Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er eiginlega raga?

Margur músíkskríbentinn hefur farið flatt á því að reyna að skilgreina tónfræðilega hvað indverska ragan er eiginlega. Þó er í raun enginn vandi að skilja hvað ragan er. Því það er eins með þetta og svo ótalmargt annað í tilverunni að maður finnur það á sér án þess að geta fært það með góðu móti í orð.

Það er miklu auðsóttara að skilgreina röguna út frá heildarsjónarmiðum fremur en vísindalegri smættunaranalýsu. Einfaldasta skilgreiningin á rögunni er sú að hún er tónlistarlegur ´persónuleiki´. Þannig hefur hver raga sína sérstöku tilfinningu og stemmningu: sumar rögur eru rómantískar, aðrar devósjónelar, enn aðrar dapurlegar og sorgmæddar, enn enn aðrar fjörlegar og kátar o.s.frv. Indverjar segja að ekki sé til sú kennd sem bærast kann í mannlegu brjósti sem ekki er hægt að tjá í formi hinnar eða þessarar rögu - og sá sem hér heldur á penna (eða öllu heldur stimplar á lyklaborð) hefur af áralöngum kynnum sínum af indverskri músík enga ástæðu til að efast um þá staðhæfingu.

Annað mikilvægt atriði er að hverri rögu er ætlað að vera flutt á tilteknum tíma sólarhringsins. Mestu og hörðustu púristarnir meðal indverskrar tónlistaraðdáenda líta á það athæfi að hlusta á rögu utan síns ætlaða tíma sólarhringsins vera álíka mikið stílbrot og að hlýða á jólatónlist á páskunum. Sá sem þessar línur ritar verður hins vegar að játa að hann hefur aldrei getað farið fyllilega eftir hinum ströngu fyrirmælum um hina tilteknu sólarhringstímaákvörðun raganna; sérstaklega á þetta við um rögur sem hlýða skal á að næturlagi - af skiljanlegum ástæðum, þar sem höfundur þessara lína er líkt og flest annað fólk steinsofandi á þessum tíma sólarhringsins!

Sagt hefur verið um indverska tónlist að hún sé undursamleg blanda af gríðarlegum aga og gríðarlegu frelsi. Hið fyrrnefnda, aginn, helgast af hinu fastmótaða rögu-kerfi, því flytjandinn má ekki víkja út frá tilfinningu og stemmningu rögunnar sem hann er að spila í það og það skiptið. Hið síðarnefnda, frelsið, helgast af því að flytjandanum er allt annað frjálst ef hann á annað borð heldur sig við ´múdið´ í rögunni: honum er leyfilegt að spinna í kringum grunnkennd rögunnar algerlega að vild; hann getur haft röguna eins langa eða eins stutta og honum þóknast, leikið sér fram og aftur með mismunandi tónbrigði og nótnasamsetningar o.s.frv.

Af spunaeðli rögukerfisins má ráða að möguleikar hverrrar tiltekinnar rögu eru aldrei nokkurn tíma tæmdir. Sami flytjandinn getur leikið sömu röguna hundrað sinnum án þess að endurtaka sig nokkurn tíma í höfuðlatriðum.

(Taka skal þó fram að það sem sagt hefur verið hér að ofan ýmsa þætti rögunnar á aðeins við um norður-indverska tónlist. En fyrir þá sem ekki vita skiptist indversk klassík í tvo meginstrauma, sem kallast Hindustani í norðri en Karnataka í suðri. Munurinn á sýstemunum tveimur er í sem stystu mál i sá að Hindustani-kerfið hefur orðið fyrir gríðarlegum áhrifum frá islamskri tónlist (aðallega persneskri) - sem er ekkert undarlegt í ljósi þess að Norður-Indland var undir stjórn hinna múslímsku mógúla í margar aldir. Karnataka-kerfið representerar aftur á móti músík eins og talið er að hún hafi hljómað um allt Indland áður en mógúlarnir lögðu undir sig norðrið. Bæði kerfin eiga rögu-kerfið sameiginlegt, en munurinn er sá að alflestar norður-indverskar rögur eru aðeins þekktar í norðri, og flestar suður-indverskar einungis í suðri. Annars skera sig kerfin tvö frá hvert öðru aðallega í því að Hindustani-kerfið er til muna flóknara, margslungnara, rólyndislegra og tempraðra, en Karnataka-kerfið er umtalsvert beinskeyttara, kraftmeira, ástríðufyllra og eldlegra. - Sem dæmi um það hve einfaldara suður-indverska kerfið er má nefna að í því er ekki að finna þá eigind norður-kerfsins að hverri rögu sé ætlaður og afmarkaður sérstakur tími sólarhringsins.)

Þá er þessari stuttu og óhjákvæmilega hundavaðslegu kynningu á megin-eiginleikum indverskrar sígildildrar tónlistar lokið. Mörgu og miklu mætti bæta við ofangreindar athugasemdir, þar sem indversk tónlist er undursamlega flókin og margslungin, jafnt vitsmunalega sem tilfinningalega. Ef til vill á ég eftir að skrifa meira um þetta efni á bloggsíðum þessum. En í þetta skiptið vil ég ljúka hugleiðingum mínum á orðum sem standa í ágætri alfræðiorðabók engilsaxneskri um hinar aðskiljanlegustu tónlistarhefðir og -stíla heimsins, en þar segir í inngangsorðum að umfjöllun um indverska klassík: "a very complex and extremely impressive art-form". Heyr, heyr!


Hvers vegna geðklofi?

Eins og fram hefur komið áður á boggsíðum þessum þá álít ég geðklofa í höfuðatriðum stafa af innstreymi andlegra afla, sem heilinn og taugakerfið ráða ekki við.

Bent hefur verið á að upplifun geðklofanna sé eðliskeimlík reynslu jóganna indversku og annarra mystíkera. Eini munurinn er sá (og það er reyndar ansi mikill munur!) að jóginn pússar og fægir drulluna af rúðu andans hægt, vandlega og kerfisbundið - en geðklofinn tekur sér múrstein í hönd og mölbrýtur rúðuna!

En þessu næst væri athyglisvert að velta því fyrir sér hvers konar skapgerðir hneigjast helst til að hreppa þennan illvíga sjúkdóm, geðklofann. Rannsóknir hafa leitt í ljós að geðklofar eru upp til hópa yfir-meðallagi greindar, listrænar og jafnvel dreymnar sálir - og tilfinningaviðkvæmar. Það er ef til vill þessi viðkvæmni sem á stóran þátt í því að við hin geðklofasjúku dettum ofan í dýki þessa skæða krankleika; við erum svo berskjölduð og varnarlaus.

En ´fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott´ segir viturlegt málstæki, og geðklofinn er þar ekki undantekning. Eitt hið besta við skitsófreníuna er það að hún kennir þeim sem þjást af henni virkilega að meta og þrá hið eina sem getur orðið þeim til varanlegrar bjargar: hið skipulagða, jarðbundna, rólega, afslappaða og tíðindalitla líf sem velflest geðheilt fólk lifir. Eins og sagt hefur verið svo réttilega: ´bestu fréttirnar eru engar fréttir!´

 


Kærleikurinn - upphaf og endir alls!

Lesendur kærir! Getið þið ímyndað ykkur hversu dýrðlegt og undursamlegt það væri að elska öll meðsystkini vor svo brennandi, logheitum og óendanlegum kærleika að allar ávirðingar þeirra og misbrestir hverfa alfarið sjónum vorum, líkt og nóttin hverfur þegar sólin rís að morgni?

En nú gæti einhver spurt sem svo: "Allt þetta tal um kærleikann er gott og blessað. En er hugsjón skilyrðislauss kærleika ekki of hátt hafin upp yfir oss dauðlegar manneskjur? Er nokkur trygging fyrir því að svo háleitt og súblímt sálarástand sé yfirhöfuð mögulegt fyrir oss syni og dætur moldarinnar?"

