2.5.2008 | 15:14
Verstu mistök kristninnar?
Versta glappaskot í sögu kristindómsins er sennilega það að hafa látið Gamla testamentið (héreftir skammstafað GT) fljóta með í Biblíunni kristnu.
Ástæðan er ofureinföld: GT er á löngum köflum einhver ljótasti og viðurstyggilegasti ritdéskoti sem um getur.
Guð GT er verri en versti djöfull: afbrýðisamur, reiðihneigður, hefnigjarn, blóðþyrstur og gersneyddur öllu sem heitir samúð og miskunnsemi. Hann vílar ekki fyrir sér að skipa ´lýði sínum´ Gyðingaþjóðinni að hranndrepa íbúa heilu borganna með körlum og konum og börnum og jafnvel dýrum - og er sjálfur mjög liðtækur til fjöldamorðanna. Dæmin um þetta eru legíó, sérstaklega í Mósebókunum, og vísa ég lesendum á að lesa þær til að fræðast nánar um ofangreindar yfirlýsingar mínar.
Vissulega má líka finna ýmislegt spaklegt og fagurt í GT, svo sem hinn fræga og gullvæga 23. Davíðssálm ("Drottinn er minn hirðir o.s.frv.") En GT er í heild sinni svo hroðalega ljótt og andstyggilegt að betra hefði verið að sleppa því öllu þegar kristna Biblían var tekin saman.
Eins og ágætur vinur minn orðaði það svo heppilega: "Reyndu að lesa GT án þess að æla!"
Ps. Og úr því við erum að tala um óheppilegt val rita í Biblíu kristinna manna, hvaða nauðsyn rak til að taka með hina ruddalegu og geðsýkislegu Opinberunarbók Jóhannesar? Opinberunarbók þessi er fróðlegt rannsóknarefni áhugamönnum um sinnissjúkdóma, en öllum þorra almennings er hún óskiljanleg steypa.
Athugasemdir
Vertu bara glaður yfir því að þetta er bara skáldsaga... menn þyrftu fyrst að óttast dauðann ef þessi geðveiki guð biði eftir mönnum.
DoctorE (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.