Hræsni og tvískinnungur - eða hvað?

Sannkristið fólk sækir messu á hverjum helgidegi, þylur bænir kvölds og morgna til að biðja Guð um handleiðslu, sálarstyrkingu og blessun, lofar öllu fögru um að lifa kærleiksríkara og Guðiþóknanlegra lífi - og hvað gerir þetta ágæta fólk svo þegar Guðshúsaheimsóknum og bænum sleppir, og sest er að matarborðinu? Jú, það gúffar langflest í sig kjöti af dýrum sem myrt voru í þeim eina tilgangi að seðja hégómlegt hungur í fæðu sem enginn þarf á að halda og er jafnvel skaðleg fremur en hitt.

Er hægt að kalla þetta annað en tvískinnung og hræsni?

(Rétt er þó að taka fram að þetta á ekki aðeins við um kristið fólk, heldur gildir þetta líka um obbann af áhangendum flestra annarra trúarbragða, svo og meirihluta þess fólks sem engin trúarbrögð aðhyllist. Og vinsamlegast athugið að ég er ekki að gera lítið úr Guðræknisiðkunum - aðeins að benda á visst misræmi milli trúarathafna og hversdagsbreytni þorra þeirra sem slíkar iðkanir hafa fyrir hendi).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

SAMMÁLA...en hvað með mig?...trúleysingjann?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.12.2007 kl. 19:22

2 Smámynd: Swami Karunananda

Þau siðferðilegu rök sem mæla gegn kjötáti standast hvort sem þau eru studd guðfræðilegu eða veraldlegu gildismati. Ef mannslífið er heilagt, eins og jafnt guðfræðilega sem veraldlega þenkjandi fólki ber saman um, þá eru engin rök fyrir því að dýrslífið sé það ekki einnig.

Ef fólk hefur á annað borð einhverja nennu á því að rökstyðja hví dýrslífið sé, ólíkt mannslífinu, ekki heilagt, þá vísar það gjarnan í eitthvað á borð við það að dýrin séu ekki jafn háþróaðar verur og við - og hví skyldum við eiga einhverjum siðferðilegum skyldum að gegna við verur sem sjálfar þekkja ekkert til siðgæðis?

Þessi "rök" eru helber vitleysa, eins og sést þegar við heimfærum þau yfir á mannfólkið. Nú eru manneskjur þessa heims afar mismunandi að þroska og þróunarstigi, og til eru jafnvel manneskjur sem kallast siðleysingjar; þ.e. þekkja ekkert til móralskra gilda. En engri mannveru dettur í hug að halda því fram að líf minnra þróaðs fólks sé minna virði en hins hærra þróaða, né kemur nokkurri manneskju til hugar að álíta siðleysingjana hafa fyrirgert rétti sínum til lífs. Semsagt: hvert mannslíf er jafn heilagt, sama á hvaða þroskastigi það stendur.

En úr því mismunandi þróunarstig í anda og siðferðiskennd skiptir engu mórölsku máli meðal mannkynsins innbyrðis, því skyldi það þá hafa nokkra þýðingu meðal dýrategunda þessarar jarðar innbyrðis (að mannkyninu meðtöldu)? Þeir sem ætla að rökstyðja slíkt eru á afar hálum ís, tel ég . . .

Swami Karunananda, 21.12.2007 kl. 19:50

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Get að mestu fallist á þetta. Ertu grænmetisæta sjálfur?  Prófaði það fyrir 15 árum og entist í 3 mánuði, þa ver ég orðin svo slöpp.  Át síðan hvítt kjöt eingöngu í 10 ár en nú er ég bara "syndug".

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.12.2007 kl. 19:58

4 Smámynd: Swami Karunananda

Já, ég er grænmetisæta sjálfur, og hef verið í rúm fjögur ár. Og hef ekki aðra sögu að segja af heilsufari mínu en að það hafi breyst sáralítið síðan ég tók upp grænmetisátið (en annars er svo langt síðan ég hætti kjötátinu að ég minnist þess ekki hvernig mér leið meðan ég neytti kjöts, og hef því kannski ekki þann samanburð sem þarf . . . ).

Swami Karunananda, 21.12.2007 kl. 20:10

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það var til svo lítið úrval af grænmeti á Íslandi fyrir 15 árum og maður verður að vera mjög meðvitaður um að fá öll næringarefni og vítamín...keep up the good work!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.12.2007 kl. 21:41

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Einhvern tíma heyrði ég af einhverjum indjánum sem báðu veiðidýrin innilega afsökunar áður en þeir skutu þau. Og voru ekki Adam og Eva ávaxtaætur (fructarians) í Eden meðan þau voru enn syndlaus?

En er ljónið syndugt þegar það veiðir antilópuna? Eða kötturinn sem klófestir fuglsunga?

Kristnin kennir að maðurinn hljóti ávallt að vera syndugur, vegna þess að hann þekkir skil góðs og ills, og dráp á dýrum má vafalaust vel kalla synd. En hún kennir líka að syndirnar verði fyrirgefnar ef menn iðrast. Þess vegna er ekki endilega rétt að áfellast fólk fyrir hræsni þótt það borði kjöt. Frekar ætti að áfellast það fyrir syndsamlegt líferni (og kannski hvetja það til að biðja dýrin afsökunar, eins og indjánarnir gerðu).

Þú snertir síðan á mjög áhugaverðri spurningu sem er sú, hvort það sé röklegt að gera greinarmun á dýrum og mönnum þannig, að líf mannsins sé heilagt en ekki líf dýranna. Guðfræðin, rétt eins og flest heimspeki, gengur út frá þessum greinarmun. Upp á síðkastið hafa hins vegar einhverjir heimspekingar farið að færa að því rök að greinarmunurinn standist ekki. Það er spennandi umræða.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.1.2008 kl. 09:56

7 Smámynd: Swami Karunananda

Sennilega er það orðum aukið af mér að væna kjötætur um hræsni og tvískinnung. Menn mega kalla það naívítet, en ég er þeirrar bjargföstu skoðunar að manneskjan sé góð í eðli sínu. Illsku fremur fólk iðulega bara af fávisku eða í hugsunarleysi (sbr. hina margfrægu bæn Krists kvölurum sínum til hlífðar: "Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.")

Swami Karunananda, 3.1.2008 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband