Af orðum skal manninn meta - ekki öfugt

Það er einkenni á andlega vanþroska fólki að líta ekkert til þess hvað er sagt, heldur einungis til þess hver segir það.

Þessi hvimleiða þroskavöntun birtist hvað skýrast í heimi stjórnmálanna. Ef einhver úr flokknum sem ég tilheyri segir eitthvað, þá er það óhagganlegur sannleikur, en ef einhver úr andstæðum flokki segir nákvæmlega sama hlutinn, þá er það auvirðilegur þvættingur.

Annað svið þar sem þessa hugarfars gætir mjög er trúmálin. Þannig er það afar algengt hjá t.d. kristnu fólki að líta á allt sem Jesús á að hafa sagt sem himneska obinberun, en telja samtímis að allt sem t.d. Búddha á að hafa látið út úr sér sé svívirðileg heiðni. - Og þetta þrátt fyrir það að allir sem þessi mál hafa rannsakað af óhlutdrægu viti geti ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að boðskapur þessara tveggja mestu andlegu risa mannkynssögunnar sé í öllum meginatriðum keimlíkur, og oft ná þessi líkindi ekki aðeins til innihalds heldur einnig framsetningar; þannig eru t.d. mörg spakmælanna og dæmisagnanna sem eftir Kristi og Búddha eru höfð sláandi svipuð, og hið sama mætti segja um mörg atriði í (meintum) ævisögum þeirra.

Þessa andlegu nesjamennsku, að líta ekkert á innihaldið heldur aðeins persónuna, verður fólk að hvítþvo af sér ef það á að taka einhverjum framförum í skynsemi og visku. Einkunnarorð vort skal vera þetta: Vitleysan verður ekkert viturlegri þótt himnadróttinn sjálfur haldi henni fram, og viturlegheitin verða ekkert vitlausari þótt sjálfur pokurinn mæli þau af munni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafþór H Helgason

Stjórnmálamenn eru því miður ennþá fastir í hóphegðun og hugsun rándýra.

Hafþór H Helgason, 3.4.2009 kl. 09:55

2 identicon

Sjálfstæð leit að sannleikanum er líklega mikilvægasti eiginleiki sem manneskja getur tileinkað sér. Uppáhalds tilvitnun mín um málefnið:

Ó, SONUR ANDANS!

Kærast alls fyrir augliti mínu er réttlætið. Hverf ekki frá því, ef þú þráir mig og vanræk það eigi, til þess að ég megi gera þig að trúnaðarmanni mínum. Með fulltingi þess munt þú sjá með þínum eigin augum, en ekki augum annarra, og þekkja af þinni eigin þekkingu, en ekki þekkingu náunga þíns. Hugleið í hjarta þínu, hvernig þér sæmir að vera. Vissulega er réttlætið gjöf mín til þín og tákn ástúðar minnar. Leið þér það fyrir sjónir.

 Bestu kveðjur

. (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband