17.7.2008 | 14:26
Austræna orþódox-kirkjan: fegursta grein kristninnar?
Eftir nokkrar kasúalar og alls ekki strang-fræðilegar rannsóknir á hinum ýmsu meiðum á tré kristindómsins hef ég komist að þeirri niðurstöðu að austræna rétttrúnaðarkirkjan sé að flestu leyti dýpri, hreinni og fegurri en aðrar kirkjudeildir.
Nokkur rök þessari fullyrðingu til sönnunar:
1) Orþódox-kirkjan er eina kirkjudeildin sem leggur höfuðáherslu á upprisu Krists fremur en krossfestingu hans; gleðin yfir eilífa lífinu og sigrinum yfir dauðanum yfirskyggir þjáningu og kvaladauða Krists á krossinum, sem flest önnur afbrigði kristindómsins setja í kastljósið. Auk þess virðist orþódox-kirkjan vera mun síður uppteknari af þeólógískum minnimáttarkomplexum í ætt við erfðasyndarkenninguna, og miklum mun bjartsýnni á góðleika og tign mannseðlisins.
2) Orþódox-kirkjan er íburðarmeiri og glæsilegri og margslungnari í kirkjuskreytingum, ritúölum og öðru slíku en allir aðrir meiðir kristindómsins, að kaþólsku kirkjunni ekki undanskilinni. Orþódoxar hafa ekki fallið í þá fúlu gryfju mótmælenda að skera allan íburð og glans út úr kirkjum sínum og trúarathöfnum í nafni baráttu gegn skurðgoðadýrkun. Ópúlens og elegans í skreytingum og ritúölum stuðla að mínu viti að því að hefja hugann upp til Guðs fremur en að draga athyglina frá honum. Eða er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir því að Guð vinni sín verk í gegnum hið jarðneska (þar með taldar kirkjuskreytingar os.frv.) fremur en í trássi við það?
3) Orþódox-kirkjan er miklu valddreifðari en kaþólska kirkjan; t.d. nýtur æðsti maður hennar, patríarkinn, ekki nándar nærri sömu valdastöðu og páfinn í Róm. Þannig má segja að orþódox-kirkjan sameini hið besta úr mótmælendatrú og kaþólsku: hún hefur desentralíseringu hinnar fyrrnefndu og íburð og glæsileika hinnar síðarnefndu.
4) Orþódox-kirkjan hefur alla tíð verið þekkt fyrir einstakt umburðarlyndi, sérstaklega samaborið við hin margvíslegu herskáu og fanatísku afbrigði sem aðrar greinar kristninnar hafa alið af sér. Í sögu rétttrúnaðarkirkjunnar eru trúarstyrjaldir að mínu viti allt að því óþekktar, og í henni hefði álíka viðurstyggð og rannsóknarrétturinn aldrei einu sinni verið hugsanleg.
5) Í orþódox-kirkjunni sýnist mér vera miklu meiri áhersla lögð á innri umbreytingu einstaklingsins en í öðrum kristindómsfylkingum. Að trúa er nauðsynlegt fyrsta skref en, að mati orþódoxa, er það ekki nóg. Trúin verður að skjóta rótum í hjartanu, hún verður að gagnsýra og umbreyta lífi hins trúaða í öllum hans daglegu athöfnum. Mystík, í bestu merkingu þess orðs: þ.e. bein innri reynsla einstaklingsins af sannindum trúarinnar, virðist blómstra miklu betur í rétttrúnaðarkirkjunni en öðrum afbrigðum kristindómsins.
Þá læt ég þessu lokið að sinni, og ítreka það sem ég sagði í upphafi að ofangreint er aðeins mín lauslegu innþrykk af orþódox-trúnni eftir hundavaðslega athugun. Fróðlegt væri að heyra meiningar lesenda um efni þessa pistils.
Athugasemdir
þetta hljómar vel, ég hef þó verið að lesa um þessa kirkju vegna fermingar dóttur minnar sem er eftir ekki of mörg ár hvet þig til að kíkja :
sjá hérna
Kærleikur til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 19.7.2008 kl. 07:22
Ég vil svosem ekki vera að hrista upp í þinni trú Kári, en ég vil samt skella inn athugasemdum mínum. Þú tekur þeim bara eins og hverju öðru hundsbiti...
1) Ekki veit ég hvað hefur fengið þig til að segja að t.d. Nýja testamentið beini athyglinni á dauða Sússa frekar en upprisu. Þú getur kannske uppfrætt mig. Um erfðasyndina er ég alveg sammála. Hvað er það?!
2) Hvernig fær íburður og ópúlens mannfólk til að trúa frekar á þennan margumtalaða guð en fábreytnin? Sagði Sússi sjálfur ekki einmitt að það þyrfti ekkert hús eða skreytingar til að trúa því sem hann var að segja?
3) Bíddu, bíddu... Er ekki guðlegt vald hið æðsta í öllum kirkjudeildum? Er þetta einhver spurning um að vera ,,varaóskeikull"? Skiptir einhverju máli hver er í forsvari himnadraugsins hér á hinni aumu Jörðu?
4) Það er með ólíkindum að ofsóknir og fleira í þeim dúr skuli vera nánst óþekkt meðal þessarar kirkjudeildar, en hafi hún fjöður í hattinn fyrir.
5) Í hvaða kirkjudeild er ekki gert ráð fyrir því að trú skjóti ekki hjartarótum? Er t.d. kaþólska kirkjan með ,,afslátt" af sannfæringu? Geturðu útskýrt hvernig orþódoxíska kirkjan sinnir þessu betur en hinar?
Ég er hins vegar ekki viss hvort slík gegnsýring trúar er af hinu góða, þar sem ég er ekki sannfærður að trú sé í raun af hinu góða.
Ég er í raun jafn fáfróður og þú um hina grísk-kaþólsku kirkju, en gaman væri að fá svör við spurningum mínum.
Ég bið svo kærlega að heilsa þér Kári og vonandi gengur þér vel í námi.
Sigurjón, 19.7.2008 kl. 07:23
Sæll, Sigurjón.
Hér eru mín bestu og heiðarlegustu svör við spurningum þínum:
1) Ég kom í raun ekki inn á það í pistlinum hvort Nýja testamentið sjálft beini kastljósinu fremur að dauða ´Sússa´ (eins og þú kallar hann) en upprisu hans; ég hélt því einungis fram að flestar kirkjudeildir aðrar en orþódox-kirkjan, þ.e. kaþólska kirkjan og hinir ýmsu angar mótmælendatrúarinnar, einblíndu fremur á þjáninguna og dauðann heldur en á gleðina og upprisuna. Og ennfremur staðhæfði ég að orþódox-kirkjan væri minna upptekin af kenningum um hið syndum spillta eðli mannsins en mótmælendur og kaþólikkar, og bjartsýnni á hið dyggðum prýdda eðli mannsins; sú fullyrðing hygg ég að standist gagnrýni.
2) Það er rétt að íburður og ópúlens og glæsileiki í kirkjuskreytingum og ritúölum o.s.frv. er ekkert nauðsynlegt til að hefja hugann upp til Guðs. En ég held að í versta falli sé glæsileikinn saklaus óþarfi, en í besta falli þjóni hann þeim háleita tilgangi að gefa mönnum, sem ekki er gefinn sá hæfileiki að hugsa abstrakt, einhverja nasasjón af dýrð himinsins. Og munum ennfremur að engum manni er þröngvað inn í kirkjur (a.m.k. ekki nú til dags), og því geta menn bara sleppt því að mæta í messur ef þeim ofbýður glysið og glingrið í kirkjunni. Ef menn vilja tilbiðja hina ójarðnesku og handanlægu (transendentu) hlið guðdómsins, sem laus er við öll tákn sótt úr jarðheimum, þá geta þeir eins vel gert það heima hjá sér eins og í kirkjunni, og látið kirkjusóknina eftir því fólki sem dregst að fyrrnefndum jarðheimatáknum (þ.e. skreytingum og ritúölum guðshúsanna) þar sem það sér í þeim einhvert dauft endurskin af dásemdum himinsins; endurskin sem nefndu fólki er nauðsynlegt til að nálgast Guð á sína vísu, þar sem vitund þess er ekki nógu þroskuð til að fást við óefniskenndar abstraksjónir.
3) Átorítets-trúin er mikið vandamál í sögu trúarbragðanna, og ekki er ég svo naívur að halda að orþódox-kirkjan hafi í sinni löngu sögu farið varhluta af þeirri plágu. En samt sem áður tel ég að orþódox-kirkjunni hafi tekist tiltölulega vel að höndla þennan vanda: hún er vissulega miklum mun líberalli og valddreifðari en kaþólska kirkjan, en hefur heldur ekki fallið í þá gryfju margra greina mótmælendatrúar að gjalda skilyrðislausu jáyrði við öllu veraldlegu valdi í nafni þeirrar kenningar að allt jarðneskt vald sé komið beint frá Guði (en sú kenning er afar fyrirferðamikil í hugmyndaheimi Marteins Lúthers og fleiri framvígismanna prótestanismans, og rekur sögu sína allt aftur til skrifa Páls postula í Nýja testamentinu). Orþódox-kirkjan er því bæði átorítets-lausari en kaþólska kirkjan, og virkari á sviðum félagsmála og pólitíkur en margar kirkjudeildir prótestantisma.
4) Kannski er ókunnáttu minni í sagnfræði um að kenna, en ég veit ekki til þess að í sögu orþódox-kirkjunnar hafi nokkurn tíma komið til meiriháttar trúarstyrjalda eða -ofsókna.
5) Ef til vill fór ég yfir strikið með því að gefa í skyn að aðrar kirkjudeildir leggi minni áherslu á það en orþódox-kirkjan að trúin skjóti rótum í hjartanu; vissulega er mikil áhersla lögð á innri umbreytingu einstaklingsins í velflestum deildum kristninnar. En það er bara mitt innþrykk af orþóxatrúnni að hún leggi sýnu minna upp úr kreddum og sýnu meira upp úr innri upplifun en t.d. meginþorri mótmælenda og kaþólikka. Auðvitað vex arfi dogmatíkur og þröngsýni í garði orþódox-kirkjunnar líka, en ég hygg að það sé ívið minna af því samanborið við velflestar aðrar kirkjudeildir.
Svo er það auðvitað sá punktur sem þú veltir upp í lok athugasemdar þinnar, þ.e. sú spurning hvort trú sé yfirhöfuð af hinu góða. Ég hygg að svarið sé að það fari alfarið eftir eðli trúarinnar hvort hún sé af hinu góða eða af hinu illa. Ef trúin er mild, umburðarlynd og víðsýn og ýtir undir góðvild, kærleika og hamingju þess sem trúir, þá er hún af því góða; ef trúin er hið gagnstæða þá er hún af því vonda. - Og auk þess má benda á þau augljósu sannindi að trú er ekki orsök heldur afleiðing skaphafnar fólks; það er ekki vond trú sem skapar vont fólk, heldur vont fólk sem skapar vonda trú.
Vona að þetta séu viðunandi svör, eða að minnsta kosti umhugsunarverð. Kærar kveðjur.
Swami Karunananda, 19.7.2008 kl. 11:56
Smá nánari útskýring á svari 3) hér að ofan: Ein helst ástæða þess að orþódox-kirkjan lætur samfélagsmálefni sig meira varða en mótælendakirkjurnar upp til hópa er sú að orþódoxar skilja ekki jafn skarpt milli veraldlegs valds og andlegs valds líkt og prótestantar, sem eru alltof gjarnir á að sitja með hendur í skauti og láta hin veraldlegu málefni bara æxlast eins og þau æxlast, og leyfa hinum sekúleru stjórnvöldum bara að fara sínu fram, í þeirri sælu trú (að mínu mati táltrú) að Kristur muni brátt birtast á ný í skýjum himins og kippa öllu í liðinn eins og deplað væri auga.
Þessi uppgjafarkenning (margra, en ekki allra) prótestanta, um það að maðurinn sé alfarið ófær um að breyta veröldinni til hins betra og að auki eigi að vera algjör aðskilnaður milli veraldlegra og andlegra málefna, leiðir oft af sér þá sorglegu kennisetningu að best sé fyrir hina trúuðu að skipta sér ekkert af gangi mála í heiminum og treysta alfarið á hina bráttaðvífandi hálp af himnum.
Sem betur fer eru ýmsar undantekningar á þessari apaþetísku afstöðu sem einkennir því miður allt of margar kirkjur mótmælenda. En þessar undantekningar eru í raun í trássi við hinn sögulega grunn prótestantismans, eins og hann birtist m.a. í kenningum Marteins Lúthers, sem heimtaði að fólk ætti að beygja sig skilyrðislaust undir hin veraldlegu stjórnvöld, þar sem þau séu undantekningalaust innstiftuð af Almættinu - og þá skiptir engu máli þótt stjórnvöldin samanstandi af örgustu harðstjórum og svívirðilegustu varmennum: vondir ráðamenn eru bara réttlát refsing Guðs fyrir vonsku undirsátana!
Og ef þið haldið að Marteinn Lúther hafi verið að skálda upp þessar miður viðfelldnu hugmyndir, þá ættuð þið að kíkja í Pál postula . . .
Swami Karunananda, 19.7.2008 kl. 15:09
(Af hverju í déskotanum getur maður ekki breytt kommentum?!)
Sagt vildi ég hafa hér að ofan að trú mótmælenda og annarra greina kristninnar á endurkomu Krists er í mínum augum táltrú aðeins ef hún er skilin bókstaflega. Sjálfur trúi ég á endurkomu Krists, en í allt öðrum og miklu líkingarlegri skilningi: þ.e. þeim að hinum dökku skýjum eigingirni og haturs sem hylja sól kristsvitundar í hjarta hvers manns verði dreift.
Í hinum endanlega skilningi má segja að það verði enginn varanlegur friður eða réttlæti eða góðmennska hér á jörðu fyrr en a.m.k. meginþorri fólks hefur afhjúpað kristsólina í hjarta sér - en það er svo sannarlega engin afsökun fyrir því að sitja bara á rassinum og reyna ekkert að bæta tengsl okkar hvert við annað eða við náttúruna, eftir því sem okkar mistæka geta megnar. Það væri rétt eins og að neita að nota ljósin á bílunum okkar að næturlagi vegna þess að þau lýsa aðeins upp hluta myrkursins en eyða því ekki öllu eins og sólin gerir þegar hún rennur upp!
Swami Karunananda, 19.7.2008 kl. 15:32
Sæll aftur Kári og takk fyrir að veita mér þá ánægju að fá skilmerkileg svör.
Ef ég skil þig rétt, eru það ekki trúarbrögðin sjálf, heldur handbendar þeirra sem gera þau góð eða slæm, eftir því hvernig þeir fara að. Þetta held ég að sé vel ígrundað og rétt.
Margir misnota líka trú. Múslimar sem, í krafti heilags stríðs, sprengja saklaust fólk í loft upp eru að misnota Islam. Prelátar rómversk-kaþólsku kirkjunnar seldu mönnum aflátsbréf í nafni kirkjunnar á sínum tíma og telzt það í mínum augum misnotkun á kristni, ekki síður en misnotkun rannsóknarréttarins á sínum tíma.
Það má líka velta fyrir sér öðrum trúarbrögðum, t.d. fjölgyðistrúarbrögðum á borð við hindúisma. Ég verð að játa fávizku mína á kennisetningum þeirrar trúar, en skilst að þeir hafi marga guði og hver og einn gegni ákeðnu hlutverki við að halda heiminum í sem beztu ástandi. Nú t.d. á Indlandi ríkir mikil stéttaskipting, en ég hef ekki hugmynd um það hvort hún eigi rætur sínar í hindúismanum eður ei. Gaman væri ef einhver gæti svarað því.
Svo má líka skoða eitt enn, en það er búddismi. Eftir því sem ég bezt veit, er þar enginn eiginlegur guð á ferð; einungis spámaður/kennismiður. Búddha sumsé boðaði ákveðinn lífsstíl frekar en trú. Það má því segja að búddismi sé ákveðin heimspeki og lífsstíll fremur en nokkurn tímann raunveruleg trúarbrögð. Búddha boðaði hinn gullna meðalveg í öllu sem mannfólkið tekur sér fyrir hendur, m.a. að borða og drekka í hófi, nota tíma í hugleiðslu og umfram allt vera góð við hvert annað. Þetta er speki sem ég get sett mig á bakvið, sé þetta rétt athugað hjá mér.
Alla vega, það er gaman að spjalla við þig hér Kári og hafðu þökk fyrir.
Sigurjón, 20.7.2008 kl. 11:16
Ég fæ ekki betur séð Kári, en að þú sért sjálfur hér að ofan að tjá feugrstu grein kristninnar. Sem er viðtkekt krists í hinni einu sönnu kirkju sem er mannshjartað sjálft.
Ég finn samhljóm í því að helgir dómar góðir og blessaðir til að minna okkur á hina innri fegurð sem þeim var sennilga upphaflega ætlað að standa fyrir. En íburðarmikil skrín geta hins vegar orðið til að glepja hinn hlutbundna huga,
Afskræming kristninnar og ýmissa annarra trúarbragða á sér hugsanlega stað fyrir tilstilli óttans, sem er hluti af hinu efniskennda eðli, óttinn leitar valds yfir efninu og ytri aðstæðum til að friða sjálfan sig. Oft á slíkt andleysi sér stað í nafni andans og á það við að einhverju leyti í öllum trúarbrögðum.
Ávextir andans eru gleði, kærleikur og gjafmildi, ef við finnum slíka ávexti á hvað grein kristninnar sem er, er það gott og blessað, en ég held engu að síður að þeir ávextir finnist ekki heilsteyptir í neinum þeim söfnuðum sem ekki hampa kristi innra með hverju og einu mannsbarni og sé ekki þannig tilbúinn að lyfta kristi upp í æðra veldi á jörðinni.
Fegursta grein kristninnar samkvæmt minni trú er að trúa á og opna sig fyrir kristi í manni sjálfum, kristssólin eins og þú segir. Sá maður sem hefur fundið auðmýkt gagnvart birtingu Guðs í honum sjálfum og lofað kærleiksaflinu að vinna í gegnum sig mun fyrir mér vera álitinn kristnaður maður og það er eins og ég segi kannski vel við hæfi að kalla slíkan einstakling fegurstu grein kristninnar.
Friður
Ólafur Aron Sveinsson, 20.7.2008 kl. 13:57
Nú er til fólk sem finnur til gleði, kærleiks og gjafmildi, algerlega án þess að vera trúað. Gleymum því ekki að fólk þarf ekki að vera trúað til að finna sálarró og vera gott við hvert annað.
Sigurjón, 21.7.2008 kl. 06:53
...hvað þá endilega kristið.
Sigurjón, 21.7.2008 kl. 06:53
Satt er það Sigurjón. Fólk þarf alls ekki að vera trúað til að njóta "ávaxta andans" í þeim skilningi sem bent var á hér að ofan. Sjáðu til að fólk getur verið mjög "andlega" ríkt, jafnvel þótt það trúi ekki á einhvern tiltekinn Guð, eða óhlutbundinn veruleika. Andlegt að því leytinu til að líf þess einstaklings miðar t.d að því að ýta undir framþróun og vöxt í kringum sig, að taka fulla ábyrgð á eigin lífi, opna hugann, elska og virða náungann o.s.frv,
Á vettvangi eðlisfræðinnar má sjá lögmál orsakar og afleiðingar að verki. Útfrá samhengi orsakar og alfeiðingar er sú hugmynd auðkeypt að góðar afleiðingar líkt og "ávextir andans" skírksota til, eigi sér tilvist burtséð frá trúarlegum kennisetningum, þó að trúarlegar nálganir megi nota sem haldreipi til á-bendinga.
Við þurfum alls ekki að aðhyllast tilteknu trúarbragði til að njóta góðra ávaxta lífsins og ég er einmitt þeirrar skoðunnar að trú í blindni leiði menn oftar en ekki í öngstræti, þar sem hvorki er ljós né svigrúm fyrir ávexti andans að dafna, en þurr vísindahyggja er heldur ekki endilega vænlegur kostur vilji maður öðlast lífsfyllingu,
Mér finnst sterkt að notast við hugmyndina um "ávexti andans", sama hvort maður sé trúaður eður ei, ef við hugsum til þess að þá krefst þess að tré sé lifandi og vel nært til að geta gefið af sér góða og ætilega ávext, þannig geta ávextirnir verið einskonar viðmið um hvort tréð sé í lagi eða ekki. Fyrir mér á það við bæði um andlegar og vísindalegar kenningar, séu ávextirnir ekki gleði, kærleikur, friður og þess háttar er eitthvað bogið við tréð. ,,Á ávöxtunum þekkið þið þá" sagði hinn snjalli lífspekingur JC.
Það er örðug brekka að gefa handbær skil á andlegum hlutum. En ég er engu að síður þeirrar skoðunnar að "andleg" og "vísindaleg" sannindi séu nánir sálufélaga og geta lyft hvoru öðru upp í æðra veldi.
Friður
Ólafur Aron Sveinsson, 22.7.2008 kl. 22:15
Jú, mikið rétt Ólafur Aron. Þetta er góð pæling hjá þér og mér þykir ekki ólíklegt að þú hafir hitt þarna naglann á höfuðið.
Sigurjón, 23.7.2008 kl. 03:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.