Og ég svara: ég veit að kærleikurinn er ekki eintóm hylling eða skýjaborgir, vegna þess að ég hef sjálfur fundið fyrir honum í sálartetrinu á mínum bestu og fegurstu stundum. Þar hefur reyndar aldrei verið um að ræða varanlegt né stöðugt ástand, heldur aðeins stuttar og tantalíserandi glefsur; geislar sunnu en ekki sunnan sjálf. En ef sólargeislinn er til, þá hlýtur sólin einnig að vera til, ekki satt?Smile


Kind of Blue - Besta plata djasssögunnar?

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það sem vísað er til í fyrirsögn bloggfærslu þessarar, þ.e. djasslistaverkið unaðslega Kind of Blue með goðsögnunum Miles Davis trompetleikara og John Coltrane saxófónleikara í broddi fylkingar. Eins og með svo mörg önnur mikil kúnstverk er plata þessi ekkert ýkja impressíf við fyrstu hlustun - hún er einstaklega látlaus, dempuð, róleg og gersamlega laus við alla tilgerð og krúsídúllur og hamagang. En hún vex svo sannarlega með hverri áhlýðan, og að því kemur fyrr en varir að hún heldur sál hlustandans í heljargreipum allar 55 mínúturnar sem hún varir.

Endilega tékkið á þessari - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum!


Unaðssemdir indverskrar tónlistar

Já, ég veit að ég hef fjallað um hina stórkostlegu tónlistararfleifð Indlands áður á bloggi mínu, en aldrei er góð vísa of oft kveðin eins og sagt er - og sérstaklega ekki jafn góð vísa og þessi!

Indversk tónlist er ekki músík sem maður blastar á græjunum til að impónera vinina. Indversk tónlist er músík sem maður nýtur á þann veg að leggjast í þægilegri stellingu upp í rúm með mjúkan kodda undir höfðinu, smeygja heyrnartólunum yfir eyrun, loka augunum og láta tónana svífa með mann yfir í eitthvert annað sólkerfi - inn í einhvern óræðan heim sem er miklum mun bjartari, fegurri og kærleiksríkari en sú veröld sem við eigum að venjast. En slík opinberun æðri og yndislegri heims er einmitt aðal allrar mikillar listar.

Betur get ég ekki lýst aðdáun minni á indverskri tónlist og þakklæti í garð almættisins fyrir að að hafa kynnst henni en með því að vitna í umsögn um hana eftir ónefndan höfund í tónlistaralfræðiriti nokkru engilsaxnesku sem ég man því miður ekki hvað heitir - en umsögnin er svona: "Astonishingly rich and intellectually complex, yet at the same time emotionally powerful and direct."

Heyr, heyr!


ACDC - risar rokksins!

Nýverið hef ég verið að hlusta bergnuminn á skoskættuðu rokkhundana fá Ástralíu ACDC. Og verð að segja að aldrei hef ég á ævinni fyrr heyrt rokkmúsík sem er svona kraftmikil og tryllingsleg, en samt svona þétt og vönduð og vel spiluð.

En það er með ACDC sem svo margar aðrar rokkhljómsveitir að maður verður að heyra þá á hljómleikum til að njóta þeirra best. Þeir gerðu vissulega nokkrar hljóðversplötur sem eru góðra gjalda verðar, en þeir voru almennt miklu hrárri, harðari, villtari og kraftmeiri á sviði en í hljóðveri.

Á myndbandaleigu tók ég í gær tveggja mynddiska sett sem inniheldur tónleikaupptökur með ACDC frá velmektarárum sveitarinnar á seinni hluta áttunda áratugarins og upphafi þess níunda. Keyrslan, lætin og hamagangurinn eru svo feykileg og yfirþyrmandi að maður stendur hreinlega á öndinni. Ég er yfirleitt ekki mikið gefinn fyrir ýkjur, en þetta er svo sannarlega músík sem breytir lífi manns!

Segja má að ACDC sé hin kvintessenska rokksveit, og það birtist ekki aðeins í tónlistinni, heldur líka textunum, sem eru oftar en ekki dásamlega dekadentir, slepjulegir og hneykslanlegir siðvöndum sálum.

Og ekki verður skilið við ACDC án þess að taka fram að þeir hafa nokkuð sem allflest rokkbönd skortir: skopskyn. Þannig eru mörg myndböndin á áðurnefndu mynddiskasetti bráðfyndin og hugmyndarík. Gott dæmi um þetta er myndbandið við lagið "Let There Be Rock!" þar sem söngvari sveitarinnar bregður sér í prestshempu og lýsir því fjálglega í söng úr prédikunarstólnum hvernig Guð skapaði rokkið, með því að segja: "Verði rokk!"(sbr. "Verði ljós!" sem vitanlega er þekkt úr Biblíunni).

Eini gallinn við að hlusta á ACDC er sá að maður missir eiginlega allan áhuga á annarri rokktónlist. Þeir eru það góðir.

 


Hví er rangt að fyrirfara sér?

Stutt í þetta sinn - en þó vonandi ekki að sama skapi rýrt.Smile

Nokkrar ástæður eru fyrir því að rangt sé að stytta sér aldur, en sú helsta og almennt viðurkennanlegasta er e.t.v. þessi:

Afar fáar manneskjur eru svo illa í sveit settar að eiga sér ekki ýmsa vini og aðstandendur, þ.e. fólk til að deila lífinu með; fólk sem á hlutdeild í lífi manns. Með því að drepa sjálfan sig er maður því einnig að drepa part úr lífi annarra mannvera - og til þess hefur maður einfaldlega engan rétt.


Hinn fjóreini guð

Í fornum esóterískum fræðum gyðinga er að finna stórmerka kenningu um hið fjórfalda eðli guðs (Jahves). Jahve er að vísu aðeins einn, líkt og eingyðistrúarbrögðin kenna, en vitund mannsins birtist hann í fjórum gervum eða stigum, sem nú skal greina frá:

Javhe eitt er hið ópersónulega almætti sem til var áður en heimurinn var skapaður og verður til eftir að alheimurinn hefur tortímst. Þessi mynd Jahves er semsagt óháð tíma og rúmi; hún er óendanleikinn og eilífðin sjálf; og því verða vegir hennar óskiljanlegir og óendanlega upphafnir yfir vegi okkar mannnanna, barna tíma og rúms.

Javhe tvö er skapari alheimsins, sú mynd guðs sem lætur veröldina spretta fram í upphafi.

Jahve þrjú er hin algóða forsjón sem innréttar alla hluti veraldar og skipar þeim niður í samræmi við alvisku sína og algóðleik; elur allt, nærir allt, verndar allt, og leiðir allt að lokum á rétta brautu, þótt margt virðist fara tímabundið afvega í skammsýnum augum okkar mannannna.

Jahve fjögur er svo hinn persónulegi guðdómur í hvers mynd manneskjan er gerð, og sem manneskjan getur elskað sem föður sinn og náð sambandi við í bæn.

Ekki hef ég miklu við ofangreind fræði að bæta, nema því að snilld þeirra liggur í því að þau umfaðma allar þær hugmyndir sem hin svokölluðu ´æðri´ trúarbrögð gera sér um guð. Þannig samsvarar t.d. Jahve eitt hinu ópersónulega, yfirtímalega og yfirrúmslega Alvaldi Vedanta-spekinnar indversku og ýmissa fleiri guðsfræða; Jahve tvö samsvarar hinum svokallaða ´deisma´ sem var sérlega vinsæll í upphafi vísindaaldar nútímans og felst í trú á guðdóm sem setur heiminn af stað í byrjun en skiptir sér að öðru leyti ekki af honum; Jahve þrjú samsvarar hinni móðurlegu, mildu og algóðu guðsforsjón Taóismans, og Jahve fjögur samsvarar vitanlega hinum persónulega og föðurkennda guðdómi eingyðistrúarbragðanna: Gyðingdóms, Íslams og Kristni (og reyndar ýmissa hræringa í Hindúisma einnig).


Vegsemd þess og vandi að vera manneskja

Í gervöllum alheiminum fyrirfinnst ekki meiri heiður og forréttindi en að fæðast sem manneskja. Meira að segja æðstu og dýrðlegustu englar mega öfunda manneskjuna.

Hví er það svo? Vegna þess að manneskjan er eina veran í öllum alheiminum sem sameinar ídealt hinar miklu grunnandstæður tilverunnar, svo sem: höfuð og hjarta, vitsmuni og tilfinningar, karleðli og kveneðli - og síðast en ekki síst: efni og anda. Að sameina og samstilla þessi andstæðu skaut er hið úníka og vegsamlega markmið mannlegrar þroskabrautar; örlög og fyrirheit sem engin önnur vera í alheimi á hlutdeild í.

Hér má minnast á að aðalhelgitákn kristindómsins (og raunar búddismans og fleiri trúarbragða einnig), þ.e. krossinn, hefur í esóterískum skilningi meðal annars þá merkingu að tákna ofangreint hjónaband efnis og anda. Þannig symbólíserar lárétta strik krossins efnið, en lóðrétta strikið andann. Það er því engin tilviljun að ýmsar gerðir krossins, t.d. sú keltneska, draga hring utan um staðinn þar sem strikin tvö skarast, því sú skörun táknar mót efnis og anda og fullkomna aðlögun þeirra hvort að öðru, sem er það ægiháleita kúlmínerandi markmið sem öll mannleg framþróun stefnir leynt eða ljóst að. - En þetta er aðeins önnur leið til að segja að fullkominn kærleikur sé lokatakmark mannlegrar útvíklunar, því fullkominn kærleikur er í kosmískum skilningi ekkert annað en fullkomin samlögun og samstilling andstæðra en þó komplimenterra póla tilverunnar.

Hin ídeala mannvera, sú mannvera sem fyrir oss öllum á að liggja að verða einn dásamlegan dag, er bæði með máttugan og víðsýnan huga og hreint og djúpt hjarta; bæði með háþróaða vitsmuni og háþroskað tilfinningalíf; bæði með alla helstu kosti kveneðlis og karlnáttúru - og, síðast en ekki síst, bæði með höfuðið í skýjum himins og fæturna á dufti jarðar. Og í þessu undursamlega fyrirheiti er fólgin vegsemd þess að vera manneskja; en ekki síður vandi þess, þar sem það er óhnikandi lögmál í alheimi þessum að erindi og erfiði fylgjast einatt að; með öðrum orðum: því súblímara sem markmiðið er, þeim mun meira þarf að leggja á sig til að ná því.

En ef til vill eru mesta vegsemd og dýpsti vandi manneskjunnar í því fólgin að henni er algerlega í sjálfsvald sett hvort hún kýs að vinna að ofangreindu fullkomnunarástandi sínu, sem kristindómurinn nefnir´sáluhjálp´.

 


Stríðið gegn hryðjuverkum er hryðjuverkastríð

Hversu margar hundruðir þúsunda (ef ekki milljónir) óbreyttra borgarara ætli hafi fallið í Írak bæði í stríðinu 1991 og því sem háð hefur verið síðastliðin sex ár?

Og til hvers eru allar þessar blóðfórnir, í and . . . ? Að því er virðist einungis til að tryggja hagsmuni (aðallega olíuintressur) Bandaríkjanna.

Ef ráðast ætti á eitthvert land til að uppræta hryðjuverkamenn væri nærtækast að fyrir valinu yrði Sádi-Arabía, þaðan sem flestir terroristarnir sem gerðu árásirnar 11. september voru upprunnir. En á slíkt má ekki minnast, því fastistaríkið Sádi-Arabía er í sérstakri náð hjá Kananum.

Og nú er farið að berja í bumburnar fyrir því að ráðast á Íran! Hvenær ætlar rangindunum og heimskunni eiginlega að linna?

Aðeins ein spurning er mér í huga: munu íslensk stjórnvöld enn eina ferðina heykjast á því að tala máli réttlætis, mannúðar og heilbrigðrar skynsemi ef hinum geðbiluðu fyrirætlunum Kanans um að ráðast á Íran verður hrint í framkvæmd?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband