Lítilsháttar samanburður á nokkrum atriðum í kristindómi og búddisma

(Mikilvæg tilmæli til þeirra sem halda eftir lestur fyrstu tveggja efnisgreina þessa pistilkorns að það sé bara árás á kristindóminn og hætta þá lestri: lesið pistilinn allt til enda og þá mun allt verða ljóst).

 Ekki fer milli mála að fyrir vísindasinnað og skeptískt nútímafólk er búddisminn mun heppilegri og nærtækari trú en kristindómurinn. Búddisminn er það sem góður kunningi minn kallaði eitt sinn "no-nonsense" trúarbrögð. Búdda sagði sjálfur að manneskjan ætti ekki að trúa neinu né hafna neinu nema hún gæti staðfest það eða hnekkt því í eigin reynslu - sem er jú hið vísindalega hugarfar í hnotskurn. Ennfremur lýsti Búdda því yfir að manneskjan ætti ekki að reiða sig á neitt nema sig sjálfa - kenning sem fellur einstaklingssinnuðu, mannhyggjuhverfu og eigingetusannfærðu nútímafólki mjög vel í geð, miklu betur en sú hefðbundna kenning kristinnar kirkju að manneskjan megni ekkert upp á eigin spýtur og verði að reiða sig algerlega á náð guðs.

Sakir hins praktíska og jarðbundna eðlis síns hefur búddismanum miklu síður lent upp á kant við hina vísindalegu og heimspekilegu hugsun nútímans en kristindómurinn. Í búddismanum er ekkert þvaður um að hver einasti bókstafur sem stendur í einhverri morkinni skruddu sé heilagur og óvéfengjanlegur sannleikur, né að jörðin hafi verið sköpuð fyrir sexþúsund árum, né að heimurinn muni einn daginn skyndilega tortímast eins og við þekkjum hann og aðeins hin fáu trúuðu muni komast af og öðlast ævarandi líf en allur þorri mannkynsins glatast að eilífu o.s.frv., o.s.frv.

Ef ég ætti hins vegar að greina frá minni eigin skoðun á muninum á þessum tveim merkistrúarbrögðum, kristni og búddisma, eins og þau birtast í sinni fegurstu og fílósófískustu mynd, þá myndi ég segja að sumt í kristninni kafi dýpra og af meiri dirfsku en nokkuð í búddasið. Hér mætti taka til hina óviðjafnanlegu sögu af krossdauða og upprisu Krists, sem að mínu viti er ekkert minna en ígildi yfirlýsingar guðdómsins um að himnaríki tilheyri hinum þjökuðu, þjáðu og smáðu, og aukinheldur að kærleikssólin muni á endanum skína í gegnum öll myrkursský sérþótta, haturs og grimmdar. Þó að búddisminn tali vissulega af miklum hita og djúpri alvöru um gildi samúðar og meðlíðanar með öllum þeim verum sem hvers kyns kröm sæta, þá er ekki að finna í búddisma þessa undursamlegu hughreystingu og uppörvun sem kristindómurinn boðar, að guð þjáist í okkur og með okkur, og að náð hans sé ætíð tiltæk, jafnvel (eða öllu heldur aldrei fremur en) í okkar dýpstu neyð og sárustu kvöl.

"Fullvissan um návist guðs í hrárri og hrottalegri veröld," eins og ágætur maður orðaði það - þessi fullvissa er það sem kristnin hefur fram yfir hina agnostísku trúhreyfingu sem Gautama Búdda stofnaði.

En ofangreind sannfæring mín um partlega yfirburða dýpt og dirfsku og huggunarmátt kristninnar á sér þá ómissandi forsendu að ég er fyrirfram sannfærður um tilvist andlegs veruleika, sakir þeirrar ógleymanlegu epífanísku reynslu sem ég varð fyrir árið 2002. Fyrir það fjölmarga nútímafólk sem efast um allan andlegan veruleika er búddisminn miklu betri og sönnunarvænni kostur en kristindómurinn. - Freistast ég til að nota þá líkingu að barnið verði sjálft að læra með erfiðismunum að ganga áður en það getur rölt hönd í hönd við móður sína eða föður. Líking þessi táknar m.a. að það að reiða sig alfarið á persónulega viðleitni, eins og búddisminn boðar, hlýtur ævinlega að vera undanfari þess að reiða sig á náð guðs, eins og kristindómurinn boðar. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálf - og hann gerir það þegar þau geta ekki hjálpað sér sjálf lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband