6.4.2008 | 17:30
Ég var skírður í dag!
Við hátíðlega athöfn í neskirkju í morgun var ég vatni ausinn og skírður til kristinnar trúar.
Að láta skírast var engin skyndiákvörðun, heldur lokastig langrar gerjunar. Lengst af ævi minni var ég algjörlega trúlaus, sem birtist m.a. í því að ég fermdist ekki á sínum tíma, þar sem ég vildi ekki vera að ljúga og hræsnast og látalátast bara til að láta undan hópþrýstingi eða fá nokkrar skitnar gjafir.
En geðræn veikindi mín, sem hófust í aprílmánuði árið 2002, hafa gjörbreytt viðhorfi mínu til lífsins, tilverunnar - og trúarinnar. Nú get ég sagt að ég hafi áttað mig með mikilli þjáningu á inntaki spakmæla þeirra sem höfð eru eftir Gandhi: "We are helpless without God".
Allir miklir andlegir meistarar, hvort sem þeir eru úr austri eða vestri, mæla með því að hver manneskja haldi sig við þau trúarbrögð sem hún er alin upp við og sem eru ráðandi á hennar menningarsvæði. Því eins og engin tunga jafnast á við móðurmálið, þannig jafnast engin trúarbrögð á við þau sem öll menningararfleifð okkar og þjóðfélag eru gagnsýrð af. Því tók ég þá ákvörðun að láta vígjast til kristinnar trúar og gera Krist að leiðtoga og leiðarstjörnu lífs míns.
Táknmál skírnarinnar er, eins og öll önnur sakramenti kirkjunnar, margslungið og flókið og útpælt. En í sem stystu máli má segja að skírnin (að minnsta kosti í tilfelli fullorðinsskírnar eins og hjá mér) gangi út á að táknrænlega ´þvo af sér´ sinn gamla mann og ´hreinsast´ til nýs lífs þar sem bæði hugur og hjarta eru helguð þjónustunni við Guð og náungann.
Þrátt fyrir allan minn mikla lestur andlegra bókmennta um nokkurra ára skeið þá álít ég sjálfan mig algjört barn í Kristi. En að viðurkenna að maður er barn er fyrsta og mikilvægasta skrefið í þá átt að verða fullorðinn. Ég lít með spenningi á þau æviár sem ég á eftir á þessari jörðu, með meistarann frá Nazaret mér við hlið . . .
Athugasemdir
Komdu sæll og ég óska þér innilega til hamingju með skírnina. Að ganga með Kristi sér við hlið er spennandi og heillarík ganga. Þekki hana vel af eigin raun. Gangi þér vel lífsferðalagið. Með beztu kveðju.
Bumba, 6.4.2008 kl. 17:36
Kærar þakkir fyrir hlýleg og falleg orð. Megi Guð blessa allt það fólk sem þessar línur les.
Swami Karunananda, 6.4.2008 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.