Bæði gleði og sorg, ljós og myrkur . . .

"Ei vitkast sá er verður aldrei hryggur / hvert viskubarn á sorgarbrjóstum liggur" kvað eitthvert stórskáldið íslenskt hvers nafn ég man því miður ekki í svipinn. Og eru þetta orð að sönnu: sú manneskja sem aldrei upplifir sorg og trega kemst ekki hjá því að verða grunnhyggin, einhliða og sálarþunn.

En hið andstæða er einnig tilfellið. Líkt og lífið er ekkert líf ef engin er sorgin, þá er tilveran engin tilvera ef engin er gleðin. Tregi og harmur annars vegar og gleði og hamingja hins vegar eru, líkt og allar aðrar grunnandstæður lífsins, fullkomlega jafnir og komplimenterir mótpólar. Hvorttveggja er nauðsynlegt og gott á sínum tíma og á sínu sviði. Okkur er jafn óeðlilegt að vera alltaf harmþrungin eins og okkur er ónáttúrlegt að vera ætíð kát!

Til er í flestum megintrúarbrögðum jarðar sterk tilhneiging til að telja aðeins helming tilverunnar komna frá guði, en hinn helminginn ekki eiga sér guðlegan uppruna, eða vera jafnvel kominn frá illum öflum andstæðum guðdóminum. Þannig er t.d. ljósið talið guðlegt en myrkrið óguðlegt, sumarið guðlegt en veturinn óguðlegur, dagurinn guðlegur en nóttin óguðleg, gleðin guðleg en harmurinn óguðlegur o.s.frv. o.s.frv.

Í kínverskri heimspeki er allt öðru vísu á málum haldið, og á miklu raunsærri og heildrænni hátt. En ein meginkenning klassískrar heimspeki kínverskrar er sem kunnugt er þeorían um Yin og Yang. En Yin og Yang eru nokkurs konar kosmískir foreldrar og fyrirmyndir allra annarra meginandstæðna tilverunnar. Yin er hinn kvenlegi höfuðpartur tilverunnar: skuggi, jörð, myrkur, nótt, kuldi, draumar, vetur, óvirkni, mýkt, innblástur, viska, dulúð, margræðni, tregi (í merkingunni sorg eða depurð), móttækileiki, innhverfa, óræðni, innsæi, hjarta, tilfinning, listir / trúarbrögð, kringumsækni, sýnþesa, eining (sbr. að aðskilnaður hlutanna hverfur í myrkri), symbólismi, ósk / hugmyndaflug / ídealismi, hið óskilgreinanlega, hið ófyrirsjáanlega, hið hringlaga, hið abstrakta, hið súbjektíva, hið umlykjandi, hið verndandi, hið spontana / lausmótaða, hið niðursækna (sbr. að sólin fer niður þegar náttar) - ásamt öðrum þáttum. Yang er hinn karllegi höfuðpartur: sól, himinn, ljós, dagur, hiti, vaka, sumar, virkni, styrkur, athöfn, greind, lógík, einræðni, glaðværð, framleiðni, úthverfa, bókstafleiki, rökhugsun, heili, hugur, vísindi / tækni, beinsækni, analýsa, margbreytileiki (sbr. að aðskilnaður hlutanna birtist í ljósi), konkretismi, raunsæi / veruleiki / realismi, hið skilgreinanlega, hið fyrirsjáanlega, hið línulaga, hið hlutbundna, hið objektíva, hið gegnumstingandi, hið sigrandi, hið skipulagða / fastmótaða, hið uppsækna (sbr. að sólin kemur upp þegar dagar) - auk annarra konnótasjóna.

En nú kemur þátturinn sem öllu máli skiptir: kínversk heimspeki kveður svo á um að hvorug meginandstæðan, Yin eða Yang, er á nokkurn hátt æðri hinni. Yin og Yang eru andstæðir, en þó fullkomlega jafnir og komplimenterir pólar. Þetta jafnræði má aukinheldur ráða af þvi að Yin og Yang eru aldrei til í hreinræktaðri mynd: það er ávallt meira eða minna Yang í Yin og öfugt.

Þessi jafnvægissýn kínverskrar fílósófíu er í hreinni andstöðu við þá trúarstrauma sem að ofan eru raktir, sem vilja meina að einungis annað andstæðuparið (Yang) og allt sem því tilheyrir sé gott, en hitt (Yin) illt. Þessi óbeit á kvenpóli tilverunnar birtist meðal annars í þeirri svæsnu kvenfyrirlitningu sem sett hefur svo ljótan blett á sögu kristninnar sérstaklega: guð er áltinn karlkyns (Yang) en hið vonda kvenkyns (Yin). Eða er ekki ljósið (Yang, hið karllega) guðlegt en myrkrið (Yin, hið kvenlega) djöfullegt, að áliti fjölmargra guðfræðinga kristninnar og annarra trúarbragða í sögunnar rás? (Reyndar á þessi tvíhyggja, þar sem aðeins annar af tveim fúndamentölu faktorum tilverunnar er álitinn góður en hinn vondur, ættir að rekja til forn-persneskra trúarbragða sem kennd eru við Zóróaster.)

Vitleysan í ofangreindri ´ljósdýrkun´ (en Yang samsvarar ljósþætti tilverunnar, eins og að ofan er lýst) sést einna best á því að ein efnislegra myndbirtinga Yin og Yang eru andardráttur mannsins og fleiri dýra: Yin samsvarar þannig innöndun en Yang útöndun. Bersýnilegt er að allar skoðanir í þá ætt að annaðhvort þessara sé æðra og guðlegra en hitt eru fullkomlega út í hött: innöndun og útöndun eru jafningjar í einu og öllu, og hvorttveggja eru þau jafn rétt og viðeigandi á sínum tíma.

Slagsíðan ljósinu og hinu karllega (Yang) í hag, sem finna má líkt og að ofan er rakið í sögu margra trúarstrauma, sérstaklega í kristni, má einnig finna í indverskri heimspeki, þar sem tilveran er talin skipt í tvo meginþætti, Sattva og Tamas, sem samsvara respektíft Yin og Yang; ljósi og myrkri, degi og nótt o.s.frv. - og er, að mati indversku spekinnar, Sattva æðra og guðdómlegra en Tamas.

En þessi slagsíða indverskrar fílósófíu er lánsamlega ekki einhlít: í indverskum heimspekifræðum er einnig að finna kenningu um ´andardrátt guðs´ og þar kveður við annan tón en í hinum hlutddrægu og bíösuðu fræðum um Sattva og Tamas. Þannig er talað um að alheimurinn og allt sem í honum er sé undirorpið ´innöndun og útöndun guðs´. Og er hvorki innöndunin né útöndunin yfir hina hafin, engu frekar en tilfellið er með inn- og útöndun lífveranna. Og er þessi jafnvægis- og heildarsýn makleg og réttvís: skynsamlegast og viturlegast er að líta svo á að hvorki ljós né myrkur, hvorki sumar né né vetur, hvorki innöndun né útöndun, hvorki gleði né tregi, hvorki karlpóll tilverunnar né kvenpóll hennar; í stuttu máli: hvorki Yin né Yang er guðlegra eða æðra hinu. Allir eru þessir andstæðu pólar jafnir í einu og öllu; allir jafn guðlegir, allir jafn órofa og nauðsynlegir hlutar tilverunnar - fullkomlega samstyðjandi hver við annan.

Og ennfremur:  Yin og Yang, ´útöndun og innöndun guðs´, eru einmitt það - andardráttur guðs, en ekki guð sjálfur. Rétt eins og við mennirnir erum annað og miklu meira en andardráttur okkar, þannig er guð annað og miklu meira en andardráttur sinn. Að segja, eins og sterk hefð er fyrir innan margvíslegra trúartradisjóna, að guð sé ljós eða gleði eða einhver annar þáttur sem tilheyrir aðeins öðrum andstæðupóli tilverunnar (í þessu tilviki Yang) er líkt og að halda því fram að guð sé helmingur alheimsins sem hann skapaði. Nei, það er ekki svo! Guð er bæði ljós og myrkur, bæði dagur og nótt, bæði sumar og vetur, bæði gleði og tregi, bæði karlkyns og kvenkyns - allt þetta er guð, en þó er hann annað og ótalmiklu meira en þetta. Því um öll andstæðupör gildir að guð er hvorttveggja en þó hvorugt; felur í sér báðar andstæðurnar en er þó miklu meira en þær eða summa þeirra - rétt eins og við mennirnir höfum bæði vinstri og hægri fót, en erum þó miklu meira en fæturnir. Og vitanlega er hvorugur fóturinn merkilegri eða ´æðri´ hinum, né heldur getur annar fóturinn staðið án hins!

(Í lokin skal mótbárum svarað þess efnis að engin sönnun sé fyrir því að Yin og Yang séu til. Þær manneskjur sem á þennan veginn þenkja eru beðnar að ígrunda ýmir efnisleg teikn um grunnskiptingu allra hluta alheimsins í Yin og Yang. Eða hvað eru t.d. skiptingin í sumar og vetur, eða skiptingin í karlkyn og kvenkyn innan dýrategundanna, eða skiptingin í vinstra og hægra heilahvel, eða skiptingin í dag og nótt innan sólarhringsins, og sitthvað fleira mætti til taka - hvað er allt þetta annað en ytri, fýsískar myndbirtingar grunnskiptingarinnar miklu og kosmísku í Yin og Yang?)

Þá læt ég þessum vaðli lokið um sinn. Mörgu og miklu mætti bæta við ofantalið, þar sem viðfangsefnið Yin og Yang verður seint fullrætt. Til dæmis hef ég undanfarið verið að hugleiða hinar stórmerkilegu kosmísku (Yin - og Yanglegu) implikasjónir klassískrar tónlistar indverskrar. Grunnmissjón indverskar sígildrar músíkur er, eftir því sem ég kemst næst, að tjá skiptingu tilverunnar í ljós og myrkur, karlpól og kvenpól o.s.frv. eins og téð deiling birtist á hinum ýmsu ólíku en þó hliðstæðu plönum tilverunnar. Þannig útþrykkja t.d. rögur, sem kenndar eru við dag, Yang-hliðina á allskyns mismunandi fyrirbærum alheimsins: hinn metafóríska ´dag´ mannsævinnar, eða ´dag´ sálarhringrásarinnar (þ.e. ungsálaraldurinn), eða ´dag´ alheimssögunnar, eða ´dag´ árstíðaskiptanna (þ.e. sumar) eða ´dag´ tilfinningalífsins (þ.e. gleði og bjartsýni) eða ´dag´ hugarlífsins (þ.e. ljósleika og lógík sem móthverfur dulúðar og innsæis) o.s.frv. o.s.frv. - og andstæða en hliðstæða sögu mætti segja af rögum sem kenndar eru við nótt; þær tjá Yin-hliðina á öllum ofangreindum sviðum tilverunnar (og aukinheldur enn fleiri sviðum en nefnd eru hér að ofan).

Og jafnvel þetta sem hér hefur verið reifað segir ekki alla söguna, því vitanlega eru til allskyns blæbrigði og núönsur við allt ofanrakið, rétt eins og sólarhringurinn skiptist ekki aðeins í dag og nótt heldur einnig ýmis millistig: sólarupprás, hádegi, eftirmiðdegi, kvöld, snemmnótt, miðnætti, óttu o.s.frv.

Og lúkum vér þar vaðli miklum! (ég tek svo til orða því ég var að enda við að lesa Njálu, sem endar á svipuðum orðum). Góðar stundur, lesendur kærir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband