Sjálfelska, ó sjálfselska!

Alveg finnst mér það ömurlegt hvað orðið ´sjálfselska´ hefur neikvæða merkingu í íslensku. Varla er til verra hnjóðsyrði á vorri tungu en að uppnefna manneskju ´sjálfselskupúka´ eða eitthvað í þá veru.

Staðreyndin er hins vegar sú að sjálfselska (í jákvæðri merkingu þess orðs) er bráðnauðsynleg undirstaða allrar annarrar elsku. Sýnið mér manneskju sem hatar sjálfa sig, en elskar samt annað fólk! Þið getið ekki fundið nein dæmi þess, enda eru slík dæmi ekki til. Hatur í eigin garð elur átómatískt af sér hatur í annarra garð.

Sumir myndu meira að segja ganga svo langt að segja að sjálfselskan sé ekki aðeins nauðsynlegt heldur einnig nægjanlegt skilyrði elsku til annarra: að manneskja sem hafi í hjarta sér sannan kærleik til sjálfrar sín beri sjálfkrafa ást í brjósti til meðsystkinanna.

Hið versta við mörg afbrigði kristindómsins (ekki öll, en býsna mörg) er að þau innræta fólki króníska minnimáttarkennd og sjálfshatur: að forakta sjálft sig sem vonlausa og viðbjóðslega syndara sem verðskuldi ekkert annað en dóm og helju.

Gagnstætt slíkum sjónarmiðum birti ég hér sem niðurlag þessa pistils vísukorn eitt sem ágæt og vitur manneskja gaukaði að mér um daginn:

"Ég er gull og gersemi / gimsteinn elskuríkur. / Ég er djásn og dýrmæti / Drottni sjálfum líkur."


Af orðum skal manninn meta - ekki öfugt

Það er einkenni á andlega vanþroska fólki að líta ekkert til þess hvað er sagt, heldur einungis til þess hver segir það.

Þessi hvimleiða þroskavöntun birtist hvað skýrast í heimi stjórnmálanna. Ef einhver úr flokknum sem ég tilheyri segir eitthvað, þá er það óhagganlegur sannleikur, en ef einhver úr andstæðum flokki segir nákvæmlega sama hlutinn, þá er það auvirðilegur þvættingur.

Annað svið þar sem þessa hugarfars gætir mjög er trúmálin. Þannig er það afar algengt hjá t.d. kristnu fólki að líta á allt sem Jesús á að hafa sagt sem himneska obinberun, en telja samtímis að allt sem t.d. Búddha á að hafa látið út úr sér sé svívirðileg heiðni. - Og þetta þrátt fyrir það að allir sem þessi mál hafa rannsakað af óhlutdrægu viti geti ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að boðskapur þessara tveggja mestu andlegu risa mannkynssögunnar sé í öllum meginatriðum keimlíkur, og oft ná þessi líkindi ekki aðeins til innihalds heldur einnig framsetningar; þannig eru t.d. mörg spakmælanna og dæmisagnanna sem eftir Kristi og Búddha eru höfð sláandi svipuð, og hið sama mætti segja um mörg atriði í (meintum) ævisögum þeirra.

Þessa andlegu nesjamennsku, að líta ekkert á innihaldið heldur aðeins persónuna, verður fólk að hvítþvo af sér ef það á að taka einhverjum framförum í skynsemi og visku. Einkunnarorð vort skal vera þetta: Vitleysan verður ekkert viturlegri þótt himnadróttinn sjálfur haldi henni fram, og viturlegheitin verða ekkert vitlausari þótt sjálfur pokurinn mæli þau af munni.


Afríka hin fagra

Það viðhorf er sorglega algengt hjá vesturlandabúum að Afríka sé ekkert nema fátækt, menntunarskortur, hungursneyðir og styrjaldir.

Þjóðsögn þessi er blásin út af fjölmiðlum vorum, sem flytja hérumbil aldrei fréttir frá Afríku er ekki tengjast einhverju ofangreindu böli.

Vissulega eiga margir staðir þessarar geysivíðfeðmu heimsálfu við óárennileg félagsleg vandkvæði að etja. En ekki ber að fordæma alla tunnuna þótt nokkur epli í henni séu rotin. Sannleikurinn er sá að margt í menningu Afríkubúa er dásamlega fagurt og háleitt, og auk þess virðist framkoma Afríkana upp til hópa bera vitni gleði og lífshamingju sem er allt að því framandi okkur hinum súru, kaldranalegu og kýnísku íbúum vesturlanda.

Besta leiðin til að kynnast þeirri hámenningu sem Afríka lumar á er án efa að hlýða á afríska tónlist. Í þeirri deild get ég ekki gert betur en að vísa fólki á reginsnilling nokkurn, Boubacar Traoré, sem er frá vesturstrandarríkinu Malí. Músík þessa meistara er í einu orði sagt mögnuð: melódísk, andleg, djúp, oft angurvær og tregablandin en þó ávallt með sterkum undirstraumi vonar og bjartsýni.

Tónlist Traoré er hægt að nálgast á Amazon.com, og auk þess er nokkur myndbönd með honum að finna á Youtube.


Veikasti hlekkurinn

Allir hafa lesendur heyrt þau spakmæli að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkur hennar. Hitt vita færri að af vísdómsorðum þessum má draga ýmsa merkilega lærdóma um þjóðfélagið:

1) Ekkert þjóðfélag er hamingjusamara en vansælasti meðlimur þess. 2) Ekkert þjóðfélag er ríkara en fátækasti meðlimur þess. 3) Ekkert þjóðfélag er menntaðra en lakast menntaði meðlimur þess. 4) Ekkert þjóðfélag er siðmenntaðra en ruddalegasti meðlimur þess.

Ef við gætum aðeins öll áttað okkur á spekiorðum þessum - og breytt eftir þeim - þá yrði snöggtum fegurra um að litast í þessum hráa og grimma heimi.


John Lee Hooker : konungur blússins

Nafnið John Lee Hooker (f. 1917 - d. 2001) kannast sjálfsagt margir við, en færri miklu eru þeir sem hafa heyrt tónlist þessa mikla meistara blústónlistar.

Músíkin sem Hooker skapaði var í flestum greinum blús eins og hann gerist hreinastur og ómengaðastur. Allan sinn feril, sem spannaði þann ótrúlega langa tíma hálfa öld, neitaði Hooker staðfastlega að gera nokkrar málamiðlanir eða útvatnanir á list sinni. Afríka skín í gegn skærar og tærar en í tónlist nokkurs annars blúsmeistara, og einhver óskilgreinanlegur og ískyggilegur vúdú-bragur svífur yfir vötnum.

Hooker naut þeirrar sérstöðu að vera bæði einn af risum sveitablússins frá Mississippi og einn af frumkvöðlum hins rafmagnaða Chicago-blúss.

Og nú er bara fyrir lesendur að kynna sér tónlist einhvers litríkasta, afkastamesta og sáldýpsta músíkants 20. aldar! Áhugasömum er bent á að plötur hans má nálgast á Amazon.com. Einnig má finna nokkur myndbönd með honum á Youtube.


Örstutt, en segir allt sem segja þarf

Ef ég mætti ráða þá yrði eftirfarandi eina bænin sem nokkur manneskja myndi biðja:

"Guð, opnaðu hjarta mitt svo ég geti fundið meira til með smælingjum þessa heims."


Undursamlegustu orð sem ég veit um

Það er ólýsanleg fró fólgin í því að sjá eða heyra sínar eigin dýpstu hugsanir og tilfinningar tjáðar af einhverri annarri manneskju. Og dásamlegasta dæmið um þetta í mínu lífi er eftirfarandi bæn sem margir kannast við, en hana þýddi Matthías Jochumson eftir Newman nokkrum, sem ég kann ekki frekari deili á:

"Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim.

Mig glepur sýn.

Því nú er nótt og harla langt er heim.

Ó, hjálpin mín.

Styð minn fót, þótt fetin nái skammt

ég feginn verð, ef áfram miðar samt."


Fé ofar fólki

Verðmætamat þessa þjóðfélags er bjagað og bjánalegt. Þetta sést einna best þegar borin eru saman laun hinna ýmsu starfsstétta. Nánast mætti setja það upp í nákvæma stærðfræðijöfnu að því meira sem starfið snýst um peninga, þeim mun hærri eru launin, en því meira sem starfið snýst um manneskjur, þeim mun lægra er kaupið.

Svimandi há laun þorra starfsmanna fjármálageirans eru oft réttlætt með því að störf þeirra séu svo ´ábyrgðarmikil´. En ef nota ætti á sjálfsamkvæman og tvískinnungslausan hátt þennan mælikvarða ábyrgðarinnar þegar kaupi væri úthlutað ætti starfsfólk umönnunargeirans að njóta bestu launakjara allra vinnustétta. Eða myndi nokkur heilvita manneskja halda því fram (ef henni væri gert að greina frá afstöðu sinni án undanbragða eða tæpitungu), að meiri ´ábyrgð´ sé fólgin í því að velta fjárfúlgum fram og til baka í bönkum og kauphöllum en að sjá um börn, hlynna að sjúkum og öldruðum og svo framvegis? Og þó raka fjármálaspekúlantarnir inn margfalt hærri upphæðum en umönnunarfólkið!

En þessi samanburður á kjörum fjármálageirastarfsmanna annars vegar og umönnunarstarfsfólks hins vegar vekur eðlilega upp vangaveltur um hina duldu kvenfyrirlitningu sem enn veður uppi í okkar samfélagi meints kynjajafnréttis. Því ekki verður fram hjá því litið að þorri fjármálageirafólks er karlmenn en meginhluti umönnunargeirafólks kvenmenn.

Fyrrtéð kynjamisrétti í launum er aðeins einn angi hinnar almennu hömpunar samfélagsins á karllægum gildum umfram kvenleg.Allt snýst um harða, kalda og tilfinningalausa rökhugsun, en mýkt, umhyggju og tilfinninganæmni er að mestu leyti ýtt til hliðar. Tilfinningagerilsneyddur rökþankagangurinn heimtar það sem verður talið, mælt og vegið; tilfinningagildin eru of loðin, óútreiknanleg og ópraktísk til að á þeim sé nokkuð byggjandi. Það er aðeins lógísk afleiðing þesssa grunnhugarfars að fé, sem hægt er að fastbinda í formúlur, skuli vera sett ofar fólki, sem ekki verður fastbundið í formúlur.

Fyrr á þessu ári tókst ljósmæðrum að knýja fram umtalsverða bót sinna kjara, og er það vel, því allar heilþenkjandi manneskjur hljóta að styðja eðlilegar kröfur þeirra um sómasamleg laun fyrir þeirra erfiða, þungvæga og – já – ábyrgðarmikla starfa. Og er það vonandi að fleiri umönnunarstéttir rísi á afturfæturna í kjölfarið og krefjist þess að hin herfilega og ólíðandi kvenandúð, sem endurspeglast í smánarkjörum umönnunarstéttanna, verði leiðrétt í snarhasti. Því löngu er kominn tími á að þetta blessaða þjóðfélag lagi hina grundvallarlægu viðmiðsskekkju sína og veiti hinum mjúku, hlýju og ómissandi kvenlegu gildum jafnan sess á við hin karllegu, með þeim heilbrigða viðsnúningi á verðmætamati sem slíkt felur í sér.

Því hin sönnu verðmæti eru ekki þau sem talin verða í krónum og hlutabréfum. Hin sönnu verðmæti eru þau sem felast í manneskjum.           

Hvað hef ég helst lært um lífið?

Ég bið hina fjölmörgu eldheitu aðdáendur mína Grin innilega afsökunar á því hve latur ég hef verið að blogga undanfarna mánuði. Meginástæða þess er sú að ég hef verið (af orsökum sem ekki verða reifaðar hér) óvenjulega illa hrjáður af djöfli geðklofans þennan tíma, og hef þar af leiðandi ekki getað einbeitt mér að smámunum eins og að halda úti bloggskrifum. En nú kveð ég semsagt upp raust mína á ný eftir drjúgt hlé, til að kunngjöra lesendum í einu stuttu og hnitmiðuðu spakmæli þann lærdóm sem mín 29 æviár hafa helstan fært mér. Af einhverjum sökum flaug viskumoli þessi í höfuð mitt á ensku, og birti ég hann hér á því tungumáli þar sem mér finnst hann hljóma best óþýddur:

Holiness is not in professing any religion. Holiness is in giving the world the gift of a mind made wise and a heart made kind through suffering.


Virðum helgi ALLS lífs!

Einn fagran dag mun renna upp sú stund að dráp á dýrum verður bannað með lögum, að viðurlagðri sömu refsingu og nú gildir fyrir að sálga mönnum.

En ekki tjóir einstaklingnum að bíða bara að af þessu verði og gera ekkert í málunum sjálfur. Þeim mun fyrr sem hver einstök manneskja tekur þá ákvörðun að hætta að taka þátt í dýradrápum (þ.m.t. með því að varpa kjötáti fyrir róða), þeim mun fyrr mun djarfa fyrir áður nefndum dýrðardegi.

Mundu að leiðin til fegurri og betri heims hefst hjá þér - og engum öðrum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband