Kjarninn í boðskap The Life Divine

Eflaust á ég hér á blogginu eftir að skrifa ýmislegt um hið stórkostlega heimspekiverk sem þessa dagana á hug minn allan: "The Life Divine" eftir indverska hugsuðinn Sri Aurobindo.

En eftirfarandi tilvitnun felur í sér það er ég skynja sem kjarnann í þessu fjölþætta og regindjúpa andlega þrekvirki, en kjarni þessi felst í því að tvíhyggju anda og efnis, sem fjöldamörg trúarbrögð hafa boðað í árþúsundanna rás, er hafnað - eða með orðum Aurobindos:

". . . the view that divorces Matter and Spirit and puts them as opposites is unacceptable; Matter is a form of Spirit, a habitation of Spirit, and here in Matter itself can be a realisation of Spirit." (The Live Divine, bls. 693).

Og með þessari höfnun tvíhyggju anda og efnis fylgir að leiðin til frelsunar / uppljómunar felst ekki í því að hafna öðru og leita athvarfs í hinu, heldur að umfaðma hvorttveggja í órjúfanlegri heildarsýn sem sér ekkert nema Guð í öllum sannreyndum tilverunnar: jafnt í anda / einingu sem í efni / margbreytileika.

 


Snillingurinn Sri Aurobindo

Nýverið hef ég verið að ströggla við að lesa hnausþykkan 1000+ bls. langan doðrant eftir indverska heimspekinginn Sri Aurobindo, en ritverk þetta var skrifað einhvern tíma milli stríða, og ber heitið ´The Life Divine´.

´Ströggla við að lesa´ segi ég því nefndur doðrantur er ekki aðeins ógnarlangur heldur líka skrifaður á afar flókinni (og mér liggur við að segja tyrfinni) ensku. Sri Aurobindo er ekki liprasti penni í heimi, og á köflum er stíll hans óþarflega klúsaður og torskilinn.

En hvað um það! Marga spekinga, fílósófa og andans menn hef ég lesið um mína daga, og í samanburði við Sri Aurobindo eru þeir allir eins og leikskólakrakkar.

Hér er ekkert tóm til að ræða efni þessa stórkostlega verks að nokkru vitlegu marki. Einungis ætla ég að tæpa á einu atriði sem er líkt og rauður þráður í nefndu stórvirki, en það er sú afstaða Aurobindos að hafna gegnumgangandi öllum (vanalega bölsýnum) kenningum í þá veru að heimurinn sé hylling eða blekking eða tálsýn og að hið andlega líf sé í því fólgið að flýja heiminn eða hafna honum. Nei, segir Aurobindo, veröldin er guðdómleg sköpun en engin djöfulleg blekking, og hið andlega líf, ´frelsunin´ sem svo má kalla, er falin í því að realísera guðdóminn hér og nú; á jörðinni, í líkamanum, í efninu- en ekki í einhverju sæluástandi eftir dauðann eins og margar greinar kristindómsins boða, né heldur í einhverju upphöfnu sálarástandi sem hafið er yfir veröldina og í hverju jörðin og líkaminn og efnið hverfa manni algerlega sjónum, eins og margar greinar indverskrar heimspeki halda fram. Hinn ´frelsaði´ maður, segir Aurobindo, heldur áfram að ganga á jörðinni, nema bara í fyllri og dýpri meðvitund en hinn ´ófrelsaði´.

