En hvað þá um hið illa?

Líkt og ég rakti ítarlega í síðustu bloggfærslu minni þá er, andstætt því sem margir vilja meina, myrkurhlið tilverunnar ekki vitund ´verri´ ljóshliðinni; hvorttveggja myrkur og ljós er jafn guðlegt og nauðsynlegt; jafn órofa hlekkir í rás heimsins. 

En hvað verður þá um hið illa, úr því hið illa er ekki myrkur? Í sem stystu máli má segja að hið illa sé ósköp einfaldlega það að hegða sér eða hugsa eða tala á þann hátt sem maður er vaxinn upp úr; á þann máta sem liggur neðan því þroskastigi sem maður hefur náð uppá. Þannig er t.d. ´gott´ fyrir tígrisdýrið að drepa sér til matar, en ´illt´ fyrir hina þroskuðu mannveru, því hin síðarnefnda á að vera vaxin upp úr því að deyða aðrar lífverur.

Og ennfremur: það sem er ´illt´ fyrir eina veru getur verið ´gott´ fyrir aðra, allt eftir því á hvaða þroskastigi nefndar verur eru. Þannig getur til að mynda verið ´gott´ fyrir eina veru að fremja athöfn sem liggur á eða ofar þroskastigi hennar, en ´illt´ fyrir aðra veru að fremja nákvæmlega sömu athöfnina, ef sú vera er komin upp á það þroskastig að nefndur verknaður liggur fyrir neðan þróunarstig hennar.

Tökum dæmi um ofangreint: nú hefur einhver manneskja tamið sér að hreyta ónotum í annað fólk tvisvar sinnum á dag, en sér að hluta til að sér og tekur til við að hreyta fúkyrðum í aðrar manneskjur bara einu sinni á dag. Í þessu tilfelli er um framför að ræða, og því er þetta ´góð´ ákvörðun. En nú er önnur manneskja sem hefur tamið sér að vera aldrei ókurteis í tali við annað fólk, en hverfur einhverra hluta vegna frá þeirri tilhögun og tekur að úthúða öðru fólki einu sinni á dag. Í þessu tilviki er um afturför að ræða, og því er þetta ´ill´ ákvörðun. Við sjáum því að ein og sama athöfnin (í þessu samhengi sú að atyrða annað fólk einu sinni á dag) getur verið ýmist góð eða ill, allt eftir því hvort hún er iðkuð af manneskjum sem standa henni á lægra eða hærra siðferðisplani.

Við getum því að ofansögðu skilgreint hið illa sem það að fara afturábak í þróuninni. Og þar sem verur alheimsins eru staddar á óendanlega mismunandi tröppum í þróunarstiganum, þá er ljóst að hið illa er fullkomlega einstaklingsbundið; hið illa er jafn margbreytilegt eins og verur alheimsins eru margar.

En nú er von að glöggir lesendur spyrji: ´fyrst svo er sem að ofan er lýst, er hið illa þá ekki algjörlega afstætt?´Og svarið er: ´það er bæði afstætt og algjört! Afstætt þar sem hið illa varíerast eftir þroskastigi hinnar einstöku veru; algjört vegna þess að hið illa er absólútt og tilhliðrunarlaust fyrir hvert tiltekið þroskaskeið. Dæmi: þótt til séu manneskjur sem eru staddar á svo lágu þroskastigi að það er ekki rangt fyrir þær að ljúga, þá eru engar málamiðlanir eða undanþágur í því að það er rangt fyrir mig að ljúga ef ég er vaxinn upp úr því að segja ósatt.´

Svo simpelt er nú það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband