Eina hjálpin sem stoðar

Margt er það fólk í heiminum sem finnur sig knúið og kallað til að bjarga veröldinni undan hvers kyns böli:  fátækt, hungri, þrældómi – svo eitthvað sé nefnt.

Fjarri er það mér að gera lítið úr þeirri göfugu og eðlu hvöt mannshjartans að gera jörðina að betri (eða a.m.k. bærilegri) vistarveru fyrir hinar sköpuðu verur Guðs.

En verum raunsæ: það er ekki á okkar valdi sem eintaklinga að bjarga veröldinni, hversu heitt sem við óskum þess. Og sú tilhugsun að við verðum að bjarga heiminum getur meira að segja unnið gegn sjálfri sér á vissan hátt, því hún getur auðveldlega dregið athyglina frá þörf og neyð þeirra manna og dýra er á vegi okkar verða og sem er því á okkar valdi að hjálpa hér og nú - sem er eina hjálpin sem við getum á raunhæfan hátt veitt af hendi. Því hvernig getum við liðsinnt þeim sem við komumst ekki í tæri við í núinu og hérinu?

Engin soltin manneskja hefur nokkru sinni mettast af almennum og óljósum vilja vel meinandi fólks til að særa hungurvofuna úr mannheimum, heldur aðeins af áþreifanlegum og rétt tímasettum matargjöfum þeirra sem betur eru efnum búnir.

Manngæskuhugsanir án aðgerða eru fjarska lítils virði! (a.m.k. hjá venjulegu fólki með afskaplega veikan hugarmátt - en förum ekki nánar út í þau esóterísku fræði).

Hér sem löngum fyrr ríður á að miða hugsanir sínar, fyrirætlanir og athafnir út frá hinu konkreta fremur en hinu abstrakta, og vera vakandi fyrir því sem ER fyrir fótum vorum hér og nú – í stað þess sem aðeins er til sem konsept í huganum.

Gott er að hugsa ætíð sem svo: "Í dag ætla ég að hafa augun opin fyrir þörf og neyð allra lifandi vera sem ég rekst á og bæta úr þeirri þörf og neyð ef það er á nokkurn hátt á mínu valdi að gera slíkt, í stað þess að sóa deginum í fantaseringar um hvernig heimurinn gæti verið öðruvísi en hann er."

Og hvað viðvíkur glímu vorri við þá miklu eymd sem vissulega fyrirfinnst í heiminum væri oss hollt að hafa í huga spakmæli tíbeskra búddista: "Ef lausn er til á vandanum er engin ástæða til að hafa áhyggjur af honum. En ef engin lausn er til á vandanum þá er heldur engin ástæða til að hafa áhyggjur af honum!"

Og höfum ennfremur hugfast (aftur varðandi baráttuna við eymdina) að sú manneskja starfar best og gerir mest gagn sem heldur ró sinni og glaðværð og bjartsýni hvað sem á dynur. Það gerir vandann ekki hót viðráðanlegri að takast á við hann af örvæntingu, heift og bölsýni! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband