22.5.2008 | 16:50
Tröll hafi trúarbrögðin!
Þótt ég telji sjálfan mig trúaðan mjög þá fyrirlít ég í raun öll trúarbrögð.
Bob Dylan sagði eitt sinn í viðtali eitthvað á þessa leið: "það er herfileg móðgun við trú (faith) að spyrða hana saman við trúarbrögð (religion)."
Guð er kærleikur, og sá kærleikur býr í hjartanu. Og þetta er eina trúarkennisetningin sem nokkur manneskja þarf nokkurn tíma á að halda!
Megi öll guðfræði veraldar fjúka út í veður og vind! Megi allar kirkjur og musteri jarðar hrynja til grunna! Megi allar biblíur og ritningar heims vera notaðar sem skeinipappír!
Amen!
Athugasemdir
Hvert musteri ræningjabæli, hver turn heitir Babel, hver prestur er skurðgoð, og hver sem kemur nafni og mynd á kærleikann, er að reyna að eigna sér hann. Amen brother.
Haraldur Davíðsson, 22.5.2008 kl. 17:19
Dylan ætti að þekkja þetta, sem affrelsaður maður.
Þarfagreinir, 22.5.2008 kl. 17:20
Sæll :)
Vona að það sé í lagi að ég komi með aðeins ólíka skoðun.
Það getur vel verið að sumir geti fundið trú án afsipta trúarbragða en ég veit að ef ekki væri fyrir trúarritningar bahá'í trúarinnar þá væri ég ekki á góðum stað í dag. Í gegnum þessar trúarritningar lærði ég að þykja vænt um sjálfan mig og aðra og lifa ábyrgu lífi og í rauninni tileinka lífi mínu þjónustu við aðra - þó ekki gangi alltaf nógu vel að halda í þann staðal.
Trúarbrögð fela tvennt í sér - hið fyrsta er aflið til að umbreyta einstaklingnum í betri mann og gerist þetta yfirleitt gegnum hinn svokallað andlega boðskap sem er sameiginlegur öllum trúarbrögðum. - hið seinna er kraftur trúarbragðanna til að umbreyta samfélögum í betri samfélög og gerist það með svokölluðum félagslegum lögum viðkomandi trúarbragða sem eru ekki eilíf ólíkt andlegu lögmálunum heldur aðeins ætluð þeim stað og tíma sem þau birtast í. Það eru þessi lögmál sem seinna þegar þau eru búin að uppfylla tilgang sinn verða bitbein manna og orsök misklíðar (ásamt trúarkreddum og rituölum sem læðst hafa inn í trúna án þess að hafa neitt við hana að gera).
Ég vona að það sé í lagi að ég endurnýti hér bút úr öðru samtali sem var á svipuðum nótum:
Hin hliðin eru félagslegu lögmálin. Þessi lögmál eiga, yfirleitt, einungis við á þeim stað og tíma sem þau eru birt á, þ.e. eru bundin menningarlegum aðstæðum. Þessi lögmál hafa verið í fyrri tíð grundvöllur að framþróun siðmenningar en í seinni verið haft á framfarir og orsakir misklíðar (annað sem eru höft og orsök misklíðar eru dogma og rituöl sem menn hafa blandað inn í trúna). Þetta útskýrist best með dæmi um eitthvað sem er öllum ofarlega í huga - lög Íslam.
Við þekkjum þá erfiðleika sem skapast hafa vegna fastheldni margra múslima við lög sem brjóta gegn því sem við í dag teljum grundvallar mannréttindi (auk þess við ýmislegt sem raunverulega hefur ekkert hefur með íslam að gera en er orðið hluti af íslamskri menningu). Við auðvitað samþykkjum ekki fjölkvæni né það að konan sé lægri en maðurinn - þetta er einfaldlega eitthvað sem líðst ekki í dag (þ.e.a.s. í tali a.m.k. vesturlandabúar eru ekki nógu góðir í að sýna þessar hugsjónir í verki að mínu mati).
En hvað með á tímum Múhameðs? Hvernig var ástandið þá? Ef maður les sögubækur þá veit maður það að engin höft voru á því hversu mörgum konum mátti kvænast og því ríkari - og meiri ribbaldi - því fleiri konur átti maður. Arabíuskagi var samsafn fjölmargra ættbálka sem voru í stöðugu stríði við hverja aðra. Konur voru minna virði en dýr og hjá sumum ættbálkum þótti það svo mikil skömm að eignast stúlkubarn að þau voru grafin lifandi.
Þessu öllu breytti Múhameð. Hann leyfði ekki fjölkvæni - hann hefti það. Hann upphafði stöðu konunnar. Undir honum hættu öll barnadráp. Og - það sem var einstakt á þessum tíma - undir honum sameinuðust ættbálkar sem áður höfðu verið mestu óvinir.
Þetta er dæmi um lög sem hjálpuðu samfélagi að þróast en, nota bene, voru bundin stað og tíma. Eftir því sem heimurinn þróaðist sátu þeir eftir sem enn héldu fast við lögin um t.d. fjölkvæni meðan aðrir bönnuðu það.Bestu kveðjur
. (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 22:47
Sæll, Jakob.
Þú hefur mjög margt til þíns máls í þessu kommenti. En pistilinn sem kommentið var svar við skrifaði ég nú ekki í fúlustu alvöru - það er mikil kerskni í pistlinum og stríðnispúkaleg löngun til að sjokkera og stuða fólk.
Í raun er ég alls ekki á því að trúarbrögð séu og hafi verið ætíð af hinu illa; trúarbrögð hafa vissulega hjálpað mörgum manninum til að lifa guðrækilegra og sómasamlegra lífi en ella, og án náðarfaðms trúarbragðanna hefði mörg manneskjan fetað verri stíg í lífinu eða jafnvel lent á algerum glapstigum. Punkturinn í pistlinum var, þegar öllu gríni og hrekkvilja er sleppt, í raun bara sá að ég tel mig sjálfan, prívat og persónulega, ekki hafa mikið að sækja til neinna skipulagðra trúarbragða - ég leita frekar á náðir ósektarískra og algerlega opinna fræðslukerfa eins og Guðspekinnar.
Á Sanskrít eru til mjög skemmtileg orð sem lýsa einmitt því sem þú talar um í kommentinu: annað er sruti og hitt er smriti. Sruti er hinn eilífi, absólúti hluti trúarinnar; sannleikurinn um Guð og andann og siðgæðisprinsípin sem er algerlega hafinn yfir tíma, land og þjóðfélagsaðstæður. Smriti er hinsvegar hinn óeilífi, afstæði partur trúarinnar; reglugerðir og lagabálkar og annað þess háttar sem er alfarið háð tíma, landi og þjóðfélagsaðstæðum.
Öll trúarbrögð eru einhvers konar blanda af sruti og smriti - ekki er til sú religjón sem er alfarið annað en ekki hitt. Og nú þarf sannleikselskandinn, í stað þess að hafna trúarbrögðunum algerlega, bara að sikta sruti frá smriti í hverjum tilteknum trúarbrögðum: sortera hið eilífa frá hinu tímanlega, hið algjöra frá hinu afstæða o.s.frv. Og þegar þeirri flokkun er lokið og ljóst hvað er eilíft og hvað er tímanlegt, hvað er sruti og hvað er smriti, þá þarf sannleiksvinurinn í framhaldinu að meta smriti glöggum og gagnrýnum augum: hafna því sem er úrelt og ekki við hæfi í nútíðinni, en viðhalda því sem er ennþá gott og gagnlegt, og búa ennfremur til nýtt smriti sem hæfir best þjóðfélagsaðstæðum nútímans.
Með þessum hætti er tryggt að trúarbrögðin verða tæki eingöngu til hins góða og guðlega og til framsóknar menningarinnar, í stað þess að vera, eins og sagan sýnir svo sorglega, að miklu leyti undirlögð kredduföstum tilburðum til að þröngva upp á fólk úreltum reglugerðarfargönum úr forneskju, sem kunna að hafa verið stórlega til bóta á sínum tíma (eins og þú bendir á í kommenti þínu Jakob), en eru í ljósi hinnar óaflátanlegu framrásar menningarinnar orðnar að algerlega óviðeigandi steingervingum og til stórra vansa fyrir heilbrigða framþróun þjóðfélagsins.
Og já - ég styð trúarbrögðin af öllu hjarta ef þau rugla ekki saman sruti og smriti og kenna hi[ fyrrnefnda á sem hreinastan og einfaldastan og kreddulausastan máta, og haga hinu seinnanefnda á sem skynsamlegastan og uppbyggilegastan hátt sem hentar best hverjum tíma og hverju landi.
Bestu kveðjur,
Kári
Swami Karunananda, 31.5.2008 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.