Sri Aurobindo hafnar þó ekki skilyrðislaust þeirri kenningu að hið vanalega vitundarástand hversdagsmannsins sé í vissum skilningi byggt á blekkingu, þ.e. þeirri tálsýn að maður sjálfur sé aðskilinn frá Guði og öðrum verum þessa alheims. En hylling þessi er (segir Aurobindo) ekki röng þekking, heldur einungis ófullburða (´ókomplett´) þekking: sannleikurinn er sá að við erum, gagnstætt því sem okkur virðist við vera dags daglega, órofa hluti bæði Guðs og allra annarra vera sem þennan alheim byggja, og aldrei aðskilin frá hvorugu nema í okkar ´fallna´ og fáfróða og myrkvaða ástandi - EN þrátt fyrir það er það ekki rangt í hinum fyllsta skilningi að halda að við séum aðskilin frá Guði og öðrum verum, því hvorttveggja er rétt og satt: aðgreiningin og einingin. Við erum Eitt og við erum Mörg, hvorttveggja í senn - og lokamarkmið mannlegrar tilveru er að realísera hina guðdómlegu einingu gegnum (en ekki þrátt fyrir líkt og margar andlegar stefnur boða) hina heimslegu aðgreiningu: átta sig á því að maður er órjúfanlega tengdur Guði og öllum öðrum verum, en halda samt áfram og jafnhliða að upplifa einstaklingsaðgreiningu sína frá hvorutveggja. Með öðrum orðum má setja málið þannig fram að takmarkið sé að realísera guðdóminn hér og nú, á jörðinni og í líkamanum og í efninu, líkt og segir ofar í þessum pistli: binda einingu og aðgreiningu saman í einni dásamlegri heildarsýn sem er nógu stór og vegleg til að umfaðma hvorttveggja sem algerlega jafnar og komplimenterar hliðar eins og sama sannleika. Því segir Sri Aurobindo, eins og sagt var í upphafi þessarar efnisgreinar, að hin rótgróna aðskilnaðarkennd meðalmannsins sé ekki fölsk þekking, heldur einungis ófullstöndug og ´ókomplett´ þekking: hún er rétt og sönn innan sinna marka, en til þess að vera fyllilega rétt og sönn verður hún að vera súpplimenteruð með þeim mótsvarandi og dýrðlega þekkingarauka að maður er ekki aðeins aðgreindur frá öllu öðru, heldur líka eitt með öllu öðru.

´Höfuðið í skýjunum en fæturnir á jörðinni´ - þetta forna spakmæli má segja að fangi meginþráðinn í ´The Life Divine´.

Að lokum hvet ég alla lesendur sem virkilega vilja sökkva sínum andlegu tönnum í eitthverja bitastæða stórsteik til að lesa ´The Life Divine´. Sá lestur er ekkert áhlaupaverk, en margmargborgar sig.


Blúsinn lengi lifi!

Sífellt er ég að uppgötva nýjar og frjósamar lendur í tónlistinni, og síðustu vikur hef ég fókuserað mikið á þá undursamlegu músíktegund blúsinn.

Blúsinn er alls ekki flókin tónlist tæknilega séð. En einfaldleikinn í strúktúrnum leynir mjög á sér: það er ábyggilegt að nánast engin önnur músík býður upp á jafn breiða palettu í tilfinningu og tjáningu.

Sérstaklega eru það þrír blúsmenn sem hafa fangað athygli mína og sálu: heitir sá fyrsti Stevie Ray Vaughan, hvítur rafgítarblúsleikari frá Texas sem lést sorglega langt fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum. Og leyfi ég mér að fullyrða að hann tók bæði Hendrix og Clapton í bakaríið, eins ótrúlegt og það hljómar! Til þess að sannfærast um að þessi djarfa staðhæfing er rétt bendi ég lesendum á að kíkja á útgáfu Vaughans af Hendrix-klassíkernum ´Voodoo Chile´ sem finna má á Youtube.

Heitir sá annar Boubacar Traoré og kemur frá landinu Malí í Afríku. Í tónlist þessa mikla meistara heyrir maður mjög greinilega hinar afrísku rætur blússins - þessi músík gæti nánast verið komin úr bómullarplantekrunum í Mississippi (að tungumálinu slepptu).

Heitir sá þriðji Mississippi John Hurt og er nokkuð óvenjulegur af blúsara að vera fyrir þær sakir að hann er silkimjúkur, nánast kvenlegur í röddinni. Einhver mesti kassagítarsnillingur blús-sögunnar, og dásamlega djúpur og tilfinningaríkur söngvari. Mörg lög þessa mikla jötuns eru trúarlegs efnis, og er sálin í þeim þegar best lætur varla af þessari jörðu!

Það er nánast glæpsamlegt að ofangreindir meistarar skuli vera allt að því óþekktir utan þröngs hóps blús-unnenda, á sama tíma og margir svokallaðir "músíkantar" njóta heimsfrægðar þrátt fyrir að vera jafn gersneyddir tónlistarhæfileikum eins og kartafla. En förum ekki nánar út í þá sálma, og nefnum engin nöfn - lesendur mega gamna sér við að giska á við hverja er átt.

Hvet ég alla sem línur þessar lesa til að sökkva sér ofan í undraheim blússins - það er svo sannarlega fyrirhafnarinnar virði!

 


Allrasamleikinn

Meður því vor allravelbyrðugi, almaktugi Herra í himmelshæðum (hverjum sætklingjandi háttgjallandi prísan syngi auðvirðilegt jarðar slekti allt um aldir alda!) hefur af sinni óforþénuðu allsfrígefnu súblímu náð oss syndum knosuðum maðkinum mildilega upptendrað og gæskulega í voru svívirðulega drýsildjöflaspilltu og ormgegnumþrengdu brjósti uppkveikt ofurlítið blaktandi týruskarn af því veraldarinnar háflammandi vísdómsbáli eður þeim greypiheita funa forstáelsis og erkennelsis á því jarðlífsins innvíklaða gagnverki item þeim komplíseruðum óperasjónum himinsala sem og niðurheima, hyggjumst vér nú í fáfengilegum línum þessum eftirhérfylgjandi pára eitt lítið antal forskrekkilega ófullbyrðugra kommentaríusa og grætilega fattugra nóteringa um eina spesifíka afdeilingu fyrrtéðs brúks heimsins og hans skikkan, æruverðugum lesendum vorum til andans herlegrar upplyftingar og sálartetursins dægilegrar smurningar með því sætlega og villufarelsisfrábægjandi balsami fornúftugra áskúelsa, svo megi þeirra hrjáða og fordjarfaða hugarræksni af Belsebúbs lævíslegum ginningum og skrekkilegum prettum fullt (hvar af mæðist og harmsöngva kveini jarðar slekti allt óaflátanlega um aldir alda!) forklárast og lúminerast frammi fyrir því lambsins epifaníska opinberelsi ótvílaktugra og óforgengilera veríteta. Amen, hallelúja og hósíanna!

Að þessum kansellístíls-stælingarinngangi slepptum þá hyggst ég hér stuttlega um eitt atriði í sálarþroska mannsins, þ.e. mikla og dýrmæta dyggð sem á Sanskrít er kölluð sarvasamata.

Eins og svo mörg önnur orð í Sanskrít er orð þetta eins gagnsætt og verða má. Sarva þýðir allir eða allt, sama þýðir hið sama og í íslensku (enda Sanskrít og íslenska skyld mál), -ta er afturskeyti sem notað er til að tákna abstrakt eiginleika, svipað og -leiki í íslensku. Sarvasamata þýðir því bókstaflega allrasamleiki.

Þessi allrasamleiki hefur tvær mismunandi applikasjónir. Sú fyrri er það sem á íslensku er kallað að gera sér engan mannamun: koma eins fram við allt fólk sama hvort það er ungt eða gamalt, hátt eða lágt, kunnugt eða ókunnugt o.s.frv.

Að sjálfsögðu má ekki skilja þetta allt of bókstaflegum skilningi. Auðvitað tölum við ekki eins eða um sömu hlutina við fimm ára gamlan krakka og við fimmtuga manneskju. En það sem sarvasamata felst í er að koma fram við allt fólk af sömu virðingu, nærgætni og kurteisi, og gefa ekki með nokkru móti í skyn að ein manneskja sé meira virði en aðrar: konungur og kotungur skulu að jöfnu lagðir. Það má því segja að allrasamleikinn taki ekki til innihalds framkomunnar heldur til umgjarðar hennar.

Hin merking sarvasamata er að halda hugarró sinni og glaðlyndi sömu og jöfnu hvað sem á dynur, gott eða illt; gleðjast ekki yfir góðu gengi og fyllast ekki sorg yfir slæmu gengi. Þetta kann mörgum að virðast kaldranaleg og jafnvel ómannleg afstaða, en broddurinn úr þeirri gagnrýni er tekinn þegar við sjáum að það eru auðvitað ekki ytri kringumstæður sem ráða hinum hugrænu viðbrögðum okkar við þeim, heldur eru það við sjálf og við ein sem þeim viðbrögðum ráða. Og úr því svo er, hví þá í ósköpunum að láta ytri atburði og velting veraldar stjórna okkur eins og strengjabrúðum, í stað þess að frelsa sig undan þessu öllu saman og gerast herrar yfir voru hugskoti; velja að vera hamingjusöm og með sól í sinni hvernig sem heimurinn hverfist?

En það er ekki aðeins óbilandi ölluóháð hamingja og sinnisró sem við uppskerum við þessa beitingu allrasamleikans. Við uppskerum líka miklu meiri mátt til að takast á við hin mörgu og krefjandi verkefni sem lífið stillir óaflátanlega upp í veg okkar. Eða hvor skyldi vera betur í stakk búinn að ráða fram úr vandamálunum, eins og t.d. því að bjarga fólki úr brennandi húsi: sú manneskja sem panikkar og fyllist móðursýki yfir háskanum, eða sú manneskja sem heldur sálarkyrrð sinni óhaggaðri og gerir það sem gera þarf, af kaldri og fumlausri yfirvegun?

Og lýkur þá umfjöllun um sarvasamata, hina ætíð-sömu sálarafstöðu.

 

 


Maður er manns gaman

Sú var tíðin, einkum á unglingsárum mínum, að ég var ansi einrænn og dulur og vildi helst að annað fólk léti mig algjörlega í friði svo ég gæti sinnt mínum hugðarefnum í einrúmi.

En í dag hefur málið snúist svo til algerlega við. Nú er það svo að ef ég er fjarri mannlegu samneyti í nokkurn tíma fer ég að finna fyrir ömurlegu tómi hið innra; ginnungagapi sem ekkert getur fyllt upp í nema samskipti við annað fólk.

Auðvitað er líka ágætt að eiga nokkrar stundir út af fyrir sig til að lesa, skrifa, íhuga, biðja o.s.frv. En við manneskjurnar erum félagsverur að upplagi, og ekkert stuðlar fremur að gleði og andlegum þroska en samgangur við annað fólk í öllum þess óendanlega og dásamlega margbreytileika.


Heiðrum móður jörð!

Áhangendur hinna svokölluðu ´æðri´ trúarbragða líta yfirleitt sjálfbirgingslega og steigurlætislega niður á hin svonefndu ´heiðnu´ trúarbrögð og telja þau villimennskuna eina.

Í sumum atriðum eru ´æðri´ trúarbrögðin vissulega fegurri og dýpri en þau ´heiðnu´, sérstaklega í siðferðismálum. Þannig er t.d. kenning Krists og Búdda: ´að gjalda gott við illu´ ólíkt geðfelldari og háleitari en kenning Hávamála: ´að gjalda lausung við lygi´.

En það er eitt sem ´heiðnar´ religjónir hafa að miklu leyti umfram hinar ´æðri, en það er hin feykilega virðing sem þær fyrrnefndu hafa í garð náttúrunnar. Manneskjan er að þeirra mati ekki aðskilin frá náttúrunni og öðrum lífverum o.s.frv. heldur órofa hluti lífheildar jarðar. Skipting mannsins í ´sig´ annarsvegar og ´allt annað´ hins vegar er argasta blekking og villa.

Þessi afstaða stingur mjög í stúf við kenningar flestra ´æðri´ trúarbragða t.d. kristninnar, um að maðurinn sé aðskilinn frá náttúrunni og sé herra hennar; hafi fengið umboð frá Guði um að drottna yfir öðrum lífverum og geti farið með móður jörð að geðþótta sínum. ´Við tilheyrum ekki náttúrunni heldur Guði´- það er hið vanalega (ekki algilda, en vanalega) viðkvæði ´æðri´ trúarbragðanna. Og margt í ´æðri´ religjónunum gengur beinlínis út á það að afneita móður jörð, segja sig úr lögum við hana: ´Ef þú horfir á sköpunina hverfur skaparinn úr sjónmáli´ sagði einn frægasti mystíker í sögu kristninnar, Thomas a Kempis - og hann var og er svo sannarlega ekki einn um þá afstöðu.

Ef við hins vegar skoðum málin útfrá nútímavísindum þá fáum við út mjög áþekka niðurstöðu og ´heiðnu´ trúarbrögðin, varðandi það hve maðurinn er óburtslítanlegur hlekkur í keðju náttúrunnar. Vísindin eru sífellt að uppgötva betur og betur hversu nánum böndum allir hlutir á jörðu eru tengdir: frægasta og ef til vill öfgafyllsta dæmið um þetta er sú kenning að vængjablak fiðrildis í einum heimshluta getur komið af stað fellibyl í öðrum parti veraldar! 

 Í fyllsta skilningi er skipting okkar mannanna í fyrirbæri eins og ´austur´ og ´vestur´ aðeins sjónhverfing sem stafar af þeirri glámskyggni okkar að líta aðeins á yfirborð jarðar en ekki á jarðkringluna sem heild. Í raun er ekkert ´austur´ eða ´vestur´ til: hvorttveggja er fullkomlega afstætt og hefur ekkert gildi þegar við horfum á jarðkúluna í fullnustu sinni. Og slíkt hið sama gildir um allar aðrar uppbútanir tilverunnar sem við mannfólkið skáldum upp og blekkjum okkur með að séu raunhlítar: í reynd er allt á jörðu ófráskeranlegur hluti af hennar óuppbrjótanlegu heild. Allt er Eitt, í þeim skilningi að allt er í náttúrunni og náttúran er í öllu - það er hin djúpa og glimrandi innsýn bæði nútímavísinda og flestra ´heiðinna´trúkerfa.

Afturhvarf til ´heiðinna´ trúarbragða í nútíðinni er kannski ekki gerlegt eða jafnvel æskilegt. En við getum lært margar dýrmætar og gullvægar lexíur af þessum fornu forverum þeirra religjóna sem nú eru ráðandi í hinum svokallaða ´siðmenntaða heimi´: lexíur virðingar og nærgætni og einingarkenndar gagnvart náttúrunni og öllu því sem henni tilheyrir.

Lærdómar þessir verða sífellt mikilvægari og brýnni eftir því sem við mannfólkið göngum lengra og lengra í þá átt að nauðga náttúrunni: brenna og ryðja regnskógana, útrýma plöntu- og dýrategundum á ógnvænlegum skala, menga andrúmsloftið, gera stóra hluta yfirborðs jarðar að eyðimerkum o.s.frv. Líkt og vitur maður sagði eitt sinn í minni áheyrn: "við verðum að taka algera u-beygju í umhverfismálum ef við eigum að hafa einhverja möguleika á að lifa af."

Við verðum að sjá og viðurkenna, í orði sem á borði, að við séum öll: dýr, plöntur, mannkynið með öllum sínum kynþáttum o.s.frv. hluti af einu órofa lífríki sem á sér allt aðeins eina móður: þennan undurfagra bláa hnött sem svífur í tign sinni um himingeiminn.

Og ef til vill munu efnisvísindin einn fagran dag viðurkenna þann sannleika sem ýmsar greinar esóterískra fræða hafa haldið fram svo lengi sem menn muna: að jörðin sé ekki bara dauður grjóthnullungur sem lífið hefur fyrir eitthvert óútskýranlegt kraftaverk sprottið upp á, heldur lifandi og skynigædd vera sem hugsar og finnur til líkt og lífverurnar sem á henni búa, nema bara á svo stóru og háu stigi að vér í smæð vorri getum ekki myndað oss neina nægilega stórbrotna hugmynd um þær hugsanir og tilfinningar.


Austræna orþódox-kirkjan: fegursta grein kristninnar?

Eftir nokkrar kasúalar og alls ekki strang-fræðilegar rannsóknir á hinum ýmsu meiðum á tré kristindómsins hef ég komist að þeirri niðurstöðu að austræna rétttrúnaðarkirkjan sé að flestu leyti dýpri, hreinni og fegurri en aðrar kirkjudeildir.

Nokkur rök þessari fullyrðingu til sönnunar:

1) Orþódox-kirkjan er eina kirkjudeildin sem leggur höfuðáherslu á upprisu Krists fremur en krossfestingu hans; gleðin yfir eilífa lífinu og sigrinum yfir dauðanum yfirskyggir þjáningu og kvaladauða Krists á krossinum, sem flest önnur afbrigði kristindómsins setja í kastljósið. Auk þess virðist orþódox-kirkjan vera mun síður uppteknari af þeólógískum minnimáttarkomplexum í ætt við erfðasyndarkenninguna, og miklum mun bjartsýnni á góðleika og tign mannseðlisins.

2) Orþódox-kirkjan er íburðarmeiri og glæsilegri og margslungnari í kirkjuskreytingum, ritúölum og öðru slíku en allir aðrir meiðir kristindómsins, að kaþólsku kirkjunni ekki undanskilinni. Orþódoxar hafa ekki fallið í þá fúlu gryfju mótmælenda að skera allan íburð og glans út úr kirkjum sínum og trúarathöfnum í nafni baráttu gegn skurðgoðadýrkun. Ópúlens og elegans í skreytingum og ritúölum stuðla að mínu viti að því að hefja hugann upp til Guðs fremur en að draga athyglina frá honum. Eða er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir því að Guð vinni sín verk í gegnum hið jarðneska (þar með taldar kirkjuskreytingar os.frv.) fremur en í trássi við það?

3) Orþódox-kirkjan er miklu valddreifðari en kaþólska kirkjan; t.d. nýtur æðsti maður hennar, patríarkinn, ekki nándar nærri sömu valdastöðu og páfinn í Róm. Þannig má segja að orþódox-kirkjan sameini hið besta úr mótmælendatrú og kaþólsku: hún hefur desentralíseringu hinnar fyrrnefndu og íburð og glæsileika hinnar síðarnefndu.

4) Orþódox-kirkjan hefur alla tíð verið þekkt fyrir einstakt umburðarlyndi, sérstaklega samaborið við hin margvíslegu herskáu og fanatísku afbrigði sem aðrar greinar kristninnar hafa alið af sér. Í sögu rétttrúnaðarkirkjunnar eru trúarstyrjaldir að mínu viti allt að því óþekktar, og í henni hefði álíka viðurstyggð og rannsóknarrétturinn aldrei einu sinni verið hugsanleg.

5) Í orþódox-kirkjunni sýnist mér vera miklu meiri áhersla lögð á innri umbreytingu einstaklingsins en í öðrum kristindómsfylkingum. Að trúa er nauðsynlegt fyrsta skref en, að mati orþódoxa, er það ekki nóg. Trúin verður að skjóta rótum í hjartanu, hún verður að gagnsýra og umbreyta lífi hins trúaða í öllum hans daglegu athöfnum. Mystík, í bestu merkingu þess orðs: þ.e. bein innri reynsla einstaklingsins af sannindum trúarinnar, virðist blómstra miklu betur í rétttrúnaðarkirkjunni en öðrum afbrigðum kristindómsins.

Þá læt ég þessu lokið að sinni, og ítreka það sem ég sagði í upphafi að ofangreint er aðeins mín lauslegu innþrykk af orþódox-trúnni eftir hundavaðslega athugun. Fróðlegt væri að heyra meiningar lesenda um efni þessa pistils.


Gáta þjáningarinnar - tillaga að lausn

Ef við föllumst á þá hugmynd að Guð hafi skapað heiminn sjálfum sér og okkur til gleði og hamingju - eins og flest trúarbrögð gera ráð fyrir - þá stingur strax upp kollinum gátan um hví svo mikið er um hræðilegar þjáningar og herfilegar kvalir í veröld hér.

Því hin hvarvetna-augnístingandi tilvist þjáninga og kvala virðist ganga algerlega þvert gegn upprunalegum gleðitilgangi sköpunarinnar.

Ekki þykist ég geta leyst þessa gátu á þann hátt að öllum líki, en hér er heiðarlegasta tilraun sem ég get gert til að ráða hana:

Öll leytum við fyrst og fremst gleði okkar sjálfra og hamingju; það er primus motor alls þess sem við segjum, hugsum og gerum. Og í ljósi þess verður auðvelt að sætta annars vegar leit okkar að gleði og hamingju og hins vegar þá staðreynd að heimurinn er svo uppfullur af þjáningu eins og raun ber vitni: þjáningin þjónar þeim tilgangi að auka gleði okkar og hamingju en ekki minnka hana.

Útskýring: Er til háleitari og dásamlegri gleði og hamingja en að hjúkra hinum sjúku, klæða hina nöktu, frelsa hina föngnu, aflétta oki hinna smáðu og kúguðu, gefa hinum hungruðu að borða og hinum þyrstu að drekka, veita heimilislausum húsaskjól, hlynna að þeim sem ekki geta séð um sig sjálf sakir andlegrar eða líkamlegrar fötlunar - o.s.frv., o.s.frv.?

Ég get að minnsta kosti ekki ímyndað mér súblímari gleði og hamingju!

Og auk þess má segja að gleði sú og hamingja sem við getum öðlast algjörlega fyrirhafnarlaust er engin ekta og ósvikin gleði og hamingja. Þeim mun meira sem við verðum að leggja á okkur til að öðlast gleðina og hamingjuna, þeim mun kærari og meira virði er okkur sú gleði og hamingja. Þeim mun meiri þjáningar, þeim mun meiri sæla og ánægja og þroski og vöxtur í því að yfirvinna þær. Það er að minnsta kosti hin almenna regla.

Í þessu ljósi verður baráttan gegn þjáningunni að einfaldri og rökréttri framlengingu okkar eðlislægu leitar að gleði og hamingju okkar sjálfra. Þjáningarnar eru til í því augnamiði að auka okkur gleði og hamingju í þeim prósess að berjast gegn þeim og hafa sigur.

Sumir vildu kannski mótmæla ofansögðu með þeim rökum að það er fúndamentalt gegn anda og inntaki trúarbragðanna að leitast við að lina þjáningar annarra sakir gleði og hamingju okkar sjálfra. Þetta sama fólk heldur því fram að við eigum að berjast gegn þjáningunni þeirra vegna sem þjást, en ekki okkar sjálfra vegna.

Og ég svara: þarf að vera einhver mótsögn milli þessara sjónarmiða? Samkvæmt því sem ég hef sagt hér að ofan þá er fullkomin harmónía milli þess að leita hamingju sjálfra okkar og að leita hamingju annarra: við linum þjáningar annars fólks til að auka okkur sælu og lukku, og við aukum okkur sælu og lukku með því að lina þjáningar annars fólks. Þannig vinna allir, og við fáum hið besta úr báðum heimum: bæði sjálfshamingjuleitinni og altrúismanum.

Og það er einnig önnur og jafnvel enn dýpri ástæða fyrir tilvist þjáninga, kvala og hryllings hér á jörðu: og sú ástæða er að þetta þjóni allt þeim tilgangi að gera okkur sífellt óánægð með aðstæður hér í jarðheimi og gefast ekki upp í þeirri viðleitni að gera storðveröldina að betri, mannúðlegri, hlýlegri, kærleiksríkari, fegurri og guðdómlegri stað. Allur tilgangurinn með þjáningunni er samkvæmt þessu sjónarmiði það einfalda augnamið að þrýsta óaflátanlega á okkur að berjast gegn þjáningunni og leggja ekki upp laupana í þeirri baráttu fyrr en fullur sigur er unninn og þjáningu, böli, kvölum, stríðum, mannvonsku, örbirgð, kúgun og öðrum djöfullegum löstum er að fullu úthýst úr jarðtilverunni. - Hið illa er okkur líkt og lóð er kraftajötni: það er þarna til að við getum stælt okkur sjálf og styrkt með því að æfa okkur ítrekað í að kasta því burt!

Þjáningin er viðvörunarmerki, uppvekihróp, teikn þess að eitthvað sé að og þarfnist úrbóta. Ef hið núverandi harmlega brotna og reginófullkomna ástand tilveru vorrar á þessari plánetu ylli okkur engri pínu og hugarvíli þá væri ekkert til að eggja oss að binda enda á það sem pínunni og hugarvílinu veldur; þá værum við bara sátt við ófullkomleikann og myndum ekki gera neitt til að ráða bót á honum. Fyrir okkur myndi fara líkt og manni sem dæi úr átleysi vegna þess að magi hans gæfi ekki frá sér nein sársaukamerki í formi hungurs til að fá hann til að borða!

Lesendur vinsamlegast athugið að engu ofangreinds er ætlað að réttlæta þjáninguna eða halda því fram að hún sé óútmáanlegur og normall þáttur lífsins. Jafnvel þótt við getum við vissar aðstæður þakkað fyrir þjáninguna, þegar hún veitir okkur styrk og þroska og gleði sem við hefðum annars farið á mis við, þá megum við aldrei gleyma því að þjáningin er til staðar í þeim eina tilgangi að yfirstíga hana: það er hennar eini sess í samhengi tilverunnar. Þjáningin veitir okkur því aðeins aukinn styrk og þroska og gleði að hún sé yfirunnin og henni umbreytt til heilla: að öðrum kosti er hún bara tilgangslaust böl; og í báðum tilvikum er þjáningin óvinur sem ber að leggja að velli. Því eigum við aldrei að umbera þjáningu í neinni mynd, heldur ævinlega leita allra leiða til að útrýma henni eða helst að snúa henni upp í sigur og hamingju sem flestum til blessunar.

Auðvitað er það oft hin raunalega reynd að þjáningin og bölið eru óyfirstíganleg mannlegum mætti. En ég hef þá staðföstu trú að engin vandkvæði séu óyfirvinnanleg ef við knýjum á rétta hurð. En látum það liggja milli hluta að þessu sinni, enda nokkuð utan við meginefni pistilsins.

Og NB: Eins og ég sagði í upphafi pistils þá er allt ofansagt bara heiðarlegasta tilraun sem ég get gert til að leita svars við spurningunni um ástæðu þess að þjáningin skuli vera til, að þeirri forsendu gefinni að kærleiksrík forsjón standi að þessu mystifíerandi sjónarspili sem jarðlífið er.

Lítið allra vinsamlegast á allt það sem tæpt er á hér að ofan sem hugsunartilraun og ekkert meira!

Og ef þið, lesendur, hafið aðrar meiningar eða viljið jafnvel hrekja allt sem hér hefur verið sagt, þá skuluð þið endilega kommenta á þessa færslu. Það er í raun helsti tilgangurinn með færslunni, að heyra hvað aðrir hafa um málið að segja. Því ég er ekki að þykjast hafa öll svörin á reiðum höndum; ég er bara auðmjúkur sannleiksleitandi, og opinn fyrir öllum skynsamlegum hugmyndum.


Þroskaþjálfafræði framundan

Í haust hef ég nám í þroskaþjálfafræði við Kennaraháskólann.

Ég þrái heitt að verða þjóðfélaginu að einhverju gagni í framtíðinni, og hvað getur verið gagnlegra en að starfa við umönnun þeirra sem minna mega sín, þ.e. fatlaðra og þroskaheftra?

Og auk þess held ég að minn karakter og hæfileikar henti mjög vel fyrir starf með andlega og / eða líkamlega fötluðu fólki.

Og ekki er verra geta menntað sig beint fyrir draumadjobbið!


Munurinn á sýnd og reynd

Stundum getur verið regingap milli þess sem okkur sýnist heimurinn vera og þess sem hann er í raun.

Til dæmis:

- Okkur sýnist heimurinn vera klofinn og margklofinn, en í raun er allt í heiminum eitt og aðeins eitt.

- Okkur sýnist hatrið vera grunntónn heimsins, en í raun er grunntónn heimsins kærleikur - heitari, dýpri og hreinni kærleikur en nokkur kærleikur sem við getum ímyndað okkur.

- Okkur sýnist manneskjurnar aðeins lifa í aumlega skamman tíma, en í raun eru þær ódauðlegar.

- Okkur sýnist ekkert rökrétt samhengi vera milli gjörða fólks og örlaga þess, en í raun er fullkomlega lógískt og óskeikult orsakasamhengi milli gjörða fólks og örlaga þess.

- Okkur sýnist sumt fólk hafa af einhverjum óúskýranlegum ástæðum hlotið í vöggugjöf það sem nefnt er ´snilligáfa´, en í raun liggur ævinlega bakvið allar svonefndar ´gáfur´ látlaust puð, linnulaust strit og þrotlaus æfing - ef ekki í þessari tilveru þá í einhverjum fyrri.

- Okkur sýnist við sjálf vera ein og óstudd í köldum heimi, en í raun höfum við alla krafta himinsins á bak við okkur.

Allt þetta sem okkur sýnist heimurinn vera þótt hann sé það ekki í raun stafar einvörðungu af glámskyggni okkar og nærsýni, og einkum og sér í lagi af þeirri vanalegu villu okkar að horfa ekki út fyrir þennan hlægilega stutta tíma sem við dveljum hér á jörðu í núverandi líkama.

Sumt eða jafnvel allt af því sem hér að ofan er sagt kann að virðast eins og hver önnur skrýtla í augum sums fólks, enda er ég ekki að biðja neinn um að trúa einu orði af því sem er fullyrt hér að ofan. Hér sem endranær gildir hin fornkveðna regla að ´sjálfur leið þú sjálfan þig.´ Bið ég lesendur því þess eins að íhuga ofangreindar staðhæfingar og mynda sér svo sína eigin skoðun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband