14.1.2011 | 19:12
In defense of spiritual subjectivism
(Ég biðst forláts á því að eftirfarandi hugleiðingar skuli vera á engilsaxneskri tungu; ástæðan fyrir því er einfaldlega sú staðreynd að eftir mörg ár af því að lesa jöfnum höndum bækur á ensku og íslensku er hugsanalíf mitt klofið milli þessara tveggja merkilegu og fögru tungumála. Sumt finnst mér hljóma betur á íslensku og annað finnst mér hljóma betur á ensku - og í seinni flokkinn falla hugleiðingar þær sem hér fara á eftir).
For me privately, I absolutely insist on interpreting anything 'spiritual' in an inner, esoteric, subjective/atemporal sense - in contradistinction to an outer, exoteric, objective/historical interpretation.
And it is my firm conviction that a good many (if not most) of the vagaries, superstitions and errors of the religions stem from their preferring the latter interpretation.
A case in point is that crude apocalypticism that has marred Christian thought since the beginning: "we live in the end times, the last days of human history!" has been the misguided refrain (a mixture of ecstatic hope and abject despair) of countless Christians for close to twothousand years. And it all springs in the last analysis from people making the grave mistake of projecting subjective spiritual truths on external reality.
The only eschatology I (as a religious/spiritual subjectivist) believe in is the end of what has been termed "psychological time" - i.e. the end of individual human beings dwelling (in the subjective, mental sphere) unnecessarily in the past and the future - which termination embraces the Eternal Now and thus invites 'enlightenment.'
And enlightenment is needless to say an entirely subjective experience, which no external circumstances can directly facilitate (nor, for that matter, retard). Well has it been said that not even the advent of a thousand Christs to Earth could bring humanity one step closer to freeing itself of the shackles of psychological time and thus inaugurate the Kingdom of God on Earth (for our obsession with said psychological time is the main obstacle barring us from conscious contact with that mysterious source of all existence which we vaguely give the name of 'God' or alternately, for those who prefer less explicitly religious terminology, 'The Eternal Now').
In the end, it all has to come from within - and from each one of us individually.
Starting, of course, with you and me.
Bloggar | Breytt 17.1.2011 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2010 | 19:44
Sama hvaðan gott kemur
Margt er það fólk í veröldu þessari sem telur að það sé rétt og próper að halda sig alla ævi við einhver ein tiltekin trúarbrögð (í nítíuogníu prósentum tilvika þau trúarbrögð sem það er alið upp við) og fúlsa við öllum öðrum.
Þessu vil ég svara á eftirfarandi leið:
Að einskorða sig við einhver ein trúarbrögð er eins og að einskorða sig við að lesa bækur eftir höfunda frá einhverju einu landi - semsagt: algjörlega vilkvæmt (arbítrert).
Nú er fólki vitanlega frjálst að einskorða sig við t.d. kristna trú, rétt eins og mér er frjálst að einskorða mig við að lesa rit eftir t.d. þýska höfunda. En að alhæfa út frá því og segja kristindóminn vera einu réttu religjónina er nákvæmlega jafn tilhæfulaust og bjánalegt eins og ef ég myndi segja að bækur eftir þýska höfunda væru einu réttu bókmenntirnar.
Mitt viðhorf í þessum efnum er því það að ég sé enga skynsamlega ástæðu til að einfella mig við nokkur ein trúarbrögð, engu fremur en að einfella mig við bækur frá neinu einu landi. Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að setja slíka spennitreyju á hugann?
Ég áskil mér rétt til að nýta mér allt sem nýtilegt er úr hinum ýmsu trúarbrögðum heimsins, rétt eins og ég áskil mér leyfi til að lesa öll þau ritverk sem mér sýnist.
Því það er nákvæmlega sama hvaðan gott kemur - og það á við um bækur og trúarbrögð og allt annað í heimi hér.
Bloggar | Breytt 25.9.2010 kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2010 | 23:05
Væn er hún veröld
Margar manneskjur eru með böggum hildar yfir því hve mikla þjáningu og ljótleika þær sjá í heiminum.
Um það vil ég segja þetta:
Það hve mikla þjáningu og ljótleika við sjáum í veröldinni er í raun sönnun þess þess að þjáningin og ljótleikinn eru afbrigðileg, því ef svo væri ekki myndum við ekki veita þessu tvennu svona mikla athygli.
Gleðin og fegurðin eru normið, sem sannast á því hve lítt við tökum eftir þeim: þetta tvennt er svo ríkjandi í heiminum að okkur þykir það algjörlega sjálfsagt og veitum því þar af leiðandi enga sérstaka athygli - ekkert frekar en þeirri staðreynd að himininn er blár.
Ef við hittum glaða manneskju þá dettur okkur aldrei í hug að spyrja: "hví ertu svona kát?". Gleðin er semsagt nokkuð sem við tökum alfarið sem sjálfsögðum hlut. Það er ekki nema þegar við hittum dapra mannveru sem við spyrjum í forundran: "hví ertu svona niðurdregin?".
Semsagt: gleðin og fegurðin eru hið eðlilega ástand, en þjáningin og ljótleikinn hið afbrigðilega ástand.
Með ofansögðu er auðvitað ekki sagt að við eigum að sætta okkur við ljótleika og þjáningu, ef það er á annað borð á okkar valdi að bæta þar úr. Ofantéðu er aðeins ætlað að blása hryggu og heimsósómaþenkjandi fólki von og gleði í brjóst með því að leiða því fyrir sjónir að heimurinn er að langmestu leyti fallegur og góður. Og það er hagur okkar allra að blása slíku fólki þvílíka sannfæringu í hjarta, því glöð og hugró og vonarfull manneskja gerir heiminum miklu meira gagn en mannvera sem er að bugast af sorg og harmi yfir því hvað veröldin er vond.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2010 | 21:21
Ímyndaðar samræður við sanntrúaða kristna manneskju
Sanntrúuð kristin manneskja: "Trúir þú á Jesú?"
Ég: "Nei, það geri ég ekki. Ég trúi á þráðbeint og milliliðalaust samband manneskjunnar við Guð, og sé enga skynsamlega ástæðu til að vera að troða nokkru eða nokkrum þar inn í milli, hvort sem það er Jesús eða eitthvað annað."
Skm: "En þú skilur ekki: þú ert fæddur með syndugt eðli og verður að taka á móti Jesú til að fá fyrirgefningu syndanna."
Ég: "Ég fellst engan veginn á það að ég sé fæddur með syndugt eðli. Ég trúi því að ég sé fæddur með guðdómlegt eðli, og að það sé sama hvaða glappaskot ég er að gera á jörðinni: ekkert geti til lengdar skyggt á mína sönnu guðlegu náttúru. Hún kemur í ljós, jafn örugglega og óhjákvæmilega eins og fiðrildið skríður úr púpunni."
Skm: "Þú ferð til helvítis fyrir að trúa þessu!"
Ég: "Ef Guð er þannig að hann dæmir fólk til ævarandi vistar í víti fyrir það eitt að trúa ekki réttu hlutunum, þá er nú djöfullinn skárri en Guð! Segi ekki annað!"
(Sanntrúaða kristna manneskjan strunsar burt í fússi, sármóðguð yfir guðlastinu. Og er þá samræðunum sjálfhætt).
Bloggar | Breytt 18.7.2010 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2010 | 14:22
Heiðrum alls lífs helgi
Við sem búum á vesturlöndum nútímans stærum okkur gjarnan af því að okkar sé mannúðlegt þjóðfélag.
Þetta er að ýmsu leyti rétt. En eitt er það svið í voru samfélagi þar sem mannúðin hefur að mestu leyti gleymst, en það er í meðhöndlun okkar á dýrunum.
Í mínum huga sést þetta einna skýrast á því, að ef einhver mannvitsbrekkan fær þá flugu í kollinn að fjör og fútt væri í því að æða um hálendið með frethólk og salla niður alsaklaus dýr sér til skemmtunar, þá hefur þjóðfélagið nákvæmlega ekkert út á þá svívirðilegu iðju að setja. "Hollt og gott áhugamál!" - það er viðkvæðið.
Að skýla sér bakvið eitthvert meint "veiðieðli," sem á að vera manneskjunni í blóð borið, er aum afsökun og bjánaleg. Yfir nítíuprósent fólks finna ekki fyrir minnsta votti af löngun til að plaffa niður aðrar lifandi verur (jafnvel þótt nefnt fólk gúteri af einhverjum skringilegum orsökum að aðrar mannverur gamni sér við það) - þannig að "veiðieðlið" verður á einföldum tölfræðilegum grunni að teljast afbrigðilegur og ónormall frávillingsháttur.
Og ef einhver bjálfinn er haldinn því (ó)eðli að vilja endilega drepa dýr fyrir engar aðrar sakir en að honum finnist það gaman, þá er hans staður ekki upp á hálendi að myrða, heldur upp í sófa hjá sálfræðingi að fá lækningu við ónáttúrunni.
Og svo er það kjötátið. Mikill meirihluti vesturlandabúa nútímans myndi aldrei geta drepið dýr eigin höndum, eða jafnvel horft upp á það að dýri sé slátrað án þess að fyllast klígju og viðbjóði. En samt gúffar þetta sama fólk í sig dýraholdi í nánast hverri einustu máltíð, vitandi þó vel að til þess að skaffa kjötið sem það smjattar á þarf að aflífa dýr!
Já, mikill og undarlegur er tvískinningur mannanna.
En ég er (hóflega) bjartsýnn að eðlisfari, og trúi því einarðlega að allt standi til bóta í meðförum okkar á dýrunum, eins og á flestum öðrum sviðum. Og einn dýrðlegan dag mun sú stund upp renna að allt líf verður talið heilagt, en ekki bara sumt, og bannað verður með öllu að drepa okkar yngri systkini á þróunarbrautinni (þ.e. dýrin), líkt og nú er forboðið að sálga manneskjum (þ.e. ef ekki koma til gildar en afar sjaldgæfar ástæður eins og sjálfsvörn).
Ok ef ek verð enn ofar moldu mun ek kætast allmjök þann dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2010 | 21:28
Já, hvert er svarið?
Undanfarið hefur tilhugsunin um dauðann sótt mjög á mig, og valdið mér allþungu hugarangri og sálarvíli.
Því hvað svo sem dauðinn er og hvað svo sem tekur við eftir hann (eða ekki), þá er ljóst að hann er endirinn á vorri jarðnesku tilveru, sem vér höfum flest í svo miklum metum; svo feykimiklum raunar að vér gerum nánast allt (jafnt sem einstaklingar og samfélag) til að framlengja hana eins og mögulegur kostur er.
Ég er farinn að halda að eina spurningin sem máli skipti sé þessi: hvernig bregstu við þeirri staðreynd að þú munt einn daginn deyja?
Svari hver fyrir sig.
(En ég veit um eitt sem tilhugsunin um óhjákvæmilegan dauða minn knýr mig til að gera: að rífa niður alla varnarveggi tortryggni og særanleikahræðslu sem skilja mig frá meðsystkinum mínum á jörðu þessari, svo ég geti með því niðurrifi átt innilegt og fölskvalaust sálufélag við þau).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2010 | 00:22
Svör óskast vinsamlegast
Ég vil leggja einfalda spurningu fyrir lesendur, sem mig fýsir mjög að fá svar við og vona að þið getið komið með skynsamlegar uppástungur að svari. En spurningin er þessi:
Hví geta ekki allar verur í heiminum verið hamingjusamar og lausar við þjáningu?
Semsagt: svör óskast, því mér virðist fyrirmunað að finna lausn þessarar gátu upp á eigin spýtur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2010 | 19:24
Það eina sem máli skiptir
Sú saga er sögð að eitt sinn hafi ungur vesturlandabúi komið að máli við andlegan leiðtoga Tíbeta, Dalai Lama, og tilkynnt honum þá fyrirætlun sína að gerast búddisti.
Og hinn vísi maður svaraði því til að veröldin þarfnaðist ekki fleiri búddista. Hún þarfnaðist fleira fólks með gott hjartalag, og að enginn þyrfti að vera búddisti til að vera með gott hjartalag.
Þessi afstaða Dalai Lama er dásamleg - og kórrétt. Þegar upp er staðið skiptir það engu máli hvaða trúarbrögð fólk aðhyllist, eða hvort það aðhyllist nokkur trúarbrögð yfirhöfuð.
Nei, það eina sem skiptir máli er að vera góð manneskja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2010 | 21:25
Dásamleg orð úr djúpi sálar
Um daginn lá ég enn sem oftar uppí rúmi, að farast úr vanlíðan og örvæntingu yfir hlutskipti mínu í lífinu svo og vanmáttugri heift yfir öllum mínum sorgarefnum gömlum sem nýjum .
Og ég heyrði rödd innra með mér mæla eftirfarandi vísdómsorð:
"Þú getur snúið öllum þínum þjáningum upp í sigur og fögnuð fyrir sjálfan þig og aðra, ef þú leyfir þjáningunum ekki að buga þig né brjóta, heldur kanalíserar reiðinni og harminum sem þær valda yfir í einlægan ásetning og óþrjótandi viðleitni til að hjálpa fólki sem þjáist meira en þú (og trúa máttu því að það er enginn hörgull á slíku fólki í heiminum!)."
Viturleg orð! Viturleg orð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2010 | 15:58
Sultur minnar sálar
Lengst framan af ævinni (fram að tvítugu og eitthvað yfir það) var ég algjörlega trúlaus - eða ætti ég kannski fremur að segja algjörlega áhugalaus um allt sem heitir ´trúarleg málefni´.
En eins og þeir sem lesið hafa bloggskrif mín undanfarið 2 1/2 árið vita þá er afstaða mín til þessara mála allt önnur í dag.
Fólk fýsir kannski að vita ástæður þessara sinnaskipta. Og ég svara því til að þau eru ekki tilkomin fyrst og fremst af trú heldur miklu fremur von - eða öllu frekar þeirri hjartans sannfæringu að það hljóti að vera eitthvað annað og meira og dýpra og varanlegra og merkilegra í alheiminum heldur en þessi innantóma, hverfula, hola, tilgangslausa, hégómlega, sjálfskotteltandi, grámyglulega og hrútleiðinlega hversdagslega tilvist sem flest fólk heldur að sé eini veruleikinn.
Enn hef ég ekki fundið hvað þetta ´annað og meira og dýpra og varanlegra og merkilegra´ er, nema fáar, slitróttar og tantalíserandi glefsur af því. En ég læt ykkur vita þegar ég hef fundið það!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)