Nokkur spakmæli (sótt úr ýmsum áttum)

- Til að byggja tíu hæða stórhýsi byrjar maður ekki á tíundu hæðinni. Maður steypir fyrst grunninn, og byggir síðan hæðirnar hverja af annarri í réttri röð.

- Allar eikur byrja sem fræ.

- Öllu er hægt að snúa upp í stærilæti - jafnvel auðmýktinni.

- Að ganga í barndóm án barnaskapar - það er vegur hinna vísu.

- Að sameina höfuð og hjarta - það er vegur himnanna.

- Þú getur ekki fundið sannleikann fyrr en þú hættir að telja sjálfum / sjálfri þér trú um að þú hafir fundið hann.

- Að vita að maður veit ekki neitt er fyrsta skrefið til að vita eitthvað.

- Trúarbrögð eru tilraunir okkar til að útskýra hið óútskýranlega. Þessar tilraunir eru ekki sérdeilis vel heppnaðar.

- Vík er best milli vina og fjörður milli frænda (þ.e.: engu máli skiptir hversu vel þér kemur saman við aðra persónu; ef þú ert alltaf að umgangast hana verður hún fljótlega þreytandi).

- Trúarbrögðin eru eins og skólar. Og hin uppljómaða sál er eins og brautskráður nemandi sem þarf ekki að ganga í skóla framar.

- Ein veigamesta en þó mest sögulega hunsaða (retóríska) spurning Krists hljóðar svo: "Vitið þér ekki að þér eruð guðir?"

- Sól hins hreina, friðsama, alkærleiksríka, almeðlíðunarfulla hjarta er okkar rétta eðli. Það eru aðeins skýjaflákar hugans sem hylja þessa dýrðarsól.

- Staðurinn sem þú ert staddur / stödd á einmitt núna er nákvæmlega rétti staðurinn til að taka næsta skref fram á við.

- Sjaldnast er tryggð sýnd í stóru ef ei er sýnd í smáu.

- "If God brings you to it, He will bring you through it."

- Dauðinn er ekki til - aðeins formbreyting.

- Trúarbrögð eru fyrir fólk sem óttast helvíti. Trú er fyrir þá sem hafa verið þar.

- Skoðaðu eigin galla með sperrt augu, en galla annars fólks með lokuð augu.

- Himnaríki og helvíti eru ekki staðir, heldur hugarástand.

- Kærleikur er ekki tilfinning eins og væntumþykja. Hann er kosmískur veruleiki; lögmálið sem heldur öllum hlutum í réttum hlutföllum við aðra hluti.

- Það er engin fátækt eins og græðgin. Það er ekkert ríkidæmi eins og nægjusemin. Það er enginn fengur eins og gjafmildin. Það er enginn sigur eins og fyrirgefningin.

- Það sem þú vilt læra skaltu kenna öðrum. Það sem þú vilt öðlast skaltu gefa öðrum.

- Hugsunin er öxullinn sem öll veröldin snýst um - til góðs og ills.

- "There´s enough for everyone´s need, but not for everyone´s greed." (Gandhi).

- Guð er ekki kristinn. Hann er ekki múslími. Hann er ekki hindúi (o.s.frv., o.s.frv.).

- Burt með eftirsjá og von. Inn með núið.

- Hvers vegna að vera aðeins karl eða kona þegar hægt er að vera hvort tveggja?

- Guð getur ekki sagt þér sinn sannleika fyrr en þú hættir að segja honum þinn.

- Rétt gildismat er torfundnasti hlutur í heimi. Eða hvers vegna metur fólk gull meira en brauð? Er hægt að seðja hungrið með gulli?

- Hugsaðu ekki um hvað þú getir fengið út úr samskiptum þínum við annað fólk. Hugsaðu heldur um hvað þú getir sett í þau.

- Ef eitthvað er á annað borð þess virði að vera gert, þá er það þess virði að vera gert vel.

- Gerðu það sem gera þarf vegna þess að það þarf að gera það - og blandaðu ekki óþarfa hlutum eins og tilhugsun um ávexti (góða eða slæma) gjörða þinna inn í dæmið.

- Varmennið geipar um eigin góðverk.

- Farðu ekki í manngreinarálit. Farðu ekki einu sinni í dýrsgreinarálit. Vertu eins og sólin sem skín jafnt á allar verur.

- Fávitringurinn bukkar sig fyrir metorðunum. Vitringurinn bukkar sig fyrir öllu.

- Það er ekki hægt að útiloka sólarljósið frá sér. Það er aðeins hægt að loka augunum fyrir því. Eins er um ljósið hið innra. 

- Eilíf glötun og ævarandi dauði eru helberir hugarburðir. Allir munu frelsast að lokum.

- Illyrðið er eins og nagli sem negldur er í tréverk. Það er hægt að fjarlægja naglann, en gatið sem hann gerði er ekki hægt að fjarlægja.

- Vitringurinn sem geymir góð ráð í hjarta sér getur séð í fábrotnum trjám og steinum forkunnarfagra gimsteina, en heimskinginn sem ekki veit nægilega mikið til að hafa taumhald á hjarta sínu er blindur jafnvel á stórfenglegar gullhallir.

- Trúarbrögðin eru eins og læknarnir. Hið æðsta takmark þeirra er að gera sig óþörf.

- Þróunin gengur ekki þannig fyrir sér að hið æðra sigri hið lægra. Hún gengur þannig fyrir sig að hið æðra innlimar hið lægra.

- Skynsemi án innsæis er blind. Innsæi án skynsemi er heimskt.

- Fyrst vitsmunir - svo uppljómun. Það er hin heillavænlega röð hlutanna.

- Öll aðgreining er vilkvæm (arbítrer), hvort sem er í tíma eða rúmi. Til að gera fulla grein fyrir tilurð og gerð eins ánamaðks dugar ekkert minna en að rekja tilurð og gerð alls alheimsins.

- Enginn er hæfileikinn án æfingar. Ef einhver er öðrum færari í einhverju, þá þýðir það aðeins að hinn færari hefur eytt meiri tíma í að æfa sig - ef ekki í þessari jarðvist, þá í fyrri jarðvistum.

- Það er sama hvað þú fæst við - það verður ætíð einhver þér fremri í því.

- Nýttu það sem í þér býr, hvort sem það er mikið eða lítið. Ef aðeins þeir fuglar sem syngdu best fengju að syngja, þá yrði ansi hljótt í skóginum.

- Öll góð áform eru fánýt ef þau komast ekki af áformsstiginu.

- Og að lokum: öll spakmæli sem mannkynið þarfnast hafa verið sögð. Nú er bara að fara eftir þeim.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband