Kvennabarátta á nokkrum villigötum?

Sjálfsagt kalla ég yfir mig vanþóknun margra femínista með því sem hér fer á eftir, en það verður bara að hafa það.

Væri það ekki miklu gáfulegra af kvenréttindasinnum að hætta að leggja þyngstu áhersluna á að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum, og berjast með oddi og eggju fyrir því að hinar svokölluðu ´kvennastéttir´ (þ.e. aðallega umönnunarstéttirnar) fái sómasamlegt kaup? Að allt fólk af báðum kynjum fái almennileg laun sama hvaða starf það kýs að verja vinnuævi sinni í - er það ekki það sem skiptir langmestu máli fyrir kvenfrelsi jafnt sem karlfrelsi?

Oft hefur mér reyndar flogið í hug að heillavænlegast væri að allt fólk fengi nákvæmlega sömu laun fyrir sama vinnustundafjölda. Með þeim hætti væri tryggt að allar manneskjur veldu sér starf eingöngu út frá áhuga og hæfileikum, en ekki (eins og nú er allt of víða tilfellið) af annarlegum ástæðum svo sem fjárfýsn, nú eða þá móthverfu fjárfýsninnar: lúsarlaunafælni.

Ýmsir hafa eflaust þær mótbærur fram að færa við ofangreindu að ef ´ábyrgðarmeiri´ störf væru ekki hærra launuð en þau ´ábyrgðarminni´ þá myndi enginn eða í öllu falli fáir og alls ekki þeir hæfustu sækjast eftir hinum fyrrnefndu.

Gallinn við þetta sjónarhorn er að það er afar örðugt er að skilgreina hvaða störf teljast ´ábyrgðarmeiri´ en önnur, og oft er mat samfélagsins í þessum efnum fullkomlega fráleitt. Gott dæmi um þetta er himinhátt kaup bankastjórnenda, sem einmitt er réttlætt með því hvað það starf sé ´ábyrgðarmikið´. Heyr á endemi! Er það ´ábyrgðarmeira´ að stjórna banka en t.d. að hlynna að sjúkum og slösuðum á spítala? Er tilfellið ekki einmitt öfugt, þegar skynsamlega er um málið hugsað? Þó er bankastjórnarstarfið margfalt hærra launað en hjúkrunarstarfið. Er það ekki hreinlega himinhrópandi galið?

Sú rökfærsla sem oft heyrist, að hærri laun dragi hæfara fólk til sín, er fullkomin hundalógík í mínum eyrum; reyndin virðist mér vera algerlega andstæð. Ef allt fólk fengi sömu laun fyrir sama vinnustundafjölda, eins og lagt var til hér að ofan, þá fyrst yrði tryggt að hæfasta og áhugasamasta fólkið fengist í öll störf, en ekki bara mestu auraelskendurnir eins og alltof víða er tilfellið í samfélagi þar sem sum störf eru hærra metin í krónum en önnur (en slíkt launamisrétti er fullkomlega vilkvæmt og óréttlætanlegt, að mínu mati).

Ég hef þá trú, sem fólk má kalla naíva, að manneskjan sé dugleg og atorkusöm í eðli sínu. Hún þarf ekki á að halda þeirri gulrót, að njóta hærri launa og betri lífskjara og meiri virðingar en meðmannverurnar, til að leggja sig alla fram í hverri þeirri atvinnugrein sem hjartað stendur til - hvort sem aulalógík heimsins kallar þá atvinnugrein ´ábyrgðarmeiri´ eða ´ábyrgðarminni´. Og affarasælast er að láta hjarta alls fólks ætíð ráða ferðinni við val á starfi, en ekki þær annarlegu ástæður sem að ofan er tæpt á: fjárfýsn og lúsarlaunafælni. Og slík ´allsherjar hjartavæðing atvinnuvalsins´ fæst eingöngu fram með fullu jafnræði allra stétta í virðingu, launum og öðrum kjörum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held þetta sé ekki spurning um annað hvort eða, heldur bæði og....

Það skiptir máli að bæði kynin hafi aðgang að ákvarðantökuferlum þar sem teknar eru ákvarðanir sem varða samfélagið. Ef of einsleitur hópur tekur ákvarðanir fyrir fjöldann er meiri hætta á að sérhagsmunir þröngs hóps ráði ferðinni fremur en almannahagsmunir. Það þarf að ríka jafnvægi í þessum efnum sem öðrum..

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 20:21

2 Smámynd: Swami Karunananda

Ég hef ekkert á móti því að femínistar berjist fyrir því að koma konum til þeirrar stöðu sem þeim ber í stjórnunarstöðum ríkis og fyrirtækja. Það var ekki meiningin með pistlinum að halda öðru fram. Ég var eingöngu að leggja til að kvenréttindasinnar (af báðum kynjum) leggi þyngri áherslu en heyrst hefur hingaðtil á að veita starfsstéttum sem eru aðallega eru skipaðar konum (hvort sem sú skipan er rétt eða röng) mannsæmandi launakjör. Annars samsinni ég fyllilega því sem þú tæpir á í athugasemd þinni, að þetta er ekki spurning um annað hvort, heldur bæði og.

Swami Karunananda, 31.1.2008 kl. 20:40

3 Smámynd: Hafþór H Helgason

Það er spurning hvort þetta haldist ekki í hendur að ef fleiri konur komist í stjórnunarstöður ekki bara í einkageiranum heldur einnig í stjórnsýslunni að þessar kvennastéttir fái ölfugri liðstyrk í baráttu sinni.

Hafþór H Helgason, 1.2.2008 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband