Fé ofar fólki

Verðmætamat þessa þjóðfélags er bjagað og bjánalegt. Þetta sést einna best þegar borin eru saman laun hinna ýmsu starfsstétta. Nánast mætti setja það upp í nákvæma stærðfræðijöfnu að því meira sem starfið snýst um peninga, þeim mun hærri eru launin, en því meira sem starfið snýst um manneskjur, þeim mun lægra er kaupið.

Svimandi há laun þorra starfsmanna fjármálageirans eru oft réttlætt með því að störf þeirra séu svo ´ábyrgðarmikil´. En ef nota ætti á sjálfsamkvæman og tvískinnungslausan hátt þennan mælikvarða ábyrgðarinnar þegar kaupi væri úthlutað ætti starfsfólk umönnunargeirans að njóta bestu launakjara allra vinnustétta. Eða myndi nokkur heilvita manneskja halda því fram (ef henni væri gert að greina frá afstöðu sinni án undanbragða eða tæpitungu), að meiri ´ábyrgð´ sé fólgin í því að velta fjárfúlgum fram og til baka í bönkum og kauphöllum en að sjá um börn, hlynna að sjúkum og öldruðum og svo framvegis? Og þó raka fjármálaspekúlantarnir inn margfalt hærri upphæðum en umönnunarfólkið!

En þessi samanburður á kjörum fjármálageirastarfsmanna annars vegar og umönnunarstarfsfólks hins vegar vekur eðlilega upp vangaveltur um hina duldu kvenfyrirlitningu sem enn veður uppi í okkar samfélagi meints kynjajafnréttis. Því ekki verður fram hjá því litið að þorri fjármálageirafólks er karlmenn en meginhluti umönnunargeirafólks kvenmenn.

Fyrrtéð kynjamisrétti í launum er aðeins einn angi hinnar almennu hömpunar samfélagsins á karllægum gildum umfram kvenleg.Allt snýst um harða, kalda og tilfinningalausa rökhugsun, en mýkt, umhyggju og tilfinninganæmni er að mestu leyti ýtt til hliðar. Tilfinningagerilsneyddur rökþankagangurinn heimtar það sem verður talið, mælt og vegið; tilfinningagildin eru of loðin, óútreiknanleg og ópraktísk til að á þeim sé nokkuð byggjandi. Það er aðeins lógísk afleiðing þesssa grunnhugarfars að fé, sem hægt er að fastbinda í formúlur, skuli vera sett ofar fólki, sem ekki verður fastbundið í formúlur.

Fyrr á þessu ári tókst ljósmæðrum að knýja fram umtalsverða bót sinna kjara, og er það vel, því allar heilþenkjandi manneskjur hljóta að styðja eðlilegar kröfur þeirra um sómasamleg laun fyrir þeirra erfiða, þungvæga og – já – ábyrgðarmikla starfa. Og er það vonandi að fleiri umönnunarstéttir rísi á afturfæturna í kjölfarið og krefjist þess að hin herfilega og ólíðandi kvenandúð, sem endurspeglast í smánarkjörum umönnunarstéttanna, verði leiðrétt í snarhasti. Því löngu er kominn tími á að þetta blessaða þjóðfélag lagi hina grundvallarlægu viðmiðsskekkju sína og veiti hinum mjúku, hlýju og ómissandi kvenlegu gildum jafnan sess á við hin karllegu, með þeim heilbrigða viðsnúningi á verðmætamati sem slíkt felur í sér.

Því hin sönnu verðmæti eru ekki þau sem talin verða í krónum og hlutabréfum. Hin sönnu verðmæti eru þau sem felast í manneskjum.           

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Já, ábyrgðarhugtakið er orðið algerlega útjaskað á Íslandi. Annars...

Sævar Finnbogason, 30.12.2008 kl. 15:25

2 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það þarf að huga að því að markaðurinn á að vera þjónn en ekki herra fólksns. Um leið og við áttum okkur á því gæti margt breytst

Sævar Finnbogason, 30.12.2008 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband