þröngvað til að hella sér út í starfsemina (þ.e. dvöl í myrkri / efni) andstætt hennar eigin vilja og löngun - það er ekki fyrr en lífveran hefur sjálf fengið sig saddda af hvíldinni og svengir eftir að sökkva sér ofan í starfsemina aftur sem hún gengur inn á starfsemdarbrautu . Og það sama gildir um lífveru sem er í starfsemi - það er ekki fyrr en hún er orðin þreytt á starfseminni og aktívítetinu og þráir frið og hvíld sem hún gengur inn á veginn sem liggur til friðar og hvíldar. Með öðrum orðum: svengd og saðning lífverunnar sjálfrar er hið eina sem ræður vegferð hennar milli hvíldar / anda og starfsemis / efnis - utanaðkomandi þrýstingur er ekki til í þessu samhengi. Viljinn er ætíð og ævinlega alfrjáls.

En nú komum við að lykilpunkti í öllum þessum hugleiðingum: ýmsir hafa kannski fengið það innþrykk af ofansögðu að rás þróunarinnar sé lokaður hringur þar sem sama reynslan endurtaki sig aftur og aftur út í hið óendanlega; lífveran byrji sem ormur eða einhver þaðanaf lægri efnisvera og þróist upp í það að verða guðsvera - aðeins til að detta aftur ofan í efnið og hefja gönguna upp á við frá nákvæmlega sama stað og hún hóf hana í fyrra skiptið (þ.e. sem ormur eða eitthvað þessháttar). Sjónarmiði þessu hefur verið haldið fram í ýmsum nýlegum ritum andlegs eðlis, til dæmis hinum feykivinsælu bókum Conversations with God, sem komið hafa út á íslensku undir heitinu Samræður við Guð.

Ofangreindur sjónarhóll er, eins og svo ótalmargt annað (kannski flest) í lífinu, hálfsannleikur. Vissulega æxlast þróunin í sífelldri hringlaga sveiflu milli efnis og anda - en sveifla þessi er ekki lokaður hringur eða lykkja, heldur spírall. Það er að segja: hver hringrás lífverunnar milli andstæðra skauta efnis og anda endurtekur í grófum atriðum hringrásina þar á undan, en bara á hærra og hærra stigi. Þannig er aldrei nokkkurn tíma um það að ræða að organisminn endurtaki reynslu sína sem að baki er - allt fram streymir endalaust, eins og skáldið sagði: tilveran er eins og fljót þar sem aldrei er stigið ofan í sama vatnið tvisvar.

Allt í alheiminum er eilíf, óútmáanleg og óafturkræf þróun upp á við og framávið- aldrei afturábak eða í lykkju. Þannig má segja að myrkur / efni hverrar hringrásar skíni skærar en ljós / andi hringrásarinnar þar fyrir neðan. Þegar lífveran hefur þróast upp úr því að vera ormur og í það að vera guðleg mannvera, þá dettur hún aldrei undir nokkrum kringumstæðum niður á ormsástandið aftur þegar hún sökkvir sér ofan í efnið á nýjan leik, heldur verður þess í stað reikistjarna eða eitthvað álíka sem gnæfir himinhátt yfir orminum  - og svo þegar lífveran kemur aftur ofan í efnið á þarnæstu hringrás spíralsins verður hún sól eða eitthvað þess háttar sem gnæfir ógurhátt yfir reikistjörnuna (ég held því hér blákalt fram að reikistjörnur og sólir séu lifandi verur - en er það nokkuð svo fráleitt staðhæfing? Hví ættu lífverur jarðar að vera eini mælikvarðinn í alheiminum á það hvað er lifandi og hvað ekki? Er það ekki andleg nesjamennska af verstu sort að útiloka fyrir fram án nokkurrar rannsóknar eða umþenkingar að alheimurinn geymi fleiri lífgæddar verur en þær sem hin fátæklega skynjun mannsins og þekking beri kennsl á sem slíkar?).

Vart þarf að taka fram að kenningin um ´hinn kosmíska andardrátt´ gerir ráð fyrir endurholdgun. Ein einasta hringrás á spíralstiganum spannar þvílíkar tímalengdir að hvert einstakt jarðlíf er í samanburðinum eins og auga sé deplað. - Þeorían um ´hinn kosmíska andardrátt´ forútsetur að hver lífvera sé eilíf og dauðinn aðeins bragð náttúrunnar til að leysa upp útslitið og eileingurhentugt form andans að baki lífverunni og veita þeim anda nýjan og betri búning. Og af kenningu þessari leiðir rökrétt að endurholdgun sé staðreynd, því svo lengi sem við séum ófullkomin (þ.e. stödd einhvers staðar á lægri og myrkari stigum hverrar spíralhringrásar) þá verðum við að snúa aftur og aftur til jarðnesks lífs til að öðlast fullkomnun (þ.e. að ná hástigi ljóssins á hverri spíralhringrás). Þessu má líkja við að ganga í skóla; enginn nemandi verður fullnuma á einum skóladegi. Að halda því fram að ekkert líf sé að þessu loknu er álíka sanngjarnt og að gera ráð fyrir því að sex ára krakka sé aðeins veittur einn dagur í grunnskólanum og þar með sé skólagöngu hans lokið. Og að fullyrða að líf sé að jarðævinni lokinni, en að það eigi sér ekki stað með því að lífveran snúi aftur til jarðar heldur með því að hún kveðji jörðina endanlega og stígi upp á einhver andleg svið sem æðri eru jörðu, er eins og að segja að sex ára hnokki eða hnáta fari upp í háskóla að loknum einum degi í grunnskóla.

Vér verðum fyrst að læra til hlítar lexíur vorar í skóla efnisins áður en vér getum gert oss vonir um að lifa og hrærast í andanum. Og efnisheimslærdóma þessa tekur þúsundir ef ekki milljónir ára að nema til fullnustu - á einum einasta myrkurpóli einnar einustu spíralhringrásar!

Þá er þessum stuttu hugleiðingum um meginpunktinn í hinu geysimikla höfundarverki danska heimspekisnillingsins Martinusar lokið. Ef til vill mun ég í síðari bloggfærslum útlista fleiri atriði í kenningakerfi þessa genís - en best væri auðvitað að fólk kynnti sér bækur Martinusar (höfuðverkið Livets Bog, sem ég hygg að hafi því miður aldrei komið út á íslensku, eða Kosmísk fræðsluerindi, sem hefur verið snarað á móðurmál vort og til eru á almenningsbókasöfnum). Að kynna sér hinn stórkostlega hugmyndaheim Martinusar með hans eigin orðum er vitaskuld miklu æskilegra en að reiða sig á ófullkomið bergmál þeirra í skrifum mínum eða annarra.

Góðar stundir.


Kristindómurinn í réttu ljósi

Sumt fólk vill meina að kristindómurinn sé dásamlegasta blessun sem mannkyni hafi hlotnast. Sumt annað fólk vill meina að kristindómurinn sé skelfilegasta hörmung sem yfir mannkyn hafi dunið (dæmi um þetta sjónarhorn er hin fremur öfgakennda vefsíða http://www.jesusneverexisted.com/).

Eins og endranær liggur sannleikurinn einhvers staðar þarna í milli. Kristnin er hvorki hreinræktuð blessun né hreinræktuð hörmung, heldur samblanda af hvorutveggja. Því trúarbrögð eru hvorki betri né verri en samsafnaður karakter hinna einstöku ýmist góðu eða slæmu fylgismanneskja þeirra, eins og gildir vitanlega líka um öll önnur mannanna félög, til dæmis þing og þjóðir. Að segja að kristin trú (eða hvaða önnur religjón sem vera skal) sé góð eða slæm trúarbrögð er því álíka greindarlegt og að segja að Alþingi sé gott eða slæmt þing, eða að kínverska þjóðin sé góð eða slæm þjóð.

 


Hví eru kristni og búddasiður svo lík sem raun ber vitni?

Í síðasta bloggi mínu veik ég í upphafi máls míns að þeim sláandi líkindum sem eru að finna milli orðskviða tveggja helstu trúarbragðastofnenda mannkynssögunnar, Kristi og Búdda.

En hvernig stendur eiginlega á þessum og öðrum merkilegum svipleikum milli þessara tveggja religjóna? 

Ýmsir hafa leitt getum að því að um verkan annarra þessara trúarbragða á hin sé að ræða (og þá fremur áhrif búddismans á kristnina en öfugt, þar sem búddisminn er eldri).

Ég tel aftur á móti að það sé allt eins sennilegt að líkindin stafi einfaldlega af því að hjarta og andi manneskjunnar séu alltaf söm við sig, hvort sem er í Indlandi á fimmtu öld f.k. eða í Palestínu á dögum Jesú. Andlegur sannleiki sé líkt og ein einasta lind sem spretti fram sjálfstætt á mörgum stöðum í einu án þess að um nokkra blöndun sé að ræða.


Nánar um samanburð búddisma og kristni

Varla fer framhjá neinum ærlegum sannleiksleitanda að kristindómur og búddismi eru að mjög mörgu leyti keimlík trúarbrögð. Jafnvel mætti halda því fram að sem sameinar sé miklu meira en það sem aðskilur, a.m.k. þegar búið er að greina kjarnann frá hisminu. Þannig eru fjöldamargir orðskviðir þeir sem hafðir eru eftir þeim Kristi og Búdda hreinlega sláandi líkir (*ekki skal hér farið út í ástæðu þessara líkinda; ýmsir hafa leitt getum að því að um verkan annarra þessara trúarbragða á hin sé að ræða (og þá fremur áhrif búddismans á kristnina en öfugt, þar sem búddisminn er eldri) - en allt eins er sennilegt að líkindin stafi einfaldlega af því að hjarta og andi manneskjunnar eru alltaf söm við sig, hvort sem er í Indlandi á fimmtu öld f.k. eða í Palestínu á dögum Jesú; andlegur sannleiki er líkt og ein einasta lind sem sprettur fram sjálfstætt á mörgum stöðum í einu án þess að um nokkra blöndun sé að ræða).

En í einu atriði er þó mikill munur á þessum tvennum að mörgu leyti háleitu og fögru trúarbrögðum (ég tala hér um þá strauma sem hafa verið sterkastir í hvorri trú um sig í sögulegu samhengi - auðvitað eru undantekningar á öllu ef allt er tekið með í reikninginn). Búddisminn boðar yfirleitt að manneskjan eigi að kosta kapps um að bæta sjálfa sig og ekki vera upp á neitt annað komin en eigin rammleik. Er búddisminn yfirhöfuð miklu bjartsýnni en kristnin um getu einstaklingsins til að betrumbæta og fegra upp á eigin spýtur lyndiseinkunn sína sem og breytni gagnvart mönnum og öðrum lifandi verum.

En í þessari afstöðu búddismans felst bæði styrkur hans og veikleiki. Styrkurinn felst í hinni botnlausu trú á sjálfsumbreytingarmátt mannseðlisins. Veikleikinn er sá að samkvæmt búddisma getum við ekki stólað á neitt nema okkur sjálf; það er enginn persónulegur guð sem getur veitt okkur náð sína og vernd og hjálpað okkur að taka næsta skjögrandi skref framávið þegar allir kraftar líkama og sálar virðast þrotnir.

Enda hefur farið svo í sögulegri þróun búddasiðar að Búdda hefur, þvert ofan í sinn eigin yfirlýsta vilja, víða verið hafinn upp til skýjanna sem ofurmenni og nánast eða alfarið tekinn í guðatölu af hinum almennu fylgjendum búddismans. Ágæt bók um alþýðubúddisma japanskan, sem ég las eitt sinn, ráðleggur lesendum að fela allt sitt ráð í hendur alvitrar og náðarfullrar forsjónar Búdda. Hin djúpstæða þörf mannshjartans fyrir persónulegan guðdóm lætur ekki að sér hæða.

En að sama skapi og einstaklingssjálfsbetrunargetubjartsýni búddismans er bæði helsti styrkleiki og veikleiki búddisiðar, þá er boðskapur kristninnar um náð framar verkum í senn megin styrkleiki og veikleiki kristindómsins. Styrkleikinn er sá að náðarboðskapurinn veitir okkur oftsinnis þjökuðum og ráðvilltum manneskjunum fullvissu um sínálæga hjálparhendi að ofan, og ljær okkur þá undursamlegu hughreystingu að finnast við aldrei vera skilin eftir líkt og reköld á ólgusjó lífsins. Veikleikinn er sá hins vegar sá, eins og komið hefur aftur og aftur í ljós í sögulegri þróun kristindómsins, að ofuráherslan á náð framar verkum hneigist til að lama alla sjálfsbetrunarviðleitni einstaklingsins.

Rammast kveður að þessu í boðskap margra forvígismanna siðbótarinnar, sem endurvöktu hina fremur ógeðfelldu kenningu sem kennd hefur verið við forútval, og gengur líkt og nafnið gefur til kynna út á það að guð hafi valið þegar fyrir sköpun alheimsins hvaða fólk muni bjargast og hvaða fólk muni glatast, og að manneskjan geti ekkert gert til að hnika þessu forútvali almættisins. Ekki þarf snilling til að sjá hvaða áhrif boðskapur þessi hlýtur að hafa á viðleitni i einstaklingsins til að fegra sig og umhverfi sitt af eigin getu.

Og hver er svo lokaniðurstaða hugleiðinga þessara um mun búddisma og kristindóms? Jú, hún er sú sígilda kennisetning Hávamála að ´engi er einna hvatastur´; þ.e. enginn er í öllu öðrum fremri. Kristindómurinn og búddisminn líkamna hvor um sig mikil og guðdómleg en þó mismunandi sannindi: búddisminn að hverri mannveru séu lítil eða engin takmörk sett í því hve mjög hún geti fegrað og betrumbætt sjálfa sig og umhverfi sitt; kristindómurinn að guði séu lítil eða engin takmörk sett í því hve mjög hann geti liðsinnt hverri þeirri manneskju, sem á hann trúir, til að fegra og betrumbæta sjálfa sig og umhverfi sitt. 

Botnlaus trú á manneskjunni og botnlaus trú á guði - í aðskildu lagi er þetta hvorttveggja hálfsannleikur, en saman er þetta alsannleikur.


Lítilsháttar samanburður á nokkrum atriðum í kristindómi og búddisma

(Mikilvæg tilmæli til þeirra sem halda eftir lestur fyrstu tveggja efnisgreina þessa pistilkorns að það sé bara árás á kristindóminn og hætta þá lestri: lesið pistilinn allt til enda og þá mun allt verða ljóst).

 Ekki fer milli mála að fyrir vísindasinnað og skeptískt nútímafólk er búddisminn mun heppilegri og nærtækari trú en kristindómurinn. Búddisminn er það sem góður kunningi minn kallaði eitt sinn "no-nonsense" trúarbrögð. Búdda sagði sjálfur að manneskjan ætti ekki að trúa neinu né hafna neinu nema hún gæti staðfest það eða hnekkt því í eigin reynslu - sem er jú hið vísindalega hugarfar í hnotskurn. Ennfremur lýsti Búdda því yfir að manneskjan ætti ekki að reiða sig á neitt nema sig sjálfa - kenning sem fellur einstaklingssinnuðu, mannhyggjuhverfu og eigingetusannfærðu nútímafólki mjög vel í geð, miklu betur en sú hefðbundna kenning kristinnar kirkju að manneskjan megni ekkert upp á eigin spýtur og verði að reiða sig algerlega á náð guðs.

Sakir hins praktíska og jarðbundna eðlis síns hefur búddismanum miklu síður lent upp á kant við hina vísindalegu og heimspekilegu hugsun nútímans en kristindómurinn. Í búddismanum er ekkert þvaður um að hver einasti bókstafur sem stendur í einhverri morkinni skruddu sé heilagur og óvéfengjanlegur sannleikur, né að jörðin hafi verið sköpuð fyrir sexþúsund árum, né að heimurinn muni einn daginn skyndilega tortímast eins og við þekkjum hann og aðeins hin fáu trúuðu muni komast af og öðlast ævarandi líf en allur þorri mannkynsins glatast að eilífu o.s.frv., o.s.frv.

Ef ég ætti hins vegar að greina frá minni eigin skoðun á muninum á þessum tveim merkistrúarbrögðum, kristni og búddisma, eins og þau birtast í sinni fegurstu og fílósófískustu mynd, þá myndi ég segja að sumt í kristninni kafi dýpra og af meiri dirfsku en nokkuð í búddasið. Hér mætti taka til hina óviðjafnanlegu sögu af krossdauða og upprisu Krists, sem að mínu viti er ekkert minna en ígildi yfirlýsingar guðdómsins um að himnaríki tilheyri hinum þjökuðu, þjáðu og smáðu, og aukinheldur að kærleikssólin muni á endanum skína í gegnum öll myrkursský sérþótta, haturs og grimmdar. Þó að búddisminn tali vissulega af miklum hita og djúpri alvöru um gildi samúðar og meðlíðanar með öllum þeim verum sem hvers kyns kröm sæta, þá er ekki að finna í búddisma þessa undursamlegu hughreystingu og uppörvun sem kristindómurinn boðar, að guð þjáist í okkur og með okkur, og að náð hans sé ætíð tiltæk, jafnvel (eða öllu heldur aldrei fremur en) í okkar dýpstu neyð og sárustu kvöl.

"Fullvissan um návist guðs í hrárri og hrottalegri veröld," eins og ágætur maður orðaði það - þessi fullvissa er það sem kristnin hefur fram yfir hina agnostísku trúhreyfingu sem Gautama Búdda stofnaði.

En ofangreind sannfæring mín um partlega yfirburða dýpt og dirfsku og huggunarmátt kristninnar á sér þá ómissandi forsendu að ég er fyrirfram sannfærður um tilvist andlegs veruleika, sakir þeirrar ógleymanlegu epífanísku reynslu sem ég varð fyrir árið 2002. Fyrir það fjölmarga nútímafólk sem efast um allan andlegan veruleika er búddisminn miklu betri og sönnunarvænni kostur en kristindómurinn. - Freistast ég til að nota þá líkingu að barnið verði sjálft að læra með erfiðismunum að ganga áður en það getur rölt hönd í hönd við móður sína eða föður. Líking þessi táknar m.a. að það að reiða sig alfarið á persónulega viðleitni, eins og búddisminn boðar, hlýtur ævinlega að vera undanfari þess að reiða sig á náð guðs, eins og kristindómurinn boðar. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálf - og hann gerir það þegar þau geta ekki hjálpað sér sjálf lengur.


Er afnám trúarbragðanna lausnin?

Ýmsir mætir menn hafa látið þá skoðun sína í ljós að skilyrðið fyrir því að byggja upp mannsæmandi heim sé algert afnám allra trúarbragða.

Mér virðist þessi hugmynd áþekk því að boða að forsenda þess að gera veröldina skikkanlega sé algert afnám allra stjórnmálaflokka. Innan allra stjórnmálaflokka er allskyns fólk, bæði gott og slæmt, heimskt og viturt - og eins er um trúarbrögðin. Afnám stjórnmálaflokka og trúarbragða sem stofnanna hefði engin áhrif á skaphöfn og mannkosti hinna einstöku meðlima þeirra.

Það eru nefnilega ekki trúin og stjórnmálaafstaðan sem ráða skaphöfninni og mannkostunum, heldur skaphöfnin og mannkostirnir sem ákvarða trúnna og stjórnmálaafstöðuna.


Kristsgátan leyst

Þegar öllum guðfræðiflækjum sleppir þá stendur þessi sáraeinfalda en regindjúpa staðreynd eftir:

- Hinn krossfesti Kristur er tákngervingur allra þeirra sem þjást og sæta niðurlægingu og kúgun. Og hinn upprisni Kristur er tákngervingur þeirrar lýsandi guðdómsnáttúru sem er allra mannvera innsta eðli og engin þjáning, niðurlæging eða kúgun getur myrkvað til lengdar.


Fleiri spakmæli

- Segðu aldrei neitt um annað fólk sem þú myndir ekki treysta þér til að segja við það sjálft.

- Að öllu öðru jöfnu er einfaldasta skýringin sennilega sú réttasta.

- Engin er tunga án tökuorða.

- Þótt þú eigir höll með þúsund svefnherbergjum geturðu aðeins sofið í einu þeirra hverja nótt.  Þótt þú eigir þúsund bifreiðar geturðu aðeins ekið einni þeirra í hverjum akstri. Hví þá að eiga meira en eitt svefnherbergi eða meira en eina bifreið?

- Úr því til eru verur óæðri manninum, hvað er þá því til fyrirstöðu að til séu einnig verur æðri manninum?

- Lifðu hvern dag eins og hann væri þinn hinsti í þessu jarðlífi. Lifðu ennfremur eins og dagurinn í dag sé síðasti hérvistardagur ástvina þinna.

- Fyrst fjarstæða, síðan möguleiki, þar næst líkindi, svo viðtekin sannindi, loks trúarbrögð - slík er hugmyndanna þróun.

- Hin vitru keppa ekki við neinn né neitt nema sig sjálf.

- ´Tilviljun´ er útskýring þeirrar mannveru sem gefist hefur upp á að finna útskýringu.

- Mesta og mikilsverðasta list í heimi er list sjálfsögunar.

- Hvert einasta sekúndubrot er einstök stund sem hefur aldrei komið áður og mun aldrei koma aftur. Njóttu sem skyldi.

- Það sem ekki stútar þér styrkir þig.

- Allir vitringar eru í senn þjóðlegir og alþjóðlegir.

- Við hvern þann verknað sem þú drýgir, ímyndaðu þér þá að þú sért að setja fordæmi öllu mannkyni (með öðrum orðum: gerðu ávallt það sem þú vildir að allt annað fólk myndi gera í þínum sporum; með enn öðrum orðum: gerðu ævinlega það sem þú vildir að yrði almenn regla fyrir allt mannkyn).

- Hvaða þöngulhaus sem er getur orðið hamingjusamur. Vitringurinn hyggur að andlegum vexti, ekki hamingju.

- Ef nemandinn tekur ekki kennaranum fram, þá er kennarinn mislukkaður.

- Ekki er til verra guðlast en að halda því fram að öll viska guðs takmarkist við einhverja ákveðna skruddu. Ennfremur verður það að teljast guðlast af verstu sort að ímynda sér að guð takmarki opinberanir sínar og hjálpræðisveitingu við einhver ákveðin trúarbrögð.

- Hin hryggilega þversögn við alla andlega fræðslu er sú að þeir sem þurfa á henni að halda eru ekki í standi til að taka við henni, en þeir sem eru í standi til að taka við henni þurfa ekki á henni að halda.

- Vesturlandabúar hugsa í línum. Austurlandabúar hugsa í hringjum. Sannleikurinn er sá að tilveran er bæði línur og hringir, þ.e. spíralar.

- Aðal allra sannkallaðra skálda er að segja það sem allir vita en enginn getur komið orðum að.

- Smá ábending til allra þeirra sem fást við ritstörf í einhverri mynd: hafið stílinn alltaf jafn einfaldan og auðskilin eins og efnið leyfir. Góðir pennar segja flókna hluti á einfaldan hátt, en vondir einfalda hluti á flókinn hátt.

- Ekki er það ætlun þróunarinnar að hin mörgu renni saman í einn óaðgreindan sérkennalausan massa, heldur a hin mörgu renni saman í eitt án þess að missa sérkenni sín. Margt en þó eitt; eitt en þó margt - það er ídealið.

- Fólk trúir því sem það er, en er ekki það sem það trúir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband