Hinn fjóreini guð

Í fornum esóterískum fræðum gyðinga er að finna stórmerka kenningu um hið fjórfalda eðli guðs (Jahves). Jahve er að vísu aðeins einn, líkt og eingyðistrúarbrögðin kenna, en vitund mannsins birtist hann í fjórum gervum eða stigum, sem nú skal greina frá:

Javhe eitt er hið ópersónulega almætti sem til var áður en heimurinn var skapaður og verður til eftir að alheimurinn hefur tortímst. Þessi mynd Jahves er semsagt óháð tíma og rúmi; hún er óendanleikinn og eilífðin sjálf; og því verða vegir hennar óskiljanlegir og óendanlega upphafnir yfir vegi okkar mannnanna, barna tíma og rúms.

Javhe tvö er skapari alheimsins, sú mynd guðs sem lætur veröldina spretta fram í upphafi.

Jahve þrjú er hin algóða forsjón sem innréttar alla hluti veraldar og skipar þeim niður í samræmi við alvisku sína og algóðleik; elur allt, nærir allt, verndar allt, og leiðir allt að lokum á rétta brautu, þótt margt virðist fara tímabundið afvega í skammsýnum augum okkar mannannna.

Jahve fjögur er svo hinn persónulegi guðdómur í hvers mynd manneskjan er gerð, og sem manneskjan getur elskað sem föður sinn og náð sambandi við í bæn.

Ekki hef ég miklu við ofangreind fræði að bæta, nema því að snilld þeirra liggur í því að þau umfaðma allar þær hugmyndir sem hin svokölluðu ´æðri´ trúarbrögð gera sér um guð. Þannig samsvarar t.d. Jahve eitt hinu ópersónulega, yfirtímalega og yfirrúmslega Alvaldi Vedanta-spekinnar indversku og ýmissa fleiri guðsfræða; Jahve tvö samsvarar hinum svokallaða ´deisma´ sem var sérlega vinsæll í upphafi vísindaaldar nútímans og felst í trú á guðdóm sem setur heiminn af stað í byrjun en skiptir sér að öðru leyti ekki af honum; Jahve þrjú samsvarar hinni móðurlegu, mildu og algóðu guðsforsjón Taóismans, og Jahve fjögur samsvarar vitanlega hinum persónulega og föðurkennda guðdómi eingyðistrúarbragðanna: Gyðingdóms, Íslams og Kristni (og reyndar ýmissa hræringa í Hindúisma einnig).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að þessu. Áhugaverð pæling

Jakob (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband