Færsluflokkur: Bloggar

Þráin er þáninganna móðir - tveim hugsanlegum mótbárum svarað

Fyrsta andæfing: Þránni verður aldrei eytt, því það er í mannlegu eðli að þrá.

Svar: Rétt er það að þráin er kyrfilega inngreypt í eðli okkar flestra, og það er ekki á valdi annarra en reginsnillinga að yfirstíga þránna í einu vetfangi, í einni einustu yfirmátaöflugri viljaathöfn.

En sem betur fer er til önnur leið sem er öllu greiðfærari okkur meðalmennunum. Sú leið felst í því að nota þránna til að sigrast á þránni. Þetta fer þannig fram að við segjum ekki skilið við þránna, heldur göfgum hana með því að setja okkur sífellt æðri og háleitari þráefni. Svo dæmi sé tekið : við hættum að þrá eigingjarna hluti og förum að þrá að vera öðrum verum til gagns og blessunar. - Svona heldur þetta göfgunarferli áfram þar til eftir er aðeins ein þrá: að losna við alla þrá og útþurrka þar með síðustu hindrunina í vegi þess að lifa í kærleika, visku og hamingju hins þráalausa nús.

Önnur andæfing: Hvað yrði um heiminn ef allir hættu að þrá? Þá myndi enginn finna sig knúinn til að gera nokkurn skapaðan hlut! - Ef allir svifu um á einhverju skýi yfirþrálegrar hamingju þyrftu ölll þarfleg og hagnýt málefni að mæta afgangi.

 Svar: Hið eina sem myndi breytast ef öll þrá hyrfi er að veröldin yrði full af hamingjusömu, kærleiksríku og heilsála fólki, í stað þess að vera eymdardalur taugaveiklaðra, ástlausra og vansælla þráafíkla.

Hamingjusöm (þ.e. þráalaus) manneskja hættir alls ekki að athafast - hún hættir bara að láta stjórnast af þrá og fer að starfa út frá hamingju og kærleika. Og eðli sannrar hamingju og sanns kærleika er að flæða yfir bakka sína og streyma til sem flestra annarra. Því fer hin þráafrelsaða mannvera að vinna öllum heiminum til heilla; ekki af þrá, heldur vegna þess að það er henni eðlislægt að gera svo. Þetta mætti setja upp í jöfnu: engar annarlegar ástæður (þ.e. þrá) = hrein og fölskvalaus góðmennska. Og hvað gæti verið þarflegra og hagnýtara en þetta?


Þráin er þjáninganna móðir

´Þrá´ má skilgreina sem löngun í eitthvað sem maður hefur ekki nú þegar, en vonast til að öðlast einhvern tíma í ókominni tíð.

Af ofangreindri skilgreiningu má ráða að þráin er ekkert nema kvöl og pína. Hví er það svo? Jú, þráin felur í sér vöntunar- og tómleikatilfinningu, og enginn maður getur notið hamingjunnar ef honum finnst hann vanta eitthvað. Hamingjan er að vera fylltur þeirri unaðslegu tilfinningu að ekkert skorti, engu sé ábótavant og ekki sé eftir neinu að keppa. Lítilsháttar umþenking ætti að sannfæra lesendur um þetta, því hvað getur hamingjan verið annað?

Þráin beinist alfarið að framtíðinni - ég þrái eitthvað sem ég hef ekki og vonast til að falli mér í skaut í framtíðinni. En framtíðin er í raun ekki til, því tíminn sjálfur er blekking - hann er aðeins til sem hugtak í sefanum, og hugtök eru ekki veruleikinn. Það eina sem til er í raun og veru er hið tímalausa nú. Og þráin er örugg trygging fyrir því að við náum aldrei að hrærast í núinu, en séum dæmd til að velkjast alla okkar ævi í hinni ímynduðu, óraunhlítu framtíð.

Framtíð beinist ævinlega að því sem er utan seilingar. Það sem er innan seilingar þarf ekki að þrá; við grípum það bara. Af þessu sprettur sú meinlega kaldhæðni að við getum aðeins þráð svo lengi sem við fáum ekki það sem við þráum!

Fánýti þrárinnar sést berlega ef lífinu er líkt við að bíða eftir strætó. Morgunljóst er að vagninn kemur ekki hótinu fyrr en hann gerir, sama hve mikið við þráum það! - Leyfum hlutunum bara að hafa sinn náttúrlega gang, og flækjum ekki málið með því þarflausa hugarvíli sem þráin er ávallt.

Þegar þránni hefur verið svalað, þá erum við ánægð, heil og hamingjusöm - þar til næsta þrá vaknar og við upplifum kvölina og vöntunina aftur - þar til þeirri þrá er fróað og við verðum á ný heil og hamingjusöm - þar til næsta þrá vaknar . . . Og þannig gengur hringavitleysan áfram alla ævina á enda hjá flestu fólki þessarar jarðar.

Af þeirri staðreynd, að uppfylling þrárinnar felist í eyðingu hennar, getum við eftir leiðum óbrenglaðrar rökhugsunar staðhæft að lykillinn að varanlegri hamingju sé algjör útrýming allrar þrár. Þá upplifir maður sem viðvarandi ástand þá skammvinnu velsæld sem fullnæging þránna veldur.

Einhver mesta speki sem manneskjan getur öðlas er fólgin í þessari áeggjan: ´þráum ekkert - njótum alls - störfum út frá kærleika en ekki eigingjarnri þrá´.

 


Klerkur og karma

FYRIR skömmu kom út bókin Hin ýmsu andlit trúarbragðanna, eftir sr. Þórhall Heimisson. Rit þetta er víðsýnt, fróðlegt og aðgengilegt, og kann ég höfundi hennar kærar þakkir fyrir að hafa dýft penna í blek.

En ekki er þó nefnd bók hnökralaus. Eitt atriði í henni stakk mig óþyrmilega í augu, en það er útlegging höfundar á karma- og endurholdgunartrú þeirri sem allflestir Indverjar aðhyllast. En sr. Þórhallur vill meina að trú þessi sé óhnikandi forlagaátrúnaður er ýti undir afskiptaleysi um þá sem höllum fæti standa (eða hreina og beina kúgun á þeim), því þeir geti sjálfum sér um kennt fyrir kröm sína, og engin leið sé fyrir þá að rísa upp úr forinni, því karmað verði ekki umflúið. Auk þessa sé sköpunarverkið, að mati Indverja, bara "maya", þ.e. blekking og tálsýn, og ekki þess virði að um það sé skeytt.

Þar eð skoðanir sem þessar eru ekki sjaldheyrðar meðal kennimanna kristninnar, tel ég ómaksins vert að andæfa þeim í þessum stutta pistli.

Staðreyndin er sú, að það athæfi að túlka karma- og endurholdgunarkenninguna sem ófrábægjanlega forlagatrú, sem ýti undir afskiptaleysi um þjáningu og neyð náungans, er hreinasta ósvinna, hvað sem líður útleggingu Indverja á teoríu þessari. Nokkur dæmi ættu að leiða lesendur í skilning um þetta.

Fyrsta dæmi: Nú sest maður undir stýri drukkinn og keyrir á ljósastaur og slasast – á þá að neita honum um læknishjálp sakir þess að slysið var honum sjálfum að kenna?

Annað dæmi: nú hrasar maður og fellur kylliflatur ofan í drullupoll – á nefndur ógæfumaður að liggja kyrr í pollinum sakir þess að hrösunin sé óhnikandi örlög sem ekkert fær storkað?

Þriðja dæmi: nú er hópur manna á göngu upp fjallshlíð, og steytir einn þeirra fót sinn við steini og fellur – eiga samgöngumennirnir þá að þyrpast í kringum hann og berja hann til óbóta fyrir að hafa dottið?

Og svari nú hver fyrir sig!

Þá er það kenningin um "skrökheiminn", þ.e. það sem Indverjar nefna "maya". Margir áróðursmenn kristninnar, og sr. Þórhallur þ. á m., hafa túlkað maya-kenninguna sem afneitun á heimi skynfæranna; þ.e.a.s. að téð kenning boði að hinn sk. "efnisheimur" sé sjónhverfing, blekking, skrökveröld.

En mayakenningin boðar ekkert slíkt. Inntak hennar er öllu fremur það að maðurinn í villu sinni álítur að heimur skynfæranna, "efnið", sé sjálfstæður veruleiki, og kemur ekki auga á djúpið sem að baki "efninu" liggur. Hér er nytsamt að leita á náðir orðsifjafræðinnar. Orðið "maya" er dregið af sanskrítarrót sem þýðir "að mæla". Og þar með erum vér komin að kjarna málsins: mayakenningin hermir að heimur skynfæranna, veröld "efnisins", heimur tíma og rúms; í stuttu máli allt það er verður mælt og vegið – að allt þetta sé ekki allur veruleikinn, heldur aðeins brotabrot af honum. Að ósekju má skjóta því hér inn í að nútímavísindin hafa fyrir löngu staðfest þessar hugrenningar að hluta. Þeir litir sem vér greinum með berum augum eru ekki nema agnarsmátt brot heildarlitrófs ljóssins, og svipað er að segja um önnur skynfæri. En mayakenningin gengur ennþá lengra en vísindin og boðar að bak við allt sem mælt verður, jafnvel hið allra fíngerðasta og ógreinilegasta skynfærum vorum, leynist ÞAÐ sem engin augu geta séð og engin tunga tjáð (en er þó, NB, skynjanlegt Sálinni þegar henni hefur tekist að yfirstíga hindranir skilvita, huga, egós og tíma-rúms). En látum þetta nægja af frumspeki-spekúlasjónum.

Að lokum þetta: karma- og endurholdgunarkenningin stendur og fellur, þegar öll kurl eru komin til grafar, með sínu innfólgna sannleiks- eða ósannleiksgildi. Með öðrum orðum: það eru ekki mínar kenjar né nokkurra annarra sem skera úr um hvort umrædd fyrirbæri eru veruleiki eður ei. Og a-príorí röksemdir um að trúin á karma og endurholdgun ýti undir siðleysi, afskiptaleysi, forlagabölsýni o.s.frv. koma málinu hreinlega ekki við, ekkert frekar en að það geti talist boðleg rök gegn þróunarkenningunni að hún grafi undan trú manna á óskeikulleika "Ritningarinnar". Allt er þetta spurning um a-posteríorí vísindi, ekki a-príorí hugsanaleikfimi.

Höfundur er öryrki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband