Nýverið hef ég verið að lesa hina gagnmerku bók ´Blekking og þekking´ eftir Niels Dungal lækni, gefin út 1948. Í bók þessari er að finna harðorða árás á kristindóminn fyrir sögulega andstöðu hans við framrás skynsamlegrar og vísindalegrar hugsunar, auk þess sem ýmis trúaratriði kristninnar eru harðlega gagnrýnd. Kemst bókarhöfundur m.a. annars að þeirri niðurstöðu að Jesús Kristur hafi verið maður en ekki guð, og að hann hafi aldrei talið sig vera neitt annað en pólitískan messías að hætti Gyðingatrúar, og hafi boðað og búist við innleiðingu hins stjórnmálalega guðsríkis, þ.e. þess veraldlega konungríkis þar sem Gyðingaþjóðin myndi brjóta af sér alla hlekki erlends valds og drottna yfir öllum öðrum þjóðum jarðar. Tilfærir Niels örvæntingaróp Jesú á krossinum: "Guð minn, guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" sem sönnun þess að Jesús hafi sett alla sína trú á að almættið myndi innfæra hið Gyðinglega, pólitíska guðsríki, en að sú von hafi brugðist og því hafi Jesús hrópað fyrrgreind angistarorð á krossinum þegar fullséð var orðið með lífláti leiðtogans mikla (Jesú) að hið Gyðinglega himnaríki væri ekki í þann veginn að renna upp á jörðu.
Áþekkar kenningar um misræmi Jesú trúarinnar og Jesú sögunnar hafa heyrst um langan aldur í vísindalegum Biblíurannsóknum. Hefur mörgum sýnst sem svo að slíkt grafi undan trúnni og geri Kristindóminn marklausan.
Mín eigin afstaða í deilum þessum er hins vegar sú að í raun skipti litlu sem engu máli hve mikið eða lítið samræmi er milli Krists trúarinnar og Krists sögunnar. Sá Kristur sem öllu máli skiptir er hinn esóteríski, táknræni Kristur launhelganna- þ.e. sá Kristur sem birtist oss eftir að öllum þvættingi hefur verið skafið ofan af Kristindómnum.
Og hver er svo þessi ´esóteríski, táknræni Kristur´? Það er einfalt mál en þó djúpúðugt: hann er vitundarstig það sem kallað er í austrænum heimspekifræðum´Buddhi´ sem heiti hins mikla andlega meistara Buddha er bersýnilega dregið af. Vitundarstig þetta hefur á vestrænum málum verið þýtt ´Kristsvitund´ þar sem Kristur (munum: sem táknmynd, ekki sem söguleg persóna) er helsta symból vort og leiðarstjarna um hvernig ´Buddhi´ virkar og fúnkerar.
Og hvað er svo ´Buddhi´? Það er vitundarstig, sem er ídveljandi í öllum mannverum, en enn sem komið er aðeins realíserað í daglegri breytni af örfáum. En vitundarstig þetta einkennist einkum af þremur guðdómlegum eiginleikum: fullkomnu innsæi, skilyrðislausum kærleika og óskeikulli visku.
Opinberanir þessa ægiháleita og guðlega vitundarstigs, ´Buddhi´ eru engar kreddur í stíl við dogmur trúarbragðanna sem brjóta í bága við heilbrigða rökhugsun, og eru nefndar opinberanir því algerlega hafnar yfir þá gagnrýni sem Niels Dungal og aðrir mætir menn hafa reynt að skjóta Kristindóminn í kaf með frá því vísindaöld hófst fyrir nokkrum árahundruðum. Skynsemin, og fylgifiskar hennar: vísindi og tækni, eru miklar guðs gjafir; og hið undursamlega við opinberanir ´Buddhi´ er að þær ganga aldrei nokkru sinni í berhögg við niðurstöður og ályktunanir skynseminnar. Opinberanir Buddhi fljúga bara hærra en skynsemin getur náð; þær víkka, dýpka og breikka niðurstöður skynseminnar; fara ofan rökhugsunarinnar og handan hennar, án þess að brjóta að nokkru einasta leyti í bága við hana..
Eigindir ´Buddhi': sannkallaður kærleikur, sannkallað innsæi og sannkölluð viska, eru fullkomlega samrýmanleg hinni gagnrýnustu, gertækustu og skarpskyggnustu skynsemisgreiningu á eðli tilverunnar. Þegar Kristindómurinn er skilinn í því ljósi, að hann snúist um Krist sem tákngervingu ´Buddhi´/ Kristsvitundar, fremur en sem guðsson eða frelsara, eða þá sem sögulega fígúru, þá er kominn grundvöllur undir það að vísindi og Kristindómur gangi hönd í hönd inn á sannleikans ljúfu lendur.
En nú kynni einhver að efast um tilvist svo óáhöndfestanlegs fyrirbæris sem Kristsvitundarinnar. Því svara ég á móti með þessum rökum: Hvað eru hin stórfenglegu listaverk snillinganna (málverk, tónverk o.s.frv.) annað en dæmi um afurðir hins undursamlega og ægisviðfeðma innsæis ´Buddhi´? Hvað er hin unaðslegu lífsspeki heimspekinga og trúarbragðahöfunda allra alda annað en tákn þess að viska ´Buddhi´ hafi tekið sér bólfestu í nefndum hugsuðum? Hvað er hin hæga en örugga framsókn mannkynsins áleiðis til mannúðlegri og mildari og miskunnsamari heimsskipan (í stjórnmálum, efnahagsmálum, dómsmálum o.s.frv.) annað en teikn þess að geislar ´Buddhi´ eru teknir að skína geislum sínum æ bjartar inn í myrkviði mannshugans?
En látum þær manneskjur sem enn þverskallast við að viðurkenna vitundarstig æðri þeim sem allur þorri mannkyns er enn fastur í dvelja sælar í sinni vantrú. ´Buddhi´ - Kristsvitundin - mun hafa sitt fram hvort sem menn trúa á það eður ei. Ekkert getur hindrað guðsríki í að birtast á jörðu - ekki í þeim brenglaða og bjálfalega skilningi sem Kristindómurinn hefur í sögunnar rás lagt í komu guðsríkis, þ.e. að heimurinn muni skyndilega farast og Jesú koma í skýjum himins til að dæma mennina, og að þá muni aðeins hinir örfáu trúuðu munu komast af en allur meginpartur mannkyns farast að eilífu. Nei, guðsríkið í hinni sönnu, guðdómlegu merkingu þess orðs mun renna upp þegar meirihluti mannkyns hefur þróast upp á það stig að vitund þess er öll gegnumlýst af dýrðarleiftri Kristsvitundarinnar.
Þetta er hið ´lýðræðislega´, ´grasrótarlega´ guðsríki - sem kemur ekki sem einhver stóri dómur að ofan, heldur sprettur upp úr daglegri lífsreynslu fjöldans og hversdagslegri baráttu hans fyrir bættum kjörum til anda og líkama, og meira víðsýni, meira réttlæti og meiri fegurð í mannlífinu. - Sagt hefur verið, og það með réttu, að þúsund endurkomur Jesú til jarðar, eins og guðfræðin hefur hugsað sér það, muni ekki megna að snúa mannkyninu til betri eða guðlegri vegar svo framarlega sem vitund þess er enn óupplýst af dýrðarljóma ´Buddhi´.
Annars er heimsendatrúin (það sem einn höfundur ágætur engilsaxneskur nefnir réttilega ´crude apocalypticism´) einn höfuðgalli Kristninnar eins og hún hefur boðuð gegnum aldirnar. Sjálft hugtakið ´heimsendir´ er algerlega úr takti við allan gang veraldarinnar, eins og hann birtist skynsamlega þenkjandi fólki. Framfarir í tilverunni verða ekki með þeim hætti að hinu gamla sé tortímt svo hið nýja megi taka þess sess, heldur verða allar framfarir með því móti að hið nýja bætist ofan á það sem gamalt er. Öll framsókn og allar gagnlegar nýjungar byggjast á gömlum og traustum grunni; framförin er óslitinn pýramídi þar sem hið gamla er tekið í þjónustu þess sem nýtt er. En látum þetta nægja um hina heimskulegu veraldarslitatrú sem sett hefur svo leiðinlegan blett á Kristnina.
Lokaorð: Af ofansögðu má ráða að ég hafna í raun bæði Kristi sögunnar (hver svo sem hann var!) og Kristi trúarinnar (þ.e. kenningunni um að manneskjan hljóti eilíft líf fyrir að trúa á friðþægingardauða Jesú, en glatist ella - sem er á allan hátt fráleit og forkastanleg kenning). Þess í stað boða ég nýjan og margfalt háleitari Krist, hinn eilífa Krist mannshjartans: hvötina sem í öllu heilbrigðu fólki býr til að þroskast, fegrast og fullkomnast, til samræmis við hina algóðu og alskyggnu Kristsvitund í brjóstinu.
Megi Guð blessa viðleitni mannsins til að beita skynseminni hvar sem henni verður við komið! Megi Guð blessa vísindi og tækni! Megi Guð veita innsæi, visku, kærleika og einingarkennd Kristsvitundar / Buddhi inn í huga og hjarta allra mannvera! Amen!
Athugasemdir
En guðir eru ekki til, jesú/guðir eru bara tálsýn, vísindin/menntun munu endanlega ganga frá þessari tálsýn, þess vegna ráðast trúarbrögð á vísindi.
Face it.
DoctorE (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 13:40
Augljóst er af orðum þínum að þú hefur ekki lesið pistilinn. Í honum er hvergi vikið að því að guðir séu til eða að Jesús sé guð. Því er einungis haldið fram að til sé æðra vitundarstig, sem gnæfir yfir skynsemina án þess þó að ganga á nokkurn hátt í berhögg við hana; þetta vitundarstig nefna indverskir heimspekingar ´Buddhi´.
Ég fer ekki fram á það við nokkurn mann að hann trúi því að nefnt æðra vitundarstig sé til. Eins og ég sagði í pistlinum þá mun ´Buddhi´ hafa sinn gang og smám saman upplýsa vitund mannkynsins í heild og færa í átt til síaukins innsæis, visku og kærleika, hvað sem líður allri afneitun óuppljómaðra manna á því að vitundarstig þetta sé til.
Swami Karunananda, 16.4.2008 kl. 13:49
Sæll Kári, láttu ekki svona fávitalegar athugasemdir skipta máli. Það er merkilegt hvað E læknir virðist vita mikið um lífið, hann veit að Guð er ekki til. Mikið væri gaman að vita svona mikið og geta þ.a.l. verið ótrúlega hamingjusamur, líkt og hann er væntanlega, enda læknir eða með doktorspróf. En þetta er áhugaverður pistill og guðfræðideild háskólans hlyti sómi af að fá mann eins og þig aftur í deildina, ég vildi annars bara láta vita að ég rakst á foreldra þína á göngu hér í vesturbænum og þau bentu mér á þetta blogg, og svo vildi ég auðvitað þakka þér fyrir síðast:)
Bestu kveðjur, Guðmundur (skírnarvottur)
p.s. synd að þú skulir ekki vera að fara í grískupróf núna:)
Guðmundur Björn (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 00:43
Kæri Guðmundur, þökk fyrir síðast. Gangi þér sem allra best í grískuprófinu sem og öðrum prófum sem þú kannt að taka nú í vor.
Og, já - hver veit nema ég dembi mér bara í guðfræðina nú í haust.
Swami Karunananda, 25.4.2008 kl. 17:43
Þetta eru áhugaverðar pælingar um Jesú. Persónulega á ég erfitt með að sjá hann fyrir mér sem annað en mann. Ég á reyndar líka erfitt með að sjá fyrir mér að guð sé til. Þannig að af sjálfu leiðir fyrir mér að hann getur ekki hafa átt son. Auðvitað er þetta svosem ekki djúp pæling, en ég held að fólk fari einmitt allt of langa leið að þessu. Það taki alskyns furðulega tilfinningalega hluti inni og komist að einhverri algerlega órökrétti niðurstöðu.
Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að guð hafi ekki skapað heiminn á sex dögum og Nói hafi ekki farið í siglingu með alla dýraflóru jarðar, sem ég held að flestir menn séu sammála um og auðvitað gæti ég haldið áfram að telja en þú þekir þetta allt. þá verðum við að komast að þeirri niðurstöðu að guð sé ekki til og að gamla testamentið sé bara þjóðsagnasafn gyðinga yfir eitthvert tímabil, hvorki meira eða minna en það. Og ef við höfum komist að þessarri niðurstöðu verðum við að fara draga sögunna um Jehsúa frá Nasateth í efa og ef við gerum það er spilaborgin falinn.
Ég er ekki með þessu að segja að fólk hafi ekki þörf fyrir einhverskonar trúarkerfi eða huggun. Þvert á móti! það er þessi þörf sem knýr fólk áfram til að finna ævinlega upp nýjar réttlætingar fyrir guð og hann fólk í öllum Abrahamstrúarbrögðunum. Réttlætingarnar verða svo að normum og einnig verður normal að finna upp nýjar réttlætingar þegar einhver efast.
Ég gæti spurt; hversvegna miðað við öll þau kraftaverk sem guð á að hafa unnið í gegnum presta og maríulíkneski hefur hann aldrei látið útlim vaxa aftur á á einhvern sem hefur misst hann t.d. vegna jarðsprengju? Ég hef nú ekki ímyndunarafl til að svara þessu sjálfur en hér er vandinn.
Síðan í framhaldinu eru réttlætingarnar dulbúnar og notaðar til að stjórna lýðnum eða réttlæta alskyns svívirðu. Til dæmis þegar risa flóðaldan skall á Indónesíu létu trúbræður Indónesa minna fé af hendi rakna til hjálparstarfsins en BNA, og af hverju? jú réttlætingin var að þetta væri refsing Allah. Því Indónesar væru orðnir of vestrænir, ekki nógu góðir múslímar. Reyndar er líka ömurlegt að vita til þess að í Ameríku er líka fólk sem trúir því að flóðið hafi verið refsing Guðs (þetta er víst sami kallinn, guð og alli) geng múslímunum m.a. vegna 11 september 2001
Hinsvegar ef ég skil þig rétt, get ég tekið undir að Kristur passar boðskapur hans eiginlega ekki inní biblíuna. Hann ætti að fá að standa einn og sér. þá er ég að tala um þennan biblíulega krist, að mínu mati vegna þess að það var austrænn þráður í hans heimspeki. Hann kom með boðskap sem var í raun stórhættulegar í augum yfirstéttarinnar á þessum tíma. Fyrir honum voru allir jafnir, áttu að hafa jafna möguleika á réttlæti og til sambands við guð. Fyrirgefningin var svosum ekki uppfinning Krists, en hún hafði ekki komið fram með þessum hætti á þessu svæði.
Hvað sem hann hefur verið, ef hann þá hefur verið, þá var hann öðruvísi. Einsog þú bendir á var hann baráttumaður, hann kemur fyrir sem mannvinur og jafnaðarsinni, í sér andsnúnum og erfiðum aðstæðum. Og fyrir það er sagan merkileg og spennandi. Þetta eru jú mannkostir sem ég vildi óska að gæddu alla. Þetta er því heimspeki sem menn ættu að leiða hugan að en þetta er jú bara heimspeki þó góð sé.
Kári, það verður gaman að fylgjast með síðunni þinni ef þú ferð í guðfræðina, gangi þér vel.
Góðar stundir
Sævar
Sævar Finnbogason, 28.4.2008 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.