8.6.2008 | 22:29
Tilgangurinn með veru minni hér á jörð
Eitt er ég viss um, og það er hver tilgangur minn hér á jörð er ekki: að sanka að mér völdum og efnislegum gæðum.
Jafnvel þótt ég eignaðist tuttugu hæða höll og tuttugu sportbíla og yrði einræðisherra yfir tuttugu löndum þá myndi það ekki hrökkva hót til að fylla upp í hið ömurlega tóm innra með mér.
Það er eitt og aðeins eitt sem getur fyllt upp í gapið hræðilega í sálu minni, og það er að tendra bál kærleika og samúðar í garð allra vera; sama kærleika og sömu samúð og Guð ber til allrar sköpunar sinnar.
Ef mér auðnast að öðlast þennan kærleika og þessa samúð meðan ég tóri hérna megin grafar þá álít ég líf mitt fullkomnað jafnvel þótt ég fari á mis við öll efnisleg gæði. Ef mér auðnast ekki að öðlast þennan kærleika og þessa samúð meðan ég tóri hérna megin grafar þá álít ég lífi mínu kastað á glæ jafnvel þótt ég syndi í öllum mögulegum efnislegum gæðum.
Í dag er ég sorglega víðsfjarri því að uppfylla skilyrðin fyrir altækum kærleika og samúð. Ennþá er ég alltof hégómlegur, eigingjarn og hjartakaldur.
En ekki þýðir að gera sér of mikla rellu út af þessum göllum, því fyrsta skrefið að því að laga gallana er vitanlega að átta sig á því að gallarnir séu til staðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.