Mæt er margbreytnin

Ósjaldan heyrir maður þá speki úr munni kristins fólks að þeirra tiltekna trú sé eina leiðin til Guðs.

Þetta viðhorf er í stuttu máli sagt út í hött. Sannleikurinn er sá að engin ein trúarbrögð í veröldinni henta öllum né svala innri þorsta allra - til þess er eðli mannanna of margslungið og misjafnt.

Fyrir suma er kristindómurinn heppilegasta trúin, en fyrir aðra ekki.

Við eigum bara að þakka af heilu hjarta fyrir margbreytni trúarbragðanna, því þeim mun fleiri og fjölbreyttari trúarbrögð sem til eru í heiminum, þeim mun meiri líkur eru á því að hver manneskja geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Og allra heppilegast væri ef hver manneskja myndi sníða sér sín eigin persónulegu og sérstæðu trúarbrögð, í samræmi við sinn karakter og eðlishneigðir - eins og reyndar þegar er raunin! Engar tvær kristnar manneskjur upplifa kristindóminn á nákvæmlega sama hátt, og slíkt hið sama má segja um fylgisfólk annarra religjóna.

Sérhver tiltekin trúarbrögð eru til vegna þess að einhvers staðar á jörðinni eru til mannverur sem þannig eru innréttaðar að þær laðast ómótstæðilega að þeirri heimsmynd og þeim siðaboðskap o.s.frv. sem sú religjón stendur fyrir. Þótt hatursmönnum einhverrar tiltekinnar religjónar tækist með ofbeldi og yfirgangssemi að afmá öll ytri teikn hennar, þá myndu þau teikn bara spretta upp aftur þegar kúguninni linnti, svo lengi sem fyrirfinndist fólk er í hjarta sínu þyrsti eftir kenningum og helgiathöfnum téðra trúarbragða.

Það er skýlaus krafa alls hugsandi fólks að í stað þess að standa í stöðugu, idjótísku og orkusóandi stríði hvert við annað eigi trúarbrögðin að styðja við bak hvert annars, í samræmi við þá morgunljósu kenningu að allar religjónir eru til af þörf og nauðsyn. Ef ekki væri í heiminum nein þörf né nokkur nauðsyn fyrir einhver tiltekin trúarbrögð, þá væru þau trúarbrögð ekki til - svo einfalt er það!

Fjallstindurinn er einn, en leiðirnar upp á hann eru jafn margar og klífendurnir eru margir. Látum þessa víðsýnu og dásamlegu hugsun smjúga inn í merginn í beinum vorum!

Og höfum það ætíð hugfast að hin raunverulega hildur stendur ekki milli trúarbragðanna innbyrðis, heldur milli trúarbragðanna (eða að minnsta kosti anda trúarbragðanna) annars vegar og mammonsdýrkunarinnar og eigingirninnar hins vegar.


Inntak skal formi framar

Kvöld eitt var ég að horfa á einhvern stórvitringinn á sjónvarpsstöðinni Omega (en þeir eru ófáir á þeirri ágætu stöð) býsnast óhemju yfir því hvað íslam væru fölsk trúarbrögð, og vildi meina að Allah væri alls ekki sami guðinn og sá guð sem kristnir menn tilbiðja.

Fátt eitt er um spakmæli þetta að segja annað en það að þarna er viðhafður alger ruglingur á formi og inntaki. Allar heilvita manneskjur hljóta að sjá að það er helbert aukaatriði hvaða nafn menn kjósa guði sínum (eða öllu heldur hvaða nafn samfélag það sem þeir tilheyra hefur innprentað þeim að nota yfir guð).

Dýr það er Íslendingar kalla hest nefna Þjóðverjar pferd en Spánverjar caballo. En þó er fyrirbærið sem vísað er til með þessum ólíku orðum nákvæmlega hið sama. Og fyrst það á við um einfalt náttúrufyrirbrigði eins og hrossið, hversu miklu fremur gildir það ekki um fenómen sem er í eðli sínu ofar og handan allra orða og allrar hugsunar, eins og guð er í augum allra trúarbragða sem á annað borð trúa á slíkan æðri mátt.

(Orð Omega-spekingsins, sem vitnað var til í upphafi pistilkorns þessa, verða þá aðeins sett í skynsamlegt samhengi ef hann er fjölgyðistrúar og heldur að til séu tveir aðskildir guðir, þ.e. Biblíuguðinn og Allah, sem séu að heyja hildi sín á milli um sálir manna. En þar sem bæði kristindómur og íslam eru staðföst eingyðistrúarbrögð getur sá varla verið skilningurinn sem leggja ber í ummæli hans).

Allah, Jehóva, Brahman - hvar sem guð er einlæglega tilbeðinn í anda og sannleika, þar krýp ég niður með hinum trúaða, og hirði akkúrat ekkert um hvaða tilteknu samsetningu hljóða hann hefur frá barnæsku verið vaninn á að láta út úr sér til að tákna hinn æðri mátt.


Sjálfstæðisyfirlýsing andlegs anarkista

Undanfarið eitt og hálft ár eða svo hef ég haft fyrir sið að fara með foreldrum mínum í messu á hverjum sunnudegi.

En mestallan þennan tíma hef ég verið nagaður af sektarkennd yfir því að vera á vissan hátt að hræsna með þessum kirkjuferðum mínum, þar sem ég get ekki sagt með hreinni samvisku að ég aðhyllist kristna trú (eða nokkur trúarbrögð yfirhöfuð). Ef satt skal segja fer ég til "guðsþjónustu" mestanpart til að njóta félagsskaparins við það indæla fólk sem kirkjuna sækir ásamt mér.

Ef ég ætti að skilgreina mína trú myndi ég segja að ég sé andlegur anarkisti.

Mína trú má draga saman alla í þrjú einsatkvæðisorð: Guð er til.

And that´s it, folks! Engin biblía, enginn frelsari, engin kirkja - í stuttu máli: engin trúarbrögð.

Það þekkir enginn sem ekki hefur reynt á eigin sinni þá undursamlegu frelsiskennd sem fylgir því að vera í anda sínum svona gersamlega óháður öllu nema hinum einfaldasta grunnsannleika tilverunnar.

Og mín vegna má allt sem tengist trúarbrögðunum annað en þessi einfaldasti grunnsannleikur fara norður og niður.

Vitringurinn hefur talað. Heilir þeir er hlýddu. Amen, hósíanna og halelúja!


Skylda kemur í skyldu stað

Það er eitt af óafmáanlegum siðferðilegum lögmálum tilverunnar að fólk getur aðeins veigrað sér við að gegna einhverjum af hinum eðlilegu skyldum lífsins með því að taka á sig aðrar skyldur sem gera sama eða svipað gagn.

Ein af slíkum eðlilegum skyldum lífsins er skylda hverrar heilbrigðrar manneskju til að koma sér upp fjölskyldu : maka og börnum, og tryggja þannig viðhald tegundarinnar og sjá sálum fyrir líkömum til að halda áfram þroskagöngu sinni í.

Nú er auðvitað hverri mannveru frjálst að veigra sér við að setja á stofn og sjá fyrir sinni eigin fjölskyldu. En fólki sem velur sér þá leið í lífinu verður að skiljast að það þarf bara í staðinn að taka á sig einhverja annarskonar og óbeinni fjölskyldu. Ef það vill ekki ekki stofna sína eigin blóðfjölskyldu þá heimta hinar mórölsku meginreglur að það taki á herðar sér ábyrgð á einhverri "ættleiddri" fjölskyldu (ef nota má það lýsingarorð í þessu samhengi). - Slík "ættleidd" fjölskylda getur til dæmis verið börnin í samfélaginu (með því að starfa í leikskóla eða grunnskóla), eða þá fólk sem stendur höllum fæti í þjóðfélaginu (með því að starfa við aðhlynningu fatlaðra eða þroskaheftra eða ellihrumra o.a.þ.h.), svo fátt eitt sé nefnt, og þarf ekki allt að vera bein atvinna þótt ég hafi hér nefnt það innan sviga.

(Manneskjur sem axla þá ábyrgð að ala upp börn mega auðvitað starfa við hvað sem þeim sýnist, svo framarlega sem það er ekki eitthvað þjóðhagslega skaðlegt eða siðferðilega vafasamt).

Möguleikarnir eru semsagt ýmsir fyrir fólk sem er án beinnar fjölskyldu. En grunnprinsippið er þetta: Engin manneskja skyldi líða sjálfri sér að skirrast við fjölskyldustandi einungis vegna þess að hún nennir ekki að eyða í það þeim vissulega miklu fórnum sem það útheimtir bæði í fé og tíma - og án þess að gegna einhverri nokkurn veginn sambærilegri þjóðfélagsskyldu í staðinn. Það kemur ævinlega skylda í skyldu stað, ef einni skyldunni er hafnað.

En við lestur ofantéðs vaknar eðlilega spurningin í huga margra lesenda : hvað um fólk sem er allt af vilja gert, og jafnvel ótt og uppvægt, að fæða börn í heiminn, en getur það ekki einhverra hluta vegna (og er heldur ekki í aðstöðu til að ættleiða)?

Ekki þykist ég geta svarað því spursmáli svo öllum líki, en í prinsippinu ætti hið sama að gilda um fólk sem getur ekki eignast börn og um fólk sem vill ekki eignast börn : það verður bara að finna sér einhvern annan vettvang til að þjóna mannkyninu.Smile


Dauðinn gerir lífið að þýðingarlausum skrípaleik

Eftirfarandi hugsanir hafa mjög sótt á mig undanfarið:

Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að leitast við að gera nokkurn skapaðan hlut með mitt líf, úr því ekkert nema gröfin bíður mín alveg sama hvað ég geri eða læt ógert meðan ég enn tóri ofan jarðar?

Einu rökréttu viðbrögðin við vitneskjunni um dauðdagann óumflýjanlega sem bíður okkar allra eru að fyrirfara sér, og það sem allra fyrst. Það er miklu meiri reisn og virðuleiki yfir því að ákveða banadægur og banamáta sinn sjálfur, meðan maður er ennþá ungur, í stað þess láta óviðráðanleg ytri öfl ákveða hvenær og hvernig maður hrekkur upp af, og neyðast fyrst til að ganga í gegnum niðurlægingu ellinnar (ef maður tórir þá fram á elliár, sem er auðvitað langt í frá sjálfgefið) og þurfa aukinheldur að þola þá hörmulegu smán sem í því felst að láta lífið hella yfir mann öllum sínum margháttuðu hörmungum og sorgum, án þess að fá rönd við reist . . .


Eina hjálpin sem stoðar

Margt er það fólk í heiminum sem finnur sig knúið og kallað til að bjarga veröldinni undan hvers kyns böli:  fátækt, hungri, þrældómi – svo eitthvað sé nefnt.

Fjarri er það mér að gera lítið úr þeirri göfugu og eðlu hvöt mannshjartans að gera jörðina að betri (eða a.m.k. bærilegri) vistarveru fyrir hinar sköpuðu verur Guðs.

En verum raunsæ: það er ekki á okkar valdi sem eintaklinga að bjarga veröldinni, hversu heitt sem við óskum þess. Og sú tilhugsun að við verðum að bjarga heiminum getur meira að segja unnið gegn sjálfri sér á vissan hátt, því hún getur auðveldlega dregið athyglina frá þörf og neyð þeirra manna og dýra er á vegi okkar verða og sem er því á okkar valdi að hjálpa hér og nú - sem er eina hjálpin sem við getum á raunhæfan hátt veitt af hendi. Því hvernig getum við liðsinnt þeim sem við komumst ekki í tæri við í núinu og hérinu?

Engin soltin manneskja hefur nokkru sinni mettast af almennum og óljósum vilja vel meinandi fólks til að særa hungurvofuna úr mannheimum, heldur aðeins af áþreifanlegum og rétt tímasettum matargjöfum þeirra sem betur eru efnum búnir.

Manngæskuhugsanir án aðgerða eru fjarska lítils virði! (a.m.k. hjá venjulegu fólki með afskaplega veikan hugarmátt - en förum ekki nánar út í þau esóterísku fræði).

Hér sem löngum fyrr ríður á að miða hugsanir sínar, fyrirætlanir og athafnir út frá hinu konkreta fremur en hinu abstrakta, og vera vakandi fyrir því sem ER fyrir fótum vorum hér og nú – í stað þess sem aðeins er til sem konsept í huganum.

Gott er að hugsa ætíð sem svo: "Í dag ætla ég að hafa augun opin fyrir þörf og neyð allra lifandi vera sem ég rekst á og bæta úr þeirri þörf og neyð ef það er á nokkurn hátt á mínu valdi að gera slíkt, í stað þess að sóa deginum í fantaseringar um hvernig heimurinn gæti verið öðruvísi en hann er."

Og hvað viðvíkur glímu vorri við þá miklu eymd sem vissulega fyrirfinnst í heiminum væri oss hollt að hafa í huga spakmæli tíbeskra búddista: "Ef lausn er til á vandanum er engin ástæða til að hafa áhyggjur af honum. En ef engin lausn er til á vandanum þá er heldur engin ástæða til að hafa áhyggjur af honum!"

Og höfum ennfremur hugfast (aftur varðandi baráttuna við eymdina) að sú manneskja starfar best og gerir mest gagn sem heldur ró sinni og glaðværð og bjartsýni hvað sem á dynur. Það gerir vandann ekki hót viðráðanlegri að takast á við hann af örvæntingu, heift og bölsýni! 


Parakarmajóga (hin allra æðsta starfsemd)

Í síðustu færslu fjallaði ég lítillega um karma-jóga ellegar jóga starfsins og athafnanna. Nefndi ég tvö megin-ídeöl þessara jörmundjúpu fræða. En mér láðist hins vegar að greina frá hinu allra djúpstæðasta og fegursta ídeali sem karma-jóga boðar, en því mætti lýsa með eftirfarandi orðum:

 "Ef ég gæti bjargað einni flugu með því að taka á mig allar þjáningar heimsins - og engin önnur leið væri til að bjarga henni - þá myndi ég taka það ok á mig af fúsum og glöðum vilja. Verði svo! Verði svo!" 

Hér er að sönnu ægihátt seilst, og ekki þykist ég hafa öðlast nema brotabrot af þeirri siðferðilegu fullkomnun sem þarf til að ná upp í svo sundlandi hæðir.  En ekki tjóir að hengja haus þótt uppfylling hugsjónarinnar virðist fjarri undan: þegar maður hefur eitt sinn sett sér ídealið fyrir sjónir og svarið því ævilangri hollustu (sama hve vel eða illa gengur að framfylgja því í reyndinni), þá er sigurinn þegar hálfunninn.


Stutt hugleiðing um karma-jóga

Karma-jóga er sú hlið jógafræðanna indversku sem snýr að athöfnum okkar og starfi í heiminum(sanskrítarorðið ´karma´ getur þýtt ýmislegt, en í þessu samhengi merkir það einungis ´starf´ eða ´verknaður´). Karma-jóga er viskan um það hvernig við best fáum unnið í veröldu þessari, þar sem vinnan er óumflýjanleg nauðsyn öllum lifandi verum.

Hið æðsta ídeal karma-jóga má draga saman í eftirfarandi orð : "að gera það sem maður gerir best án þess að skeyta um nokkuð annað en að gera það eins vel og maður getur".

Nú þurfum við að staldra örlítið við og skilgreina frekar hvað felst í frasanum ´að gera það sem maður gerir best.´ Hér kemur til skjalanna annað sanskrítarorð : ´swadharma´ sem mætti útleggja á íslensku sem ´eigineðli´.  - En teórían um ´eigineðlið´ gengur út á eftirfarandi: hver manneskja (og raunar hver hlutur í veröldu) hefur sinn einstaka og óútskiptanlega part að leika í sinfóníu alheimsins. Með öðrum orðum : það er eitthvað sem hver mannvera getur gert sem enginn annar maður getur gert, a.m.k. ekki jafn vel og hún. Og þetta ´eiginverk´ manneskjunnar (en svo gætum við kallað hina starfrænu hlið ´eigineðlisins´) er jafnframt það sem hún getur gert betur en nokkuð annað sem hún gæti hugsanlega innt af hendi. ´Að gera það sem maður gerir best´ er því að leggja rækt við allt það sem gerir mann einstakan, og gera bæði sjálfum sér og heiminum öllum sem mest gagn með því að athafnast það sem maður er best fallinn til að athafnast; betur fallinn raunar en nokkur önnur manneskja á jörðu.

En þá eigum við eftir að huga að seinni hluta skilgreiningarinnar : ´að skeyta ekki um neitt annað en að gera það (sem maður gerir best) eins vel og maður getur.´

Og hér get ég ekki gert betur en að taka konkret dæmi um mannveru sem hefur gert karma-jóga að virkri staðreynd í sínu lífi.

Dæmið sem ég hef valið er listamaðurinn sem skeytir engu um það hvort hann kunni að græða eða tapa fjárhagslega á list sinni, og sem hirðir heldur ekkert um það hvort list hans hljóti lof eða last annars fólks.

Er til nokkur manneskja sem myndi ekki segja að þessi afstaða sé fullkomnun hugsjónar listarinnar; þ.e. listin listarinnar vegna? Og úr svo gildir um listina, hví þá ekki um öll önnur svið lífsins? Er ekki listin líf, og lífið list?

Sumt fólk myndi hreyfa þeirri mótbáru við þessum karma-jógísku pælingum, að þetta sé óframkvæmanlegt breyskum og fallgjörnum manneskjum, og auk þess óæskilegt þar sem manneskjan verði að hafa einhverja gulrót til að hún píski sjálfa sig til að athafnast. 

En þó dáumst við öll ósjálfrátt að manneskjum sem eru karma-jógar og teljum þær fegurstu blóm mannurtargarðsins, samanber dæmið um hinn fullkomna listamann sem lýst var hér að ofan (hvort nefndar manneskjur hafi nokkurn tíma heyrt minnst á hugtakið ´karma-jóga,´ eða hafi bara dottið niður á sannindi þessara merku fræða upp á eigin spýtur, skiptir auðvitað engu máli, enda er hér um að ræða speki sem er alls engin einkaeign Indverja, heldur sammannleg og opin til uppgötvunar öllu vitru og góðu fólki hvar sem er í heiminum).  - Ég myndi segja að þessi sammennska aðdáun sé hin afgerandi og óvéfengjanlega sönnun þess að hugsjón karma-jóga er nokkuð sem stendur djúpum og óuppúrslítanlegum rótum í innstu vitund okkar allra, þótt við höfum fæst það siðferðisþrek og hugdirfsku er útheimtist til að lifa fyllilega eftir ídealinu.   

(Lítil aukanóta : Það er auðvitað satt að við eigum ekki að saurga ídealið með því að draga það niður á okkar lága svið. En það er jafnframt satt að við eigum ekki að gefast upp þótt fullkomnun ídealsins sé utan seilingar okkar núverandi þroskastigs, og auk þess óefað að betra er að taka eitt skref í átt til ídealsins en ekki neitt.)

Sú manneskja vinnur best og gerir sjálfri sér og heiminum langmest gagn sem er ekki að blanda neinum annarlegum sjónarmiðum í sínar athafnir, heldur sinnir því sem hennar innsta sannfæring og algjörlega einstaka eigineðli segja henni að sé rétt, af fullum og óskiptum huga; af hinni dýpstu og glaðlyndustu einbeitingu.

En karma-jóga-fræðin rista enn dýpra en jafnvel þetta. Hin allra æðsta hugsjón karma-jóga felst í því að læra að gefa og liðsinna öðrum lifandi verum, af engri annarri hvöt en þeirri að gefa og liðsinna.

Við eigum ekki að vænta nokkurs þakklætis af þeim sem við hjálpum; þvert á móti erum það við sem eigum að þakka þeim fyrir að hafa veitt okkur tækifæri til að hjálpa þeim, og ávinna okkur þannig hina einlægustu og sönnustu gleði sem til er í heiminum : að gefa og hjálpa án þess að vænta nokkurs endurgjalds af neinu tagi.

Og sú manneskja sem lært hefur þessa unaðslegu lexíu er orðin fullnuma í karma-jóga; er orðin meistari starfsins.

Og eitt hið allra besta og fegursta við þessi fræði öllsömul er að fólk þarf alls ekki að aðhyllast neina ákveðna lífsskoðun eða trúarsannfæringu né neitt slíkt til að gera þessa speki að sinni. Meistari Búddha var án efa hinn stórkostlegasti karma-jógi sem mannkynssagan greinir frá, og var hann þó fullkomlega áhugalaus og agnostískur varðandi allar spurningar um Guð eða sálina og annað slíkt.

Þú þarft bara að eiga í hjarta þínu fölskvalausa ást á sjálfum/sjálfri þér og náunganum, og flekklausa löngun til að hjálpa báðum aðilum að verða allt það stórkostlega sem þeir geta orðið - á þeirra eigin forsendum auðvitað, og engra annarra. - En frasi þessi, sem nú heyrist víða í samfélagi voru : að ´allir eigi að fá að njóta sín á sínum eigin forsendum´, er auðvitað ekkert annað en ósvikið karma-jóga.

(Önnur smávægileg hliðarnóta : Sumir kynnu að setja fram þau andmæli gegn gildi karma-jóga og jóga-fræðanna almennt að, úr því þetta sé svona djúpt og stórkostlegt allt saman, hvernig standi þá á því að indverskt samfélag sé ekki fegurra né manngæskufyllra en raun ber vitni? Þessi röksemd er álíka gáfuleg og að segja að ekkert vit sé í eðlisfræði vegna þess að langstærstur hluti mannkyns kunni ekki neitt fyrir sér í þeim fræðum.)

Góðar stundir, lesendur kærir, og megi allar góðar vættir hjálpa ykkur til að verða sannir meistarar karma-jóga!

 


Fimm kenningar um orsakir geðsjúkdóma

 Hér verða reifaðar í stuttu máli þær fimm helstu kenningar um rætur geðveilu sem ég hef rekist á (en þetta er sérstakt áhugaefni mitt, þar sem ég hef sjálfur átt við geðræn veikindi að etja í nokkur ár):

1) Efnaskiptatruflanakenningin : Geðsjúkdómar stafa af truflunum í efnabúskap heilans. Þetta er hin viðtekna kenning í nútíma geðlæknisfræði vestrænni. Hið ófullnægjandi við kenningu þessa er að hún útskýrir ekki hvernig á þessum meintu efnaskiptatruflunum stendur. Það kann vel að vera (þótt það hafi ekki verið sannað svo óvéfengjanlegt geti talist) að geðsjúkdómum sé iðulega samfara einhvers konar afbrigðileg heilastarfsemi, en það er algjörlega opin spurning hvað er orsök og hvað afleiðing í þessu efni: eru það heilatruflanirnar sem valda geðveilunni eða geðveilan sem orsakar heilatruflanirnar? 

2) Tilfinningasársaukakenningin: Geðsjúkdómar stafa af óbærilegum tilfinningasársauka. Nánar útskýrt gengur kenning þessi út á það að fólk veikist á geði til að hlífa sjálfu sér við að þurfa að horfast í augu við yfirþyrmandi tilfinningakvöl sem því er algjörlega um megn að konfrontera. Heilinn taki semsagt til þess bragðs að spinna upp allskyns fantasíur sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, og þetta geri heilinn til að vinna það miskunnarverk að draga athygli eiganda síns frá kremjandi og (bókstaflega) óþolandi tilfinningalegum sársauka. Þessi kenning kveður svo á um að það sé ekkert að heilastarfseminni sem slíkri : heilinn sé þvert á móti að vinna sitt hlutverk óaðfinnanlega og dásamlega með því að dikta upp óra sem eru bráðnauðsynlegir til að vernda “sjúklinginn” fyrir hinni gersamlega óbærilegu tilfinningaþjáningu sem leynist í brjósti hans. 

3) Meltingartruflanakenningin : Geðsjúkdómar stafa af röskun í meltingu. Kenning þessi kveður á um að orsakaferli geðsjúkdóma sé nokkurn veginn á þessa leið: 1) Eitthvað veldur því að meltingin veiklast á þann veg að meltingarvegurinn getur ekki losað sig nógu fljótt og vel við eiturefni, 2) Eiturefnin safnast upp í meltingarveginum og berast að lokum út í blóðrás og taugakerfi, 3) Eitrunin berst með taugakerfi og blóðrás upp í heila og veldur þar röskun sem leiðir svo aftur til geðsýki.  - Rétt er að taka fram að kenning þessi er almennt ekki viðtekin af læknasamfélagi vesturlanda. 

4) Andlegukrísukenningin : Geðsjúkdómar stafa af því að hinir geðveiku eru staddir í einhvers konar andlegri eða trúarlegri krísu. Geðveila sé þannig í eðli sínu einungis það að þeir sem af henni þjáist hafi óvart og án þess að ætla sér það sokkið ofan í veruleika dýpri hinum efnislega : þ.e. hið mikla regindjúp tilverunnar sem yfirborð efnisheimsins hylur venjulegu fólki sjónum. Munurinn á geðsjúkdómum (svo sem geðklofa) annars vegar og andlegri og trúarlegri reynslu dýrlinga og dulspekinga hins vegar sé semsagt ekki eðlismunur heldur aðeins stigsmunur; munurinn liggi einungis í því að hið síðarnefnda er heilbrigt og hættulaust en hið fyrrnefnda óheilbrigt og válegt. Þessu hefur verið lýst þannig : dulspekingar og dýrlingar og jógar o.s.frv. eru menn sem sigla á hafi andans örugglega í traustum bát, en geðsjúklingar eru fólk sem sekkur á bólakaf ofan í þennan útsæ andans og drukknar í honum.  - Önnur líking er sú að jógar og dulspekingar fægi og pússi rúðu sálarinnar hægt og vandlega, en geðklofinn taki sé múrstein í hönd og mölbrjóti sálarrúðuna. Semsagt: enginn eðlismunur, heldur einvörðungu sá munur að hið fyrrtéða er heilbrigt og uppbyggilegt en hið síðara ekki.

Til stuðnings teoríu þessari má benda á að trúarlegt og andlegt innihald er mjög algengt í mörgum tegundum geðsjúkdóma (sérstaklega geðklofa) : fólk heyrir og sér og ræðir við engla og andaverur og jafnvel Guð sjálfan, o.s.frv. – og finnst það jafnvel vera statt mitt í hinni erkitýpísku baráttu Guðs og djöfulsins, eins og átti sér stað í mínu tilviki.  

5) Illraandakenningin : Geðveila stafar af ásókn illra anda. Þessi forna trú er af langflestum vesturlandabúum nútímans afgreidd sem argasta hjátrú. En við ættum að mínum dómi ekki að vera of fljót á okkur að afskrifa hana með öllu, þar sem “minna þróuð” samfélög um allan heim á öllum tímum hafa aðhyllst hana. Og er það nokkuð algjörlega út í hött að postúlera að “raddirnar” sem margir geðklofasjúklingar heyra í höfði sér spretti úr andaheimum? Mín eigin reynsla virðist alls ekki útiloka það, því þegar ég hef sokkið hvað dýpst ofan í geðbilunina þá hafa streymt  inn í kollinn á mér allskyns hugsanir, kenndir o.s.frv. sem mér finnst að eigi sér upptök alls ekki í mínum huga heldur í einhverju utan hans.

 En hver er þá niðurstaða mín hvað varðar orsakir geðsjúkdóma? Niðurstaða mín er einfaldlega sú að það sé engin niðurstaða : allt það sem ég hef fjallað hér um að ofan eru aðeins kenningar, kenningar og aftur kenningar. Orsakir sinnissýki verða að teljast óþekktar, jafnvel sprenglærðustu sérfræðingum á þessu sviði.  - En kannski liggur svarið í því að taka allar kenningarnar gildar: ein kenningin getur átt við í einu tilviki og önnur í öðru, o.s.frv. Og svo er auðvitað til í dæminu að fleiri en ein teoría eigi við í sumum tilfellum, og jafnvel allar fimm.


Svo er mörg leið sem lýðir

Þessa dagana er ég að glugga í hið mikla átta binda ritsafn indverska heimspekingsins Swami Vivekananda.

Í fjórða bindi bls. 136 er að finna mjög eftirtektarverð ummæli, sem staðfesta á skemmtilegan hátt þá ævafornu og róttæku kenningu indverskrar fílósófíu að allar leiðir sem manneskjurnar velja sér í lífinu liggi á endanum að sama háleita markinu - án undantekninga. En ummælin hljóða svo:

"To many the path becomes easier if they believe in God. But the life of Buddha shows that even a man who does not believe in God, has no metaphysics, belongs to no sect, and does not go to any church, or temple, and is a confessed materialist, even he can attain to the highest. We have no right to judge him. I wish I had one infinitesimal part of Buddha´s heart."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband