19.3.2008 | 21:12
Hvað er eiginlega raga?
Margur músíkskríbentinn hefur farið flatt á því að reyna að skilgreina tónfræðilega hvað indverska ragan er eiginlega. Þó er í raun enginn vandi að skilja hvað ragan er. Því það er eins með þetta og svo ótalmargt annað í tilverunni að maður finnur það á sér án þess að geta fært það með góðu móti í orð.
Það er miklu auðsóttara að skilgreina röguna út frá heildarsjónarmiðum fremur en vísindalegri smættunaranalýsu. Einfaldasta skilgreiningin á rögunni er sú að hún er tónlistarlegur ´persónuleiki´. Þannig hefur hver raga sína sérstöku tilfinningu og stemmningu: sumar rögur eru rómantískar, aðrar devósjónelar, enn aðrar dapurlegar og sorgmæddar, enn enn aðrar fjörlegar og kátar o.s.frv. Indverjar segja að ekki sé til sú kennd sem bærast kann í mannlegu brjósti sem ekki er hægt að tjá í formi hinnar eða þessarar rögu - og sá sem hér heldur á penna (eða öllu heldur stimplar á lyklaborð) hefur af áralöngum kynnum sínum af indverskri músík enga ástæðu til að efast um þá staðhæfingu.
Annað mikilvægt atriði er að hverri rögu er ætlað að vera flutt á tilteknum tíma sólarhringsins. Mestu og hörðustu púristarnir meðal indverskrar tónlistaraðdáenda líta á það athæfi að hlusta á rögu utan síns ætlaða tíma sólarhringsins vera álíka mikið stílbrot og að hlýða á jólatónlist á páskunum. Sá sem þessar línur ritar verður hins vegar að játa að hann hefur aldrei getað farið fyllilega eftir hinum ströngu fyrirmælum um hina tilteknu sólarhringstímaákvörðun raganna; sérstaklega á þetta við um rögur sem hlýða skal á að næturlagi - af skiljanlegum ástæðum, þar sem höfundur þessara lína er líkt og flest annað fólk steinsofandi á þessum tíma sólarhringsins!
Sagt hefur verið um indverska tónlist að hún sé undursamleg blanda af gríðarlegum aga og gríðarlegu frelsi. Hið fyrrnefnda, aginn, helgast af hinu fastmótaða rögu-kerfi, því flytjandinn má ekki víkja út frá tilfinningu og stemmningu rögunnar sem hann er að spila í það og það skiptið. Hið síðarnefnda, frelsið, helgast af því að flytjandanum er allt annað frjálst ef hann á annað borð heldur sig við ´múdið´ í rögunni: honum er leyfilegt að spinna í kringum grunnkennd rögunnar algerlega að vild; hann getur haft röguna eins langa eða eins stutta og honum þóknast, leikið sér fram og aftur með mismunandi tónbrigði og nótnasamsetningar o.s.frv.
Af spunaeðli rögukerfisins má ráða að möguleikar hverrrar tiltekinnar rögu eru aldrei nokkurn tíma tæmdir. Sami flytjandinn getur leikið sömu röguna hundrað sinnum án þess að endurtaka sig nokkurn tíma í höfuðlatriðum.
(Taka skal þó fram að það sem sagt hefur verið hér að ofan ýmsa þætti rögunnar á aðeins við um norður-indverska tónlist. En fyrir þá sem ekki vita skiptist indversk klassík í tvo meginstrauma, sem kallast Hindustani í norðri en Karnataka í suðri. Munurinn á sýstemunum tveimur er í sem stystu mál i sá að Hindustani-kerfið hefur orðið fyrir gríðarlegum áhrifum frá islamskri tónlist (aðallega persneskri) - sem er ekkert undarlegt í ljósi þess að Norður-Indland var undir stjórn hinna múslímsku mógúla í margar aldir. Karnataka-kerfið representerar aftur á móti músík eins og talið er að hún hafi hljómað um allt Indland áður en mógúlarnir lögðu undir sig norðrið. Bæði kerfin eiga rögu-kerfið sameiginlegt, en munurinn er sá að alflestar norður-indverskar rögur eru aðeins þekktar í norðri, og flestar suður-indverskar einungis í suðri. Annars skera sig kerfin tvö frá hvert öðru aðallega í því að Hindustani-kerfið er til muna flóknara, margslungnara, rólyndislegra og tempraðra, en Karnataka-kerfið er umtalsvert beinskeyttara, kraftmeira, ástríðufyllra og eldlegra. - Sem dæmi um það hve einfaldara suður-indverska kerfið er má nefna að í því er ekki að finna þá eigind norður-kerfsins að hverri rögu sé ætlaður og afmarkaður sérstakur tími sólarhringsins.)
Þá er þessari stuttu og óhjákvæmilega hundavaðslegu kynningu á megin-eiginleikum indverskrar sígildildrar tónlistar lokið. Mörgu og miklu mætti bæta við ofangreindar athugasemdir, þar sem indversk tónlist er undursamlega flókin og margslungin, jafnt vitsmunalega sem tilfinningalega. Ef til vill á ég eftir að skrifa meira um þetta efni á bloggsíðum þessum. En í þetta skiptið vil ég ljúka hugleiðingum mínum á orðum sem standa í ágætri alfræðiorðabók engilsaxneskri um hinar aðskiljanlegustu tónlistarhefðir og -stíla heimsins, en þar segir í inngangsorðum að umfjöllun um indverska klassík: "a very complex and extremely impressive art-form". Heyr, heyr!
Athugasemdir
Góður pistill. Því má bæta við að til er músíkstíll sem kallast ragga. Þar er um að ræða reggí-músík með indversku ívafi.
Jens Guð, 19.3.2008 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.