3.3.2008 | 22:07
Unaðssemdir indverskrar tónlistar
Já, ég veit að ég hef fjallað um hina stórkostlegu tónlistararfleifð Indlands áður á bloggi mínu, en aldrei er góð vísa of oft kveðin eins og sagt er - og sérstaklega ekki jafn góð vísa og þessi!
Indversk tónlist er ekki músík sem maður blastar á græjunum til að impónera vinina. Indversk tónlist er músík sem maður nýtur á þann veg að leggjast í þægilegri stellingu upp í rúm með mjúkan kodda undir höfðinu, smeygja heyrnartólunum yfir eyrun, loka augunum og láta tónana svífa með mann yfir í eitthvert annað sólkerfi - inn í einhvern óræðan heim sem er miklum mun bjartari, fegurri og kærleiksríkari en sú veröld sem við eigum að venjast. En slík opinberun æðri og yndislegri heims er einmitt aðal allrar mikillar listar.
Betur get ég ekki lýst aðdáun minni á indverskri tónlist og þakklæti í garð almættisins fyrir að að hafa kynnst henni en með því að vitna í umsögn um hana eftir ónefndan höfund í tónlistaralfræðiriti nokkru engilsaxnesku sem ég man því miður ekki hvað heitir - en umsögnin er svona: "Astonishingly rich and intellectually complex, yet at the same time emotionally powerful and direct."
Heyr, heyr!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.