Frelsi undan hugsunar-helsi

Tilvistarspekingurinn danski Sören Kirkegaard ritaði einu sinni eitthvað á þessa leið:

"Að hugsa og tala um Guð er allt annað en að fara niður á hnén og biðja til hans."

Hjartanlega tek ég undir þessi orð! Nú er ég kominn að mörkum þess sem hægt er að hugsa og tala um. Nú hef ég loksins lært að hætta að konseptúalísera guðdóminn; að hætta að gera mér nokkrar hugmyndir um hann / hana / það, hversu viturlegar og útspekúleraðar sem þær hugmyndir kunna að vera. Það eina sem máli skiptir er að leita guðdómsins í innilegri bæn.

Og bið ég nú alla lesendur sem lesið hafa fyrri bloggskrif mín um andleg málefni að vinsamlegast gleyma öllu þessu kjaftæði. Ekkert sem máli skiptir í sambandi við tilvistargátuna er hægt að binda í þröngar viðjar orða eða hugsunar. Hugsunin virkar afbragðsvel sem maskína til praktískra viðfangsefna á jarðsviðinu; það er hennar upprunalega og eina raunhlíta hlutverk. En við skulum ekki gera okkur neinar grillur um að hugsunin geti náð nokkuð dýpra en það að vera eintóm vél til hagnýtra jarðbundinna nota.

Nú er ég loksins frjáls undan öllu farginu í þvarginu!

 Ps. Ef til vill finnst sumum lesendum að ég skilgreini hlutverk hugsunarinnar helst til þröngt í ofansögðu. En ég tel þó grunnforsendu orða minna hér að ofan ófyrirþrætanlega hvernig sem á málið er litið: ef hugsunin kemur ekki að praktísku gagni í lífu voru hér á jörðu, að hvaða gagni kemur hún þá?

Pps. Það eina sem ég tel athugavert við ofangreind orð Kirkegaards er að ég álít enga þörf fyrir að fara niður á knén þegar við biðjumst fyrir. Guð elskar okkur nákvæmlega eins og við erum og þráir að eiga sálufélag við okkur á fullkomnum jafnræðisgrundvelli, og því þurfum við alls ekki að niðurlægja okkur né lítillækka á nokkurn hátt til að ná áheyrn hans / hennar / þess. Slíkar hugmyndir tilheyra frumstæðara þroskaskeiði mannssálarinnar, er hugsar sér Guð sem afbrýðissaman, heimtufrekan og drottnunarsjúkan vesaling, sem yrði sjálfsagt greindur með stjórnunarþráhyggju á háu stigi ef hann væri maður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband