Hver er vilji Guðs fyrir þig?

Svarið við spurningu þeirri sem birtist í titlinum veltur á svarinu við annarri spurningu: "Hvert er hið fegursta, sannasta og besta sem þú getur gert þér í hugarlund þegar taka skal hverja einustu ákvörðun um hvernig skal breyta dags daglega?" Svarið við þessari einföldu spurningu opinberar það hver er vilji Guðs fyrir þitt líf.

Eins og með svo mörg önnur andleg og guðdómleg sannindi þá þarf fólk alls ekki að trúa á andann eða Guð til að samsinna því sem hér að ofan er sagt. Þetta stafar af því að tilfinningin fyrir hinu fagra, sanna og góða er innbyggð í svo til allt fólk (nema nokkur öfga-frávik), sama hvaða skoðun það kann að hafa á eilífðarmálunum.

En þótt vegur Guðs, svo sem honum er að ofan er lýst, sé skýr og einfaldur og skilningur á honum svo til öllu fólk meðfæddur, þá er annað mál að framfylgja honum í verki. Hér er freistandi að tiltaka tvö spakmæli úr Biblíunni: fyrst hin velþekktu orð Krists: "andinn er að sönnu reiðubúinn en holdið er veikt"; og síðan ummæli Páls postula, sem skilgreina betur en margt annað hinn gátufulla breyskleika mannskepnunnar: "hið góða, sem ég vil, það gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég" (tilvitnunin er ekki orðrétt, þar sem ég man ekki hvar hún stendur í Biblíunni og get þar af leiðandi ekki flett henni upp, en merkingunni er vel til skila komið).

En við skulum ekki hugfallast þótt vegur hins fagra, sanna og góða sé oft á tíðum þyrnóttur og mjór. Við skulum bara gera okkar besta, og örlítið meira en það - meira er ekki hægt að krefjast af okkur, og Guð, sem er óendanlega þolinmóður, gerir það svo sannarlega ekki.

Ps. Það er annars umhugsunarefni hvort nokkuð þurfi að hvetja fólk til að gera sitt besta. Eða getur það ekki verið tilfellið að þegar allt er vegið og metið þá sé allt fólk ævinlega að gera sitt besta, miðað við það þróunarstig sem það stendur á? Er það ekki bara þroskastigið sem skilur manneskurnar að, en ekki viðleitnin? Hugsið málið . . .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband