Að hreinsa drulluna af demantinum

Það eru hryggileg örlög margra súblímra sanninda að vera herfilega rangtúlkuð af misvitrum múgnum.

Slíkt hefur til að mynda orðið hlutskipti karma- og endurholdgunarkenningarinnar í meðförum alþýðu á Indlandi.

Þannig er það algeng hjátrú meðal Indverja að fólk geti endurfæðst sem dýr eða einhver þaðanaf lægri lífsform.

Staðreyndin er sú að manneskjur geta aðeins endurfæðst sem manneskjur - aldrei sem lægri lífverur. Helgast það af því að þróunin getur aldrei farið aftur á bak; þegar lífið er einu sinni komið upp á hið mannlega þróunarstig verður ekki aftur snúið til óæðri organisma. Að halda öðru fram er eins og að segja að fiðrildið geti troðið sér aftur í púpuna eða kjúklingurinn skriðið á nýjan leik í eggið.

Önnur hjátrú sem útbreidd er meðal Indverja er sú að karma sé einhver óumbreytanleg fastnjörvuð forlög sem fólk getur ekkert hnikað til né frá.

Reyndin er sú að karma er algjör andhverfa forlaga. Karmakenningin hermir (rétt skilin) að örlög vor séu í vorum eigin höndum og hvergi annars staðar - það er enginn og ekkert annað sem skapar þau.

Og úr því örlög vor eru undir oss einum komin þá leiðir lógískt af því að vér getum skapað oss hver þau örlög sem vér kjósum. Vér höfum framtíðina algjörlega á voru valdi, og getum ævinlega breytt gangi ´forlaganna´ á hvern þann hátt er vér viljum.

Vér erum í dag það sem vér kusum í gær, og verðum á morgun það sem vér kjósum í dag.

Að skirrast við að hjálpa öðrum og lina þjáningar þeirra þegar maður hefur tök á því, undir því yfirskini að ekki skuli reyna að hrófla við járnhörðum forlögunum - eins og svo sorglega algengt er á Indlandi - er hrópleg heimska sem er í helberri andstöðu við hin háleitu og fögru sannindi um karma og endurholdgun.

Mergur málsins er þessi: Karmakenningin er í kjarna sínum ekkert annað en sambræðingur kenningarinnar um hinn frjálsa vilja mannsins, sem öll meiriháttar trúarbrögð halda á lofti, og kenningarinnar um orsök og afleiðingu, sem öll vísindi eru grundvölluð á.

Af því leiðir að samkvæmt karmateoríunni kjósum vér sjálf í hvernig heimi vér viljum lifa. Ef vér viljum skapa veröld þar sem afskiptaleysi gagnvart kröm annarra er lögmálið þá leyfist oss það. Ef oss fýsir hins vegar að skapa heim þar sem allir gera allt sem í sínu valdi stendur til að létta byrðar meðsystkina sinna þá er það oss einnig heimilt.

Bloggfærsla þessi hófst á umfjöllun um Indland og því er best að ljúka henni á sömu slóðum, enda er það fínt niðurlag á hugleiðingum þeim sem hér að ofan hafa verið reifaðar: Ef þjóð eins og Indverjar hefur í fortíðinni skapað sér fátæktar- og vanrækslukarma, þá er henni á hverju andartaki frjálst að snúa við blaðinu og byrja að skapa sér ríkidæmis- og umhyggjukarma.

Þótt maður hafi kjörið sér ákveðið hlutskipti í fortíðinni er engin ástæða til að halda því hlutskipti til streitu frekar en maður vill. Svo kveður karmateorí - sem og auðsæ óbrjáluð skynsemi.

Og mikið væri nú indælt ef hinn að mörgu leyti ágæti almenningur á Indlandi áttaði sig á þessari einföldu og í raun augljósu staðreynd, og léti af þeirri hörmulegu mistúlkun á karma- og endurholdgunarkenningunni sem orsakað hefur svo mikla félagslega eymd í því landi.


Að fara eða vera (ellegar hvorttveggja)

Sú spurning sem allir ærlegir andlegir leitendur hljóta að spyrja sig er þessi:

Er unnt að transendera heiminn og alla hans illsku og sora og sorgir, en vera samt áfram í heiminum til að hjálpa þjáðu mannkyni?

Er hægt að sameina þetta tvennt, eða verður maður að velja annaðhvort?

Og ef maður verður að velja annaðhvort, hvorn kostinn skal þá kjósa?

Annað snúið spursmál sem fólk verður að taka afstöðu til er hvort vandamál og þjáningar veraldarinnar séu eins og hundskott sem hringar alltaf uppá sig aftur við hverja tilraun til að slétta úr því, eða hvort um raunverulegar breytingar til batnaðar geti verið að ræða á jörðinni?

Ekki þykist ég eiga óyggjandi svör við þessum erfiðu spurningum, en ég hallast þó að seinni möguleikanum í síðustu spurningunni, þar eð ég trúi því að við lifum í mórölskum alheimi þar sem réttlætið, sannleikurinn og góðmennskan sigra ætíð að lokum, og veröldin sé því þrátt fyrir allt stöðugt að verða betri.


Þjóðleg gildi og eining mannkyns hvorttveggja lifi!

Það fer ekki framhjá jafnvel yfirborðslegasta athuganda að við lifum nú á fordæmislausu skeiði í mannkynssögunni.

Allir þeir múrar sem aðskilið hafa þjóðir og menningarheima jarðar frá alda öðli eru nú að hrynja til grunna.

Það er auðvitað útjöskuð tugga að tala um ´heimsþorpið´, en það er engu að síður nákvæmlega það sem er nú óðum að verða að veruleika. 

Og er það amk. í prinsippinu hið prýðilegasta mál.

Mig dreymir um heim þar sem allar þjóðir veraldar sameinast í virðingu fyrir lýðræði, borgarafrelsi og mannréttindum, en þar sem hver þjóð heldur jafnframt í sín þjóðlegu sérkenni. 

Því það væri verra af stað farið en heima setið ef heimsþorpsmyndunin leiddi til þess að allur munur milli þjóða þurrkaðist út í einhvers konar grunnri og banalli og einsleitri ´kóka-kóla mennningu,´ eins og ýmsar blikur eru á lofti að muni henda.

En eitt sterkasta og gleðiríkasta teikn þess að´kók-kúltúrinn´ ætli þrátt fyrir allt ekki að fletja allt út er tilkoma hinnar sk. ´heimstónlistar´ (þ.e. þjóðlegrar tónlistar frá öllum jarðarhornum), til mótvægis við andlausa einhæfa kommersíalíseraða alþjóðlega poppfroðuframleiðslu.

Fyrir þá lesendur bloggfærslu þessarar sem ekki hafa haft mikil kynni af heimstónlist en hafa áhuga á að fá nasasjón af henni get ég ekki gert betur en að benda þeim á stórkostlega geisladiskaröð sem kallast ´The Rough Guides.´ Hver diskur í téðri seríu tekur fyrir eitthvert eitt afbrigði heimsmúsíkurinnar, og gerir það á mjög breiðan og representatífan hátt. Og þar sem sérhver diskur er vel yfir klukkustund að lengd fá kaupendur helling af tónlist fyrir peninginn.

Endilega kíkið á ´The Rough Guides´ef ykkur fýsir að kafa ofan í hina gríðarlega gjöfulu, fjölskrúðugu og spennandi undraveröld heimstónlistarinnar.


Og sjá: vér boðum yður nýja trú . . .

.  . . og sú trú er að þér skuluð skapa yðar eigin trú!

Því það eru vitaskuld aðeins þrælslundaðir og hugmyndasnauðir sauðir sem aðhyllast trúarbrögð er annað fólk hefur stofnað.

Greint, sjálfstætt og andríkt fólk sníður sér auðvitað sín eigin trúarbrögð eftir sínum andlega vexti.

Og sem greindur, sjálfstæður og andríkur maður hef ég að sjálfsögðu kokkað upp mína eigin persónulegu religjón, sem ég kýs (af mikilli hugmyndaauðgi) að kalla ´Káradóm´.

Káradómur er bæði einfaldasta og dýpsta trú sem mannkyninu hefur verið opinberuð hingað til (minnug þess að í andlegum efnum haldast einfaldleiki og dýpt iðulega í hendur). Hann hefur aðeins þrjú postúlöt fram að færa: 1) Gvuð er til, 2) Gvuð er góður, 3) Takmark okkar mannanna er að verða góðir eins og Gvuð.

And that´s it! Engar ´helgibækur´, engin ritúöl, engar kreddur, engin ´Guðshús´, engin klerkastétt, ekkert trúboð, engir ´óskeikulir´ karlfauskar, engir ´frelsarar´ né aðrir meðalgangarar milli Guðs og manna, ekkert helvíti né eilíf glötun fyrir hina vantrúuðu - ekkert af hinum venjubundna fíflaskap trúarbragðanna.

Ekkert nema hinn tærasti og einfaldasti sannleikur.

En það besta við Káradóminn er að hann er (ólíkt svo sorglega mörgum andlegum stefnum á plánetunni) ekki í stríði við nein önnur trúarbrögð né spiritúalar óríentasjónir.

Um religjónirnar segir Káradómurinn: "the more, the merrier!" Þeim mun fleiri trúarbrögð sem til eru á jörðinni, þeim mun meiri líkur eru á að hver mannvera geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Og hið fremsta ídeal er að trúarbrögðin í heiminum verði jafn mörg og fólkið í veröldinni er margt  - þ.e. að hver manneskja verði það sem kalla mætti á engilsaxneskri tungu "a religion unto him/herself".

 


Spakmæli vikunnar (ef ekki ársins)

Allar þessar deilur um hvaða trúarbrögð séu ´best´ og ´göfugust´ minna mig á litla krakka sem eru að þrátta um hver þeirra eigi flottustu leikföngin.

And you can quote me on that! Wink


Til helvítis með Guð!

Ég vil fremja táknrænt sjálfsvíg - þ.e. til að sýna Guði fingurinn og segja við hann: "Fjandinn hirði þig og þetta ömurlega sköpunarverk þitt! Ég tek ekki lengur þátt í þessum skrípaleik!"

"Guð: kallarðu þennan andstyggðarhroða, sem við höfum fyrir augum hvern dag, að stjórna heiminum? Þrigga mánaða gamall simpansaungi gæti gert betur með aðra hendi afskorna og bundið fyrir augun!"

"Guð: þú ert bara déskotans vanhæft fífl - og að ég muni nokkurn tíma gefa mig slíkum idjóti á vald eða gera ´hans vilja´ - ekki til að tala um!"

"Ég vil ekkert - alls ekkert - með þig að hafa - ekki núna, ekki á morgun, ekki nokkurn tíma. Farðu burt frá mér nú og um alla eilífð!"

"Kveðja, þin svarinn óvinur, Kári Auðar Svansson."


Hví kom Kristur?

Þessi er skilningur minn á tilganginum með hingaðíheimkomu Jesú Krists:

Jesús kom ekki í heiminn til að láta tilbiðja sig, né til að frelsa okkur ´vesala syndarana´ undan eilífri glötun (það er að mínu viti engin slík glötun til), heldur til að vera prótótýpan að því sem okkur er öllum ætlað að verða, í þessu lífi eða einhverju komanda: þ.e. uppljómaðar manneskjur meðvitaðar um guðdóm sinn; hlutar af hinu nýja og endurleysta mannkyni þar sem ríkir eining, samhugur og kærleikur, og þar sem rætist bænin fagra í Faðirvorinu um að Guðs vilji verði jafnt á jörðu sem á himni.

Varðandi meintan guðsonardóm Jesú þá er það mín bjargföst sannfæring að Jesús var sonur Guðs aðeins í þeim skilningi að við erum öllum synir Guðs (og dætur).

Eða segir Jesús ekki berum orðum í Nýja testamentinu að við séum öll guðir, og að stórkostlegri hluti en hann hafi gert munum við gera?


Örstutt - en regindjúpt

(Eftirfarandi ummæli eru höfð eftir ónefndum spekingi):

The world is always going to let you down - always.

That is because the world is intrinsically and constitutionally incapable of quenching the soul´s thirst for beauty, truth, goodness, love, and other divine attributes.

Such attributes are to be found only by going deep within - all the way to the heart´s innermost sanctuary.


Kristur hinn kræfi

Jesús Kristur var róttækur - svo róttækur að heimurinn hefur í raun aldrei skilið hann nema að litlu leyti.

Eitt af því er Jesús sagði sem veröldinni hefur reynst sérstaklega erfitt að meðtaka er sá boðskapur að enginn sé hæfur að gerast lærisveinn Jesú nema sá hinn sami hati móður sína og föður, já og líf sitt allt hér í heimi. (So much for family values!).

Það sem felst í þessum (að því er flestum finnst) mjög svo ögrandi og sjokkerandi ummælum Krists er einfaldlega þetta: fyrsta og jafnframt veigamesta skrefið í þá átt að öðlast uppljómun / sáluhjálp / frelsun (mismunandi trúarbrögð kalla það mismunandi nöfnum, en inntakið er hið sama) er að fyllast fullkomnu ógeði á þessari veraldlegu tilveru, sem getur í eðli sínu aldrei veitt sálu manns neitt meira en yfirborðslega stundarfullnægju.

Sú stund rennur upp í sálarþroska manneskjunnar að hún spyr jafnvel um stórbrotnustu náttúru, jafnvel um fegurstu tónlist, jafnvel um háleitasta siðgæði: "er þetta allt og sumt?"

Og þegar því ´mettunarstigi´ er náð, þá fyrst hefst hin andlega vegferð fyrir alvöru. Allt sem á undan kom var eintómt dútl og fitl.


Er lífið þess virði?

Undanfarið hef ég mjög velt vöngum yfir tilgangi (eða tilgangsleysi) jarðlífsins. Hugleiðingar mínar í þá veru mætti í sem allra stystu máli draga saman í eftirfarandi spurningu:

Er lífið virkilega þess virði að því sé lifað : að takast á við alla þá erfiðleika og allan þann mótbyr og allar þær þjáningar sem lífið sendir manni - aðeins til þess að verða gamall og hrumur, og deyja að lokum?

 Mér finnst svarið við spurningu þessari alls ekki liggja í augum uppi . . .


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband