Hvers vegna geðklofi?

Eins og fram hefur komið áður á boggsíðum þessum þá álít ég geðklofa í höfuðatriðum stafa af innstreymi andlegra afla, sem heilinn og taugakerfið ráða ekki við.

Bent hefur verið á að upplifun geðklofanna sé eðliskeimlík reynslu jóganna indversku og annarra mystíkera. Eini munurinn er sá (og það er reyndar ansi mikill munur!) að jóginn pússar og fægir drulluna af rúðu andans hægt, vandlega og kerfisbundið - en geðklofinn tekur sér múrstein í hönd og mölbrýtur rúðuna!

En þessu næst væri athyglisvert að velta því fyrir sér hvers konar skapgerðir hneigjast helst til að hreppa þennan illvíga sjúkdóm, geðklofann. Rannsóknir hafa leitt í ljós að geðklofar eru upp til hópa yfir-meðallagi greindar, listrænar og jafnvel dreymnar sálir - og tilfinningaviðkvæmar. Það er ef til vill þessi viðkvæmni sem á stóran þátt í því að við hin geðklofasjúku dettum ofan í dýki þessa skæða krankleika; við erum svo berskjölduð og varnarlaus.

En ´fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott´ segir viturlegt málstæki, og geðklofinn er þar ekki undantekning. Eitt hið besta við skitsófreníuna er það að hún kennir þeim sem þjást af henni virkilega að meta og þrá hið eina sem getur orðið þeim til varanlegrar bjargar: hið skipulagða, jarðbundna, rólega, afslappaða og tíðindalitla líf sem velflest geðheilt fólk lifir. Eins og sagt hefur verið svo réttilega: ´bestu fréttirnar eru engar fréttir!´

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Andleg öfl segir þú, sorry það er ekkert sem bendir til þess að andleg öfl séu til
It's all in the mind/brain

DoctorE (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 16:10

2 Smámynd: Swami Karunananda

Sú skoðun að andleg fyrirbæri séu ekkert nema aukageta efnisferla í heilanum er helber trúarskoðun; vísindin hafa ekkert sannað í þessum efnum hvorki til né frá, og munu sennilega seint geta.

Ef til vill myndi einhver vilja verja efnishyggjuna út frá hinum fræga rakhnífi Okkhams: að ekki skuli gera ráð fyrir fleiri þáttum en nauðsynlegt er til að útskýra fyrirbærið. En þessi téði rakhnífur styður í raun miklu fremur hughyggju en efnishyggju, þar sem ekki er hægt að benda á nokkurt dæmi þess í reynslu okkar að efni geti verið til án vitundar (því við komumst eðlilega aldrei út fyrir okkar eigin vitund); tilvist efnisins sem sjálfstæðs fyrirbæris án nokkurra tengsla við vitund af einhverju tagi er því óþörf, yfirflæðisleg, ósannanleg og ekki í samræmi við neitt það sem reynsla okkar getur umfaðmað eða sýnt fram á. Einhyggjan, sem rakhnífur Okkhams hvetur eðlilega til að fólk aðhyllist (þar sem ekki skal gert ráð fyrir tvennu eða þaðan af fleiru þar sem hægt er að komast af með eitt), er öll á bandi hughyggjunnar: við höfum enga reynslu af efni án vitundar (því vitundin kemst, sem fyrr segir, ekki út fyrir sjálfa sig), og því er skynsamlegast að gera ráð fyrir því að efnið sé aukageta vitundarinnar, en ekki öfugt. Annar háttur til að orða þessa sömu hugsun: ef við á annað borð aðhyllumst einhyggju, sem allt heimspekilega þenkjandi fólk gerir, þá hlýtur sú einhyggja að vera hughyggja en ekki efnishyggja.

(Annars geri ég mér engar grillur um að heimspekilegar hártoganir af því tagi, sem ég hef reifað hér að ofan mér og vonandi öðrum til skemmtunar, geti leyst gátuna um hvort æðri vitundarsvið séu til eða ekki. Þar verður að koma til persónuleg og milliliðalaus reynsla hverrar einstakrar mannveru. Og mín persónulega og milliliðalausa reynsla bendir ótvírætt og ófrávíkjanlega til þess að ´ljósið að ofan´ eins og mystíkerarnir kalla það, sé grjóthörð staðreynd sem ekki er hægt að efast um fremur en að maður hafi fingur og tær.)

Góðar stundir.

Swami Karunananda, 14.3.2008 kl. 16:56

3 Smámynd: Swami Karunananda

Frekara fílósófíuþvaður um tengsl ´andlegra upplifana´ og heilastarfsemi:

Sumir kynnu að segja sem svo: "ég efast ekki um tilvist ´andlegra upplifana´ sem slíkra, heldur aðeins að þær eigi uppruna sinn utan heilans."

Og ég segi á móti: með sömu rökum mætti efast um að allar skynjanir mannsins, sem til hans berast eftir leiðum skilningarvitanna fimm, eigi upptök sín utan heilans. Eða hver er eiginlega eðlismunurinn á hversdagslegri skynjun og svokallaðri ´andlegri skynjun´? Er munurinn ekki einvörðungu sá að sú fyrrnefnda er almennt viðurkennd þar sem hún er á færi allra manna að nema, en sú síðari er enn sem komið er séreign örfárra óvenjulegra manna, og óaðgengileg fjöldanum?

Nei, við sama borð skulu allar skynjanir sitja - hvort sem þær teljast hversdagslegar eða ´andlegar´! Ef önnur skynjunartegundin er framleidd af heilastarfseminni eru engin rök fyrir því að svo sé ekki einnig farið um hina tegundina. Og öfugt: ef önnur skynjunartegundin á upptök sín utan heilastarfseminnar eru engin rök fyrir því að hin tegundin eigi sér ekki samskonar uppruna. Að halda öðru fram er vilkvæmur (arbítrer) dogmatismi.

Swami Karunananda, 14.3.2008 kl. 17:51

4 Smámynd: Swami Karunananda

Enn frekara fílósófískt röfl um tengsl ´andlegra upplifana´ og heilastarfsemi, í þetta sinn með snjallri og sérlega hnyttinni analógíu:

Nú er til fólk hér á jörðu sem skortir eitt eða fleiri skilningarvit; er blint eða heyrnarlaust o.s.frv. Eigum við að gera skynjun þessa fólks að mælistokki allrar mannlegrar skynjunar og staðhæfa að úr því þetta ágæta fólk sér ekki litinn grænan ef það er blint eða heyrir ekki hvin vindsins ef það er heyrnarlaust, þá séu liturinn grænn og hvin vindsins ekki til sem hlutlæg fyrirbæri, og að þær manneskjur sem hafi sjón og heyrn og skynji þar af leiðandi fyrrgreind fyrirbrigði séu eingöngu að láta einhvers konar óreglu í heilastarfseminni leiða sig á gönur?

Líkingin við sk. ´andlega skynjun´ er ljós, ekki satt?

Swami Karunananda, 14.3.2008 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband