Lítið sýnishorn af Súfí - ljóðlist

Súfí - tónlist er órjúfanlega bundin hinni stórkostlegu ljóðlist sem sungin er með músíkinni.

Því miður kann ég ekki tungumálin sem súfí - ljóðlistin er ort og sungin á. En hér læt ég fylgja grófa þýðingu sem ég gerði á enskri snörun ljóðs sem sungið er við eitt Youtube - myndbanda hinnar undursamlegu pakistönsku Súfí - söngkonu Abidu Parveen (en ljóð þetta hefur talað ótrúlega sterkt til mín þar sem ég er nú staddur á þroskaferli mínum):

"Guðinn sem þú finnur við leit í frumskóginum

er fundinn af fiðurfé, fiskum og skepnum.

Aðeins þau finna hinn Sanna Guð

sem eru góð og hrein í hjarta!

Þú hefur lært svo margt við lestur þúsund bóka.

Þú hefur lært svo margt við lestur þúsund bóka.

Hefurðu nokkru sinni lesið það sem er innra með þér?

Þú ferð og situr í mosku og musteri.

Þú ferð og situr í mosku og musteri.

Hefurðu nokkru sinni heimsótt þína eigin sál?

Þú sem átt annríkt við að berjast við Satan:

hefurðu nokkru sinni barist við þín eigin illu áform?

Þú hefur náð til skýjanna

en hefur ekki náð til þess sem býr í hjarta þér!

Komdu til vistarveru minnar, vinur minn

morguns, nóns og nætur!

Eyddu moskunni, eyddu musterinu,

gerðu það sem þér þóknast

en brjóttu ekki mannshjartað

því Guð dvelur þar!

Ég leita þín í frumskógi og á öræfum

ég hef leitað langt og víða.

Kveldu mig ekki, Ástin mín

morguns, nóns og nætur!

Komdu til vistarveru minnar, Ástin mín

morguns, nóns og nætur!

Komdu til vistarveru minnar, Leiðarljós mitt, Vinur minn

morguns, nóns og nætur!"

 

Í þessu unaðslega ljóði sést greinilega hví Súfisminn hefur ævinlega verið litinn hornauga af íslömsku bókstafstrúarfólki (sérstaklega sést það í hvatningunni til að eyða moskunni og musterinu - væntanlega (þótt það sé ekki sagt beinum orðum) vegna þess að moskan og musterið leiða engan til sáluhjálpar). En það er nokkuð sem ekki einskorðast við Íslam, því dulhyggja hefur alltaf hljómað grunsamlega í eyrum fúndamentalista allra trúarbragða.

En ég segi hinsvegar: lifi dulhyggja allra trúarbragða! Hún er fyrir þær alltof fáu sálir sem finna ekki fró í því einu að hylla einhverrar ritningar eða játa einhverjar trúarsetningar eða hafa um hönd einhver ritúöl, heldur vilja ná innað kjarna trúarinnar: þ.e. að upplifa guðdóminn beint, en ekki bara tala, hugsa og lesa um hann.

 

 


Súfí - tónlist : besta trúarmúsík heims?

Súfismi (íslömsk dulhyggja) er einhver undursamlegasta trúhreyfing veraldar, og þeirri staðreynd ber glöggt vitni tónlistin sem kennd er við nefnda hreyfingu.

Þegar rætt er um Súfí - músík kemur eitt nafn ævinlega efst upp í hugann: Nusrat Fateh Ali Khan, sem nefndur var ´Pavarotti austursins´. Rödd þessa manns var allt að því guðdómleg : ótrúlega kröftug, fögur og tjáningarrík.

Því miður lést Nusrat langt um aldur fram fyrir rúmum áratug. En tónlist hans mun lifa um aldir sem stórfenglegur vitnisburður um þær andlegu hæðir sem músíklistin getur náð þegar hún er upp á sitt besta.


Faðir vor, móðir vor, sonur vor, vinkona vor . . .

"Eg býð mennina velkomna, hvernig sem þeir koma til mín, ó Partha, því að sérhver vegur, sem þeir velja, er minn vegur, hvaðan sem hann liggur" (Bhagavad Gita, 4. kf. 11 vers).

Kærleikur Guðs er ævinlega einn og óskiptur, en við manneskjurnar leitum þessa kærleika og finnum hann hver á sinn einstaka hátt.

Það er aðeins örfáum ógnarþróuðum sálum kleift að nálgast ástúð Guðs eins og hún er í sjálfri sér: abstraksjón án mannlegra sérkenna, hafin yfir öll hugtök og nöfn og form . Við hin verðum að leita kærleika Guðs með óbeinni og líkingarfyllri hætti; með því að heimfæra það sem við þekkjum upp á það sem við þekkjum ekki: þ.e með því að heimfæra okkar jarðnesku ástartengsl upp á kærleika Guðs.

Og í þessu efni halda okkur engin bönd nema þau sem við reyrum sjálf. Ekki er til það mannlegt kærleikssamband sem ekki er hægt að nota í ofangreindu skyni: að leita ástúðar Guðs. Við getum nálgast kærleika Guðs í líki ástar á föður eða móður, eða á systur eða bróður, eða á vini eða vinkonu, ellegar á dóttur eða syni (það er til dæmis ekki óalgengt að indverskar konur kalli sig ´móður Guðs´) - já, jafnvel á kynferðislegum elskhuga!

(Lítið innskot: einhliða áhersla vissra trúarbragða á föðurdóm Guðs er mjög óheppileg. Sumum sálum hugnast vissulega best að hugsa sér Guð sem föður - en þær sálir eru miklu fleiri sem þóknast fremur að hugsa sér hann sem eitthvað annað: móður eða bróður eða vin o.s.frv. - Og er það afar bagalegt að ekki skuli vera pláss fyrir slíkar guðshugmyndir innan vébanda þeirra religjóna sem minnst var á í hér að ofan.)

Guð réttir sig eftir hverjum þeim hugmyndum sem við gerum oss um hann og veitir oss ástúð sína í ímynd hvers þess mannlegs kærleikssamband sem oss þóknast; og þetta gerir hann án þess að útvatna kærleika sinn eða komprómísera honum á nokkurn hátt. - Hvernig má þetta vera? Tökum dæmi: vatn sem hellt er í mörg tóm og mislaga glös lagar sig eftir formi hvers glass fyrir sig án þess að breyta í nokkru eðli sínu eða hreinleika sem vatn. -  Setjum nú ´kærleika Guðs´ í stað vatnsins og ´ímyndir okkar af þeim sama kærleika´ í stað glasanna og þá er líkingin ljós.

En hvernig er best að snúa sér í þessum efnum? Er ákjósanlegra að leita kærleika Guðs í líki margra mannlegra ástartengsla, eða er farsælla að einbeita sér alfarið að því að leita Guðs bara í einni ímynd: aðeins sem föður eða eingöngu sem móður ellegar einvörðungu sem elskhuga o.s.frv. o.s.frv.?

Mörgu fólki mun geðjast best að því að velja fleiri en eina ofangreindra guðsnálgunarleiða (öðru nafni: ímynda af kærleika Guðs), og færa má rök fyrir því að slíkt sé heppilegt, þar sem við manneskjurnar eigum flestar í mörgum mismunandi kærleikssamböndum við annað fólk, án þess að ástúð okkar minnki hætishót við það, heldur þvert á móti (því kærleikurinn er hið eina sem eykst við að vera dreift). - En aðrir vilja þó meina að betra sé að velja sér aðeins eina guðsnálgunarleið, og beina öllum kröftum sínum að því að dýpka, fegra og fullkomna þann sambandsveg við Guð frekar en að dreifa kröftunum í margar sambandsleiðir, rétt eins ef maður ætlar að grafa eftir vatni þá er heillavænlegra að grafa eina stóra holu en margar litlar.

En sjálfsagt er það eins með þetta og svo margt annað, að sumt hentar sumum en annað öðrum.


Er hægt að glatast?

Hótunin um eilífa glötun ef fólk þóknist ekki Guði hefur verið snar þáttur í mörgum trúarbrögðum í sögunnar rás, og er enn mjög áberandi í boðun ýmissa kristinna safnaða hérlendis sem erlendis.

En í ljósi hinnar æðri visku er engin slík ævarandi glötun hugsanleg!

Satt er það að menn geta hert hjarta sitt gegn öllu guðlegu og breytt sjálfum sér í skelfilega djöfla - en það þýðir ekki að slíkt hafi í för með sér eilífa útskúfun úr guðsríki, af þeirri einföldu ástæðu að Guð er óendanlega þolinmóður og kærleiksríkur og útskúfar þar af leiðandi engum úr ríki sínu. Guð bíður eftir öllum, sama hve djúpt þeir sökkva.

Það kann að taka aldir, árþúsundir ellegar jafnvel ármilljónir fyrir hinn versta og hræðilegasta djöful að snúast á band kærleikans - en það mun gerast á endanum og ekkert getur komið í veg fyrir það.

Auðvitað þýðir ofansagt ekki að engu máli skipti hvort við veljum góða eða vonda stíginn í lífinu; þvert á móti er það fyrir öllu að við náum að tileinka okkur hinn guðlega kærleika sem allra fyrst, því þeim mun fyrr sem við gerum svo, þeim mun fyrr getum við hjálpað öðrum til að öðlast slíkt hið sama.  En sú dásemd sem ofantéð hefur í för með sér er að eyða hinum lamandi ótta um glötun og tortímingu sem svo sorglega margt trúað fólk er hrjáð - og sem það hótar gjarnan öðrum manneskjum með nema þær játi einhverjar heimskulegar trúarkennisetningar.


Ein lítil hugleiðing um eðli Guðs (takist þó ekki of alvarlega fremur en önnur orð)

Ef hægt væri að mynda sér einhverja marktæka hugmynd um Guð þá væri það helst sú að hann / hún / það sé hinn endanlegi einfaldleiki.

En þegar sagt er að Guð sé endanlegur einfaldleiki þá er það hið sama og að segja að hann / hún / það sé endanleg eining og yfirgripsmikilleiki.

Þetta stafar af þeirri staðreynd að einfaldleikinn er ævinlega yfirgripsmeiri og einingarríkari en flókinleikinn. Tökum dæmi: orðið ´epli´ er einfaldara og því yfirgripsmeira hugtak en orðin ´grænt epli´ sem er flóknara (samsettara) og þar af leiðandi þrengra konsept. Og orðin ´grænt maðkétið epli´ eru enn flóknara og því enn þrengra og yfirgripsminna hugtak en ´grænt epli´.

Ofangreint dæmi sýnir klárlega fram á að einfaldleiki og eining eru nánast samheiti.

Almennt má því segja að því einfaldari sem hugsunin sé, því nær Guði sé hún (svo framarlega sem hún er sönn á annað borð).

Er það ekki einmitt þetta sem Kristur átti við þegar hann sagði í Fjallræðunni að sælir séu fátækir í anda, því þeirra sé himnaríki? Eru fátækir í anda ekki bara þeir sem eru einfaldir og óbrotnir í hugsun? Og benda ekki orð Krists um að himnaríki tilheyri börnunum til hins sama? Það sem einkennir börn er jú hve yfirmáta einföld og óbrotin þau eru í sínum þankagangi.

Ef við skilgreinum Guð líkt og hér að ofan hefur verið gert, þá verður það ljóst að allar manneskjur eru í stöðugri leit að Guði, hvort sem þær gera sér það ljóst eður ei. Þetta á ekki síst við um vísindamenn, sem jafnan eru guðleysingjar á ytra borði. Eða hví eru vísindamenn sífellt á höttunum eftir einföldustu og yfirgripsmestu kenningunni? Hví hafa vísindamenn iðulega að leiðarljósi rakhníf Okkams, sem staðhæfir að ef allt annað er jafnt þá sé einfaldasta skýringin sennilega sú réttasta?

Það virðist eitthvað vera rótgróið í mannssálinni sem eggjar hana til að leita ævinlega einfaldleika fremur en flókinleika. Með öðrum orðum: að leita Guðs á öllum sviðum og í öllum kringumstæðum, þótt oft sé á ómeðvitaðan og ómarkvissan hátt.

En sleppum þessu þvaðri, enda ekki vitund hagnýtt! Þetta eru aðeins hugsanir, og ekki er unnt að hugsa sig til Guðs. Það eina sem gildir er að leita Guðs - á eins ódogmatískan, skoðanalausan, opinn, einlægan og barnslegan hátt og auðið er.

Ps. Til að forvarna öllum misskilningi skal rækilega undirstrikað að það að vera ´fátækur í anda´ eins og Kristur orðaði það er alls ekki að vera fáfróður, heimskur eða viskuvana. Þvert á móti eru andlega þróaðar verur iðulega bráðgreindar og stútfullar af visku. ´Andlega fátæktin´ er bara það að uppgötva þann sáraeinfalda grundvallarsannleika að Guð er til og að hún / hann / það er kærleikur - og beita síðan öllum hinum dásamlegu og margbrotnu tækjum vitsmuna og visku eingöngu í þágu þessa nauðaeinfalda fúndamentis tilverunnar.


Frelsi undan hugsunar-helsi

Tilvistarspekingurinn danski Sören Kirkegaard ritaði einu sinni eitthvað á þessa leið:

"Að hugsa og tala um Guð er allt annað en að fara niður á hnén og biðja til hans."

Hjartanlega tek ég undir þessi orð! Nú er ég kominn að mörkum þess sem hægt er að hugsa og tala um. Nú hef ég loksins lært að hætta að konseptúalísera guðdóminn; að hætta að gera mér nokkrar hugmyndir um hann / hana / það, hversu viturlegar og útspekúleraðar sem þær hugmyndir kunna að vera. Það eina sem máli skiptir er að leita guðdómsins í innilegri bæn.

Og bið ég nú alla lesendur sem lesið hafa fyrri bloggskrif mín um andleg málefni að vinsamlegast gleyma öllu þessu kjaftæði. Ekkert sem máli skiptir í sambandi við tilvistargátuna er hægt að binda í þröngar viðjar orða eða hugsunar. Hugsunin virkar afbragðsvel sem maskína til praktískra viðfangsefna á jarðsviðinu; það er hennar upprunalega og eina raunhlíta hlutverk. En við skulum ekki gera okkur neinar grillur um að hugsunin geti náð nokkuð dýpra en það að vera eintóm vél til hagnýtra jarðbundinna nota.

Nú er ég loksins frjáls undan öllu farginu í þvarginu!

 Ps. Ef til vill finnst sumum lesendum að ég skilgreini hlutverk hugsunarinnar helst til þröngt í ofansögðu. En ég tel þó grunnforsendu orða minna hér að ofan ófyrirþrætanlega hvernig sem á málið er litið: ef hugsunin kemur ekki að praktísku gagni í lífu voru hér á jörðu, að hvaða gagni kemur hún þá?

Pps. Það eina sem ég tel athugavert við ofangreind orð Kirkegaards er að ég álít enga þörf fyrir að fara niður á knén þegar við biðjumst fyrir. Guð elskar okkur nákvæmlega eins og við erum og þráir að eiga sálufélag við okkur á fullkomnum jafnræðisgrundvelli, og því þurfum við alls ekki að niðurlægja okkur né lítillækka á nokkurn hátt til að ná áheyrn hans / hennar / þess. Slíkar hugmyndir tilheyra frumstæðara þroskaskeiði mannssálarinnar, er hugsar sér Guð sem afbrýðissaman, heimtufrekan og drottnunarsjúkan vesaling, sem yrði sjálfsagt greindur með stjórnunarþráhyggju á háu stigi ef hann væri maður.

 


Ekkert er manneskjan án meðsystkina

Til að efla ábyrgðartilfinningu okkar og skuldbindingu í garð annarra mannvera þá er hollt að íhuga það hve gersamlega við erum upp á tilveru annarra komin.

Maturinn sem við borðum, fötin sem við klæðumst, húsin sem við búum í, bílarnir sem við komumst á milli staða í, o.s.frv. o.s.frv. - allt er þetta vinnu annars fólks að þakka. Og að sama skapi er allur andlegur og sálrænn þroski okkar háður því að annað fólk sé til staðar - eða hvernig ættum við til dæmis að öðlast færni í að elska og fyrirgefa ef engar eru aðrar manneskjur til staðar fyrir okkur að elska og fyrirgefa?

Þegar maður hugleiðir þetta þá rennur það upp fyrir manni hve gersamlega fráleitt það er að ætla sér að ganga sinn ævistíg einn síns liðs, án tengsla og samfélags við aðrar manneskjur. Öll þurfum við á öllum öðrum að halda, og öll stöndum við í óendanlegri þakkarskuld við hvert annað.


Verstu mistök kristninnar?

Versta glappaskot í sögu kristindómsins er sennilega það að hafa látið Gamla testamentið (héreftir skammstafað GT) fljóta með í Biblíunni kristnu.

Ástæðan er ofureinföld: GT er á löngum köflum einhver ljótasti og viðurstyggilegasti ritdéskoti sem um getur.

Guð GT er verri en versti djöfull: afbrýðisamur, reiðihneigður, hefnigjarn, blóðþyrstur og gersneyddur öllu sem heitir samúð og miskunnsemi. Hann vílar ekki fyrir sér að skipa ´lýði sínum´ Gyðingaþjóðinni að hranndrepa íbúa heilu borganna með körlum og  konum og börnum og jafnvel dýrum - og er sjálfur mjög liðtækur til fjöldamorðanna. Dæmin um þetta eru legíó, sérstaklega í Mósebókunum, og vísa ég lesendum á að lesa þær til að fræðast nánar um ofangreindar yfirlýsingar mínar.

Vissulega má líka finna ýmislegt spaklegt og fagurt í GT, svo sem hinn fræga og gullvæga 23. Davíðssálm ("Drottinn er minn hirðir o.s.frv.") En GT er í heild sinni svo hroðalega ljótt og andstyggilegt að betra hefði verið að sleppa því öllu þegar kristna Biblían var tekin saman.

Eins og ágætur vinur minn orðaði það svo heppilega: "Reyndu að lesa GT án þess að æla!"

Ps. Og úr því við erum að tala um óheppilegt val rita í Biblíu kristinna manna, hvaða nauðsyn rak til að taka með hina ruddalegu og geðsýkislegu Opinberunarbók Jóhannesar? Opinberunarbók þessi er fróðlegt rannsóknarefni áhugamönnum um sinnissjúkdóma, en öllum þorra almennings er hún óskiljanleg steypa.


Æðruleysisbænin spaklega

Fyrir ykkur sem ekki vitið þá hljóðar æðruleysisbænin svona:

"Guð, gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli."

Þegar ég beiti þessari djúpu og máttugu bæn á mitt eigið líf þá fæ ég út eftirfarandi:

Ég er geðveikur. Það er bara staðreynd sem ég get ekki breytt; og hver svo sem upphafleg orsök geðveilunnar var, þá skiptir það engu máli lengur, því búið og gert er búið og gert.

En það sem ég get breytt er viðhorf mitt til sinnissýkinnar. Annaðhvort get ég látið hana brjóta mig niður með því að einblína á hve miklir erfiðleikar eru að baki og hve miklir örðuleikar eru framundan, eða þá að ég get látið hana byggja mig upp með því að einblína á hve miklum bata ég hef þegar náð og hve miklum framförum ég á eftir að taka.

Mitt er valið - sem og allra ykkar er þennan pistil lesið, hver svo sem vandkvæðin eru sem þið eigið við að etja (og þau hljóta að vera einhver, því engin manneskja sleppur gegnum lífið án nokkurra áfalla).


Ku Klux Klan - samansafn fæðingarhálfvita!

Um daginn horfði ég á hina ágætu og velunnu heimildamynd "The Ku Klux Klan : A Secret History" á youtube.

Og hvet ég alla sem þessar línur lesa að kíkja á nefnda mynd - það er að segja ef lesendur fýsir að kynna sér hámark mannlegrar heimsku og vonsku.

Og svo þykjast þessir trúðar vera kristnir!

Skammstöfunin "KKK" ætti að standa fyrir "Klikkaðir og Kolruglaðir Kálhausar"!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband