Nýverið hef ég verið að lesa hina gagnmerku bók ´Blekking og þekking´ eftir Niels Dungal lækni, gefin út 1948. Í bók þessari er að finna harðorða árás á kristindóminn fyrir sögulega andstöðu hans við framrás skynsamlegrar og vísindalegrar hugsunar, auk þess sem ýmis trúaratriði kristninnar eru harðlega gagnrýnd. Kemst bókarhöfundur m.a. annars að þeirri niðurstöðu að Jesús Kristur hafi verið maður en ekki guð, og að hann hafi aldrei talið sig vera neitt annað en pólitískan messías að hætti Gyðingatrúar, og hafi boðað og búist við innleiðingu hins stjórnmálalega guðsríkis, þ.e. þess veraldlega konungríkis þar sem Gyðingaþjóðin myndi brjóta af sér alla hlekki erlends valds og drottna yfir öllum öðrum þjóðum jarðar. Tilfærir Niels örvæntingaróp Jesú á krossinum: "Guð minn, guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" sem sönnun þess að Jesús hafi sett alla sína trú á að almættið myndi innfæra hið Gyðinglega, pólitíska guðsríki, en að sú von hafi brugðist og því hafi Jesús hrópað fyrrgreind angistarorð á krossinum þegar fullséð var orðið með lífláti leiðtogans mikla (Jesú) að hið Gyðinglega himnaríki væri ekki í þann veginn að renna upp á jörðu.
Áþekkar kenningar um misræmi Jesú trúarinnar og Jesú sögunnar hafa heyrst um langan aldur í vísindalegum Biblíurannsóknum. Hefur mörgum sýnst sem svo að slíkt grafi undan trúnni og geri Kristindóminn marklausan.
Mín eigin afstaða í deilum þessum er hins vegar sú að í raun skipti litlu sem engu máli hve mikið eða lítið samræmi er milli Krists trúarinnar og Krists sögunnar. Sá Kristur sem öllu máli skiptir er hinn esóteríski, táknræni Kristur launhelganna- þ.e. sá Kristur sem birtist oss eftir að öllum þvættingi hefur verið skafið ofan af Kristindómnum.
Og hver er svo þessi ´esóteríski, táknræni Kristur´? Það er einfalt mál en þó djúpúðugt: hann er vitundarstig það sem kallað er í austrænum heimspekifræðum´Buddhi´ sem heiti hins mikla andlega meistara Buddha er bersýnilega dregið af. Vitundarstig þetta hefur á vestrænum málum verið þýtt ´Kristsvitund´ þar sem Kristur (munum: sem táknmynd, ekki sem söguleg persóna) er helsta symból vort og leiðarstjarna um hvernig ´Buddhi´ virkar og fúnkerar.
Og hvað er svo ´Buddhi´? Það er vitundarstig, sem er ídveljandi í öllum mannverum, en enn sem komið er aðeins realíserað í daglegri breytni af örfáum. En vitundarstig þetta einkennist einkum af þremur guðdómlegum eiginleikum: fullkomnu innsæi, skilyrðislausum kærleika og óskeikulli visku.
Opinberanir þessa ægiháleita og guðlega vitundarstigs, ´Buddhi´ eru engar kreddur í stíl við dogmur trúarbragðanna sem brjóta í bága við heilbrigða rökhugsun, og eru nefndar opinberanir því algerlega hafnar yfir þá gagnrýni sem Niels Dungal og aðrir mætir menn hafa reynt að skjóta Kristindóminn í kaf með frá því vísindaöld hófst fyrir nokkrum árahundruðum. Skynsemin, og fylgifiskar hennar: vísindi og tækni, eru miklar guðs gjafir; og hið undursamlega við opinberanir ´Buddhi´ er að þær ganga aldrei nokkru sinni í berhögg við niðurstöður og ályktunanir skynseminnar. Opinberanir Buddhi fljúga bara hærra en skynsemin getur náð; þær víkka, dýpka og breikka niðurstöður skynseminnar; fara ofan rökhugsunarinnar og handan hennar, án þess að brjóta að nokkru einasta leyti í bága við hana..
Eigindir ´Buddhi': sannkallaður kærleikur, sannkallað innsæi og sannkölluð viska, eru fullkomlega samrýmanleg hinni gagnrýnustu, gertækustu og skarpskyggnustu skynsemisgreiningu á eðli tilverunnar. Þegar Kristindómurinn er skilinn í því ljósi, að hann snúist um Krist sem tákngervingu ´Buddhi´/ Kristsvitundar, fremur en sem guðsson eða frelsara, eða þá sem sögulega fígúru, þá er kominn grundvöllur undir það að vísindi og Kristindómur gangi hönd í hönd inn á sannleikans ljúfu lendur.
En nú kynni einhver að efast um tilvist svo óáhöndfestanlegs fyrirbæris sem Kristsvitundarinnar. Því svara ég á móti með þessum rökum: Hvað eru hin stórfenglegu listaverk snillinganna (málverk, tónverk o.s.frv.) annað en dæmi um afurðir hins undursamlega og ægisviðfeðma innsæis ´Buddhi´? Hvað er hin unaðslegu lífsspeki heimspekinga og trúarbragðahöfunda allra alda annað en tákn þess að viska ´Buddhi´ hafi tekið sér bólfestu í nefndum hugsuðum? Hvað er hin hæga en örugga framsókn mannkynsins áleiðis til mannúðlegri og mildari og miskunnsamari heimsskipan (í stjórnmálum, efnahagsmálum, dómsmálum o.s.frv.) annað en teikn þess að geislar ´Buddhi´ eru teknir að skína geislum sínum æ bjartar inn í myrkviði mannshugans?
En látum þær manneskjur sem enn þverskallast við að viðurkenna vitundarstig æðri þeim sem allur þorri mannkyns er enn fastur í dvelja sælar í sinni vantrú. ´Buddhi´ - Kristsvitundin - mun hafa sitt fram hvort sem menn trúa á það eður ei. Ekkert getur hindrað guðsríki í að birtast á jörðu - ekki í þeim brenglaða og bjálfalega skilningi sem Kristindómurinn hefur í sögunnar rás lagt í komu guðsríkis, þ.e. að heimurinn muni skyndilega farast og Jesú koma í skýjum himins til að dæma mennina, og að þá muni aðeins hinir örfáu trúuðu munu komast af en allur meginpartur mannkyns farast að eilífu. Nei, guðsríkið í hinni sönnu, guðdómlegu merkingu þess orðs mun renna upp þegar meirihluti mannkyns hefur þróast upp á það stig að vitund þess er öll gegnumlýst af dýrðarleiftri Kristsvitundarinnar.
Þetta er hið ´lýðræðislega´, ´grasrótarlega´ guðsríki - sem kemur ekki sem einhver stóri dómur að ofan, heldur sprettur upp úr daglegri lífsreynslu fjöldans og hversdagslegri baráttu hans fyrir bættum kjörum til anda og líkama, og meira víðsýni, meira réttlæti og meiri fegurð í mannlífinu. - Sagt hefur verið, og það með réttu, að þúsund endurkomur Jesú til jarðar, eins og guðfræðin hefur hugsað sér það, muni ekki megna að snúa mannkyninu til betri eða guðlegri vegar svo framarlega sem vitund þess er enn óupplýst af dýrðarljóma ´Buddhi´.
Annars er heimsendatrúin (það sem einn höfundur ágætur engilsaxneskur nefnir réttilega ´crude apocalypticism´) einn höfuðgalli Kristninnar eins og hún hefur boðuð gegnum aldirnar. Sjálft hugtakið ´heimsendir´ er algerlega úr takti við allan gang veraldarinnar, eins og hann birtist skynsamlega þenkjandi fólki. Framfarir í tilverunni verða ekki með þeim hætti að hinu gamla sé tortímt svo hið nýja megi taka þess sess, heldur verða allar framfarir með því móti að hið nýja bætist ofan á það sem gamalt er. Öll framsókn og allar gagnlegar nýjungar byggjast á gömlum og traustum grunni; framförin er óslitinn pýramídi þar sem hið gamla er tekið í þjónustu þess sem nýtt er. En látum þetta nægja um hina heimskulegu veraldarslitatrú sem sett hefur svo leiðinlegan blett á Kristnina.
Lokaorð: Af ofansögðu má ráða að ég hafna í raun bæði Kristi sögunnar (hver svo sem hann var!) og Kristi trúarinnar (þ.e. kenningunni um að manneskjan hljóti eilíft líf fyrir að trúa á friðþægingardauða Jesú, en glatist ella - sem er á allan hátt fráleit og forkastanleg kenning). Þess í stað boða ég nýjan og margfalt háleitari Krist, hinn eilífa Krist mannshjartans: hvötina sem í öllu heilbrigðu fólki býr til að þroskast, fegrast og fullkomnast, til samræmis við hina algóðu og alskyggnu Kristsvitund í brjóstinu.
Megi Guð blessa viðleitni mannsins til að beita skynseminni hvar sem henni verður við komið! Megi Guð blessa vísindi og tækni! Megi Guð veita innsæi, visku, kærleika og einingarkennd Kristsvitundar / Buddhi inn í huga og hjarta allra mannvera! Amen!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2008 | 17:56
Rokkið er líka frá Guði!
Ýmsir trúaröfgamenn vilja halda því fram að rokk og ról sé frá runnið beint undan rifjum djöfulsins.
Eins og flest sem trúarfanatíkerar halda fram þá er þessi skoðun út í hött. Rokkið á sér fullkomlega gildan og náttúrlegan sess í tilverunni, þar sem það representerar fullkomlega gilda og náttúrlega hlið mannseðlisins: hið villta, hamslausa og ofsafengna aspekt sálarinnar.
Margir óttast þessa villtu, hamslausu og ofsafengnu hlið mannssálarinnar og kalla hana ´djöfullega´. Ég vil aftur á móti meina að hún sé þá aðeins ´djöfulleg´ að henni sé misbeint inná brautir ofbeldis- og skemmdarfýsnar. Og ein besta leiðin til að hindra að slíkt gerist er að bæla ekki þessa tryllingshlið mannsnáttúrunnar, heldur veita henni útrás á öruggan og skaðlausan hátt: upplifa það sem á grísku er kallað ´kaþarsis´, og nefnt hefur verið ´geðúthreinsun´á íslensku.
Og til slíkrar geðútthreinsunar er hamstola og bandbrjálað rokk einkar vel fallið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 18:16
Hver er vilji Guðs fyrir þig?
Svarið við spurningu þeirri sem birtist í titlinum veltur á svarinu við annarri spurningu: "Hvert er hið fegursta, sannasta og besta sem þú getur gert þér í hugarlund þegar taka skal hverja einustu ákvörðun um hvernig skal breyta dags daglega?" Svarið við þessari einföldu spurningu opinberar það hver er vilji Guðs fyrir þitt líf.
Eins og með svo mörg önnur andleg og guðdómleg sannindi þá þarf fólk alls ekki að trúa á andann eða Guð til að samsinna því sem hér að ofan er sagt. Þetta stafar af því að tilfinningin fyrir hinu fagra, sanna og góða er innbyggð í svo til allt fólk (nema nokkur öfga-frávik), sama hvaða skoðun það kann að hafa á eilífðarmálunum.
En þótt vegur Guðs, svo sem honum er að ofan er lýst, sé skýr og einfaldur og skilningur á honum svo til öllu fólk meðfæddur, þá er annað mál að framfylgja honum í verki. Hér er freistandi að tiltaka tvö spakmæli úr Biblíunni: fyrst hin velþekktu orð Krists: "andinn er að sönnu reiðubúinn en holdið er veikt"; og síðan ummæli Páls postula, sem skilgreina betur en margt annað hinn gátufulla breyskleika mannskepnunnar: "hið góða, sem ég vil, það gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég" (tilvitnunin er ekki orðrétt, þar sem ég man ekki hvar hún stendur í Biblíunni og get þar af leiðandi ekki flett henni upp, en merkingunni er vel til skila komið).
En við skulum ekki hugfallast þótt vegur hins fagra, sanna og góða sé oft á tíðum þyrnóttur og mjór. Við skulum bara gera okkar besta, og örlítið meira en það - meira er ekki hægt að krefjast af okkur, og Guð, sem er óendanlega þolinmóður, gerir það svo sannarlega ekki.
Ps. Það er annars umhugsunarefni hvort nokkuð þurfi að hvetja fólk til að gera sitt besta. Eða getur það ekki verið tilfellið að þegar allt er vegið og metið þá sé allt fólk ævinlega að gera sitt besta, miðað við það þróunarstig sem það stendur á? Er það ekki bara þroskastigið sem skilur manneskurnar að, en ekki viðleitnin? Hugsið málið . . .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2008 | 18:19
´Dægurtónlist´ - hundljótt orð!
Því miður eigum við Íslendingar ekkert almennilegt orð sem samsvarar enska orðinu ´popular music´. Það orð sem oftast heyrist um nefnt fyrirbæri á íslensku, ´dægurtónlist, ´ er bæði villandi, ljótt og niðrandi. Orðliðurinn ´dægur´ er að sjálfsögðu dregið með hljóðvarpi af orðinu ´dagur´ og þýðir ´dægurtónlist´ því bókstaflega ´tónlist sem endist aðeins í einn dag´.
Þetta er í mörgum tilfellum fáránleg nafngift. Mörg svokölluð ´dægurtónlist´ er alveg jafn sígild og hin svonefnda ´sígilda músík´. Sem dæmi nefni ég Bob Dylan, The Grateful Dead og bestu plötur Rolling Stones (sérstaklega þríleikinn undursamlega ´Let It Bleed´, ´Sticky Fingers´ og ´Exile on Main Street´) - og margt fleira mætti tiltaka.
Hér með auglýsi ég eftir almennilegu íslensku orði í stað hins forljóta og lítillækkandi orðs ´dægurtónlist´.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2008 | 17:30
Ég var skírður í dag!
Við hátíðlega athöfn í neskirkju í morgun var ég vatni ausinn og skírður til kristinnar trúar.
Að láta skírast var engin skyndiákvörðun, heldur lokastig langrar gerjunar. Lengst af ævi minni var ég algjörlega trúlaus, sem birtist m.a. í því að ég fermdist ekki á sínum tíma, þar sem ég vildi ekki vera að ljúga og hræsnast og látalátast bara til að láta undan hópþrýstingi eða fá nokkrar skitnar gjafir.
En geðræn veikindi mín, sem hófust í aprílmánuði árið 2002, hafa gjörbreytt viðhorfi mínu til lífsins, tilverunnar - og trúarinnar. Nú get ég sagt að ég hafi áttað mig með mikilli þjáningu á inntaki spakmæla þeirra sem höfð eru eftir Gandhi: "We are helpless without God".
Allir miklir andlegir meistarar, hvort sem þeir eru úr austri eða vestri, mæla með því að hver manneskja haldi sig við þau trúarbrögð sem hún er alin upp við og sem eru ráðandi á hennar menningarsvæði. Því eins og engin tunga jafnast á við móðurmálið, þannig jafnast engin trúarbrögð á við þau sem öll menningararfleifð okkar og þjóðfélag eru gagnsýrð af. Því tók ég þá ákvörðun að láta vígjast til kristinnar trúar og gera Krist að leiðtoga og leiðarstjörnu lífs míns.
Táknmál skírnarinnar er, eins og öll önnur sakramenti kirkjunnar, margslungið og flókið og útpælt. En í sem stystu máli má segja að skírnin (að minnsta kosti í tilfelli fullorðinsskírnar eins og hjá mér) gangi út á að táknrænlega ´þvo af sér´ sinn gamla mann og ´hreinsast´ til nýs lífs þar sem bæði hugur og hjarta eru helguð þjónustunni við Guð og náungann.
Þrátt fyrir allan minn mikla lestur andlegra bókmennta um nokkurra ára skeið þá álít ég sjálfan mig algjört barn í Kristi. En að viðurkenna að maður er barn er fyrsta og mikilvægasta skrefið í þá átt að verða fullorðinn. Ég lít með spenningi á þau æviár sem ég á eftir á þessari jörðu, með meistarann frá Nazaret mér við hlið . . .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2008 | 12:45
En hvað þá um hið illa?
Líkt og ég rakti ítarlega í síðustu bloggfærslu minni þá er, andstætt því sem margir vilja meina, myrkurhlið tilverunnar ekki vitund ´verri´ ljóshliðinni; hvorttveggja myrkur og ljós er jafn guðlegt og nauðsynlegt; jafn órofa hlekkir í rás heimsins.
En hvað verður þá um hið illa, úr því hið illa er ekki myrkur? Í sem stystu máli má segja að hið illa sé ósköp einfaldlega það að hegða sér eða hugsa eða tala á þann hátt sem maður er vaxinn upp úr; á þann máta sem liggur neðan því þroskastigi sem maður hefur náð uppá. Þannig er t.d. ´gott´ fyrir tígrisdýrið að drepa sér til matar, en ´illt´ fyrir hina þroskuðu mannveru, því hin síðarnefnda á að vera vaxin upp úr því að deyða aðrar lífverur.
Og ennfremur: það sem er ´illt´ fyrir eina veru getur verið ´gott´ fyrir aðra, allt eftir því á hvaða þroskastigi nefndar verur eru. Þannig getur til að mynda verið ´gott´ fyrir eina veru að fremja athöfn sem liggur á eða ofar þroskastigi hennar, en ´illt´ fyrir aðra veru að fremja nákvæmlega sömu athöfnina, ef sú vera er komin upp á það þroskastig að nefndur verknaður liggur fyrir neðan þróunarstig hennar.
Tökum dæmi um ofangreint: nú hefur einhver manneskja tamið sér að hreyta ónotum í annað fólk tvisvar sinnum á dag, en sér að hluta til að sér og tekur til við að hreyta fúkyrðum í aðrar manneskjur bara einu sinni á dag. Í þessu tilfelli er um framför að ræða, og því er þetta ´góð´ ákvörðun. En nú er önnur manneskja sem hefur tamið sér að vera aldrei ókurteis í tali við annað fólk, en hverfur einhverra hluta vegna frá þeirri tilhögun og tekur að úthúða öðru fólki einu sinni á dag. Í þessu tilviki er um afturför að ræða, og því er þetta ´ill´ ákvörðun. Við sjáum því að ein og sama athöfnin (í þessu samhengi sú að atyrða annað fólk einu sinni á dag) getur verið ýmist góð eða ill, allt eftir því hvort hún er iðkuð af manneskjum sem standa henni á lægra eða hærra siðferðisplani.
Við getum því að ofansögðu skilgreint hið illa sem það að fara afturábak í þróuninni. Og þar sem verur alheimsins eru staddar á óendanlega mismunandi tröppum í þróunarstiganum, þá er ljóst að hið illa er fullkomlega einstaklingsbundið; hið illa er jafn margbreytilegt eins og verur alheimsins eru margar.
En nú er von að glöggir lesendur spyrji: ´fyrst svo er sem að ofan er lýst, er hið illa þá ekki algjörlega afstætt?´Og svarið er: ´það er bæði afstætt og algjört! Afstætt þar sem hið illa varíerast eftir þroskastigi hinnar einstöku veru; algjört vegna þess að hið illa er absólútt og tilhliðrunarlaust fyrir hvert tiltekið þroskaskeið. Dæmi: þótt til séu manneskjur sem eru staddar á svo lágu þroskastigi að það er ekki rangt fyrir þær að ljúga, þá eru engar málamiðlanir eða undanþágur í því að það er rangt fyrir mig að ljúga ef ég er vaxinn upp úr því að segja ósatt.´
Svo simpelt er nú það!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 17:30
Bæði gleði og sorg, ljós og myrkur . . .
"Ei vitkast sá er verður aldrei hryggur / hvert viskubarn á sorgarbrjóstum liggur" kvað eitthvert stórskáldið íslenskt hvers nafn ég man því miður ekki í svipinn. Og eru þetta orð að sönnu: sú manneskja sem aldrei upplifir sorg og trega kemst ekki hjá því að verða grunnhyggin, einhliða og sálarþunn.
En hið andstæða er einnig tilfellið. Líkt og lífið er ekkert líf ef engin er sorgin, þá er tilveran engin tilvera ef engin er gleðin. Tregi og harmur annars vegar og gleði og hamingja hins vegar eru, líkt og allar aðrar grunnandstæður lífsins, fullkomlega jafnir og komplimenterir mótpólar. Hvorttveggja er nauðsynlegt og gott á sínum tíma og á sínu sviði. Okkur er jafn óeðlilegt að vera alltaf harmþrungin eins og okkur er ónáttúrlegt að vera ætíð kát!
Til er í flestum megintrúarbrögðum jarðar sterk tilhneiging til að telja aðeins helming tilverunnar komna frá guði, en hinn helminginn ekki eiga sér guðlegan uppruna, eða vera jafnvel kominn frá illum öflum andstæðum guðdóminum. Þannig er t.d. ljósið talið guðlegt en myrkrið óguðlegt, sumarið guðlegt en veturinn óguðlegur, dagurinn guðlegur en nóttin óguðleg, gleðin guðleg en harmurinn óguðlegur o.s.frv. o.s.frv.
Í kínverskri heimspeki er allt öðru vísu á málum haldið, og á miklu raunsærri og heildrænni hátt. En ein meginkenning klassískrar heimspeki kínverskrar er sem kunnugt er þeorían um Yin og Yang. En Yin og Yang eru nokkurs konar kosmískir foreldrar og fyrirmyndir allra annarra meginandstæðna tilverunnar. Yin er hinn kvenlegi höfuðpartur tilverunnar: skuggi, jörð, myrkur, nótt, kuldi, draumar, vetur, óvirkni, mýkt, innblástur, viska, dulúð, margræðni, tregi (í merkingunni sorg eða depurð), móttækileiki, innhverfa, óræðni, innsæi, hjarta, tilfinning, listir / trúarbrögð, kringumsækni, sýnþesa, eining (sbr. að aðskilnaður hlutanna hverfur í myrkri), symbólismi, ósk / hugmyndaflug / ídealismi, hið óskilgreinanlega, hið ófyrirsjáanlega, hið hringlaga, hið abstrakta, hið súbjektíva, hið umlykjandi, hið verndandi, hið spontana / lausmótaða, hið niðursækna (sbr. að sólin fer niður þegar náttar) - ásamt öðrum þáttum. Yang er hinn karllegi höfuðpartur: sól, himinn, ljós, dagur, hiti, vaka, sumar, virkni, styrkur, athöfn, greind, lógík, einræðni, glaðværð, framleiðni, úthverfa, bókstafleiki, rökhugsun, heili, hugur, vísindi / tækni, beinsækni, analýsa, margbreytileiki (sbr. að aðskilnaður hlutanna birtist í ljósi), konkretismi, raunsæi / veruleiki / realismi, hið skilgreinanlega, hið fyrirsjáanlega, hið línulaga, hið hlutbundna, hið objektíva, hið gegnumstingandi, hið sigrandi, hið skipulagða / fastmótaða, hið uppsækna (sbr. að sólin kemur upp þegar dagar) - auk annarra konnótasjóna.
En nú kemur þátturinn sem öllu máli skiptir: kínversk heimspeki kveður svo á um að hvorug meginandstæðan, Yin eða Yang, er á nokkurn hátt æðri hinni. Yin og Yang eru andstæðir, en þó fullkomlega jafnir og komplimenterir pólar. Þetta jafnræði má aukinheldur ráða af þvi að Yin og Yang eru aldrei til í hreinræktaðri mynd: það er ávallt meira eða minna Yang í Yin og öfugt.
Þessi jafnvægissýn kínverskrar fílósófíu er í hreinni andstöðu við þá trúarstrauma sem að ofan eru raktir, sem vilja meina að einungis annað andstæðuparið (Yang) og allt sem því tilheyrir sé gott, en hitt (Yin) illt. Þessi óbeit á kvenpóli tilverunnar birtist meðal annars í þeirri svæsnu kvenfyrirlitningu sem sett hefur svo ljótan blett á sögu kristninnar sérstaklega: guð er áltinn karlkyns (Yang) en hið vonda kvenkyns (Yin). Eða er ekki ljósið (Yang, hið karllega) guðlegt en myrkrið (Yin, hið kvenlega) djöfullegt, að áliti fjölmargra guðfræðinga kristninnar og annarra trúarbragða í sögunnar rás? (Reyndar á þessi tvíhyggja, þar sem aðeins annar af tveim fúndamentölu faktorum tilverunnar er álitinn góður en hinn vondur, ættir að rekja til forn-persneskra trúarbragða sem kennd eru við Zóróaster.)
Vitleysan í ofangreindri ´ljósdýrkun´ (en Yang samsvarar ljósþætti tilverunnar, eins og að ofan er lýst) sést einna best á því að ein efnislegra myndbirtinga Yin og Yang eru andardráttur mannsins og fleiri dýra: Yin samsvarar þannig innöndun en Yang útöndun. Bersýnilegt er að allar skoðanir í þá ætt að annaðhvort þessara sé æðra og guðlegra en hitt eru fullkomlega út í hött: innöndun og útöndun eru jafningjar í einu og öllu, og hvorttveggja eru þau jafn rétt og viðeigandi á sínum tíma.
Slagsíðan ljósinu og hinu karllega (Yang) í hag, sem finna má líkt og að ofan er rakið í sögu margra trúarstrauma, sérstaklega í kristni, má einnig finna í indverskri heimspeki, þar sem tilveran er talin skipt í tvo meginþætti, Sattva og Tamas, sem samsvara respektíft Yin og Yang; ljósi og myrkri, degi og nótt o.s.frv. - og er, að mati indversku spekinnar, Sattva æðra og guðdómlegra en Tamas.
En þessi slagsíða indverskrar fílósófíu er lánsamlega ekki einhlít: í indverskum heimspekifræðum er einnig að finna kenningu um ´andardrátt guðs´ og þar kveður við annan tón en í hinum hlutddrægu og bíösuðu fræðum um Sattva og Tamas. Þannig er talað um að alheimurinn og allt sem í honum er sé undirorpið ´innöndun og útöndun guðs´. Og er hvorki innöndunin né útöndunin yfir hina hafin, engu frekar en tilfellið er með inn- og útöndun lífveranna. Og er þessi jafnvægis- og heildarsýn makleg og réttvís: skynsamlegast og viturlegast er að líta svo á að hvorki ljós né myrkur, hvorki sumar né né vetur, hvorki innöndun né útöndun, hvorki gleði né tregi, hvorki karlpóll tilverunnar né kvenpóll hennar; í stuttu máli: hvorki Yin né Yang er guðlegra eða æðra hinu. Allir eru þessir andstæðu pólar jafnir í einu og öllu; allir jafn guðlegir, allir jafn órofa og nauðsynlegir hlutar tilverunnar - fullkomlega samstyðjandi hver við annan.
Og ennfremur: Yin og Yang, ´útöndun og innöndun guðs´, eru einmitt það - andardráttur guðs, en ekki guð sjálfur. Rétt eins og við mennirnir erum annað og miklu meira en andardráttur okkar, þannig er guð annað og miklu meira en andardráttur sinn. Að segja, eins og sterk hefð er fyrir innan margvíslegra trúartradisjóna, að guð sé ljós eða gleði eða einhver annar þáttur sem tilheyrir aðeins öðrum andstæðupóli tilverunnar (í þessu tilviki Yang) er líkt og að halda því fram að guð sé helmingur alheimsins sem hann skapaði. Nei, það er ekki svo! Guð er bæði ljós og myrkur, bæði dagur og nótt, bæði sumar og vetur, bæði gleði og tregi, bæði karlkyns og kvenkyns - allt þetta er guð, en þó er hann annað og ótalmiklu meira en þetta. Því um öll andstæðupör gildir að guð er hvorttveggja en þó hvorugt; felur í sér báðar andstæðurnar en er þó miklu meira en þær eða summa þeirra - rétt eins og við mennirnir höfum bæði vinstri og hægri fót, en erum þó miklu meira en fæturnir. Og vitanlega er hvorugur fóturinn merkilegri eða ´æðri´ hinum, né heldur getur annar fóturinn staðið án hins!
(Í lokin skal mótbárum svarað þess efnis að engin sönnun sé fyrir því að Yin og Yang séu til. Þær manneskjur sem á þennan veginn þenkja eru beðnar að ígrunda ýmir efnisleg teikn um grunnskiptingu allra hluta alheimsins í Yin og Yang. Eða hvað eru t.d. skiptingin í sumar og vetur, eða skiptingin í karlkyn og kvenkyn innan dýrategundanna, eða skiptingin í vinstra og hægra heilahvel, eða skiptingin í dag og nótt innan sólarhringsins, og sitthvað fleira mætti til taka - hvað er allt þetta annað en ytri, fýsískar myndbirtingar grunnskiptingarinnar miklu og kosmísku í Yin og Yang?)
Þá læt ég þessum vaðli lokið um sinn. Mörgu og miklu mætti bæta við ofantalið, þar sem viðfangsefnið Yin og Yang verður seint fullrætt. Til dæmis hef ég undanfarið verið að hugleiða hinar stórmerkilegu kosmísku (Yin - og Yanglegu) implikasjónir klassískrar tónlistar indverskrar. Grunnmissjón indverskar sígildrar músíkur er, eftir því sem ég kemst næst, að tjá skiptingu tilverunnar í ljós og myrkur, karlpól og kvenpól o.s.frv. eins og téð deiling birtist á hinum ýmsu ólíku en þó hliðstæðu plönum tilverunnar. Þannig útþrykkja t.d. rögur, sem kenndar eru við dag, Yang-hliðina á allskyns mismunandi fyrirbærum alheimsins: hinn metafóríska ´dag´ mannsævinnar, eða ´dag´ sálarhringrásarinnar (þ.e. ungsálaraldurinn), eða ´dag´ alheimssögunnar, eða ´dag´ árstíðaskiptanna (þ.e. sumar) eða ´dag´ tilfinningalífsins (þ.e. gleði og bjartsýni) eða ´dag´ hugarlífsins (þ.e. ljósleika og lógík sem móthverfur dulúðar og innsæis) o.s.frv. o.s.frv. - og andstæða en hliðstæða sögu mætti segja af rögum sem kenndar eru við nótt; þær tjá Yin-hliðina á öllum ofangreindum sviðum tilverunnar (og aukinheldur enn fleiri sviðum en nefnd eru hér að ofan).
Og jafnvel þetta sem hér hefur verið reifað segir ekki alla söguna, því vitanlega eru til allskyns blæbrigði og núönsur við allt ofanrakið, rétt eins og sólarhringurinn skiptist ekki aðeins í dag og nótt heldur einnig ýmis millistig: sólarupprás, hádegi, eftirmiðdegi, kvöld, snemmnótt, miðnætti, óttu o.s.frv.
Og lúkum vér þar vaðli miklum! (ég tek svo til orða því ég var að enda við að lesa Njálu, sem endar á svipuðum orðum). Góðar stundur, lesendur kærir.
Bloggar | Breytt 14.4.2008 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2008 | 11:39
Mæli með "The Rough Guides"
"The Rough Guides" er heiti á geisladiskaflokki sem leitast við að kynna fyrir hlustendum í grófum dráttum (eins og nafnið gefur til kynna) hinar aðskiljanlegustu þjóðlegu tónlistarstefnur í heimi hér.
Þjóðlegt tónlistarlíf plánetu þessarar er með ólíkindum ríkulegt og gróskumikið, og "The Rough Guides" ná að gefa mjög lýsandi og representatífan þverskurð af því. Nú hafa komið út rúmlega 160 diskar í flokknum, og vart er til sú eþníska músíkstefna í veröldinni sem ekki á sér fulltrúa á einhverjum þessara 160 diska.
Áhugasömum er bent á að þennan fjársjóð sem "The Rough Guides" innifela má nálgast í heild sinni á Amazon - vefversluninni, á vægu og sanngjörnu verði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 19:53
"Jesus Camp" - ótrúlegur ansvíti!
Ég var að ljúka við að horfa á heimildamyndina bandarísku "Jesus Camp" þar sem fjallað er um heilaþvott kristinna öfgamanna þarlendra á börnum sínum.
Eitt atriðið brenndi sig sérlega sterkt í huga minn, en það er þegar einhver sannkristin mannvitsbrekkan eggjar okkur mannfólkið fjálglega til að nauðga náttúru jarðar nógu duglega: höggva niður hvert einasta tré, hirða ekkert um hlýnun hnattarins, þrauttæma allar olíulindirnar o.s.frv. - vegna þess að Jesús sé alveg að fara að koma aftur, og þá muni jörðin líða undir lok!
Er hægt að hugsa sér ábyrgðarlausari og hættulegri heimsku?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2008 | 13:43
Eilítill eftirmáli við grein um röguna
Í pistli mínum um röguna indversku nefndi ég að hver raga væri tengd ákveðnum tímum sólarhringsins. Það er rétt, en segir þó ekki allan sannleikann. Hlutirnir eru aðeins flóknari, margslungnari og sófistikeraðri en svo.
Hver raga representerar ekki einvörðungu tiltekinn tíma sólarhringsins, heldur getur hún einnig tengst ýmsum öðrum þáttum, svo sem því tímabili mannsævinnar sem sólarhringstímaákvörðun rögunnar samsvarar. Þannig tákna morgun-rögur ´morgun-skeið´ mannsævinnar, þ.e. bernskuna, en kvöld-rögur tákna aftur á móti ´kvöld-skeið´ lífsbrautarinnar, þ.e. efri árin - og þar fram eftir götunum.
En þetta er ekki allt! Hver raga getur ekki aðeins symbólíserað spesifíeraðan tíma sólarhringsins og skeið mannsævinnar, heldur getur hún einnig tákngert ákveðna árstíð. Þannig tákna morgun-rögur vorið, hádegis-rögur hásumarið, nætur-rögur veturinn, o.s.frv.
Allt er þetta reist á þeirri ljóðrænu kenningu indverskrar heimspeki að allt í náttúrunni eigi sér mótsvaranir og hliðstæður í öðrum fyrirbærum. Rás sólar kringum jörðu (svo við útþrykkjum það í samræmi við hversdagslega skynjun mannsins, en ekki vísindin, því vitanlega er það svo samkvæmt hinu síðarnefnda að jörðin snýst kringum sólu en ekki öfugt) samsvarar rás æviröðuls mannsins: upprisu hans, háskini, hnigi og myrkvun o.s.frv.; og líkt hið sama gildir um árstíðirnar: sólsetrið er hliðstæða haustsins og sólarupprásin hliðstæða vorsins, o.s.frv.
(Það er annars eftirtektarvert einkenni þessarar tengingaríku og fjöl-evókatívu veraldar indverskar tónlistar að enginn sólarhringstími er álitinn æðri öðrum, og slíkt hið sama gildir um árstíðirnar og æviskeiðin. Svo dæmi sé tekið af æviáföngunum, þá er ellin á sinn hátt jafn yndisleg æskunni og dauðinn á sinn máta jafn fagur fæðingunni, og þar fram eftir götum. Berið þetta saman við hina hálfvitalegu æskudýrkun vesturlanda nútímans, með tilheyrandi ellifælni og dauðageig!)
En Indverjar eru þekktir sem andlegheitasinnaðasta þjóð á jarðríki, og því er vart að undra þótt hin spiritúela / kosmíska vídd sé fyrirferðamikil í listsköpun þeirra, þar með talið auðvitað músíkinni. Ekki þarf mikla skarpskyggni til að sjá hér tengslin við það sem að ofan er talið um allegóríska merkingu sólar(við tíma, árstíðir, mannsæviáfanga), þar sem sólin er í hérumbil öllum þekktum trúarbrögðum mannkyns að fornu og nýju tákn hins andlega og himneska. Segja má að hin fýsíska sól sé, líkt og öll efnisleg fyrirbæri, einungis ytra, sýnilegt tákn ósýnilegra hræringa í heimi andans. Upprás og setur sunnu andans, hin eilífa hringrás milli spiritúellar / kosmískrar birtu og myrkurs, milli andlegs ´sumars´ og andlegs ´vetrar´ - þetta er það sem indverskri tónlist er fyrst og fremst ætlað að tjá, að öðru ólöstuðu.
Þá er þessari stuttu eftirskrift pistils míns um hinn innvíklaða heim indversku rögunnar lokið. Ég bið að heilsa að sinni.
Bloggar | Breytt 21.3.2008 kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)