Nánar um samanburð búddisma og kristni

Varla fer framhjá neinum ærlegum sannleiksleitanda að kristindómur og búddismi eru að mjög mörgu leyti keimlík trúarbrögð. Jafnvel mætti halda því fram að sem sameinar sé miklu meira en það sem aðskilur, a.m.k. þegar búið er að greina kjarnann frá hisminu. Þannig eru fjöldamargir orðskviðir þeir sem hafðir eru eftir þeim Kristi og Búdda hreinlega sláandi líkir (*ekki skal hér farið út í ástæðu þessara líkinda; ýmsir hafa leitt getum að því að um verkan annarra þessara trúarbragða á hin sé að ræða (og þá fremur áhrif búddismans á kristnina en öfugt, þar sem búddisminn er eldri) - en allt eins er sennilegt að líkindin stafi einfaldlega af því að hjarta og andi manneskjunnar eru alltaf söm við sig, hvort sem er í Indlandi á fimmtu öld f.k. eða í Palestínu á dögum Jesú; andlegur sannleiki er líkt og ein einasta lind sem sprettur fram sjálfstætt á mörgum stöðum í einu án þess að um nokkra blöndun sé að ræða).

En í einu atriði er þó mikill munur á þessum tvennum að mörgu leyti háleitu og fögru trúarbrögðum (ég tala hér um þá strauma sem hafa verið sterkastir í hvorri trú um sig í sögulegu samhengi - auðvitað eru undantekningar á öllu ef allt er tekið með í reikninginn). Búddisminn boðar yfirleitt að manneskjan eigi að kosta kapps um að bæta sjálfa sig og ekki vera upp á neitt annað komin en eigin rammleik. Er búddisminn yfirhöfuð miklu bjartsýnni en kristnin um getu einstaklingsins til að betrumbæta og fegra upp á eigin spýtur lyndiseinkunn sína sem og breytni gagnvart mönnum og öðrum lifandi verum.

En í þessari afstöðu búddismans felst bæði styrkur hans og veikleiki. Styrkurinn felst í hinni botnlausu trú á sjálfsumbreytingarmátt mannseðlisins. Veikleikinn er sá að samkvæmt búddisma getum við ekki stólað á neitt nema okkur sjálf; það er enginn persónulegur guð sem getur veitt okkur náð sína og vernd og hjálpað okkur að taka næsta skjögrandi skref framávið þegar allir kraftar líkama og sálar virðast þrotnir.

Enda hefur farið svo í sögulegri þróun búddasiðar að Búdda hefur, þvert ofan í sinn eigin yfirlýsta vilja, víða verið hafinn upp til skýjanna sem ofurmenni og nánast eða alfarið tekinn í guðatölu af hinum almennu fylgjendum búddismans. Ágæt bók um alþýðubúddisma japanskan, sem ég las eitt sinn, ráðleggur lesendum að fela allt sitt ráð í hendur alvitrar og náðarfullrar forsjónar Búdda. Hin djúpstæða þörf mannshjartans fyrir persónulegan guðdóm lætur ekki að sér hæða.

En að sama skapi og einstaklingssjálfsbetrunargetubjartsýni búddismans er bæði helsti styrkleiki og veikleiki búddisiðar, þá er boðskapur kristninnar um náð framar verkum í senn megin styrkleiki og veikleiki kristindómsins. Styrkleikinn er sá að náðarboðskapurinn veitir okkur oftsinnis þjökuðum og ráðvilltum manneskjunum fullvissu um sínálæga hjálparhendi að ofan, og ljær okkur þá undursamlegu hughreystingu að finnast við aldrei vera skilin eftir líkt og reköld á ólgusjó lífsins. Veikleikinn er sá hins vegar sá, eins og komið hefur aftur og aftur í ljós í sögulegri þróun kristindómsins, að ofuráherslan á náð framar verkum hneigist til að lama alla sjálfsbetrunarviðleitni einstaklingsins.

Rammast kveður að þessu í boðskap margra forvígismanna siðbótarinnar, sem endurvöktu hina fremur ógeðfelldu kenningu sem kennd hefur verið við forútval, og gengur líkt og nafnið gefur til kynna út á það að guð hafi valið þegar fyrir sköpun alheimsins hvaða fólk muni bjargast og hvaða fólk muni glatast, og að manneskjan geti ekkert gert til að hnika þessu forútvali almættisins. Ekki þarf snilling til að sjá hvaða áhrif boðskapur þessi hlýtur að hafa á viðleitni i einstaklingsins til að fegra sig og umhverfi sitt af eigin getu.

Og hver er svo lokaniðurstaða hugleiðinga þessara um mun búddisma og kristindóms? Jú, hún er sú sígilda kennisetning Hávamála að ´engi er einna hvatastur´; þ.e. enginn er í öllu öðrum fremri. Kristindómurinn og búddisminn líkamna hvor um sig mikil og guðdómleg en þó mismunandi sannindi: búddisminn að hverri mannveru séu lítil eða engin takmörk sett í því hve mjög hún geti fegrað og betrumbætt sjálfa sig og umhverfi sitt; kristindómurinn að guði séu lítil eða engin takmörk sett í því hve mjög hann geti liðsinnt hverri þeirri manneskju, sem á hann trúir, til að fegra og betrumbæta sjálfa sig og umhverfi sitt. 

Botnlaus trú á manneskjunni og botnlaus trú á guði - í aðskildu lagi er þetta hvorttveggja hálfsannleikur, en saman er þetta alsannleikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Swami Karunananda

Þökk fyrir að benda mér á þessa síðu, Jón Steinar - hún fær mann svo sannarlega til að hugsa!

Mínar eigin skoðanir varðandi sum af þeim mörgu efnum sem reifuð eru á síðunni eru þær að:

1) Kristindómurinn snýst (ef hann er rétt skilinn) um andleg sannindi, en ekki sagnfræðileg. Sannindi þessi eru táknuð með líkingum og allegóríum sem koma historískum sannindum ekkert við. Því skiptir engu höfuðmáli skiptir hvort Jesús (eða Búdda ef því er að skipta - eða nokkur annar meintlega sögulegur trúarbragðastofnandi) hafi verið uppi í raun og veru eður ei, eða hve mikið honum (ef hann var uppi) hafi svipað til þeirrar myndar sem guðfræðin gerði síðan úr honum. Rétt eins og Hamlet myndi ekki missa hætishót af skáldskapargildi sínu þótt einhverjum sagnfræðingnum tækist að sýna fram á að hinum sögulega Hamleti hafi ekki svipað neitt til þess Hamlets sem Shakespear orti um, þá missir kristindómurinn ekkert af hinu andlega gildi sínu þótt menn efist um hve mikið samræmi sé milli Jesú sögunnar og Jesú trúarinnar.

2) Kristindómurinn er í grunninn synkretismi fjölmargra svokallaðra ´heiðinna´ trúarbragða og andlegra heimspekistefna sem iðkuð voru á og í kringum fæðingarsvæði kristninnar fyrir tvöþúsund árum, og voru jafnvel komin langt að, svo sem Búddisminn - þetta fellst ég fúslega á. En skiptir þetta nokkuð svo miklu máli? Byggjast ekki flestallar menningarhreyfingar, sem nokkru varða, á fornum arfi?     - Þróun siðmenningarinnar er, líkt og þróun lífveranna, íhaldssöm í eðli sínu. Nýjungum er yfirleitt ekki vel tekið nema þær eigi sér nú þegar ítök og grundvöll í því sem á undan hefur farið og hefur sannað sig sem gott og gagnlegt. Gamalt vín á nýjum belgjum - það er lögmál þróunarinnar, jafnt í náttúru sem mannheimi. Því skyldi enginn fordæma kristindóminn sem ógildan einvörðungu vegna þess að flest í honum á sér rætur og fyrirmyndir í eldri andlegum og menningarlegum hræringum.

2) Vissulega er saga kristindómsins að miklu leyti ljót og brútöl. En ef það er rangt að neita þeirri staðreynd, þá er það einnig rangt að þræta fyrir að kristnin hefur verið í ýmsum greinum siðbætandi og jákvætt afl í þróun siðmenningarinnar. Eða hvað segja menn um hinar gullfögru kennisetningar kristindómsins um kærleika og fyrirgefningu, sem eru í raun kjarni kristinnar trúar? Að kristinni kirkju hafi á sorglegan hátt oftsinnis mistekist að framfylgja kennisetningum þessum í verki er enginn áfellisdómur yfir kenninsetningunum sem slíkum. Og munum ennfremur að grimmd og mannvonska eru svo sannarlega ekki bundin við kristindóminn - eða þarf að minna fólk á hina um margt viðbjóðslegu, ofbeldisdýrkandi og mannhatandi menningu Rómverja til forna? Réttast væri ef til vill að segja að hið illa í kristninni hafi orðið til þegar kristindómurinn í líki kaþólskrar kirkju rann saman við hinn rómverska barbarisma. - Og ekki frömdu Aztekarnir í Mexíkó sínar andstyggilegu fjöldafórnir í nafni kristinnar trúar. Og ekki kom Stalín tuttugu þúsundum Rússa fyrir kattarnef til að þóknast Kristi. Né heldur voru 6 milljónir gyðinga myrtar í Þriðja ríkinu til að vegsama Jesú. Þetta eru nokkur söguleg dæmi um viðurstyggð og villimennsku sem kristin trú ber ekki hina minnstu ábyrgð á.

Þetta voru bara þrjár hugleiðingar sem skaut upp í kollinn á mér eftir (yfirborðslega) lesningu þessarar síðu sem þú bentir mér á, Jón Steinar. Eins og fyrr sagði þá vakti hún mig svo sannarlega til umhugsunar, og því mæli ég með að allir sem þessar línur lesa kíki á hana - með gagnrýnu hugarfari, að sjálfsögðu!

Góðar stundir.

Swami Karunananda, 24.1.2008 kl. 19:20

3 Smámynd: Swami Karunananda

Eitt komment sem hefði átt að fljóta með í ofangreindri athugasemd: kristindómurinn var svo sannarlega notaður til að réttlæta þrælahaldið á blökkumönnum í suðurríkjum BNA fyrr á öldum. En hvað segja menn þá um kúgun og effektíft þrælahald stéttleysingjanna á Indlandi? Ekki er það stutt með kristindóminn að yfirvarpi, né heldur fjöldamörg önnur mannleg niðurlæging og undirokun sem viðgengst og hefur viðgengist á þessum hnetti.

Swami Karunananda, 24.1.2008 kl. 19:28

4 Smámynd: Swami Karunananda

Og úr því við erum að fjalla um þrælahaldið í suðurríkjunum - er ekki rétt að kalla hina guðfræðilegu réttlætingu á þeim ósóma helbert yfirvarp? Voru ekki hinar sönnu ástæður þrælahaldsins gróðavon þrælaeigendanna, og kristnin bara notuð sem skálkaskjól í þeim ljóta leik?

Swami Karunananda, 24.1.2008 kl. 19:34

5 Smámynd: Swami Karunananda

Og ég get ekki stillt mig um að skjóta einni spurningu á þá sem vilja rakka kristindóminn niður í svaðið með þeim rökum að hann sé bara samsuða úr öðrum og eldri trúarstraumum: Skiptir það nokkru einasta máli hvaðan gott er komið? Aðeins fífl myndi neita að læra enska tungu á þeirri forsendu að langflest orð hennar eru tekin að láni úr öðrum málum.

Swami Karunananda, 24.1.2008 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband