8.10.2009 | 21:50
Dauðinn gerir lífið að þýðingarlausum skrípaleik
Eftirfarandi hugsanir hafa mjög sótt á mig undanfarið:
Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að leitast við að gera nokkurn skapaðan hlut með mitt líf, úr því ekkert nema gröfin bíður mín alveg sama hvað ég geri eða læt ógert meðan ég enn tóri ofan jarðar?
Einu rökréttu viðbrögðin við vitneskjunni um dauðdagann óumflýjanlega sem bíður okkar allra eru að fyrirfara sér, og það sem allra fyrst. Það er miklu meiri reisn og virðuleiki yfir því að ákveða banadægur og banamáta sinn sjálfur, meðan maður er ennþá ungur, í stað þess láta óviðráðanleg ytri öfl ákveða hvenær og hvernig maður hrekkur upp af, og neyðast fyrst til að ganga í gegnum niðurlægingu ellinnar (ef maður tórir þá fram á elliár, sem er auðvitað langt í frá sjálfgefið) og þurfa aukinheldur að þola þá hörmulegu smán sem í því felst að láta lífið hella yfir mann öllum sínum margháttuðu hörmungum og sorgum, án þess að fá rönd við reist . . .
Athugasemdir
Sæll Kári.
Það er í raun lítið við þessu að segja nema:
Þú tapar í raun engu á því að lifa. Ef þú deyrð hvort sem er, þá er engin ástæða til að flýta því. Lífið hefur vissulega upp á ýmislegt slæmt að bjóða, en líka ýmislegt gott. Það er bara spurning um að vera svo heppinn að njóta þess góða áður en rukkarinn mikli réttir okkur reikninginn...
Sigurjón, 9.10.2009 kl. 01:37
Ég er ekki sammála því að það séu rökrétt viðbrögð að fyrirfara sér, það er ekkert órökréttara að halda áfram að lifa.
En hitt má vel vera, að það sé reisn yfir því að deyja ungur og eftir eigin pöntun, en hver plantaði þá þessum hugsunum í hausnum á þér? Maður ræður ekki nema að litlu leyti um hvað maður hugsar. Að deyja úr sjálfsmorðshugsunum eða að deyja af því það dettur múrsteinn á hausinn á manni, þetta eru allt saman óviðráðanleg öfl.
Það sem er lifandi er mjúkt og teygjanlegt en hið dauða er hart og brjótanlegt. Við deyjum af því það á að eiga sér stað endurnýjun. Á meðan þú lifir ertu ungur og átt að skapa. Og í staðinn fyrir að gera hið "röklega" og drepa sig strax, á maður að fylgjast áhyggjulaus með lífinu án þess að vera hræddur.
Mikil er speki mín (eða hitt þó heldur)
Niels Runar Gislason (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 16:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.