20.1.2008 | 12:18
Er afnám trúarbragðanna lausnin?
Ýmsir mætir menn hafa látið þá skoðun sína í ljós að skilyrðið fyrir því að byggja upp mannsæmandi heim sé algert afnám allra trúarbragða.
Mér virðist þessi hugmynd áþekk því að boða að forsenda þess að gera veröldina skikkanlega sé algert afnám allra stjórnmálaflokka. Innan allra stjórnmálaflokka er allskyns fólk, bæði gott og slæmt, heimskt og viturt - og eins er um trúarbrögðin. Afnám stjórnmálaflokka og trúarbragða sem stofnanna hefði engin áhrif á skaphöfn og mannkosti hinna einstöku meðlima þeirra.
Það eru nefnilega ekki trúin og stjórnmálaafstaðan sem ráða skaphöfninni og mannkostunum, heldur skaphöfnin og mannkostirnir sem ákvarða trúnna og stjórnmálaafstöðuna.
Athugasemdir
Ég er sannfærð um það að ef trúarbragða nyti ekki lengur við þá yrði heimurinn betri staður til að búa á. 100% sannfærð.
Halla Rut , 20.1.2008 kl. 12:27
Hvernig rökstyðurðu það?
Swami Karunananda, 20.1.2008 kl. 12:43
sammála þér Swami, ég myndi líka gjarnan vilja fá að heyra þennan rökstuðning.... myndi t.d hungur minnka, heimilisofbeldi linna eða myndu þeir sem selja blóðdemanta og eyða jörðina skyndilega hætta því ef annað fólk hætti að fara í sín bænahús? þetta eru ekki einu vandamálin sem stafa af syndugu eðli mannfólksins en ég tók þau bara sem dæmi, þau lýsa hinni hryllilegu græðgi og ofbeldishneygð sem herjar á jörðina og hefur alltaf gert. Ef ég mætti losna við eitthvað eitt úr heiminum til að bæta hann þá væri það kapítalismi! Og allir þyrftu að lesa trúarrit kristni og fleiri trúarbragða því þar finnur maður það sem skiptir máli og getur hjálpað fólki að losna útúr þessum vítahring sem kapphlaupið ógurlega er.
halkatla, 20.1.2008 kl. 12:58
Gott hjá þér, Swami, svarið til hennar Höllu Rutar, sem og flest það sem ég les í pistli þínum.
En horfið á staðreyndir: Það var reynt að afnema trúarbrögð í Sovétríkjunum sálugu, en tókst ekki. Þeir, sem nú vilja afnema þau (örfáar öfgasálir) og meina það, hljóta að vilja beita enn harðari aðferðum í því skyni. Hrikaleg kúgun, eignaupptaka, frelsissvipting og nauðung við samvizku manna yrði meðalið – Amnesty International fengi nóg að gera fyrir þá þjóð eða þær þjóðir, sem yrðu látnar undirgangast þennan ofríkisklafa! Menn verða að reikna út hlutina fyrir fram, áður en þeir hefjast handa í óráðs-vitleysunni.
Jón Valur Jensson, 20.1.2008 kl. 13:16
Þetta er góður punktur hjá þér, Anna Karen. Hvað hafa helgisiðir og trúrækni að gera með daglega breytni okkar gagnvart hvert öðru og náttúrunni? Munu hungur, kúgun, náttúruspjöll o.s.frv. hverfa ef trúað fólk hættir að rækja sína trú? - Margt trúað fólk er gott og margt trúað fólk er vont. Margt trúlaust fólk er gott og margt trúlaust fólk er vont. Það eru ekki helgisiðirnir eða trúræknin (eða skorturinn á þessu tvennu) sem sker úr um það hvort fólk er gott eða vont, og því væri það fánýtt og árangurslaust að afnema helgisiði og trúrækni, sem meðal við vonsku mannanna. Aukinheldur er það vandímótmælandi staðreynd að það er ekki trúin sem ræður lyndiseinkunninni heldur lyndiseinkunnin sem ræður trúnni. Baráttan gegn trúarbrögðunum er því barátta gegn afleiðingunum en ekki orsökunum.
Swami Karunananda, 20.1.2008 kl. 13:26
Ennfremur mætti nefna að trú verður ekki þröngvað upp á neinn mann. Að vísu er hægt að neyða fólk til að játa einhverja tiltekna trú með vörunum, en hjartað verður ekki þvingað til eins né neins. Þeir brjálæðingar sem fremja voðaverk í nafni trúar sinnar bera einir ábyrgð á því athæfi; t.a.m. fer engum sögum af því að vitleysingarnir sem sprengja sjálfa sig og aðra í loft upp í Palestínu og Ísrael og víðar hafi verið þröngvaðir til þess arna - hvattir, já, en þröngvaðir, nei. Og eru ekki voðaverk framin í nafni alls kyns annars konar hugmyndafræði en trúar, s.s. þjóðernishyggju og stjórnmálastefnusannfæringar, svo aðeins tvennt sé nefnt? Voru t.d. nasistarnir í Þýskalandi trúaðir? Er ekki sannara að segja að nasíska illþýðið hafi verið alfarið mótfallið þeim háleita siðaboðskap sem öll æðri trúarbrögð boða?
Swami Karunananda, 20.1.2008 kl. 13:48
Smávegis leiðrétting: Sakir nákvæmni hefði fyrsta málsgreinin í athugasemdinni hér að ofan átt að hljóma svo: Ennfremur mætti nefna, trúarbrögðunum til varnar, að trú verður ekki þröngvað upp á neinn mann.
Swami Karunananda, 20.1.2008 kl. 13:56
Góð athugasemd hjá þér, Jón Valur. Trúarbrögð munu ekki hverfa fyrr en hin trúuðu hætta að trúa. Og líkt og ég impraði á hér að ofan verður hinum trúuðu ekki þvingað til eins né neins í þeim efnum.
Baráttan gegn trúarbrögðunum er því gersamlega óþörf og á misskilningi byggð. Vígvöllurinn er sjálft mannshjartað, og mannshjartanu verður aldrei þröngvað til nokkurs sem er andstætt sannfæringu þess. Trúarbrögðin hverfa af sjálfum sér ef hjörtu mannanna snúa baki við þeim - annars ekki. Og öll barátta og allur áróður og öll skoðanakúgun í heiminum mun ekki hnika þessari staðreynd hætishót.
Swami Karunananda, 20.1.2008 kl. 14:24
Þessu er ég bara sammála......að snúa hjarta frá því sem það trúir einlæglega er ekki hægt og það er líka svo satt að lyndiseinkuninn ræður trúnni en ekki öfugt.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.1.2008 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.