Lítið sýnishorn af Súfí - ljóðlist

Súfí - tónlist er órjúfanlega bundin hinni stórkostlegu ljóðlist sem sungin er með músíkinni.

Því miður kann ég ekki tungumálin sem súfí - ljóðlistin er ort og sungin á. En hér læt ég fylgja grófa þýðingu sem ég gerði á enskri snörun ljóðs sem sungið er við eitt Youtube - myndbanda hinnar undursamlegu pakistönsku Súfí - söngkonu Abidu Parveen (en ljóð þetta hefur talað ótrúlega sterkt til mín þar sem ég er nú staddur á þroskaferli mínum):

"Guðinn sem þú finnur við leit í frumskóginum

er fundinn af fiðurfé, fiskum og skepnum.

Aðeins þau finna hinn Sanna Guð

sem eru góð og hrein í hjarta!

Þú hefur lært svo margt við lestur þúsund bóka.

Þú hefur lært svo margt við lestur þúsund bóka.

Hefurðu nokkru sinni lesið það sem er innra með þér?

Þú ferð og situr í mosku og musteri.

Þú ferð og situr í mosku og musteri.

Hefurðu nokkru sinni heimsótt þína eigin sál?

Þú sem átt annríkt við að berjast við Satan:

hefurðu nokkru sinni barist við þín eigin illu áform?

Þú hefur náð til skýjanna

en hefur ekki náð til þess sem býr í hjarta þér!

Komdu til vistarveru minnar, vinur minn

morguns, nóns og nætur!

Eyddu moskunni, eyddu musterinu,

gerðu það sem þér þóknast

en brjóttu ekki mannshjartað

því Guð dvelur þar!

Ég leita þín í frumskógi og á öræfum

ég hef leitað langt og víða.

Kveldu mig ekki, Ástin mín

morguns, nóns og nætur!

Komdu til vistarveru minnar, Ástin mín

morguns, nóns og nætur!

Komdu til vistarveru minnar, Leiðarljós mitt, Vinur minn

morguns, nóns og nætur!"

 

Í þessu unaðslega ljóði sést greinilega hví Súfisminn hefur ævinlega verið litinn hornauga af íslömsku bókstafstrúarfólki (sérstaklega sést það í hvatningunni til að eyða moskunni og musterinu - væntanlega (þótt það sé ekki sagt beinum orðum) vegna þess að moskan og musterið leiða engan til sáluhjálpar). En það er nokkuð sem ekki einskorðast við Íslam, því dulhyggja hefur alltaf hljómað grunsamlega í eyrum fúndamentalista allra trúarbragða.

En ég segi hinsvegar: lifi dulhyggja allra trúarbragða! Hún er fyrir þær alltof fáu sálir sem finna ekki fró í því einu að hylla einhverrar ritningar eða játa einhverjar trúarsetningar eða hafa um hönd einhver ritúöl, heldur vilja ná innað kjarna trúarinnar: þ.e. að upplifa guðdóminn beint, en ekki bara tala, hugsa og lesa um hann.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband