ACDC - risar rokksins!

Nýverið hef ég verið að hlusta bergnuminn á skoskættuðu rokkhundana fá Ástralíu ACDC. Og verð að segja að aldrei hef ég á ævinni fyrr heyrt rokkmúsík sem er svona kraftmikil og tryllingsleg, en samt svona þétt og vönduð og vel spiluð.

En það er með ACDC sem svo margar aðrar rokkhljómsveitir að maður verður að heyra þá á hljómleikum til að njóta þeirra best. Þeir gerðu vissulega nokkrar hljóðversplötur sem eru góðra gjalda verðar, en þeir voru almennt miklu hrárri, harðari, villtari og kraftmeiri á sviði en í hljóðveri.

Á myndbandaleigu tók ég í gær tveggja mynddiska sett sem inniheldur tónleikaupptökur með ACDC frá velmektarárum sveitarinnar á seinni hluta áttunda áratugarins og upphafi þess níunda. Keyrslan, lætin og hamagangurinn eru svo feykileg og yfirþyrmandi að maður stendur hreinlega á öndinni. Ég er yfirleitt ekki mikið gefinn fyrir ýkjur, en þetta er svo sannarlega músík sem breytir lífi manns!

Segja má að ACDC sé hin kvintessenska rokksveit, og það birtist ekki aðeins í tónlistinni, heldur líka textunum, sem eru oftar en ekki dásamlega dekadentir, slepjulegir og hneykslanlegir siðvöndum sálum.

Og ekki verður skilið við ACDC án þess að taka fram að þeir hafa nokkuð sem allflest rokkbönd skortir: skopskyn. Þannig eru mörg myndböndin á áðurnefndu mynddiskasetti bráðfyndin og hugmyndarík. Gott dæmi um þetta er myndbandið við lagið "Let There Be Rock!" þar sem söngvari sveitarinnar bregður sér í prestshempu og lýsir því fjálglega í söng úr prédikunarstólnum hvernig Guð skapaði rokkið, með því að segja: "Verði rokk!"(sbr. "Verði ljós!" sem vitanlega er þekkt úr Biblíunni).

Eini gallinn við að hlusta á ACDC er sá að maður missir eiginlega allan áhuga á annarri rokktónlist. Þeir eru það góðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Frændi,

Til hamingju með að hafa uppgötvað  Angus, Malcom, Mark, Phil og Bon Scott í hinni marg rómuðu "Acca Dacca" einhverjir mestu töffarar rokk sögunar :)

Sammála þér í því að samanburður við þessa snillinga er illmögulegur.

Rock & Roll

Ciao,

Eyjólfur frændi. 

Eyjólfur V Ingólfsson (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 19:09

2 Smámynd: Swami Karunananda

Rokkkveðja frá frænda þínum! Áfram ACDC!!!

Swami Karunananda, 4.3.2008 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband