10.1.2008 | 17:53
Lárétt skipting - ekki lóðrétt
Sú skoðun er þrálát meðal margra aðhyllenda flestra svokallaðra ´æðri trúarbragða´ að þeirra tiltekna trú sé sú eina ´rétta´ og guðiþóknanlega. Og enn fleiri eru þeir sem viðurkenna reyndar að sitthvað kunni að vera til í öðrum trúarbrögðum, en að sín tiltekna religjón sé samt sem áður sú eðlasta og mest mannbætandi af þeim öllum.
Frá mínum sjónahóli séð er þetta áþekkt og með hina svonefndu ´kynþætti´ sem mannkynið á meintlega að vera skipt í. Það hefur komið á daginn að það er miklu meiri munur á einstaklingum innan sama ´kynþáttar´ en á einstaklingum mismunandi ´kynþátta´. Og gildir það ekki einnig um trúarbrögðin? Eru ekki fífl og varmenni innan vébanda allra trúarbragða? Og eru ekki sömuleiðis vitringar og göfugmenni innan vébanda allra trúarbragða?
P.s. Flestir málsmetandi vísindamenn eru nú þeirrar skoðunar að tilvist ´kynþátta´ sé tómur hugarburður. Og er ekki svipað farið um hugtakið ´trúarbrögð´ þegar það er notað til að tákna hinar ýmsu kvíslir sem trúarelfu mannkynsins er skipt niður í? Byggist sú skipting ekki bara að mestu leyti á vilkvæmni (arbitrasjón)? Er til nokkuð sem heitir ´kristindómur´ eða ´búddismi´ o.s.frv. út af fyrir sig, í renkultur, sem klárlega afmörkuð og aðgreinanleg fyrirbæri? Er ekki hér sem víðast annars staðar einungis um að ræða mismunandi litbrigði af gráu, en hvergi svart né hvítt? - Sagt hefur verið um hindúismann að hann sé ekki ein trú, heldur mörg þúsund. Og áþekkt virðist mér farið um kristindóminn, búddismann og öll önnur megintrúarbrögð heimsins. Jafnvel mætti ganga svo langt að fullyrða að trúarbrögðin séu eins mörg og trúfólkið er margt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.