1.6.2008 | 19:29
Við erum ekki hátindur þróunarinnar!
Hvers vegna í ósköpunum eigum við að trúa þeirri hrokafullu og sjálfumglöðu kenningu að mannkynið sé toppurinn á þróun lífsins?
Úr því til eru óteljandi þroskastig neðar manninum (eins og hverjum manni er ljóst), er þá nokkuð nema lógískt að gera ráð fyrir því að til séu einnig ótal þroskaþrep ofar manninum? Spáið í það!
Það að langflest fólk skuli yfirleitt ekki skynja verurnar sem standa ofar mannkyninu á þróunarbrautinni er nákvæmlega engin röksemd gegn tilvist slíkra vera. Þessu má líkja við einfalt dæmi um ófullkomleika og fimbultakmarkanir mannlegrar skynjunar: við nemum ekki nema brotabrot af heildarlitrófi ljóssins berum augum. En Nota Bene! - þrátt fyrir þessar skorður á skynjun vorri efast enginn um tilveru þeirra ljóslitrofsþrepa sem augu vor nema ekki, því vísindin hafa verið þess megnug að víkka út skynjunina með ýmsum þartilgerðum tækjum og bæta í gloppur blindu vorrar.
Þetta einfalda dæmi sýnir klárlega hve útúrheimskulegt það er að gera skynjun meðalmannsins að einhverjum allsherjardómara um hvað er til í þessum heimi og hvað ekki.
Og fleiri exempel mætti til taka: ímyndum okkur nú að amöbur eða einhverjar þaðan af lægri lífverur tækju að fílósófera um stað sinn í tilverunni. Myndi þeim detta í hug að til væri nokkuð sem heitir mannfólk?
Allt styður þetta spakmælið sem haft er eftir einhverjum vitringnum: ´aðeins fífl trúa því einu sem þau sjá´ (ég held að það hafi verið Albert Einstein sem sagði þetta, en lesendur mega leiðrétta mig ef mér skjöplast).
Sú er trúa mín að einn góðan veðurdag muni vísindin staðfesta tilveru lífvera sem standa ofar manneskjunni á þróunarstiganum, líkt og þau hafa sannreynt þau stig í ljóslitrófinu sem augu vor fanga ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.