3.8.2008 | 22:22
Allrasamleikinn
Meður því vor allravelbyrðugi, almaktugi Herra í himmelshæðum (hverjum sætklingjandi háttgjallandi prísan syngi auðvirðilegt jarðar slekti allt um aldir alda!) hefur af sinni óforþénuðu allsfrígefnu súblímu náð oss syndum knosuðum maðkinum mildilega upptendrað og gæskulega í voru svívirðulega drýsildjöflaspilltu og ormgegnumþrengdu brjósti uppkveikt ofurlítið blaktandi týruskarn af því veraldarinnar háflammandi vísdómsbáli eður þeim greypiheita funa forstáelsis og erkennelsis á því jarðlífsins innvíklaða gagnverki item þeim komplíseruðum óperasjónum himinsala sem og niðurheima, hyggjumst vér nú í fáfengilegum línum þessum eftirhérfylgjandi pára eitt lítið antal forskrekkilega ófullbyrðugra kommentaríusa og grætilega fattugra nóteringa um eina spesifíka afdeilingu fyrrtéðs brúks heimsins og hans skikkan, æruverðugum lesendum vorum til andans herlegrar upplyftingar og sálartetursins dægilegrar smurningar með því sætlega og villufarelsisfrábægjandi balsami fornúftugra áskúelsa, svo megi þeirra hrjáða og fordjarfaða hugarræksni af Belsebúbs lævíslegum ginningum og skrekkilegum prettum fullt (hvar af mæðist og harmsöngva kveini jarðar slekti allt óaflátanlega um aldir alda!) forklárast og lúminerast frammi fyrir því lambsins epifaníska opinberelsi ótvílaktugra og óforgengilera veríteta. Amen, hallelúja og hósíanna!
Að þessum kansellístíls-stælingarinngangi slepptum þá hyggst ég hér stuttlega um eitt atriði í sálarþroska mannsins, þ.e. mikla og dýrmæta dyggð sem á Sanskrít er kölluð sarvasamata.
Eins og svo mörg önnur orð í Sanskrít er orð þetta eins gagnsætt og verða má. Sarva þýðir allir eða allt, sama þýðir hið sama og í íslensku (enda Sanskrít og íslenska skyld mál), -ta er afturskeyti sem notað er til að tákna abstrakt eiginleika, svipað og -leiki í íslensku. Sarvasamata þýðir því bókstaflega allrasamleiki.
Þessi allrasamleiki hefur tvær mismunandi applikasjónir. Sú fyrri er það sem á íslensku er kallað að gera sér engan mannamun: koma eins fram við allt fólk sama hvort það er ungt eða gamalt, hátt eða lágt, kunnugt eða ókunnugt o.s.frv.
Að sjálfsögðu má ekki skilja þetta allt of bókstaflegum skilningi. Auðvitað tölum við ekki eins eða um sömu hlutina við fimm ára gamlan krakka og við fimmtuga manneskju. En það sem sarvasamata felst í er að koma fram við allt fólk af sömu virðingu, nærgætni og kurteisi, og gefa ekki með nokkru móti í skyn að ein manneskja sé meira virði en aðrar: konungur og kotungur skulu að jöfnu lagðir. Það má því segja að allrasamleikinn taki ekki til innihalds framkomunnar heldur til umgjarðar hennar.
Hin merking sarvasamata er að halda hugarró sinni og glaðlyndi sömu og jöfnu hvað sem á dynur, gott eða illt; gleðjast ekki yfir góðu gengi og fyllast ekki sorg yfir slæmu gengi. Þetta kann mörgum að virðast kaldranaleg og jafnvel ómannleg afstaða, en broddurinn úr þeirri gagnrýni er tekinn þegar við sjáum að það eru auðvitað ekki ytri kringumstæður sem ráða hinum hugrænu viðbrögðum okkar við þeim, heldur eru það við sjálf og við ein sem þeim viðbrögðum ráða. Og úr því svo er, hví þá í ósköpunum að láta ytri atburði og velting veraldar stjórna okkur eins og strengjabrúðum, í stað þess að frelsa sig undan þessu öllu saman og gerast herrar yfir voru hugskoti; velja að vera hamingjusöm og með sól í sinni hvernig sem heimurinn hverfist?
En það er ekki aðeins óbilandi ölluóháð hamingja og sinnisró sem við uppskerum við þessa beitingu allrasamleikans. Við uppskerum líka miklu meiri mátt til að takast á við hin mörgu og krefjandi verkefni sem lífið stillir óaflátanlega upp í veg okkar. Eða hvor skyldi vera betur í stakk búinn að ráða fram úr vandamálunum, eins og t.d. því að bjarga fólki úr brennandi húsi: sú manneskja sem panikkar og fyllist móðursýki yfir háskanum, eða sú manneskja sem heldur sálarkyrrð sinni óhaggaðri og gerir það sem gera þarf, af kaldri og fumlausri yfirvegun?
Og lýkur þá umfjöllun um sarvasamata, hina ætíð-sömu sálarafstöðu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.