16.1.2008 | 11:42
Fleiri spakmæli
- Segðu aldrei neitt um annað fólk sem þú myndir ekki treysta þér til að segja við það sjálft.
- Að öllu öðru jöfnu er einfaldasta skýringin sennilega sú réttasta.
- Engin er tunga án tökuorða.
- Þótt þú eigir höll með þúsund svefnherbergjum geturðu aðeins sofið í einu þeirra hverja nótt. Þótt þú eigir þúsund bifreiðar geturðu aðeins ekið einni þeirra í hverjum akstri. Hví þá að eiga meira en eitt svefnherbergi eða meira en eina bifreið?
- Úr því til eru verur óæðri manninum, hvað er þá því til fyrirstöðu að til séu einnig verur æðri manninum?
- Lifðu hvern dag eins og hann væri þinn hinsti í þessu jarðlífi. Lifðu ennfremur eins og dagurinn í dag sé síðasti hérvistardagur ástvina þinna.
- Fyrst fjarstæða, síðan möguleiki, þar næst líkindi, svo viðtekin sannindi, loks trúarbrögð - slík er hugmyndanna þróun.
- Hin vitru keppa ekki við neinn né neitt nema sig sjálf.
- ´Tilviljun´ er útskýring þeirrar mannveru sem gefist hefur upp á að finna útskýringu.
- Mesta og mikilsverðasta list í heimi er list sjálfsögunar.
- Hvert einasta sekúndubrot er einstök stund sem hefur aldrei komið áður og mun aldrei koma aftur. Njóttu sem skyldi.
- Það sem ekki stútar þér styrkir þig.
- Allir vitringar eru í senn þjóðlegir og alþjóðlegir.
- Við hvern þann verknað sem þú drýgir, ímyndaðu þér þá að þú sért að setja fordæmi öllu mannkyni (með öðrum orðum: gerðu ávallt það sem þú vildir að allt annað fólk myndi gera í þínum sporum; með enn öðrum orðum: gerðu ævinlega það sem þú vildir að yrði almenn regla fyrir allt mannkyn).
- Hvaða þöngulhaus sem er getur orðið hamingjusamur. Vitringurinn hyggur að andlegum vexti, ekki hamingju.
- Ef nemandinn tekur ekki kennaranum fram, þá er kennarinn mislukkaður.
- Ekki er til verra guðlast en að halda því fram að öll viska guðs takmarkist við einhverja ákveðna skruddu. Ennfremur verður það að teljast guðlast af verstu sort að ímynda sér að guð takmarki opinberanir sínar og hjálpræðisveitingu við einhver ákveðin trúarbrögð.
- Hin hryggilega þversögn við alla andlega fræðslu er sú að þeir sem þurfa á henni að halda eru ekki í standi til að taka við henni, en þeir sem eru í standi til að taka við henni þurfa ekki á henni að halda.
- Vesturlandabúar hugsa í línum. Austurlandabúar hugsa í hringjum. Sannleikurinn er sá að tilveran er bæði línur og hringir, þ.e. spíralar.
- Aðal allra sannkallaðra skálda er að segja það sem allir vita en enginn getur komið orðum að.
- Smá ábending til allra þeirra sem fást við ritstörf í einhverri mynd: hafið stílinn alltaf jafn einfaldan og auðskilin eins og efnið leyfir. Góðir pennar segja flókna hluti á einfaldan hátt, en vondir einfalda hluti á flókinn hátt.
- Ekki er það ætlun þróunarinnar að hin mörgu renni saman í einn óaðgreindan sérkennalausan massa, heldur a hin mörgu renni saman í eitt án þess að missa sérkenni sín. Margt en þó eitt; eitt en þó margt - það er ídealið.
- Fólk trúir því sem það er, en er ekki það sem það trúir.
Athugasemdir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 20.1.2008 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.